Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Á Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi reka Sigurbjörg Ottesen og Gunnar Guðbjartsson gróskumikið kúa- og sauðfjárbú. Sigurbjörg er nýr stjórnarmeðlimur Bændasamtakanna og ætlar að láta til sín taka í hagsmunagæslu bænda. Með þeim hjónum á mynd eru dæturnar Erna Kristín og Ásta Bryndís og Gunnar heldur á syninum, Jóni Ægi. Aldursforseti fjóssins, Stáss 504, stríddi fjölskyldumeðlimum við myndatöku með heykasti.
Á Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi reka Sigurbjörg Ottesen og Gunnar Guðbjartsson gróskumikið kúa- og sauðfjárbú. Sigurbjörg er nýr stjórnarmeðlimur Bændasamtakanna og ætlar að láta til sín taka í hagsmunagæslu bænda. Með þeim hjónum á mynd eru dæturnar Erna Kristín og Ásta Bryndís og Gunnar heldur á syninum, Jóni Ægi. Aldursforseti fjóssins, Stáss 504, stríddi fjölskyldumeðlimum við myndatöku með heykasti.
Mynd / ghp
Viðtal 12. apríl 2024

Dugar ekki að tuða við eldhúsborðið

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Starfs- og rekstrarskilyrði, afkoma, verðlagsgrunnur, Íslenskt staðfest, líðan bænda og barna þeirra eru meðal hugðarefna Sigurbjargar Ottesen, bónda á Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi. Hún var kosin í stjórn Bændasamtaka Íslands á Búnaðarþingi og ætlar að láta til sín taka í hagsmunagæslu bænda á næstu misserum.

„Frá blautu barnsbeini hef ég verið að veltast um í landbúnaði. Fædd og uppalin á sauðfjárbúi undir sunnanverðu Akrafjalli, sem stendur í fallegustu sveit landsins, þar sem ég sleit barnsskónum. Um margra ára skeið reyndi ég að telja sjálfri mér trú um að ég ætlaði mér ekki að starfa innan bændastéttarinnar, menntaði mig sem sjúkraliði og starfaði á bráðamóttöku Landspítalans. Ég gafst þó upp á þráanum í sjálfri mér eftir allnokkra baráttu, skráði mig til náms í búfræði á Hvanneyri og í dag er ég starfandi nautgripa- og sauðfjárbóndi á Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi.

Á Hjarðarfelli rekum við Gunnar bóndi minn Hjarðarfellsbúið, þar leggjum við mesta áherslu á mjólkurframleiðslu, mjólkum kýr á einum mjaltaþjóni, ölum naut og sauðfé. Við Gunnar eigum saman tvö ung börn og lagði ég tvær dömur til búsins ef svo má að orði komast. Eitthvað þykist ég svo vera að vasast í sveitarstjórnarmálum og er ég oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps.“

Svo kynnti Sigurbjörg Ottesen sig fyrir Búnaðarþingi í mars síðastliðnum og var í framhaldi kosin í stjórn Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið tók hús á Sigurbjörgu og fjölskyldu á Snæfellsnesi á dögunum og fékk innsýn í bústörfin á Hjarðarfelli og áherslumál hins nýja stjórnarmeðlims.

„Mér var kennt þrennt þegar ég var barn. Það var að trúa á Guð almáttugan, Sjálfstæðisflokkinn og Sláturfélag Suðurlands,“ segir Sigurbjörg hlæjandi en undirstrikar að það innlegg úr foreldrahúsum endurspegli ekki endilega lífsskoðanir hennar í dag. Sigurbjörg er ekki ókunnug félagsstörfum bænda, en hún hefur setið í stjórn búgreinadeildar nautgripabænda, áður Landssambands kúabænda, frá árinu 2020 og situr enn í stjórn deildarinnar. Hún brennur fyrir bættum hag bænda í bæði lífi og starfi og hefur reynslu frá fyrstu hendi til að byggja undir þá hagsmunagæslu.

„Ég uppgötvaði að það dugar ekkert að tuða við eldhúsborðið heima hjá sér,“ segir Sigurbjörg, innt eftir því hvað fái hana til að leggja sitt af mörkum til félagsmála. „Ég er alls ekki allra og það er bara fínt. Ef ég væri allra þá stæði ég ekki fyrir neitt. Ég vil að bændur geti haft það sem best, að við fáum sanngjarnt verð fyrir þær frábæru vörur sem við erum öll að basla við að framleiða á hverjum degi, þvert á búgreinar. Við eigum að geta boðið börnunum okkar upp á fjárhagslega mannsæmandi aðstæður þó að við, foreldrarnir, höfum valið okkur það starf að framleiða matvæli ofan í landsmenn.“

Sigurbjörg er fjögurra barna móðir. Hér er hún með Jón Ægi. „Ég hef mætt með þau yngri tvö á Búnaðarþing og deildarfundi á hinum ýmsu framleiðslustigum.“

Afkomuvandi kemur niður á börnum bænda

Auðheyrt er að staða barna í sveitum landsins á hug Sigurbjargar og hjarta. Enda á hún fjóra afkomendur; Árnýju Stefaníu, 21 árs, Ernu Kristínu, 13 ára, Ástu Bryndísi, 2 ára og Jón Ægi, sem er rétt að verða 1 árs. „Ég hef mætt með þau yngri tvö á Búnaðarþing og deildarfundi á hinum ýmsu framleiðslustigum,“ segir Sigurbjörg. En að öllu gamni slepptu segir hún að sú ákvörðun að verða bóndi ætti ekki að koma niður á börnum.

„Þau völdu ekki að fæðast úti í sveit. Mér þótti það afar mikilvægt þegar ég flutti hingað með mín tvö bónusbörn, að ég væri ekki að draga úr möguleikum þeirra til eðlilegs lífs vegna búskapar míns. Þær áttu að fá að fara í frístundir þótt þær færu fram á þessum klassíska fjósatíma og höfum við hjónin alltaf verið samtaka þar. Annað okkar keyrði, hitt mjólkaði.“

Í ræðu sinni á Búnaðarþingi sagðist hún hafa orðið vitni að brottfalli barna úr tómstundum. „Við erum þá að tala um börn sem koma frá heimilum sem reiða sitt lífsviðurværi á matvælaframleiðslu fyrir íbúa þessa lands.

Eina skýringin er að fólk sé einfaldlega að skera niður við sig og fjölskyldur sínar, enda erum við jú langflest ekki aðeins að verja reksturinn okkar, heldur heimilin okkar líka. Þessa staðreynd þykir mér við öll þurfa að taka mjög alvarlega.“

„Mér þótti það afar mikilvægt þegar ég flutti hingað með mín tvö bónusbörn, að ég væri ekki að draga úr möguleikum þeirra til eðlilegs lífs vegna búskapar míns,“ segir Sigurbjörg, sem er hér ásamt Ernu Kristínu, dóttur sinni.

Bæta þarf starfsskilyrði

Aðstæður barna í sveitum eru því óneitanlega samofin afkomu bænda. Því telur Sigurbjörg að tryggja þurfi rekstur og starfsskilyrði atvinnugreinarinnar til framtíðar.

„Staðan hefur vissulega batnað. Sprettgreiðslur og ráðuneytisstjórahópurinn gerðu helling. En við leysum ekki stöðu bænda með endalausum plástraaðgerðum. Við verðum að geta komið starfsskilyrðum bænda á þann flöt að þetta gangi upp til framtíðar. Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld vilji íslenska framleiðslu og að það séu íslenskar matvörur í hillum verslana. Til þess að svo geti orðið verður að mæta okkur einhvers staðar.

Vinnu við verðlagsgrunn í mjólkurframleiðslu miðar ágætlega svo best ég veit og við verðum að koma þeirri vinnu í gang að fá verðlagsgrunn unninn fyrir fleiri greinar, til dæmis fyrir nautakjöt og lambakjöt og mögulega fleiri greinar.

Þá hef ég hreinlega áhyggjur af því að við bændur verðum nægjanlega mörg til að framleiða matvæli. Að hér verði nægjanlega margir sem eru tilbúnir til þess að lifa og hrærast í landbúnaði og leggja starfið fyrir sig. Þess vegna verður að bæta starfsskilyrðin og afkomuna og þá um leið að gera það að eftirsóttum kosti að vera bóndi. Greiða þarf fyrir ættliðaskiptum, finna betri leiðir en í boði eru hvað fjármögnun varðar og fleira.“

Sigurbjörg segir mikilvægt að konur hafi sína fulltrúa í forystuhlutverkum bænda.

„Ég hef horft upp á það að kona sem stundar búskap með fjölskyldu hafi ekki sama rétt á lífeyrisgreiðslum og eiginmaðurinn, þrátt fyrir að hafa sinnt bústörfum til jafns. Við þurfum að vinda ofan af því. Við eigum að borga okkur jöfn laun fyrir sömu störf en til þess að geta greitt laun þá þurfum við trygga afkomu.Við vorum ekki mjög margar konurnar sem sátum deildarfund nautgriparæktarinnar en ég trúi því bara ekki að konur hafi ekki meira um hlutina að segja. Ég hef fulla trú á að við eigum fullt af frambærilegum konum í okkar röðum sem hafa mikið til málanna að leggja. Núna er ég til dæmis eina konan í stjórn búgreinadeildarinnar en ætli ég tali ekki á við tvær.“

Ásta Bryndís tekur virkan þátt í sveitastörfunum.

Gróskumikill búskapur

Búskaparsaga á Hjarðarfelli á sér áratugalanga sögu. Í dag byggir búreksturinn á mjólkurframleiðslu ásamt ræktun nautgripa og sauðfjárrækt.

Eiginmaður Sigurbjargar, Gunnar Guðbjartsson, keypti sig inn í bú foreldra sinna árið 2006 með kaupum á hlut föðurbróður síns. Seinna kaupir Sigurbjörg foreldra Gunnars út úr búinu. Í dag reka foreldrar Gunnars sauðfjárbú á bænum í samvinnu við þau. Hjarðarfellsbúið framleiðir um 400.000 lítra af mjólk á einum róbóta, sem þau segja að til standi að auka með stækkun húsakosts. Þau eru í dag með tæplega 50 kýr og 140 fjár en samtals eru um 500 fjár á bænum. Búskapurinn hefur gengið ágætlega á öllum vígstöðvum. Búið er vel yfir meðalafurðum í mjólkurframleiðslu, og Sigurbjörg segir lambakjötsframleiðsluna í fyrra hafa gengið sögulega vel þegar horft er til fallþunga, gerðar og fitu. Þá sé nautaeldið einnig frambærilegt. Nokkra nautkálfa hafa þau selt á Nautastöðina síðustu ár og í fyrrahaust glæddist sala líflamba eftir nokkurra ára lægð. „Líflambasala helst algjörlega í hendur við verðskrá afurðastöðva.“

Sigurbjörg segir lykilinn að farsælum búskap felast í samspili nokkurra þátta. „Góð bústjórn, gott fóður, árangur í ræktun gripa, hagsýni, jákvæðni og gott veður. Mörg atriði þurfa að ganga upp, því er þetta margþætt.“

Sigurbjörg telur sig hafa „rollað“ yfir sig kringum búskap foreldra hennar og ætlaði sér aldrei að verða bóndi. Annað kom á daginn.

Jarðvinnslan skemmtilegust

Bústörfin eru því æði mörg en Sigurbjörg segist njóta sín sérstaklega í jarðrækt. „Ég á fáránlegt áhugamál, jarðvinnslu. Vinkonur mínar hrista nú margar hverjar bara hausinn þegar ég fer að tala um þetta hugðarefni mitt. Nú er verið að vinna að því að koma barnabílstólum í tvo traktora svo við getum bæði farið út í flag með börnin hvort á sinni vélinni. Það er mjög gaman að búa til gott fóður; að rótast úti í hæfilega þurru og stóru flagi og heyskapur í góðu veðri. Síðan að gefa það og að sjá afurðirnar sem verða til af því. Ég er alltaf að verða meiri og meiri kúamanneskja þótt vissulega eigi ég mína spretti kringum sauðfé,“ segir Sigurbjörg, sem alin er upp á sauðfjárbúi á Ytra-Hólmi, steinsnar frá Akranesi. Hún ætlaði sér aldrei að verða bóndi. „Ég segi stundum að ég hafi „rollað“ yfir mig í kringum búskap foreldra minna. Það kom því aldrei til greina að vera bóndi og ég vann sem sjúkraliði á Landspítalanum en gafst upp á þrjóskunni í sjálfri mér upp úr þrítugu og skráði mig í búfræðinám á Hvanneyri. Ég hefði alls ekki viljað sleppa því, það er mikil þekking sem maður tekur með sér úr náminu sem ég mæli tvímælalaust með, þó þú sért með fullt hús af börnum og getir ekki stundað Kolluna eins og þig kannski langar. Þaðan tók ég víðtæka þekkingu með mér, ég held ég noti eitthvað á hverjum einasta degi af því sem ég lærði þar. Ég nefni sérstaklega stóra pósta eins og undirbúningsvinnu fyrir áburðarkaup.“

Þau Gunnar kynntust á haustdögum árið 2013 á hinu rómaða Sauðamessuballi í Borgarnesi. Auk þess að vera bæði búfræðingar frá Hvanneyri, er Gunnar vélvirki og Sigurbjörg sjúkraliði. Fjölbreyttur bakgrunnur þeirra er afar gagnlegur við bústörfin. „Þetta er hin fínasta blanda. Hann gerir við tækin og ég hlúi að veikum dýrum þegar þess þarf.“ Sigurbjörg lætur ekki staðar numið við uppeldi barnanna með blönduðum búskap. Hún er einnig oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, sem er um 130 íbúa sveitarfélag. Hún var kosin í sveitarstjórn í persónukjöri í maí árið 2022. Hún segir starfið krefjandi enda oft erfitt að reka lítil sveitarfélög.

Tæplega 50 kýr eru á Hjarðarfelli þar sem framleiddir eru um 400.000 lítrar af mjólk árlega.

Stjórnin vel samsett

Í nýrri stjórn Bændasamtakanna eru fulltrúar frá fjórum búgreinum og ef varastjórn er tekin með þá tilheyra þeim að minnsta kosti sex búgreinar.

„Mig grunar að við séum með sögulega lágan meðalaldur í stjórn. Hún tekur mið af kynjakvóta og ég held að hún sé afar vel samsett. Mér líst mjög vel á samstarfsfólkið. Ég held að það hafi tekist mjög vel að ná fólki þvert á búgreinar. En vissulega á kostnað landshlutaskiptingar. Ég held að skipting þvert á búgreinar sé verðmætara en skipting milli
landshluta,“ segir Sigurbjörg.

Ný stjórn Bændasamtaka Íslands. F.v.: Sigurbjörg, Reynir Þór Jónsson, Axel Sæland, Petrína Þórunn Jónsdóttir, Herdís Magna Gunnarsdóttir, Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Trausti Hjálmarsson.

Hún telur góðan tón hafa verið sleginn strax á fyrstu fundum stjórnarinnar. „Öll erum við sammála um að auka samtal við grasrótina og að reyna með því að ná ákveðnu trausti bænda til baka, sem ég tel hafa dvínað, því miður. Búgreinadeildirnar eru mikilvægur hlekkur í stóru myndinni og samtal við bændur, grasrótina okkar. Þetta
samtal þarf að efla að mínu mati.“

Fram undan bíða nýrrar stjórnar ýmis mikilvæg verk, eitt það helsta að koma að gerð nýrra búvörusamninga. „Við verðum að byrja á því að endurskoða kerfið okkar, og vera tilbúin að líta inn á við,“ segir Sigurbjörg. Þá þýði ekki að útiloka breytingar á styrkjakerfinu.

„Kerfið er ekki að virka nógu vel eins og er, við hljótum að mega líta á það gagnrýnum augum þótt ég sé ekki að tala fyrir kúvendingu. Við verðum að vita hvað við viljum þegar við mætum til samtals um gerð búvörusamninga – ekki bara láta segja okkur hvað við fáum.“ Ný breyting á búvörulögum ber á góma. „Bændur hafa kallað eftir þessari hagræðingu í mörg ár og því er sigur að ná þessu, með þeim forsendum að stjórnir og stjórnendur þeirra fyrirtækja sem þarna liggja undir fari vel með það. Ég ætla því bara að vona að stjórnarfólki afurðastöðva beri gæfa til þess að stíga gáfuleg skref eftir þessa breytingu á búvörulögum, með eigendur sína og neytendur í huga. Nú er boltinn hjá þeim.“

Hlustað á neytendur

Í ljósi þessara breytinga segist Sigurbjörg óviss um hver staða innlendrar framleiðslu gagnvart tollvernd á búvörum sé. En hún sé nú þegar bitlaus. „Tollverndin brestur endanlega með markaði á eina krónu kílóið. Ríkissjóður verður þar af talsverðum fjármunum. Af hverju eru ekki allir brjálaðir yfir því?“

Innflutningur á búvörum sé í það minnsta staðreynd og til að upphefja íslenskan landbúnað þurfi innlendir framleiðendur að hampa vörum sínum. Þannig vonar Sigurbjörg að afurðastöðvarnar taki til sín ályktun Búnaðarþings um að innlendir matvælaframleiðendur í eigu bænda eigi að taka upp upprunamerkið Íslenskt staðfest.

„Við getum ekki boðið fólki upp á það að þú verðir að taka með þér lesgleraugu út í matvöruverslun til að geta lesið þig til um hvaðan kjötið sem þú ert að kaupa kemur. Neytendur kalla á betri merkingar matvæla og við verðum að bregðast við því, því hvar væru íslenskir bændur án neytenda?“

Sigurbjörg skynjar breytingar á nálgun neytenda frá fyrstu hendi. Eftirspurn eftir kjöti þeirra í heimasölu hefur aukist gríðarlega, bæði nauta- og lambakjöti, og segist hún verða vör við að kaupendur sækist eftir milliliðalausum viðskiptum með kjöt vegna mögulegs vantrausts þeirra á uppruna þess í matvörubúðum.

Gunnar Guðbjartsson ásamt Ástu Bryndísi og Jóni Ægi. „Á meðan við reynum að vinna að því að bæta lífskjör bænda þá er einhver heima að hugsa um búin okkar á meðan,“ minnir Sigurbjörg á. „Ég passa allavega upp á að minn bóndi, sem tekur oft á sig vinnu okkar beggja, verði ekki neftóbakslaus.“
Bændageð og stuðningur fjölskyldunnar

Af öðrum mikilvægum verkefnum hagsmunasamtakanna nefnir Sigurbjörg geðheilsumál bænda.

„Ég held að hið frábæra og þarfa verkefni Bændageð hafi opnað viðkvæma umræðu upp á gátt og kveðið niður ákveðna þöggun. Þessi ímynd af hinum grjótharða íslenska bónda. Hann eins og allt annað fólk getur bognað og jafnvel brotnað, það líður ekki alltaf öllum vel. Ég tel mjög mikilvægt að við höldum þessu verkefni á lofti. Þau sem komu þessu verkefni á koppinn og þeir bændur og aðstandendur þeirra sem hafa opnað sig eiga miklar þakkir skildar.

Það vill nú svo til að ég á frekar rólegan mann sem leyfir mér að ausa úr mér þegar mikið er um að vera. Það verður að viðurkennast að hann situr svolítið í þeirri súpu þessa dagana. Sumir dagar eru aðeins erfiðari en aðrir, með alla þá bolta sem haldið er á lofti,“ segir Sigurbjörg og lítur á bónda sinn. Því tengdu segir hún að ekki megi gleymast að þau sem gefa kost á sér til starfa í félagsmálum í þágu bænda reki flest bú með maka og eða öðrum fjölskyldumeðlimum sem sinna búinu á meðan.

„Á meðan við reynum að vinna að því að bæta lífskjör bænda þá er einhver heima að hugsa um búin okkar á meðan. Við erum því ekki bara fjarverandi frá heimili, eins og á Búnaðarþingi, heldur erum við að gefa einhverjum heima tvöfalda vinnu um leið. Þessu megum við ekki taka sem sjálfsögðum hlut og smá klapp á öxlina er nú það minnsta sem við getum gert þegar við skilum okkur aftur heim frá störfum við hagsmunagæsluna. Ég passa allavega upp á að minn bóndi, sem tekur oft á sig vinnu okkar beggja, verði ekki neftóbakslaus.“

Fimm hlutir sem Eydís getur ekki verið án í sínum búskap?

1. Gegningaskórnir:

Vinnuskór af gerðinni Redback. „Þarna leyfi ég mér merkjasnobb.“

2. Síminn:

„Hann er númer eitt, tvö og þrjú. Gegnum hann get ég fjarstýrt mjaltaþjóninum, pantað sæðingar og önnur aðföng svo eitthvað sé nefnt, já og lesið tölvupóstinn minn. Gunnar vill meina að ég þurfi að nota „peltor“ meira, svo ég geti bæði unnið og talað í síma á sama tíma, sem ég geri víst töluvert af.“

3. Grænfóður.

„Fátt er skemmtilegra en að gefa mjólkandi kúm. Bæði finnst þeim það gott og svo sér maður áhrif fóðursins strax í tanknum. Finnst algjörlega ómögulegt að vera án þess í fóðrun kúnna.“

4.Skotbómulyftarinn:

„Weidermaninn er knár þótt hann sé smár.“

5. Sköfuróbótinn.

„Diddi Discovery léttir störf okkar verulega í fjósinu.“

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt