Hispurslaus brautryðjandi
Hún er hugsjónakona, sjálflærð í kjötiðnaði, rómuð fyrir pitsugerð, fimm barna móðir og svínabóndi. Petrína Þórunn Jónsdóttir er nýr stjórnarmeðlimur Bændasamtaka Íslands og ætlar að beita sér fyrir skýrari merkingum matvæla.
Petrína Þórunn er fædd á Dalvík en alin upp í Hafnarfirði. Hún segist vera með meðfætt flökkueðli, hefur búið víða og leiðist í þéttbýli. „Ég eyddi öllum sumrum hjá ömmu og afa á Dalvík og vann í fiskvinnslunni þar frá þrettán ára aldri. Ég hef reyndar unnið í fiski víða síðan þá, bæði á Hornafirði, í Keflavík og á Grundarfirði.“
Árið 2002 kynntist hún svínabóndanum Björgvini Þór Harðarsyni á barnum Dubliner, þeirri annáluðu knæpu. Hún flutti fljótt til hans í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, með dætur sínar tvær og eiga þau Björgvin samtals fimm börn á aldrinum 15 til 32 ára.
Vantaði álegg og reisti kjötvinnslu
Petrína og Björgvin eru atorkumanneskjur. Á fyrstu búskaparárum þeirra áraði illa, enda afurðaverð á svínakjöti þá í mikilli lægð og tekjur af búskapnum nær engar. „Við urðum að finna okkur tekjulind, sem hægt væri að sinna á öðrum tímum en búskapnum,“ segir Petrína.
Hafandi starfað lengi við pitsubakstur á veitingastað bróður síns datt henni í hug að opna Pizzavagninn, færanlegan veitingastað sem flakkaði milli staða í uppsveitunum. Hugmyndin var að bjóða upp á pitsur með íslensku hráefni. „Ég hef alltaf verið matarmegin í lífinu, vil gera vörur sem mér þykja góðar. Ég er líka afskaplega lélegur sölumaður og því skiptir mig miklu máli að hafa allt hráefni bragðgott,“ segir Petrína.
Hún sótti því álegg á pitsurnar til bænda í sveitinni; tómata, paprikur, sveppi og slíkt og kjöt. En þegar tollar voru felldir niður á svínakjöti og innflutningur jókst verulega átti hún í stökustu vandræðum með að finna skinku sem eingöngu væri úr íslensku kjöti.
„Ég gat hvergi keypt slíka vöru. Framleiðendum áleggja fannst þetta ekki skipta máli en var algjört grundvallaratriði fyrir mig. Fyrst ég fann þetta hvergi, ákvað ég að búa til mína eigin.“
Úr varð að Petrína ákvað að opna sína eigin kjötvinnslu. Verkunina lærði hún upp á eigin spýtur. „Ég horfði á mikið af Youtube- myndböndunum og leitaði til góðra kjötiðnaðarmanna,“ segir hún hlæjandi en öðlaðist einnig gagnlega færni í námi Matvælabrúar hjá Háskólafélagi Suðurlands.
Áður en langt um leið höfðu þau hjón fest kaup á öllum tækjum kjötvinnslu sem var að leggja upp laupana, festu sér tvö bil í nýju iðnaðarhúsnæði í Árnesi og settu upp fullbúna kjötvinnslu sem hefur verið starfandi þar frá árinu 2018.
Björgvin er húsasmíðameistari og Petrína alvön fiskvinnslukona. Hæg voru því heimatökin. „Ég kann að saga og brýna, hún kann að snyrta og skera,“ skýtur Björgvin inn í hlæjandi. Kjötvinnslan framleiðir um áttatíu mismunandi vörur undir vörumerki þeirra, Korngrís frá Laxárdal. Til dæmis marineraðar steikur, beikon án sykurs, álegg, skinkur og kæfur, jafnvel sápur. Allir hlutar svínsins eru nýttir á einn eða annan hátt.
Petrína starfar í kjötvinnslunni alla virka daga, Björgvin tekur þátt á þriðjudögum. Aðra daga er hann upptekinn við aðrar annir, svínabúskapinn og kornræktina, hvar hann er stórtækur frumkvöðull. Þannig ræktar hann allt bygg í fóðri svínanna og þarf búið því ekki að treysta á innflutt fóður. Helgarnar hafa svo verið nýttar í Pizzavagninum.
Hjónin selja vörur sínar í verslun sem staðsett er í kjötvinnslunni en eru enn fremur með vörurnar í ýmsum smáverslunum, bakaríum og veitingastöðum. Þeim telst til að um tíu prósent kjötframleiðslu þeirra fari í þeirra eigin vinnslu, hjá Korngrís, annað leggja þau inn til Sláturfélags Suðurlands.
Tuttugu ára flatbökuævintýri á enda
Tvö kvöld í viku og allar helgar ársins hafa hjónin svo, með liðsinni barnanna þegar þau höfðu getu til, ferðast með Pizzavagninn hist og her um uppsveitir Suðurlands og vakið verðskuldaða athygli fyrir pitsurnar sínar. En nú, eftir tuttugu ár, hafa þau tekið ákvörðun um að hætta starfsemi Pizzavagnsins.
„Þetta er komið gott. Við bara nennum þessu ekki lengur,“ segja þau hlæjandi og eru börnin hvað fegnust ákvörðuninni. „Nú fá þau loksins tíma með okkur.“
Uppeldi fimm barna ofan á annir sem fylgja svínaeldi, kornrækt og kjötvinnslu hefur verið krefjandi en hjónin segja lykilinn að farsælu samstarfi bæði í lífi og starfi vera hina gullnu venju um einn hvíldardag í viku. „Við vinnum aldrei á sunnudögum og erum þá saman sem fjölskylda,“ segir Petrína en hikar svo og viðurkennir að þessari reglu fylgi frávik þegar kornsáning og þresking fari fram. Aldrei nein lognmolla.
Bauð sig fram í hagsmunagæslu bænda
Nema hvað. Nú þegar ævintýri Pizzavagnsins er lokið hefur Petrína snúið sér að öðrum verkefnum sem eru henni hugleikin. Eftir að hafa fengið mikla hvatningu ákvað hún að bjóða sig fram til stjórnar Bændasamtaka Íslands og hlaut brautargengi í aðalstjórn á liðnu Búnaðarþingi.
Hún segir fyrstu vikur stjórnarsetunnar hafa farið í að setja sig inn í málefni Bændasamtakanna, því fylgir mikill lestur og reglulegar fundasetur. „Mér líst mjög vel á stjórnina og starfsmenn skrifstofunnar. Þar eru ótrúlega fróðir einstaklingar innanborðs. Ég hef áður fylgst vel með umræðum og hef miklar skoðanir á ýmsum málefnum. Kannski ég geti haft áhrif núna,“ segir hún kímin.
Það liðu ekki margir dagar frá því að ný stjórn tók til starfa þangað til að umdeildar breytingar á búvörulögum voru samþykktar á Alþingi. „Einhvern tímann talaði Steinþór Skúlason, forstjóri SS, um að betra væri fyrir afurðastöðvarnar að geta haft samráð til að átta sig á birgðastöðu í landinu. Einhver gæti verið að flytja inn of mikið af ákveðnum kjötvörum sem væru svo kannski til annars staðar.“
„Með samvinnu gætu afurðastöðvarnar skipt á milli sín. Ég vona því að þessi lög verði til þess að minna verði flutt inn af kjöti og afurðastöðvarnar hafi þá frekar heimild til að selja á milli sín það kjöt. En svo veit maður ekki. Þetta gæti allt eins farið í hina áttina – að afurðastöðvarnar fari að undirbjóða kjöt frá bændum til þess eins að geta flutt meira inn,“ segir Petrína uggandi.
„Sem dæmi að þá gerðist það á Suðurlandi um síðustu aldamót að þegar nýir stórir aðilar komu inn á svínakjötsmarkaðinn þá hrapaði verðið og sláturleyfishafar tóku eingöngu kjötið á lága verðinu en hinir minni gátu ekki losnað við sína framleiðslu sem endaði þannig að í dag er aðeins okkar svínabú með gyltur á Suðurlandi.“
Frumframleiðendur þurfi að trúa á að stjórnendur afurðastöðvanna starfi af heilindum því bændur leggi mikið traust á fyrirtækin. „Mér finnst vanta að það sé tryggt að bændur standi betur eftir þessa lagasetningu.“ Því þurfi hagsmunafélag bænda að fylgjast vel með hvernig afurðastöðvarnar nýti hina nýju heimild til samráðs.
Uppeldishús gæti komið í veg fyrir innflutning
Í Laxárdal eru 200 gyltur og er meirihluti grísa alinn þar upp í sláturstærð. Aðstaðan og aðbúnaður er til fyrirmyndar bæði fyrir dýr og menn.
Nýjar gotdeildir voru teknar í notkun árið 2021 sem samræmast nýjustu aðbúnaðarreglugerðum. Sú fjárfesting var mikil en svínabændur gátu sótt í sértækan framkvæmdastyrk til ríkisins fyrir slíkri uppbyggingu sem fjölskyldan í Laxárdal og gerði.
Almennt hafa svínabændur þó ekki aðgang að neinum framkvæmdastyrkjum.
„Gyltunum líður vel og grísunum líka. Fleiri grísir fæðast og þeir braggast betur. En svo erum við í vandræðum með að ala upp fjöldann. Við erum með þessa flottu gotaðstöðu en ekki með nógu mikið rými fyrir uppeldi allra grísanna,“ segir Petrína.
Fjölskyldan hafi ekki haft bolmagn til að ráðast í byggingu á nýju uppeldishúsi í núverandi vaxtarumhverfi. Hún bendir á að nautgripa- og sauðfjárbændur hafi greiðan aðgang að fjárfestingastyrkjum en aðrar búgreinar mæti afgangi.
„Það væri eðlilegast ef fjárfestingastyrkir frá ríkinu væru fyrir landbúnað í heild, en ekki fyrir tilteknar búgreinar,“ segir Petrína og bendir á að á Norðurlöndunum séu veitt sértæk lán til uppbyggingar í landbúnaði á mun lægri vöxtum. „Það er eitthvað sem mætti skoða betur hér.“
Vegna aðstöðuleysis hafa þau því selt frá sér fráfærugrísi til uppeldis á öðru búi. „En það styttist í að sá bóndi hætti og þá verðum við komin í vandræði því enginn annar kaupir grísi.“
Laxárdalur er eini fasti innleggjandi svínakjöts til Sláturfélags Suðurlands en að sögn Petrínu grípur SS til þess ráðs að kaupa svínakjöt frá Stjörnugrís og flytja inn svínakjöt til að uppfylla áætlaða eftirspurn. Fram kom í máli Steinþórs Skúlasonar á aðalfundi SS að innflutningur fyrirtækisins á svínakjöti árið 2023 hafi verið um 8% af heildarinnflutningi ársins í svínakjöti og sagði að fyrirtækið gripi til innflutnings til að glata ekki niður markaðshlutdeild í vörum sínum úr svínakjöti.
„Ef við hefðum tök á að byggja uppeldishús þá gætum við alið alla okkar grísi. Ekki nóg með það. Þá gæti SS eingöngu tekið grísi frá okkur því þá værum við að svara mest allri eftirspurn eftir svínakjöti hjá afurðastöðinni. SS þyrfti þá ekki að flytja inn svínakjöt,“ segir hún.
SS sér ekki hag í að sérmerkja Korngrís
Petrína hefur í mörg ár reynt að fá SS til að merkja svínakjöt frá Laxárdal með vörumerki þeirra, Korngrís frá Laxárdal, en ekki haft erindi sem erfiði.
Petrína segir forsvarsmenn SS setja fyrir sig flækjustig í vinnslunni. „Ég hef boðið þeim að taka upp merkið okkar en þeir sýna því lítinn áhuga, því miður. Þar sem við erum einu föstu innleggjendur svína í SS ætti að vera hægt að aðgreina þetta kjöt. Það yrði þó mun auðveldara ef tekst að byggja eldishús og öll framleiðslan færi í SS.“
Hingað til hafi hins vegar fengist þau svör frá SS að ekki væri markaður fyrir sérmerktar vörur frá Korngrís. Þessu er Petrína afar ósammála.
Árið 2011 hafi SS einu sinni prófað að fara með sérmerktar vörur frá Korngrís í kynningu í einni búð í Reykjavík. Fjölskyldumeðlimur þeirra hafi farið í búðina og athugað umgjörð kynningarinnar, spurt um vörurnar en fengið lítil svör. „Það vantaði allan rammann í kringum þessa kynningu, þeir sem stóðu þarna vissu ekkert um sérstöðu hennar og eftirfylgnin var engin,“ segir hún.
Kynningin hafi því ekki skilað neinum árangri en forsvarsmenn SS noti þetta dæmi sem ástæðu þess að fyrirtækið sjái ekki ástæðu til að sérmerkja svínakjöt frá Laxárdal.
„En það hefur svo margt breyst síðan þá og neytendur orðnir miklu meðvitaðri og kallað eftir betri upprunamerkingum. Neytendur vilja vita hvaðan maturinn þeirra kemur, hvort sem það er íslensk vara eða erlend. Það vantar bara viljann,“ segir Petrína.
Nú ætlar hún að nýta hlutverk sitt í stjórn Bændasamtakanna til að beita sér sérstaklega fyrir betri merkingum. „Mér þætti eðlilegt að framleiðendur myndu einfaldlega setja fána upprunalands á pakkningar hverrar vöru. Allir geta lesið fána, einnig ung börn og fólk sem sér illa.“
Hún segir að matvælafyrirtæki nýti sér gloppur í merkingarreglugerðum til að blekkja neytendur og vill að stóru afurðastöðvarnar svari kalli neytenda, taki frumkvæði í innleiðingu á upprunamerkingunni Íslenskt staðfest, bændum til hagsbóta.
Svínabúskapur er skemmtilegur
Ung Petrína hefur vart gert sér í hugarlund að hún yrði svínabóndi en lífið er ljúft í Laxárdal.
„Mér finnst allt ánægjulegt við búskapinn. Þetta er fóðurframleiðsla, mikil kjötframleiðsla og góðar vinnuaðstæður. Í vondum veðrum er til dæmis gott að vera svínabóndi.
Mér finnst allt ánægjulegt í svínahúsinu. Þetta eru þægileg og skemmtileg dýr sem gaman er að sinna. Við höfum getað tekið börnin með okkur í húsin á öllum aldri því við getum treyst svínunum. Það skiptir eiginlega engu máli hver verkefnin eru.
Svínabúskapur er eiginlega skemmtilegur frá A til Ö.“
5 hlutir sem Petrína getur ekki verið án:
1. Bíllinn:
„Því hér er svo langt á milli staða.“
2. Síminn:
„Allar pantanir koma í símann og allar pantanir sem fara frá mér mynda ég og geri reikninga út frá því. Síminn er aðalatriðið.“
3. Þvottavél:
„Ég dáist af formæðrum okkar sem þvoðu allt í höndum. Ég hugsa það oft þegar ég set í vélina.“
4. Björgvin.
„Lífið væri einmanalegt án hans. Hann veit allt og gerir allt sem ég get ekki.“
5. Traktorinn.
„Grunnurinn að öllu sem við kemur búskapnum. Án hans væri ekkert fóður á heimilinu, hvorki fyrir dýr né menn.“