Þar rækta menn afbrigði af stuttrófufé sem lifir nær eingöngu á þangi
Fjárbóndinn og verkfræðingurinn Sinclair Scott er einn þeirra fjölmörgu fyrirlesara sem hélt erindi á ráðstefnu sem haldin var á Blönduósi í síðustu viku. Var ráðstefnan haldin undir yfirskriftinni „North Atlantic Native Sheep and Wool Conference“. Sinclair kemur frá North Ronaldsay sem er nyrsta eyjan í Orkneyja-klasanum, norðaustur af Skotlandi.
Sinclair leit inn á ritstjórn Bændablaðsins áður en hann hélt norður á Blönduós og þótti við hæfi að fá hjá honum lítillega innsýn um lífið á „Norður-Ronaldseyju“. Eyjan er ekki ýkja stór, um 2,7 ferkílómetrar, eða um einum ferkílómetra stærri en Viðey en um helmingi minni en Grímsey.
Íbúar eyjarinnar eru um 70 talsins og þar er sérstakur forn fjárstofn af norður-evrópsku stuttrófukyni sem telur um 2.400 kindur. Stofninn finnst nú eingöngu á Norður-Ronaldseyju en slíkar kindur voru áður algengar um allar Orkneyjar og á Shetlandseyjum líka. Kindurnar þarna eru talsvert líkar íslensku sauðfé en heldur smávaxnari. Hafa þær þróast og aðlagast sérstökum aðstæðum á eyjunni. Eru þær aðallega ræktaðar vegna ullarinnar sem líka er unnin á eyjunni.
Heldur tryggð við eyjuna
Sinclair Scott fæddist 1937 og ólst upp á þessari litlu eyju, þar sem íbúarnir eiga sína eigin mállýsku sem ber enn keim af norrænum málum eftir veru víkinga á eyjunum. Hann segir að Englendingar og jafnvel Skotar skilji ekki alltaf hvað eyjarskeggjar eru að segja. Segir hann að norræni hljómurinn í þeirra mállýsku sé ekki ósvipaður og í íslensku. Reyndar sést þetta vel í nafni eyjarinnar, North Ronaldsay, sem á hreinni ensku væri væntanlega North Rolands island.
Sinclair lærði verkfræði og eftir herþjónustu starfaði hann einkum á Mið-Skotlandi og í Kanada. Hann sneri síðan aftur á heimaslóðirnar og hefur rekið lítið kot, Cruesbreck, á eyjunni frá 1969.
Sinclair sat sem fulltrúi eyjarinnar í stjórn Orkneyja (Orkney Islands‘s Council) í tvö kjörtímabil og var á sama tíma lykilmaður í margs konar samfélagsverkefnum. Þá var hann þungavigtarmaður við að setja á fót ullarverksmiðju í samfélaginu. Sú verksmiðja vinnur alla ull sem fellur til á eyjunni árlega og er henni stjórnað af Jane Donnelly, frænku Sinclair.
Kindur fá ekki að nýta gróðurinn á eyjunni
Á North Ronaldsay er hlaðinn steingarður í kringum nær allt ræktarland eyjunnar. Er kindunum haldið á litlu undirlendi utan garðsins og lifa þær að verulegu leyti á fjörubeit og þangi. Í gegnum tíðina hafa þær aðlagast mikilli fjörubeit, þannig að þeim verður ekki meint af þeirri efnasamsetningu sem í þaranum er sem íslenskar kindur myndu t.d. ekki þola í sama mæli.
Sinclair segir að um 1700 hafi búið á eyjunni um 200 manns. Þar sem jarðnæði var ekki mikið þurfti að nýta allt land sem hægt var undir nautgripi og annan bústofn og þá var ekki eftir neitt pláss fyrir sauðféð. Var því allt ræktarland girt af og mönnum vísað með féð niður í fjöru og á þá litlu grasbala sem þar voru. Það var því fátt annað fóður í boði fyrir sauðféð en þari.
Steinefnainnihald þarans er mjög ólíkt því sem er að finna í grasinu sem var á eyjunni. Grasið inniheldur kopar en þarinn ekki sem getur valdið vandamálum við fóðrun sauðfjár. Eins og menn þekkja á Íslandi þá myndi fé sem lifir mikið á þara fljótlega veikjast af koparskorti og fá það sem kallað er fjöruskjögur. Kindurnar á Norður-Ronaldseyju aðlöguðust þessu umhverfi þó á tiltölulega skömmum tíma og virðast nú lausar við þetta vandamál.
Hættar að þola grasbeit
„Þangið inniheldur mikið af steinefnum en skortir þó kopar. Ef við myndum beita fénu í dag á graslendi eyjunnar, þá myndi það hreinlega drepast af kopareitrun, þrátt fyrir að koparinnihald í grasinu sé ekki mjög mikið,“ segir Sinclair.
„Féð er orðið svo aðlagað fæðunni sem fæst í fjörunni sem er nær eingöngu þari. Ef við fóðruðum þær á blöndu af grasi og þara þá tæki það kindurnar væntanlega ekki nema nokkur ár að laga sig að grasinu á nýjan leik. Við höfum reynslu af slíkri aðlögun hjá fé sem var með gin- og klaufaveiki og var sent í einangrun til Englands.
Þegar komið er fram undir lok sumars er enga grasbeit að hafa fyrir kindurnar og þær lifa því nær eingöngu á þara. Þarinn er mestur á haustin og þá fitnar sauðféð mest. Úti fyrir ströndinni eru rif þar sem mikið vex af þara á sumrin. Þegar veður versnar slíta öldurnar upp þennan þara og hann berst á land þar sem kindurnar ná honum. Þær verða þó að sæta sjávarföllum því um sjö metra munur er á sjávarstöðu á milli flóðs og fjöru.
Aðeins eitt lamb fær að lifa undan hverri kind
Sinclair er sjálfur með um 100 kindur í samvinnu við bróður sinn. Hann segir að nú séu um 2.400 kindur á eyjunni, en fjörubeitin gæti alveg borið 3.500 fjár. Ærnar eru flestar tvílemdar við burð, sem venjulega fer fram í apríl, aðallega frá 15. apríl til loka mánaðarins. Til að tryggja að ærnar geti örugglega komið lömbum á legg við erfið lífsskilyrði, þá hefur skapast sú venja að drepa annað lambið við burð. Er það kallað „culling“ sem merkir eiginlega hvorutveggja að færa lömb frá við burð og drepa.
Ástæðan fyrir þessu er líka sú að á Norður-Ronaldseyju er lömbum ekki slátrað á haustin eins og þekkist á Íslandi, enda yrði fallþungi dilkanna vart meiri en 11 kg að sögn Sinclairs og í allra mesta lagi 15 kg. Lömbin eru því alin áfram og er kindunum þá ekki slátrað fyrr en þær eru fullvaxnar og orðnar um fimm ára gamlar. Þá er fallþungi þeirra um 22 til 23 kg.
Hrútarnir fá að lifa til hárrar elli
Sum hrútlömb sem látin eru lifa eru gelt undir lok fyrsta sumarsins og kallast þá „wethers“. Þeim er heldur ekki slátrað fyrr en um fimm ára aldur. Aðrir hrútar sem notaðir eru til að halda stofninum við fá að lifa allt þar til þeir drepast úr elli.
„Þá eru þeir kannski 14 til 15 ára gamlir. Þá fær náttúran einfaldlega að sjá um hræið. Venjulega tekur sjórinn þau eða hræin verða að fæðu fyrir urmul sjófugla sem eru á eyjunni auk refs,“ segir Sinclair.
Vandinn í nútímasamfélagi
Hann segir að líklega falli hvorki þetta, né dráp lambanna við fæðingu, undir ströngustu dýra- og náttúruverndarsjónarmið í dag. Þetta tilheyri þó hefðinni og svona hafi þetta verið alla tíð.
„Þetta er vandi okkar í nútímasamfélagi sem við erum vel meðvituð um, en erum ekki með á hreinu hvernig við eigum að bregðast við.“
Hann segir að samkvæmt breskum lögum eigi að grafa hræin og gera grein fyrir hvar þau séu niðurkomin.
„Það er svolítið snúið fyrir okkur að gera grein fyrir þessu. Svo við bendum bara á Norðursjóinn. Hingað til hefur það svar dugað.
Selir, máfar og að einhverju leyti refir eru líka vandamál fyrir okkur, ekki síður en sjórinn sem tekur alltaf einhverjar kindur. Svartbakurinn (black backs) eins og við köllum hann, er til mikilli vandræða. Þeir ráðast á lömbin og drepa þau og einnig ræðst fuglinn á fullorðið fé og kroppar úr því augun. Við verðum því að fara út í dagrenningu, eða um klukkan fimm á morgnana, og vakta féð á vorin svo máfurinn fari ekki í féð. Það eru líka stórir refir á eyjunni sem sækja í lömbin ef tækifæri gefst. Refirnir eru þó ekki mjög margir.“
Stundum getur verið vindasamt
Verðurfarið er eins og við má búast á láglendri eyju í miðjum Norðursjó. Þar getur orðið ansi hvasst, en húsin, sem flest eru hlaðin að hluta úr grjóti og með þykka veggi, standast slíkt ágætlega.
„Við förum þó ekki út fyrir dyr ef vindurinn fer yfir 80 mílur á klukkustund (um 146 km) – nema vera með eitthvað þungt í höndunum,“ segir Sinclair. Hann nefnir þó að stundum verði rokið jafnvel mun meira. Eitt sinn hafi orðið tilfinnanlegt tjón í slíku veðri þegar hænsnahús fuku á haf út með öllu sem í þeim var.
Vonast til að tölvutæknin snúi byggðaþróuninni við
Sinclair segir að líkt og í dreifðum byggðum á Íslandi þá eigi byggðin á Norður-Ronaldseyju undir högg að sækja. Unga fólkið fari yfirleitt í burtu til náms og komi þá ekki aftur. Hann segist þó vonast til að tölvutæknin geti snúið dæminu við þótt líkurnar séu ekki miklar. Nú sé ekki lengur þörf á að vera inni í borgunum til að stunda margvíslega vinnu eins og verkfræðistörf, því slíkt sé eins hægt að stunda frá afskekktum byggðum. Þar sé lífið líka að mörgu leyti einfaldara og heilbrigðara en í stórborgunum.