Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
„Ég hef botnlausan áhuga fyrir dýrum og umhverfinu,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir sem stefnir að því að taka við rekstri Egilsstaðabúsins af foreldrum sínum.
„Ég hef botnlausan áhuga fyrir dýrum og umhverfinu,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir sem stefnir að því að taka við rekstri Egilsstaðabúsins af foreldrum sínum.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 6. janúar 2015

Langaði alltaf að koma heim og taka við búinu

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
 „Við horfum til framtíðar og höfum hugmyndir um að stækka búið, hefja framkvæmdir við að bæta aðstöðu, m.a. fyrir geldkýr og hugsanlega bæta við mjaltaþjóni síðar. Það eru endalaust einhver verk að vinna, eitthvað spennandi fram undan og ég hef mjög gaman af því,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, sem er nú þátttakandi í rekstri Egilsstaðabúsins með foreldrum sínum, Gunnari Jónssyni og Vigdísi Sveinbjörnsdóttur. 
 
Við hlið hennar er unnustinn, Sigbjörn Þór Birgisson. Þau stefna að því að taka við rekstrinum með tíð og tíma, en bræðrum hennar tveimur, Kára Sveinbirni og Baldri Gauta, stendur einnig til boða að koma inn í reksturinn hafi þeir vilja til. Herdís Magna er 27 ára gömul og af þriðju kynslóð Egilsstaðabænda.
 
Foreldrar hennar, Gunnar og Vigdís, hafa rekið Egilsstaðabúið um árabil en eru nú smám saman að draga sig í hlé. Þau búa þar áfram og leggja hönd á plóg, en Vigdís hefur rekið vinsælt kaffihús, Fjóshornið, á svæðinu.  Þar er líka verslun með vörur og veitingar sem framleiddar eru úr afurðum búsins, m.a. mjólkurvörum og nautakjöti. Föðurafi Herdísar, Jón Egill Sveinsson, fyrrverandi bóndi á Egilsstaðabúinu, lætur heldur sitt ekki eftir liggja þótt kominn sé yfir nírætt. „Hann er ótrúlega sprækur og sér oftast nær um að gefa nautunum. Það er gott að eiga hann að,“ segir Herdís.
Prófaði eitt og annað fyrst
 
Herdís Magna ólst upp á Egilsstaðabúinu en hélt 16 ára gömul til náms við Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hún lauk stúdentsprófi. „Ég var svolítið áttavillt eftir stúdentsprófið og reyndi fyrir mér á ýmsum stöðum, en innst inni vildi ég líklega alltaf verða bóndi,“ segir hún. Fyrst lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem viðskiptafræði varð fyrir valinu.  „Ég þraukaði þar einn vetur, en vissi allan tímann að þetta var ekki mín hilla í lífinu, ég myndi aldrei endast til að sitja inni á skrifstofu og rýna í tölur alla daga.  En það er auðvitað ágætt að hafa fengið smá innsýn í bókhald og þess háttar, það kemur að gagni þegar verið er að reka stórt kúabú,“ segir Herdís.  Næst hélt hún heim að Hólum þar sem hún nam einn vetur í hestafræðideildinni við Háskólann á Hólum en hélt náminu áfram á Hvanneyri og lauk prófi í hestafræðum sem áðurnefndir skólar bjóða upp á í sameiningu. Samhliða lauk hún BS-prófi í búvísindum.
 
Líkar hvergi betur en innan um skepnurnar
 
„Mig langaði alltaf að koma aftur heim og taka við búinu. Sá draumur hefur nú ræst og ég er ánægð með það. Mér líkar afskaplega vel að vinna hér, vera innan um skepnurnar og vasast í bústörfum allan daginn.  Ég hef botnlausan áhuga fyrir dýrum og umhverfinu. Þetta eru fjölbreytt og skemmtileg störf og þó svo að sinna þurfi sömu og föstu störfunum daglega kemur líka alltaf eitthvað nýtt upp á hverjum degi sem bregðast þarf við og leysa,“ segir Herdís en hún flutti heim alkomin vorið 2012.  Byrjaði þá sem fjósastýra hjá foreldrum sínum, en hefur á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru smám saman verið að koma sér inn í málin.  
 
Lært ótrúlega margt á skömmum tíma
 
Þau Herdís og Sigbjörn hafa smám saman verið að koma sér fyrir og reka búið fyrsta kastið í félagi við foreldra hennar. „Það er mjög gott að hafa fólkið sitt innan seilingar, það er gott að geta flett upp í pabba, hann býr að mikilli reynslu og er naskur á skepnurnar. En þetta kemur allt saman smátt og smátt, það tekur tíma að komast inn í allt sem viðkemur búskapnum á svo stóru búi. Ég held ég sé vel liðtæk á flestum sviðum, þarf kannski aðeins meiri æfingu á vissum vélum en það kemur allt saman,“ segir Herdís.  „Í raun má samt segja að ég hafi lært ótrúlega margt á þeim tíma sem liðinn er frá því ég kom heim á ný og fór að starfa hérna.“
 
Gríðarlegt áfall að fá barkabólgu inn á búið
 
Egilsstaðabúið er stórt, um 70 mjólkandi árskýr og framleiðslurétturinn er um 390 þúsund lítrar á ári. Það var ábúendum mikið áfall þegar skæður vírus, IRS-vírus  (Infectious Bovine Rhinotracheitis / Infectious Pustular Vulvovaginitis (IBR/IPV), eða barkabólga, greindist þar fyrir um tveimur árum
 „Það var gríðarlega sársaukafullt að neyðast til að farga fjölda kúa í kjölfar þess að smitið kom upp. Við höfum lagt mikið upp úr ræktunarstarfi og bústofninn samanstóð af afbragðsgóðum mjólkurkúm. Því miður var ekki um annað að ræða en lóga hluta þeirra, margar af okkar bestu mjólkurkúm féllu í valinn og það var sárt að horfa á eftir þeim. Þar fór mikið ræktunarstarf í súginn sem er grátlegt. Verst var þó að aldrei hefur fundist skýring á því hvers vegna þessi vírus kom upp hér á búinu. Það er eiginlega alveg óþolandi, en fjöldinn allur af rannsóknum var gerður án þess að niðurstaða fengist,“ segir Herdís.  
Og bætir við að menn hefðu í gríni bent á að Gunnar faðir hennar væri kappsamur talsmaður þess að flytja inn norskt erfðaefni til að bæta íslenska kynstofninn og þetta hefði verið fyrsta skrefið í þá átt.  „Þetta var nú sagt í kaldhæðni,“ segir hún. „Ég vona að skýring fáist á þessu einhvern tíma, það er mjög óþægileg tilhugsun að vita ekki neitt hvernig þessi vírus hefur borist hingað inn.“
 
Höldum ræktunarstarfi ótrauð áfram
 
Í kjölfar þess að Egilsstaðabændur þurftu að lóga hluta af skepnum sínum dróst framleiðslan saman.  Hún er nú, tveimur árum eftir að veiran kom upp, um 350 þúsund lítrar á ári. „Við stefnum að því að ná innan tíðar upp fullum dampi í framleiðslunni og að því kemur,“ segir Herdís. Þau hafa undanfarin misseri keypt kálfafullar kvígur, m.a. úr Eyjafirði, auk þess að halda eigin ræktunarstarfi áfram.
 
 „Við héldum í allar þær kýr sem möguleiki var á og munum ótrauð halda áfram því ræktunarstarfi sem hér fór fram. Ég er bjartsýn á að við munum vinna okkur út úr þessu áfalli, en auðvitað var mikil eftirsjá af þeim góðu skepnum sem við urðum að farga. Því er ekki að neita.“
 
Markaðurinn kallar á meiri mjólk og nautakjöt
 
Egilsstaðabúið er fyrst og fremst mjólkurframleiðandi og svo verður áfram, en að auki er á búinu framleitt umtalsvert magn af nautakjöti. Herdís segir að markaðurinn kalli eftir bæði meiri mjólk og meira nautakjöti og við því kalli verði bændur að bregðast. „Það eru tækifæri fyrir hendi fyrir bændur að bregðast við og svara kalli markaðarins og við hér á Egilsstaðabúinu munum leggja okkar af mörkum. Það er mjög spennandi tími í íslenskum landbúnaði um þessar mundir, auðvitað er mjög gaman að starfa í grein þar sem eftirspurn eftir þeim afurðum sem við framleiðum er vaxandi,“ segir Herdís.  
Hún nefnir reyndar að verð fyrir nautakjöt sé ekki gott og það sé alls ekki hvetjandi. „Verðið skilar sér að minnsta kosti ekki til bændanna,“ segir hún. Á búinu á Egilsstöðum hafa líkt og á öðrum búum um landið verið unnið að framkvæmdum af ýmsu tagi.  Húsakostur á bænum er með ágætum, m.a. er fjósið nokkuð nýlegt. „Hér hefur verið leitast við að gæta hagsýni í framkvæmdum og forðast af fremsta megni að setja búið ekki í of miklar skuldir.“
 
Ósanngjörn pressa
 
Hún nefnir einnig þá pressu sem neytendur gjarnan setji á bændur, sem er sú að þeir vilja ódýra gæðavöru. „Það gengur auðvitað ekki upp að krefjast þess að fá t.d. lífrænt ræktaða gæðavöru sem ekki má kosta neitt, í því er ákveðin þversögn. Vilji menn fá vöru í miklum gæðum  verða þeir að vera tilbúnir að greiða fyrir hana rétt verð, það væri eitthvað bogið við það ef hægt væri að bjóða  vörur með miklum gæðum sem kostuðu sama og ekki neitt.  Neytendur gera miklar kröfur um gæði landbúnaðarvara, m.a. hafa flestir skoðanir á aðbúnaði dýra og fleiru sem tengist framleiðslunni.  Ég tel þessar kröfur vera af hinu góða og er sannfærð um að flestir bændir vilji framleiða góðar vörur á skilvirkan hátt með velferð dýranna að leiðarljósi. En neytendur þurfa að mínu mati líka að leiða hugann að því hvaða vinna og kostnaður liggur á bak við góða vöru,“ segir Herdís.

21 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt