Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Eydís Rós Eyglóardóttir, kjúklingabóndi á Vatnsenda í Flóahreppi. Hún segir að enn séu fyrirtæki sem þjónusti landbúnaðinn karllæg, þótt hún skynji að viðhorfið sé að breytast.
Eydís Rós Eyglóardóttir, kjúklingabóndi á Vatnsenda í Flóahreppi. Hún segir að enn séu fyrirtæki sem þjónusti landbúnaðinn karllæg, þótt hún skynji að viðhorfið sé að breytast.
Mynd / ál
Viðtal 27. mars 2024

Bjóst ekki við að verða kjúklingabóndi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Eydís Rós Eyglóardóttir er kjúklingabóndi á Vatnsenda í Flóahreppi. Hún er fædd árið 1984 í Vestmannaeyjum og alin upp á Leifsstöðum í Austur-Landeyjum. Aðspurð hvernig hún leiddist út í þennan búskap segist hún hafa kynnst manninum sínum, Ingvari Guðna Ingimundarsyni, árið 2005 og flust til hans í Flóann þar sem foreldrar hans ráku kjúklingabú.

„Ef þú hefðir sagt mér það árið 2000 að ég væri alifuglabóndi í Flóanum árið 2024 hefði ég bara hlegið,“ segir Eydís, en hún var búsett í Reykjavík þangað til fyrir tæpum tuttugu árum. Árið 2016 tóku Eydís og Ingvar við búi tengdaforeldra hennar, en fram að því höfðu þau tekið virkan þátt í búrekstrinum.

„Við erum með gagnabanka af visku með okkur á kantinum,“ segir hún, en foreldrar Ingvars stofnuðu Kjúklingabúið Vor fyrir fjörutíu og sex árum, eða árið 1978, og búa enn þá á bæjartorfunni. „Fyrir okkur var einfalt val að taka við kjúklingunum og halda því áfram og reyna að gera enn betur,“ bætir hún við.

Eydís og Ingvar Guðni tóku formlega við búinu árið 2016.

Stækkuðu búið

Árið 2021 tóku þau í notkun tvö ný hús og með því þrefölduðu þau framleiðslugetuna. Eydís segir það hafa verið nauðsynlegt til að búið yrði í þeirri mynd sem hjónin sáu fyrir sér þegar þau tóku við. Þegar vel gangi geti alifuglarækt gefið ágætlega í vasann, en undanfarin ár hafi verið mögur þar sem heimsfaraldur og stríð í Evrópu hafi hækkað allan aðfangakostnað. Í framhaldi af því hafi opnast fyrir hömlulausan innflutning á kjúklingakjöti frá Úkraínu sem hafði mikil og slæm áhrif á innlendan kjötmarkað. Eftir stækkunina eru samtals fjögur eldishús á bænum sem skiptast niður í fimm einingar og geta allt að fjörutíu þúsund fuglar verið í eldi hverju sinni. Mest allur þeirra kjúklingur er seldur í verslunum undir merkjum Holta, en þau hafa einnig selt heilan frosinn kjúkling heima á bæ í litlu magni.

„Það hefur svo til allur búfénaður verið á jörðinni á einhverjum tímapunkti,“ segir Eydís. Eitthvað er um hross á Vatnsenda og þangað til fyrir rúmlega tveimur árum voru þau með nautaeldi. Þá hafa þau verið með geitur ásamt því sem tengdaforeldrar Eydísar voru á sínum tíma með sauðfé og kýr.

Tvö ný kjúklingahús voru tekin í notkun árið 2021 sem þrefaldaði framleiðslugetuna.

Þarf ekki pung

„Ég upplifi það að ég er alveg jafnmikill bóndi og hann, þó að hann sé með pung en ekki ég,“ segir Eydís.Þau standi að mestu leyti jafnfætis í búrekstrinum, en Ingvar hafi ákveðið forskot þar sem hann ólst upp í kjúklingarækt á meðan Eydís flutti á bæinn fyrir tæpum tuttugu árum.

„Ég sé alveg fyrir mér að ég gæti haldið utan um búið ein ef ég vissi að ég gæti hringt í hann og fengið smá pepp og leiðsögn.“

Eydís hefur orðið sér úti um réttindi til að keyra vörubíla og vinnuvélar. Það hafi ekki verið af því hún neyddist til þess, heldur af því hún vildi það. „Við erum með annan rekstur og þurfum að sækja alls konar til Reykjavíkur. Það er fáránlegt ef það er bara hann sem má keyra vörubílinn.“ Hún geti því gengið í nánast öll verk á bænum til jafns við eiginmann sinn.

Stærsta einingin á Vatnsenda getur rúmað allt að fjórtán þúsund fugla.

Veit hvaða glussa þarf

Spurð um viðhorf til kvenna í landbúnaði segir Eydís mörg fyrirtækjanna sem þjónusta bændur karllæg. Á nokkrum stöðum hafi hún fengið það viðmót að þar sem hún sé kona geti hún ekki vitað hvaða glussa þurfi að kaupa, eða einhverja aðra sérhæfða vélarhluti. Hennar upplifun sé þó sú að viðhorfið sé að breytast samhliða því sem hennar kynslóð verður æ meira ráðandi í bændastéttinni og eldra fólk stígur til hliðar. Breytingarnar séu líka samfélagslegar þar sem jafnrétti kynjanna er að aukast.

Eydís telur óþarft að konur í landbúnaði taki sig sérstaklega saman, enda sé markmiðið ekki að búa til dilk fyrir þær, heldur eigi að stefna að því að gera eina heild fyrir alla.

„Opnið bara eyrun – hlustið – ef konan vill segja eitthvað. Þótt hún sé kona þá getur hún verið bóndi og hún hefur skoðun og það eru allar líkur á því að það komi einhver frábær hugmynd út úr samtalinu.“

Hefur ekkert að fela

Oft er talað um alifuglarækt sem verksmiðjubúskap, en Eydís segir ekki hægt að flokka neitt kjúklingabú á Íslandi á þann hátt í samanburði við þær stærðareiningar sem þekkjast erlendis. „Búið mitt er bara upp í nös á ketti. Stærsta húsið mitt tekur fjórtán þúsund fugla á meðan venjuleg stærð á húsum úti er að taka þrjátíu þúsund.“

Vegna öflugra sóttvarna er alifuglaræktin mjög lokuð og er það í huga Eydísar möguleg skýring á að stundum sé neikvætt umtal. Það skiptir hana miklu máli að sýna fram á að þau hafi ekkert að fela og því útbjuggu Eydís og Ingvar stóran glugga í anddyrinu að nýju eldishúsunum svo fólk gæti séð fuglana án þess að af því skapaðist sýkingarhætta. Sóttvarnir og einangrun Íslands hefur að mati Eydísar skilað sér í afar hreinni framleiðslu því ekki þurfi að nota lyf eða bólusetningar eins og tíðkist í flestum öðrum löndum.

Eydís vill að fólk geti séð inn í eldissalinn, enda hafi þau ekkert að fela.

Geta ekki farið án ráðstafana

Dagsdaglega eru engir starfsmenn aðrir en Eydís og Ingvar sem sinna búrekstrinum. Þau eiga góðan nágranna sem aðstoðar við ýmis verk þegar þarf og þar að auki kemur flokkur vinnumanna til að sækja kjúklinginn þegar kemur að slátrun.

Þau geta ekki brugðið sér af bæ án þess að gera ráðstafanir, því það þarf alltaf að vera hægt að grípa í taumana ef eitthvað kemur upp á. Þá eiga þau ekki auðvelt með að fara í lengri frí þar sem í nánast hverri viku klárar einn hópur sitt eldi og þá þarf að þrífa og gera klárt fyrir næsta sem er svo alinn í 33–35 daga. Álagið er stöðugt og er enginn árstíðarmunur í búskapnum.

Fuglarnir hafa aðgang að vatni og fóðri allan sólarhringinn. „Þeir eru alveg sjálfbjarga án okkar ef allur búnaður virkar eins og til er ætlast, en við fylgjumst með mörgum smáatriðum til að þeir dafni og líði vel. Ef við hugsum ekki um þá, þá hugsa þeir ekki um okkur,“ segir Eydís og vísar til þess að með aukinni velferð dýranna eykst hagnaðurinn af rekstri búsins.

Grípur í verk í smiðjunni

Samhliða kjúklingabúinu er Vélsmiðja Ingvars Guðna (VIG) rekin á Vatnsenda. Ingvar er menntaður vélsmiður og hefur verið í þessum rekstri síðan um aldamótin. Þar er nú framleiðsla á hliðum, hliðgrindum, gjafagrindum, þvottasnúrum og ýmsum verkfærum.

Eydís hikar ekki við að sinna verkum í smiðjunni, þótt hún taki fram að hjónin séu ekki alveg jafnvíg á því sviði. Ingvar sé ótrúlega þolinmóður að sýna henni og kenna og því eru ákveðin verk sem hún getur hlaupið í með litlum fyrirvara.

Að auki við að laus tími frá bústörfum fari oft í vinnu í stálsmiðjunni, þá skiptir það hjónin miklu máli að eiga gæðastundir með fjölskyldu og vinum, en þau eiga
þrjú börn.

Kjúklingarnir eru aldir í 33–35 daga og seldir undir merkjum Holta.

Dísillinn á Instagram

Eydís vakti nokkra athygli þegar hún gaf innsýn í búskapinn sinn í byrjun árs í gegnum Instagram Bændablaðsins. Á þeim vettvangi ber hún notendanafnið „disillinn“ sem hún segir vera eitt af hennar gælunöfnum.

Aðspurð út í uppruna þess segist Eydís vera kölluð Dísa en á fyrstu árum sambúðarinnar hjá henni og Ingvari kom nafnið Dísill fram í gríni. Hún sannfærði svo eiginmanninn um að þau fengju sér einkanúmer með þessu gælunafni, sem þau settu fyrst á smábíl með bensínvél, en nú hafa þau fengið sér dísilbíl sem ber númerið Dísill.

Fimm hlutir sem Eydís getur ekki verið án í sínum búskap?

1. Tölvuskápurinn í nýju húsunum: „Ég hef aldrei á ævinni séð svona marga víra og tengingar.“ Þar er stýringin á öllum tækjabúnaði sem viðkemur fóðrun, loftræstingu, lýsingu og fleira.

2. Síminn: Hægt er að fylgjast með tækjabúnaðinum og fá upplýsingar um allt sem viðkemur líðan fuglanna með appi í símanum. Þá gefa myndavélar yfirsýn og þau fá tilkynningar ef eitthvað er að.

3. Bobcat skotbómulyftari: „Ég myndi aldrei geta gert þetta ef ég ætti ekki Bobcat.“ Það séu mikil forréttindi að eiga slíkt tæki.

4. Vatnskranar: „Maðurinn minn myndi örugglega segja að við gætum ekki verið í okkar búskap ef það væri ekki til fyrirbæri sem heitir krani.“

5. Viftur: „Ég held að það séu nítján viftumótorar í einum eldissalnum.“ Vegna öflugrar loftræstingar er nær engin lykt hjá kjúklingunum.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt