Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Kjarlaksvellir hafa gott skjól af fjöllunum í Staðarhólsdal. Þótt hríðarbylur geti verið af norðri nokkrum kílómetrum í burtu þá getur heimilisfólkið á bænum staðið úti á hlaði með logandi kertaljós í logndrífu.
Kjarlaksvellir hafa gott skjól af fjöllunum í Staðarhólsdal. Þótt hríðarbylur geti verið af norðri nokkrum kílómetrum í burtu þá getur heimilisfólkið á bænum staðið úti á hlaði með logandi kertaljós í logndrífu.
Mynd / Kjarlaksvellir
Viðtal 28. janúar 2015

Fjölga fé með ræktun úr eigin stofni

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Á Kjarlaksvöllum  í Dölum er rekið sauðfjárbú undir nafninu Vallarfé með um 500 fjár á vetrarfóðrun. Þar er tvíbýli og þar býr Guðmundur Gunnarsson ásamt eiginkonunni, Hugrúnu Reynisdóttur, á öðrum bænum og bróðir hennar, Bjarki Reynisson, og Þórunn Elva Þórðardóttir í hinum.
„Við höfum hægt og rólega verið að fjölga úr okkar eigin stofni. Árið 2014 var okkar besta ár í sauðfjárræktinni í heildina tekið,“ segir Guðmundur. 
 
Í skjóli í þröngum dal
 
Sólin skein á fjallatoppa við Kjarlaksvelli þegar tíðindamaður Bændablaðsins sló á þráðinn síðastliðinn laugardag. Þá var orðið heiðskírt eftir nokkra snjókomu nóttina áður. Segir Guðmundur að tíðarfarið hafi verið rysjótt í vetur þótt hann kvarti svo sem ekkert þar sem hann býr á skjólríkum stað innarlega í Staðarhólsdal. 
„Ég kom úr Reykjavík í gær og eini staðurinn á þessari leið sem eiginlega ekkert hafði snjóað var hér í Saurbænum þótt talsvert hafi snjóað út við ströndina eins og gerist alltaf í sunnan- og suðvestanáttinni. Ef það kemur norðanátt svo ég tali nú ekki um norðanbylur, þá get ég rölt hér út á hlað með kertaljós. Hér verður alveg logn í norðanátt, enda erum við innilokuð hér inni í dalnum í skjóli fjallanna,“ segir Guðmundur. 
 
Nefndi hann sem dæmi að snjóaveturinn mikla árið 1995 hafi mikið snjóað á Kjarlaksvöllum, en alltaf í logni þótt vitlaust veður hafi verið af norðri víða í kringum þau. 
„Svo getum við fengið hér hreina vestanátt sem getur verið mjög slæm, byljótt og miklir sviptivindar.“ 
 
Enginn sér þótt tækniinnleiðingin gangi ekki alltaf hnökralaust
 
Guðmundur segir að það geti stundum verið mikill kostur að vera svo afskekktur inn til dala.
„Þegar maður er til dæmis að prófa einhver ný tæki eða annað þá sjá nágrannarnir ekki hvað manni gengur illa.  Eitt sinn vorum við að prófa hér rúlluvél og það var í fyrsta skipti sem við vorum sjálf að rúlla heyi. Okkur gekk mjög erfiðlega og vorum við heila nótt að baksa við þetta og rúlluðum þá ekki nema 10 rúllum. Við uppgötvuðum það svo fyrir rest að það var náttfallið sem var að fara svona illa með okkur. Vélin gat einfaldlega ekki rúllað í rakanum af náttfallinu. Við héldum samt áfram og skildum ekkert í af hverju þetta gekk svo illa.“
− Þið eru þá heppnir með að svona nokkuð spyrjist ekki út svo það verði ekki gert grín að ykkur á þorrablóti?
„Já, einmitt, nema við séum svo vitlausir að kjafta frá því sem við erum að brölta,“ segir Guðmundur.  
 
Með um 18 kílóa fallþunga
 
− Hvernig var útkoman í búskapnum hjá ykkur eftir haustið?
 „Við höfum verið með í kringum 18 kíló í meðalfallþunga undanfarin ár og svo var einnig nú í haust. Gerðin er 9,83 og fitan  7,12 og kíló eftir kind  er 34,7.  Mesta framförin hjá okkur er að síðustu þrjú árin höfum við verið að auka til nytja. Með sama fjárfjölda erum við búin að auka um 70 lömb til nytja á þremur árum. Það vil ég þakka Gísla Sverri Halldórssyni, dýralækninum okkar, og hans predikun varðandi selenmagn í fóðri [selenskortur getur m.a. valdið lambadauða]. Aukið heilbrigði stofnsins hefur skilað sér mjög vel sem skiptir þarna miklu máli. Það er eitthvað sem menn eru ekki alltaf að hugsa um.“ Guðmundur segir að dregið hafi mjög mikið úr lambadauða þótt hann sé enn of mikill að hans mati.
 
Dreifa slátrun til að auka meðalþyngd
 
„Við erum að slátra um 100 lömbum á viku á haustin og náum meðalþyngdinni upp með því að dreifa slátruninni yfir lengri tíma og þyngja lömbin í heimahaga og á túnum. Hér erum við með mikla hólfabeit sem við stýrum mjög mikið. Við höfum verið með um einn og hálfan hektara af káli og í það beitum við minnstu lömbunum. Þá erum við með um 12 hektara af túnum og 12 hektara af úthagabeit sem við nýtum líka. Lömbin hafa því gott svæði að rölta um með fjölbreytilegri beit. Ef lömbin ná sér á annað borð á strik, þá sér maður allt upp í 12 kílóa þyngdaraukningu,en meðal þyngdaraukning er um 4–5 kíló á þessum sex vikum. Mesti hagur þeirra sem hafa á annað borð haft aðstöðu til þess og með góða beit er að þyngja lömbin á haustin.  Þá safna þau á sig miklu kjöti. Ef beitin er hins vegar léleg fara þau að safna frekar á sig fitu.“ 
 
Slæmt tíðarfar hafði víða slæm áhrif á þyngd lamba
 
„Tíðarfarið í haust var þó ekki eins gott og best gerist. Það rigndi of mikið og á bæjum hér fyrir sunnan mig virtist tíðarfarið víða hafa mjög slæm áhrif á þyngdaraukninguna. Hjá sumum bændum minnkaði fallþungi af þeim sökum verulega milli ára. 
Ég vil líka meina að þegar tíðarfar er slæmt með miklum rigningum snemma sumars, þá hafa ærnar ekki nægan forða til að mjólka nægilega fyrir lömbin. Þau verða þá rýrari en ella.“
 
Fituminni gripir viðkvæmari
 
Guðmundur telur orsökina m.a. felast í þeirri ræktunarstefnu að skera niður fitu í fénu til að mæta kröfum markaðarins og ríkjandi heilsuviðmiðunum. Þá hafi ærnar minni forða úr að moða í sumarbyrjun ef árferði er ekki nógu gott. Afleiðingin verði lítill fallþungi í haustslátrun. Af þessum sökum séu margir orðnir afhuga þessari ræktunarstefnu.  
 
Reyndar styður það hans rök að undanfarin misseri hefur verið að koma í ljósa að rökin fyrir þeim lýðheilsusjónarmiðum sem segja að dýrafita sé óæskileg í mataræði, er röng. Um áratuga skeið hefur sá áróður verið stundaður af opinberum aðilum um allan heim sem byggst á því að útiloka fitu úr mataræði. Nú er talið að forsendur þess áróðurs standist alls ekki og hafi jafnvel verið mannfólkinu til skaða. 
 
Mikil afföl en fara þó minnkandi
 
Guðmundur segir að heimtur af fjalli hafi einnig batnað, en bændur á svæðinu hafa búið við mikil afföll í fjölda ára. 
„Fyrir um 20 árum fannst okkur mikið ef það vantaði 10 lömb að hausti. Síðan fór þetta smám saman versnandi. Þegar við fjölguðum hjá okkur fénu smátt og smátt virtist samt alltaf fjölga jafnhliða þeim lömbum sem skiluðu sér ekki af fjalli. Þegar verst lét voru þau orðin 30. Haustið 2013 vantaði 12 lömb af 740 sem fóru á fjall og síðastliðið vor fóru 770 lömb á fjall og í haust vantaði 20.“
 
Telur orsök affalla lamba á fjalli ekki augljósa
 
Þótt þessi afföll skipti augljóslega töluverðu máli, þá finnst Guðmundi þau ekki svo ýkja slæm miðað við fyrri ár. Hann segir skýringuna á þessum afföllum ekki augljósa. Fyrst hafi þeir kennt refnum um að drepa lömbin en hann telur aðra þætti geta komið þar inn í líka. 
„Refurinn drepur alltaf eitthvað og auðvitað tekur hann líka allt sem drepst af eðlilegum orsökum og þau lömb finnum við aldrei. Ég held samt að hann sé ekki eins slæmur og menn hafa verið að tala um.“  
 
Sendum lömbin ekki nógu hraust á fjall
 
„Ég held að ástæðan sé líka sú að við erum ekki að senda lömbin nógu hraust á fjall. Þau ýmist  villast undan, en sum veikjast og drepast og þá tekur refurinn þau lömb. Ef við pössum upp á að lömbin fari heilbrigð á fjall, þá fáum við þau oftast lifandi til baka.“ 
 
Hvað gera Strandamenn rétt en við ekki?
 
„Við vitnum oft í Strandamennina varðandi þetta. Bændur á Ströndum, sem eru með sambærilegan fjölda og við, finnst mikið ef þá vantar 5 lömb að hausti og verulega mikið ef það fer yfir 10 lömb. Samt vilja menn halda því fram að það sé mikið um ref á Ströndunum. Þá spyr maður sig, hvað þeir séu að gera rétt sem við gerum ekki.
 
Hér suður frá í Laxárdalnum og þar í kring er maður að heyra að menn vanti allt að hundrað lömb að hausti. Að vísu eru það þá bú sem eru með yfir 1.000 fjár, en samt eru það allt of mikil afföll þegar þau eru komin í kannski 10%,“ segir Guðmundur Gunnarsson.

3 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt