Sóknaráætlanir sauðfjárbænda
Á undanförnum mánuðum hefur verið unnin ítarleg stefnumótunarvinna á vegum Markaðsráðs kindakjöts og Landssamtaka sauðfjárbænda. Afrakstur þeirra vinnu er til að mynda nýtt upprunamerki fyrir íslenskar sauðfjárafurðir og nýjar sóknaráætlanir fyrir markaði heima og ytra.
Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri LS og formaður Markaðsráðs kindakjöts, segir að mikil tækifæri séu til sóknar hér á landi, fyrir aukna sölu á íslensku lambakjöti til erlendra ferðamanna. „Vinna við sérstaka herferð til að ná til þessa hóps er í fullum gangi. Leitað var samstarfs við eina fremstu auglýsingastofu landsins um hönnun á einu upprunamerki fyrir allar íslenskar sauðfjárafurðir og leitað álits fremstu fagmanna, bæði íslenska og útlenda, um alla þætti í því ferli. Áhersla er lögð á sérstöðu íslensku sauðkindarinnar sem fylgt hefur þjóðinni allt frá upphafi Íslandsbyggðar. Á sumrin reikar féð frjálst á skilgreindum afréttum og til þess er vísað í slagorðinu Roaming Free. Þetta orðalag varð ofan á þegar það hafði verið borið undir sérfræðinga sem hafa ensku að móðurmáli og þykir lýsandi fyrir þær náttúrulegu búskaparaðferðir sem hér eru. Í því felst hins vegar engin afstaða til lausagöngu eða annarra álitaefna,“ segir Svavar, en nokkur styr hefur staðið um nýja merkið og óánægjuraddir heyrst – einkum frá fólki sem lætur sig landgræðslumál varða
„Hvað sem öllum slíkum álitaefnum líður þá er íslenska sauðfjárkynið einstakt og við getum verið stolt af því. Það var til dæmis mikið ánægjuefni þegar sauðfjárkynið okkar var valið í Bragðörk hinna virtu Slow Food samtaka – sem meðal annars var gert til styðja við erfðafræðilegan fjölbreytileika. Hið sama á við um þær náttúrulegu búskaparaðferðir sem hér tíðkast – þær eru einstakar. Þetta viljum við draga fram á raunsannan hátt þegar við kynnum íslenskar sauðfjárafurðir fyrir ferðamönnum,“ bætir Svavar við.
Grænn áherslupakki í samningum
Að sögn Svavars leiddi stefnumótunarvinnan líka af sér sérstakan grænan áherslupakka sem var lagður fram við upphaf samningaviðræðna við ríkið um nýjan sauðfjárræktarsamning. Í meira en áratug hefur verið í notkun svokallað gæðastýringarkerfi í sauðfjárrækt sem miðar meðal annars að því að tryggja siðlega búskaparhætti og sjálfbæra landnotkun. Nú eru um 93 prósent allrar dilkakjötsframleiðslu undir þessum hatti og stefnt að því að hið sama gildi um alla framleiðslu sem nýtur stuðnings samkvæmt nýjum samningi. Með öðrum orðum má segja að gæðastýringin með sínum sjálfbærniviðmiðum og siðlegu búskaparáttum verði hið algilda viðmið.“
Markaðsskrifstofa sauðfjárafurða verði stofnuð
Nýlega fékk Markaðsráð kindakjöts ráðgjafarfyrirtækið KOM til að leggja mat á þessa stefnumótun og koma með hugmyndir að því hvernig hægt væri að halda áfram í sókn á erlenda markaði. „Þetta skilaði sér í skýrslu um sóknarfæri í útflutningi á íslenskum sauðfjárafurðum,“ segir Svavar um niðurstöður þeirrar vinnu. „Þar kemur fram að mikil tækifæri séu fólgin í útflutningi á hágæða ferskum afurðum inn á kröfuharða erlenda markaði. Samkvæmt skýrslunni er aukið samstarf um kynningu og vörumerkjavæðingu lykillinn að aukinni verðmætasköpun. Það er ekki lagt til í skýrslunni að framleiðsla verði aukin – og það er heldur ekki stefna LS – heldur að auka þau verðmæti sem fást út úr því sem nú er framleitt. Aukin verðmætasköpun eigi að byggja á áherslu á uppruna, hreinleika, gæði og sérstöðu íslenskra sauðfjárafurða. Kom leggur til að komið verði á fót sérstakri markaðsskrifstofu þar sem bændur, sláturleyfishafa og aðrir hagsmunaaðilar eigi aðkomu. Hægt er að benda á fordæmi sölusamtaka í sjávarútvegi sem á sínum tíma skiptu sköpum fyrir markaðssetningu og þróun greinarinnar, sem einhvers konar fyrirmynd.“
Byggt á fyrra starfi
„Þetta er auðvitað ekki fyrsta skýrslan sem gefin er út um markaðsmöguleika lambakjötsins og fyrirhugað markaðsátak í útlöndum ekki það fyrsta sem menn hafa farið út í. En það verður hins vegar að hafa í huga að það hefur orðið árangur og áralöng þrautseigja Baldvins Jónssonar hefur skilað því að fjöldi íslenskra vara er nú til sölu í Whole Foods-verslununum í Bandaríkjunum og 2015 var metár í sölu á fersku lambakjöti þangað. Þeim hugmyndum sem uppi eru núna má kannski lýsa á einfaldan hátt sem útvíkkun og framhaldi á því starfi. Við erum fyrst og fremst núna að horfa til kröfuharðra markaða í Evrópu eins og til dæmis í Þýskalandi, Frakklandi og víðar. Öll teikn benda til þess að nú sé góður tími til að sækja inn á tilteknar markaðshillur þar sem áhugi á öllu sem er hreint, lífrænt eða upprunavottað eykst ár frá ári bæði vestan hafs og austan. Það sem kannski líka er nýtt núna er að sláturleyfishafar eru meira með í öllu þessu starfi en verið hefur og áhuginn mikill þar. Til viðbótar erum við svo líka að horfa á samtengingu á milli þess sem gert er gagnvart erlendum ferðamönnum hér og þess sem gera á heima hjá þeim í framhaldinu. Það er líka alger nýjung. En þetta er hins vegar langhlaup og því má ekki gleyma. En ef verðmætaaukning á lambakjöti á næstu 20 árum verður eitthvað svipuð og hún hefur verið í sjávarútveginum síðustu áratugi erum við að horfa á að minnsta kosti tvöföldun tekna. Þannig að það er til mikils að vinna,“ segir Svavar.
Skilyrði til útflutnings betri í dag
Svavar segir að í dag séu skilyrði til útflutnings á lambakjöti frábrugðnar því sem áður var. „Eitt af því sem við erum að glíma við er sú staðreynd að útflutningur á lambakjöti var lengi framan af til að tappa af birgðum hér heima. Slík nálgun býður auðvitað ekki upp á að byggð séu upp viðskiptasambönd til langframa. Nú eru liðnir rúmir tveir áratugir frá því hætt var að greiða sérstakar útflutningsbætur og málin hafa smám saman verið að færast í nútímalegra horf, eins og dæmi um markaði í Bandaríkjunum, á Spáni og víðar sýna. Við höfum í einstaka tilvikum fengið mjög gott verð í viðskiptum á erlendum mörkuðum, en það þarf að fjölga þessum dæmum til muna. Vörur sem seldar eru sérstaklega sem íslenskar skila okkur meiru og eins skilar ferskt kjöt almennt meiru en frosið. Þarna eigum við sóknarfæri eins og skýrsla KOM sýnir okkur fram á. Það þarf þó að vanda sig og byggja útflutning upp af skynsemi í samhljómi með náttúru og samfélagi á grundvelli siðrænna búskaparhátta og sjálfbærni. Þar liggja okkar sóknarfæri og það mun skila sér í buddu bænda.“
Upprunamerking heim á bæi
„Merkið sem við erum að vinna með gagnvart ferðamönnum snýst eingöngu um að varan sé sannarlega íslensk sauðfjárafurð. Upprunamerking gagnvart innlendum neytendum og rekjanleiki er hins vegar aðeins annað mál,“ segir Svavar spurður um það hvort von sé á því að neytendur geti bráðlega séð á umbúðunum í verslunum á Íslandi frá hvaða bæ eða svæði viðkomandi kjöt er ættað. „Sauðfjárbændur eru hlynntir slíku, það fer ekkert á milli mála. Kerfið sem við búum við í dag virkar þannig að hvert einasta lamb fær í raun sína kennitölu sem fylgir henni alla leið í sláturhúsið, sem ekki er gert annars staðar. Þetta er í raun alveg stórmerkilegt, því hér virkar hvert einasta sauðfjárbú eins og ræktunarbú. En það vantar vissulega upp á að þessi rekjanleiki fylgi kjötinu alla leið til neytenda, svona almennt séð, þótt vissulega sé hægt að snúa sér til einstakra framleiðanda sem selja beint frá býli eða einstakra verslana sem merkja kjötið bæjarnafni eða bónda. Við höfum átt viðræður við sláturleyfishafa um að bæta þetta. Sauðfjárbændur eru stoltir af sínum vörum og myndu fagna því ef allt kjöt yrði rekjanlegt alla leið frá haga í maga.“
Greinin verði sjálfbær til framtíðar
Íslensk sauðfjárrækt er, að sögn Svavars, með því allra náttúrulegasta sem við þekkjum í húsdýrahaldi á Vesturlöndum. „Þannig viljum við hafa það og erum að vinna í því að greinin verði grein og sjálfbær til framtíðar.
Hluti af því eru þær grænu áherslur sem sauðfjárbændur lögðu á borðið við upphaf yfirstandandi samningaviðræðna um nýjan sauðfjárræktarsamning. Þessi græni pakki byggir á þeirri staðreynd að bændur eru vörslumenn landsins og vita að sjálfbær landnýting felur í sér að hver kynslóð skili landi af sér í jafn góðu eða betra ástandi en hún tók við því. Þetta er eitt af leiðarstefjum gæðastýringar í sauðfjárrækt. Nú er meginhluti dilkakjötsframleiðslunnar undir hatti gæðastýringar en sauðfjárbændur leggja meðal annars til að sjálfbærni í greininni verði treyst í sessi með því að styrkja gæðastýringuna og gera að algildu viðmiði. Það þýðir í raun að enginn fær fé frá hinu opinbera nema hann sé með hlutina í lagi. Þá hafa bændur lagt til við samningaborðið að gerð verði ítarleg heildarúttekt á beitarþoli Íslands í samvinnu við helstu fagaðila. Nauðsynlegt er að kortleggja og meta beitarþol auðlindarinnar, rétt eins og fiskistofna í hafinu eða orkuna í iðrum jarðar. Um leið verði komið á sívirku rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi á landi og áhrifum beitar. Þannig megi meta á vísindalegan hátt hvort land er í framför eða ekki og stýra beit af skynsemi.
Þá er kortlagning á kolefnisfótspori íslenskrar sauðfjárræktar líka innan seilingar og nýræktun á beitarskógum í undirbúningi. Þar er horft til jákvæðar reynslu af landgræðsluátakinu Bændur græða landið sem hefur gengið afskaplega vel í aldarfjórðung. Allt þetta og fleira til hafa sauðfjárbændur lagt á samningaborðið undir grænum formerkjum og fengið jákvæð viðbrögð. Hvergi er gert ráð fyrir því í þeim samningsdrögum sem nú eru rædd að fé verði fjölgað en hins vegar stefnt að því að auka verðmæti sauðfjárafurða. Gengið er út frá því að sóknarfæri sauðfjárræktar til framtíðar felist í því að leggja af heilindum áherslu á gæði, sjálfbærni og siðlega búskaparhætti. Fyrrnefnd skýrsla KOM rennir enn styrkari stoðum undir þá nálgun,“ segir Svavar.