Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hjónin Helga Guðný Kristjánsdóttir og Björn Birkisson, bændur í Botni í Súgandafirði, hafa í nógu að snúast alla daga við bústörf, verktakavinnu og margvísleg félagsstörf.
Hjónin Helga Guðný Kristjánsdóttir og Björn Birkisson, bændur í Botni í Súgandafirði, hafa í nógu að snúast alla daga við bústörf, verktakavinnu og margvísleg félagsstörf.
Mynd / HKr.
Viðtal 17. desember 2014

Með allar klær úti til að afla fjár fyrir búið og bankakerfið

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Hjónin Björn Birkisson og Helga Guðný Kristjánsdóttir, bændur í Botni í Súgandafirði, hafa sannarlega í mörg horn að líta í sínu daglega amstri. Þau segja að mest af þeirra tíma fari í að vinna fyrir bankana og eru því með mörg járn í eldinum til að framfleyta sér og sínum auk vinnu við sitt kúa- og sauðfjárbú.

Þegar Bændablaðið tók hús á þeim hjónum í snjóleysi, logni og 7 stiga hita þann 22. nóvember var frúin nýkomin heim úr vinnu í Húsasmiðjunni á Ísafirði. Deginum áður voru þau á námskeiði á vegum Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins (RML) um flest það er viðkemur sauðfjárrækt og fóru svo á hrútafund sama kvöld.

„Það var bara að drífa sig heim af námskeiðinu. Björn hentist út og gaf skepnunum eitthvað af heyi. Svo sagðist hann bara bíða með að gefa kálfunum þar til þau kæmu heim eftir hrútafundinn um kvöldið,“ sagði Helga Guðný, eiturhress að vanda. Þá hefði hún boðið þeim sem voru með námskeiðið í mat milli námskeiðs og fundar.

Þrátt fyrir miklar annir tóku þau kát og hress á móti blaðasnáp úr borginni með engum fyrirvara. Í spjalli við þau kom greinilega í ljós að þau þurfa sannarlega aldrei að láta sér leiðast, því verkefnin eru ærin við að halda búskapnum í Botni gangandi fyrir utan allt annað sem þarf að sinna.

Svavar Birkisson, bróðir Björns og meðeigandi að búinu, var að dreifa skít á túnin þegar tíðindamann Bændablaðsins bar að garði. Birkir faðir þeirra hefur vökul augu með fjósinu og tryggir kvölds og morgna að kýrnar skili sér í mjaltaþjóninn. Allt er þar skilmerkilega skráð í tölvustýrðu kerfi.

Þá hjálpar Hólmfríður María, yngsta barn Björns og Helgu Guðnýjar, til við bústörfin þegar ekki er mikið að gera í skólanum. Hin þrjú eru flutt að heiman. Tvö  þau  elstu, Fanný Margrét og Sindri Gunnar, búa með fjölskyldum sínum á Ísafirði en sú næstyngsta, Aldís Þórunn, býr á Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi. Þá eiga þau þrjú barnabörn.

Fjölhæfar manneskjur

Helga Guðný er frá Bakkárholti í Ölfusi. Hún er menntaður búfræðingur eins og Björn sem er með BS í búfræði. Helga er líka menntuð í hússtjórnarfræðum og er garðyrkjufræðingur að auki. Reyndar segist hún alltaf hafa ætlað gerast sjúkraliði, en af því verður líklega ekki, en tvær dætranna eru sjúkraliðar. Þá er hún vel liðtækur hagyrðingur og hefur tekið þátt í fjölda hagyrðingamóta. Auk fjölmargra aukastarfa og félagsmálavafsturs, var hún formaður Súgandafjarðardeildar Rauða kross Íslands, þar sem eiginmaðurinn Björn var einnig gjaldkeri. Helga hefur líka verið í fulltrúaráði Hollvinafélags Landbúnaðarháskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Björn var líka um árabil í skólanefnd bændaskólans eða nánast frá því að hann útskrifaðist úr búvísindadeild og þar til stjórnskipuninni þar var breytt. Þau hjón kynntust á Hvanneyri þegar Helga Guðný var þar í búfræðinámi og Björn starfaði þá hjá bútæknideild Rala.

Hjónin hafa nokkrum sinnum komist í fréttir, m.a. árið 2003, þegar fjósið var stækkað og breytt úr hefðbundnu básafjósi í lausagöngufjós með mjaltaþjóni. Á sama tíma voru hafnar framkvæmdir við fjós á bæjunum Vöðlum og á Hóli í Önundarfirði í viðleitni bænda á svæðinu við að tryggja Mjólkursamlaginu á Ísafirði næga mjólk til vinnslu. Þrátt fyrir það var mjólkurstöðin lögð niður eins og frægt varð.

Árið 2012 komst Björn í fréttir fyrir að hleypa ekki kúnum sínum út á vorin sem talið var brýnt af dýravelferðarástæðum. Björn færði gagnrök fyrir sínu máli. Gagnrýndi hann hugmyndafræðina á bak við þetta, en var samt af hálfu MAST gert að borga sekt vegna málsins. Eigi að síður vann Björn málaferli vegna þess og losnaði við sektargreiðslur og allan málskostnað.

Ótrúleg viðbrögð

Í júní á þessu ári var frétt af þeim hjónum í Bændablaðinu vegna myndar af túnunum í Botni sem komu hörmulega undan síðasta vetri og voru sem eitt drulluflag. Þau segja að það hafa samt bjargast og furðu mikil hey hafi náðst af þessum túnum í sumar, auk þess sem þau séu með tún í öðrum fjörðum líka og hafi því ekki þurft að örvænta. Þau sögðust þó hafa undrast mest eftir þá frétt, hvað þau ættu í raun marga vini og hvað Íslendingar væru upp til hópa hjálpsamir og góðir. Fjöldi bænda víða að hafi hringt út af fréttinni og boðið þeim hey og aðstoð. 

Með allar klær úti í fjáröflun fyrir búið og bankakerfið

„Búskapurinn gengur vel en aðal baslið hjá okkur er peningastríðið,“ segir Björn. „Við fengum engar niðurfellingar, ekki upp á svo mikið sem fimmaur, nema á erlendu lánunum.“
Voruð þið mjög skuldsett þegar efnahagslífið fór á hliðina 2008?

„Já, já, við vorum með mikið á verðtryggðum lánum, en mjög lítið í erlendum gjaldeyrislánum sem reyndust okkur þó skástu lánin.

Verðtryggingin er eitt en svimandi háir vextir eru ekkert skárri. Þeir ruku úr milli fimm og sex prósentum allt upp í 13,25 prósent ofan á 100% verðtryggingu. Á þessu hefur ekki fengist nein leiðrétting, svo ég þarf ekkert að þakka fyrir niðurfellingar, hvorki ríkinu né fjármálafyrirtækjum.

Bankarnir miða alla innheimtu þessara lána við veðhæfni viðkomandi. Ef maður á veð, þá sleppa þeir engu. Ef menn hafa ekki næg veð, þá neyðast þeir til að gefa eftir til að innheimta það sem mögulegt er. Svo er bara hert að snörunni eins og hægt er án þess þó að maður drepist alveg.“
Þurfti því að setja Helgu „á beit“ utan búsins

„Þeir reikna út á hverju maður á að geta tórt, sem er hjá okkur samanlagt um 247 þúsund krónur á mánuði. Þetta er upp á náð og miskunn, því við áttum að láta okkur nægja 196 þúsund krónur okkur til framfæris. Við fengum aðeins meira  þar sem við erum með krakka í skóla og þurfum að reka bíl.

Þegar við spurðum hvernig við ættum að geta lifað á þessu, ranghvolfdu þeir bara augunum, horfðu upp í loftið og skömmuðust sín greinilega ekki neitt.  Umboðsmaður skuldara sagði að þetta væri nóg og bankinn gat notað rök þessa opinbera apparats gegn okkur og vísað á þau án þess að skammast sín. Ég þurfti því að halda Helgu áfram „á beit“ utan búsins.“

Þar á Björn við að Helga Guðný ekur m.a. til Ísafjarðar í vinnu hjá Húsasmiðjunni til að reyna að afla tekna fyrir salti í grautinn.

Líka í verktakavinnu við skúringar og hausaþurrkun

„Það dugar þó ekki til,“ segir Helga. „Ég er líka í verktakavinnu á Suðureyri við að þrífa  gistirými. Þangað koma aðallega Þjóðverjar sem leigja sér bát í sjóstangaveiði en bara yfir sumarið, svo sú vinna er búin þetta árið fyrir mig.“

Björn bendir á að þar sem allur þeirra rekstur sé  á kennitölu búsins, þá renni launin sem Helga vinnur sér inn utan búsins líka þar inn. Bankinn taki því sinn skerf af hennar launum líka með því að reikna þau inn í greiðslugetuna af búinu.

„Svo erum við Svavar einnig í verktakavinnu við að þurrka hausa fyrir Klofning á Suðureyri,“ segir Björn.

„Við höfum verið að taka allt upp í 300 tonn sem við þurrkum fyrir þá í hjalli á Kaldá í Önundarfirði. Tekjurnar af því renna einnig til búsins og bankinn þrautmjólkar  það líka. Það er alveg sama hvað við höfum reynt til að afla okkur aukatekna, það er allt saman hirt af okkur.
Nú erum við engir unglingar lengur og höfum ekki sömu orku og þegar við byrjuðum.

Þegar við ákváðum að fara út í búrekstur, þá reiknuðum við dæmið þannig að við gætum gert þetta með því að vera með einn vinnumann á launum. Í stað þess að það yrði raunin, þá vinnum við jöfnum höndum utan búsins í margfaldri vinnu til að reyna að skrimta. Það er gengið út frá því að við þurfum að halda því áfram næstu árin að minnsta kosti.“

Þurfum ekki að borga fyrir líkamsrækt á meðan

Helga segir brosandi að það séu líka bjartar hliðar á vinnunni við hausaþurrkunina þar sem hún hefur verið virkur þátttakandi.

„Fiskurinn er í körum og ég er stundum að vinna við að rífa þá upp og rétta strákunum hausa sem hengdir eru upp til þurrkunar. Við erum kannski að rífa upp um sjö og hálft tonn á tveim tímum og þá þarf maður allavega ekki að borga fyrir líkamsrækt á meðan,“ segir hún hlæjandi.

Þrátt fyrir allt þetta virðast hjónin aldrei vera í vandræðum með að finna örlítinn tíma í viðbót til að sinna beiðnum um að taka þátt í hinum og þessum viðburðum.

Með Lely-mjaltaþjón númer ellefu

Í Botni er róbótafjós og er Lely-mjaltaþjónninn ellefti í röðinni sem settur var upp hér á landi. Björn segir mjaltaþjóninn hafa virkað vel þó það kosti sitt að reka hann. Á móti komi að kýrnar fái fleiri mjaltir, eða hátt í þrjár í staðinn fyrir tvær á sólarhring, sem skili um 10–15% meiri mjólk.

Miðað er við að vera að jafnaði með 65 mjólkandi kýr, en það rokkar aðeins eins og gengur. Voru þær um 54 þessa stundina, enda nýbúið að senda í sláturhús auk þess sem nokkrar kvígur voru að bera og þar af ein meðan samtalið stóð yfir. Stöðug endurnýjun er því í mjólkurkúastofninum á bænum.

Mjaltaþjónninn Lely er í símanum

Í miðri umræðunni um mjaltaþjóninn, hringdi síminn og þar var mjaltaþjónninn Lely að tilkynna bónda um einhverja truflun í kerfinu. Helga hljóp út í fjós með það sama og kom að vörmu spori inn aftur og tilkynnti að þetta hafi líklega verið móða á „lasernum“. – Svona er tæknin í dag.

Þrátt fyrir stöðugar tækniframfarir og að erlendis sé farið að nota fjarstýrðar dráttarvélar, þá er Björn ekki bjartsýnn á að slík tæki komi á næstunni á vestfirsku túnin. Þar sé undirlendið lítið og tún yfirleitt í mjög fjölbreyttu og hallandi landslagi sem henti trúlega illa fyrir slíka sjálfvirkni. Sjálfvirknin sé þó smám saman að koma inn í ýmsan aukabúnað á dráttarvélarnar.

Tvö hundruð nautgripir

„Í það heila erum við yfirleitt með um 200 nautgripi og þar af í kringum 70 naut í uppeldi fyrir kjötframleiðslu,“ segir Helga. „Þegar nautin eru búin á mjólk, orðin svona þriggja mánaða gömul og farin að éta vel hey, flytjum við þau yfir í Breiðadal, þar sem við byggðum upp aðstöðu í gömlu fjárhúsunum. Þar er allt í stáli og steypu, enda verður þetta að vera sæmilega sterkt  til að þola ágang þessara gaura. Þetta endurnýjuðum við fyrir nokkrum árum.“

Björn segir að fjölskyldan sinni umhirðu nautanna í Breiðadal sjálf og sjái Svavar mest um það þessa stundina, enda auðvelt að komast þangað í gegnum Vestfjarðagöngin sem eru rétt ofan við Botn.
„Ef það er kafsnjór, snarvitlaust veður, ekki hægt að moka og við komumst ekki, þá kemst Bjössi í Breiðadal [Björn Drengsson] hvort sem er ekkert heldur og situr fastur heima. Þá hleypur hann í húsin og sinnir fyrir okkur gripunum. Þannig verður hans vandi okkur til góðs.“

Endurbætur á döfinni

„Nú er fyrir dyrum að taka gamla fjósið hér á bænum í gegn og koma þar upp betri aðstöðu fyrir kálfauppeldi og kvígur.

Annars erum við alltaf með eitt naut hér hjá okkur. Við samstillum kvígurnar hjá okkur og svo eru þær sæddar. Ef það líður eitthvað fram yfir eðlilegan tíma, þá notum við nautið til að tryggja okkur. Annars notum við nautið ekki.“

Fyrir utan kúabúskapinn er búið svo með um 300 fjár, sem auðvitað kostar töluverða vinnu til viðbótar. 

Fjögur íbúðarhús í Botni og Birkihlíð
  
Búið í Botni/Birkihlíð er rekið af hjónunum Birni og Helgu Guðnýju og Svavari, yngsta bróður Björns sem býr þar ásamt sambýliskonu sinni, Svölu Sigríði Jónsdóttur, og tveimur sonum. Þau búa í Birkihlíð 1 sem er á sömu bæjartorfunni, rétt ofan við íbúðarhús þeirra Björns og Helgu. Þarna eru samtals þrjú íbúðarhús, Botn, Birkihlíð 1 og Birkihlíð 2 þar sem foreldrar þeirra bræðra, Birkir Friðbertsson og Guðrún Fanný Björnsdóttir, búa og svo er sumarbústaður í ,Botni sem tilheyrir öðrum jarðarparti. Birkir er athafnamaður og mikill áhugamaður um virkjun vatnsorku. Hann hafði m.a. frumkvæði að byggingu á 550 kílówatta virkjun sem nýtir nú vatn úr Botnsá og Þverá í Botnsdal. Um þá framkvæmd var stofnað sérstakt einkahlutafélag, Dalsorka ehf., með þátttöku fleiri aðila.  Úr þeirri virkjun er selt rafmagn inn á dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Önnur vatnsvirkjun, heimarafstöð, sér svo búinu fyrir rafmagni og er búið ótengt við veiturafmagn enn sem komið er. Íbúðarhúsið í Botni er kynt með fjölnýtikatli og er brennt timbri á veturna nægi rafmagnið ekki.

Um langan veg að fara með gripi í slátrun

Það er býsna langt að senda sauðfé og nautgripi í sláturhús, en langt er síðan slátrun lagðist af  t.d. á Ísafirði og á Þingeyri og síðar Hólmavík. Björn segir að sauðféð frá þeim sé nú sent til slátrunar á Sauðárkrók, en nautgripir á Blönduós.

„Ástæðan fyrir að við sendum fé á Sauðárkrók er að þegar sláturhúsið á Hólmavík hætti var erfitt að fá vilyrði fyrir slátrun í húsum sem þar komu næst, Hvammstanga og á Blönduósi. Við gátum auðvitað ekki beðið eftir að fá kannski slátrun og kannski ekki. Þá sendi sláturhúsið á Króknum menn hingað vestur og sögðust þeir vera tilbúnir að taka við öllu fé til slátrunar strax. Síðan höfum við haldið okkur við að láta slátra fénu þar þar sem þeir voru tilbúnir að hjálpa okkur þegar við þurftum á því að halda og höfðu frumkvæði að því, sem hinir gerðu ekki.

Síðan höfum við verið á nokkrum flækingi  með slátrun nautgripanna og margt spilað þar inn í. Við fórum með þá í Króksfjarðarnes, á Sauðárkrók, á Hvammstanga og prófuðum síðan að fara með þá til  B. Jensen á Akureyri þegar illa gekk að fá slátrun á Hvammstanga, en það reyndist allt of kostnaðarsamt. Nú förum við með gripina til SAH Blönduósi þar sem við höfum fengið mjög góða þjónustu.  Helsti vandinn, ef svo má kalla, er að það þarf að safna upp í sendingar til að ná niður flutningskostnaðinum,“ segir Björn bóndi í Botni.

 

Botn í Botnsdal

Bærinn Botn er í Botnsdal, sem gengur inn úr Súgandafirði og ofan hans er Botnsheiði, sem var ekin áður en göngin voru grafin til Ísafjarðar og Önundarfjarðar.  Dalurinn er vel gróinn, engjar, birki og burkni. 
Súgandafjarðar er fyrst getið í Landnámu en það var Hallvarður Súgandi sem nam fjörðinn. Hann hafði barist við Harald konung hárfagra í Hafursfjarðarorrustu en hélt síðan til Íslands og nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga.

Í Súgandafirði er að finna merkilegar menjar um forsögu gróðurfars á Íslandi. Í hlíðinni ofan við bæinn í Botni er surtarbrandsnáma sem nýtt var í báðum heimsstyrjöldunum. Göngin sem eftir standa eru u.þ.b. 100 metra löng og full af vatni. Nú eru þau notuð sem uppistöðulón fyrir heimarafstöðina í Botni. 
Var surtarbrandur reyndar unninn á nokkrum stöðum á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar, þ.e. í Botni í Súgandafirði, í Syðridal í Bolungarvík, í Stálfjalli við Rauðasand sem nýtt var á árunum 1916–1918, á Tungubökkum á Tjörnesi og Jökulbotnum í Reyðarfirði. Víðar er surtarbrand að finna eins og í Stigahlíð og Grænuhlíð við Ísafjarðardjúp.

Elstu íslensku gróðurfélögin sem fundist hafa í jarðlögum eru talin rétt um 15 milljóna ára gömul. Hafa þau fundist í setlögum í Þórishlíðarfjalli í Selárdal í Arnarfirði og fyrir ofan Botn í Súgandafirði. Mest ber á lauftrjám í Selárdal, einkum arnarbeyki (Fagus friedrichii), en leifar barrtrjáa eru meira áberandi í Botni.
 

16 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt