Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Hafberg hér á þrettán tonna valtaranum sínum. Hann kaupir öll sín tæki ný og Sara, dóttir hans, segir hann aldrei glaðari en þegar hann er að atast á gröfunni eða valtaranum, það sé hans jóga.
Hafberg hér á þrettán tonna valtaranum sínum. Hann kaupir öll sín tæki ný og Sara, dóttir hans, segir hann aldrei glaðari en þegar hann er að atast á gröfunni eða valtaranum, það sé hans jóga.
Mynd / sá
Viðtal 29. mars 2024

„Sókn er alltaf besta vörnin“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Garðyrkjustöðin Lambhagi verður ekki seld að svo stöddu og forsvarsmenn hennar hyggja á frekari uppbyggingu. Þau nota nú upprunamerkið Íslenskt staðfest, eru að byggja upp eigin moldarframleiðslu til að verða sjálfbær um jarðveg og velta fyrir sér hver verði framtíð garðyrkjustöðvar þeirra í Lundi í Mosfellsdal.

Hafberg Þórisson garðyrkjumaður stofnaði Lambhaga árið 1979 og rekur fyrirtækið með konu sinni, Hauði H. Stefánsdóttur markaðs- og mannauðsstjóra.

„Mér finnst gaman af þessu!“ segir Hafberg þar sem þau hjónin sitja í látlausri kaffistofu fyrirtækisins við Lambhagaveg í Reykjavík. Hann hafi heyrt um voða skyrbjúgsins frá Aðalsteini Símonarsyni, garðyrkjumanni á Laufskálum í Borgarfirði, og haft að hugsjón æ síðan að vinna á C-vítamínskorti landsmanna. „Ég fór til Noregs að læra garðyrkju sextán ára gamall og kom heim á þrítugsaldri,“ segir hann.

Gekk á með skini og skúrum

Hafberg fór að framleiða salat árið 1979. Hann segist hafa fengið ögn skrítnar viðtökur til að byrja með. „Það voru samt nokkrir að framleiða salat á hverju sumri á þeim tíma. Ég var þó um áratug að ná hljómgrunni,“ segir hann. Hann byrjaði á að sá salati í Hafnarfirði en var búinn að tryggja sér lóðina í Lambhaga og tilbúinn með byggingarefnið í gróðurhúsin. Hann hófst handa með 2.600 plöntur í fyrstu atrennu og náði að selja þriðjunginn í verslanir. Í kjölfarið vann hann upp allt landið sem var undir og leitaði hófanna hjá erlendum fræfyrirtækjum. Fyrstu húsin í Lambhaga voru byggð 1979–1982. Skjólbeltaræktun fór fram frá fyrstu tíð og eru trén nú orðin yfir 20 metra há.

„Svo ég fór að rækta og gekk bara ansi vel. Nema að ég uppgötvaði að þegar ég fór neðar í landið þá óx minna. Það var svo mikill vatnsagi og jarðvegskuldi,“ segir Hafberg. Daginn sem hann varð þrítugur keypti hann vatnsinntak hjá Hitaveitu Reykjavíkur og skrúfaði frá heita vatninu. „Þá samdi ég við hitaveituna og þeir sögðu þar að ég mætti nota eins mikið vatn og ég vildi á sumrin. Svo ég fór að hita upp löndin hér niður frá, sem eru eitthvað í kringum 1–1,5 ha. Þetta hitaði ég upp með leiðslum sem ég gróf niður á nokkurt dýpi og ég náði alveg hreint undraverðri uppskeru,“ segir hann.

Plönturnar vænu og grænu. Hér spretta græðlingarnir.

Rabarbari nóg og brokkolí ljótt

Hafberg byrjaði með kínakál undir plastdúk og uppskeran gekk ágætlega í landsmenn. Ekki gekk eins vel með höfuðsalatið og markaðurinn tók ekki við sér strax. Hann skrapp til Noregs, þar sem hann hafði ungur verið í garðyrkjunámi, til að athuga hvað Norðmenn væru að gera í garðyrkjunni, og sá þar m.a. smíði sjálfvirkra véla fyrir greinina. Hann keypti fyrstu vélina 1991 og sú er enn í notkun.

„Það var samt ekki auðvelt að koma salati og öðru grænmeti ofan í fólk þarna 1979. Fólk sagði oft og tíðum við mig að það væri alveg nóg að hafa rabarbarann á haustin ásamt gulrótum, rófum og kartöflum. Pabba mínum, Þóri, þótti til dæmis dálítil vitleysa að vera að þessu en móðir mín ræktaði nú salat úti í garði og til að koma því ofan í okkur stráði hún sykri yfir það! En í dag megum við helst ekki vita að nokkur í okkar húsi noti sykur.“

Hafberg segist oft og iðulega hafa staðið í búðum og kynnt grænmetið fyrstu árin og allir hafi tekið sér vel. Hann hafi m.a. reynt að selja brokkolí, sem hann hafi lagt áherslu á að rækta vegna hollustu þess, en það aldrei náð verulegri sölu. „Brokkolíið var nú heldur ljótt en óskaplega hollt. Hollustan dugði þó ekki til. Ég var með margt fleira en mest af kínakáli. Þegar ég var við kynningar í búðum var ég að sýna fólki að þetta væri ekki skraut á diski heldur matur og var með yfirlit yfir vítamíninnihald og fleira, enda var ég enn að hugsa um C-vítamínið og skyrbjúg!“

Allt byrjar það með fræi í frjórri mold.

Fyrst í Sölufélaginu

Hafberg fór strax árið 1979 til Sölufélags garðyrkjumanna með sína dreifingu. „Þorvaldur Þorsteinsson, þáverandi forstjóri, tók mér mjög vel,“ segir hann og heldur áfram: „Þetta gekk vel þar til Þorvaldur fór að lýjast og aðrir koma inn í reksturinn. Þá kom upplausn í Sölufélagið en ég hékk áfram inni að mestu leyti. Um 1990 var þó farið að þrengja að mér þarna, ég varð var við dálitla öfund og eftir smá rimmu fór ég bara að selja sjálfur.“

Lambhagi er með sitt eigið sölu- og dreifingarnet en Hafberg segist vera í góðu sambandi við Sölufélagið. „Þetta er dreifingarmiðstöð fyrir bændur sem komnir eru langt að með sína framleiðslu og ég fagna því að Sölufélag garðyrkjumanna sé til og að það dafni,“ bætir hann við.

Stukku á Íslenskt staðfest

Lambhagi hefur nú tekið upp upprunamerkið Íslenskt staðfest. Hafberg hafði verið að skoða skandinavíska grænmetismarkaðinn og hjó eftir að Norðmenn tóku fyrir skömmu nýtt upprunamerki í notkun. „Ég hafði í kjölfarið samband við Bændasamtökin og spurðist fyrir um notkun á merkingu, til dæmis fánaröndinni eða einhverju álíka, en komst þá að því að búið væri að koma Íslenskt staðfest á laggirnar fyrir vöru sem væri framleidd og henni pakkað hér á Íslandi. Við stukkum á þetta og munum eftirleiðis merkja allt okkar með Íslenskt staðfest.

Við viljum bara sýna fólki að það er hægt að rækta svo miklu meira á Íslandi en við gerum og að við þurfum ekki að flytja inn allt þetta grænmeti. En af því að við erum svo lítið þróuð í þessu þá koma oft svona labbakútar til landsins og spjalla við fólk sem veit lítið, um að hægt sé að búa til einhver stór ver fyrir tómata eða gúrkur og svona. Þetta er bara hluti af gamansemi lífsins því það er engin alvara í þessu! Lífið þarf að vera fjölbreytt. Stór iðnaðarbúskapur til útflutnings verður aldrei hagkvæmur því virðiskeðjan frá upphafi til enda býður ekki upp á það,“ segir hann.

Lambhagi hefur ekki flutt út vörur nema til Grænlands en Bananar ehf. og Sölufélag garðyrkjumanna sjá orðið um þann útflutning. Lambhagi pakkar þó vikulega grænmeti sem fer til Grænlands eftir þeim leiðum. Fyrirtækið er með rúmlega 80% markaðshlutdeild af fersk-ræktuðu höfuðsalati en þau hjónin segjast ekki endilega keppa að einhverju slíku enda séu fleiri framleiðendur á markaðnum.

Aðspurður um hvort Íslendingar geti á endanum orðið alveg sjálfbærir með sitt grænmeti segir Hafberg leika á því vafa. „Við erum ekki það mörg hér á Íslandi. Og ekki borðum við öll salat. Það er sáralítið af sumum tegundum í sölu sem er ekki hagstætt að vera að rækta. Það myndi ekki borga rafmagnið því við erum að keppa við lönd sem geta verið með mjög ódýrt vinnuafl. Og þau eiga sólarljósið og þurfa ekki að borga rafmagnsreikning af því,“ segir hann.

Á tímabili voru uppi vangaveltur um að flytja alla starfsemi Lambhaga í Lund í Mosfellsdal. Nú ríkir hins vegar nokkur óvissa um framhald starfseminnar þar að sögn Hafbergs Þórissonar. Línur ættu að skýrast á vormánuðum.

Lambhagavöllur og -höll

Lambhagi hefur hin síðari ár veitt árlegan styrk til afreksmanna í íþróttum og góðra málefna. Hið nýjasta í þeim efnum er að fyrirtækið verður nú einn aðalstyrktaraðili íþróttafélagsins Fram í Úlfarsárdal. „Hér í Úlfarsárdalnum er að byggjast upp ansi fallegt og mjög vel þróað samfélag og hluti af því er íþróttasvæði fyrir börnin,“ útskýrir Hafberg. „Þótt ég sé ekki mikill íþróttaálfur sjálfur hef ég alltaf stutt barnahreyfingar í íþróttamálum. Mér finnst það vera hluti af því sem fyrirtæki, sem komin eru sæmilega á legg, eigi að gera. Ég gekkst inn á að styrkja Fram á þann veg að völlurinn þeirra mun heita Lambhagavöllur og keppnishöll þeirra hér eftir Lambhagahöllin,“ segir hann.

Það verða að teljast nokkur tíðindi að íslenskt garðyrkjufyrirtæki sé aðalstyrktaraðili íþróttafélags. Þau hjónin eru á því að þetta sé bara eitt dæmi um að garðyrkjan sé á einhvern hátt að fá hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Grænmetið verði enda æ stærri hluti þeirrar fæðu sem við látum ofan í okkur.

Framleiða eigin mold úr affallinu

Fram undan eru viðgerðir á húsunum við Lambhagaveg. „Við ætlum að fara í að lagfæra húsin; gólf og þök, yfirfara vatnslagnir og búa til betri aðstöðu fyrir fólkið sem vinnur hér hjá okkur. Við erum á fullri ferð áfram,“ segja hjónin. Nýjasta verkefni Lambhaga sé þó moldargerð.

Hafberg segir blikur geta verið á lofti varðandi innflutning á mold. „Við höfum flutt okkar mold inn frá Ríga, sphagnum (torfmosi), 500 tonn á ári, en flytjum okkur nú yfir í eigin moldarframleiðslu. Nú erum við komin með fyrstu gerð af tækjum til að taka allt affall, svo sem rætur, lauf og pappírspottana og búa til mold úr þessu með hjálp ensíma. Moldin verður til á einni viku, síðan þarf hún að fá loftun í um tvo mánuði og þá er hægt að nota hana. Moldargerðin er þegar hafin hjá okkur og fyrsta vélin í gangi. Við ætlum að framleiða 500 tonn af mold árlega.“

Þegar sphagnum brotnar niður losnar úr því koltvísýringur og með því að taka eigin mold í notkun í staðinn fyrir innflutt sphagnum minnkar Lambhagi því kolefnisspor sitt. Þau segjast því vera eitt fyrsta garðyrkjufyrirtækið til að ráðast í eigin moldargerð hér á landi. Tvö önnur fyrirtæki séu að hefja eigin jarðgerð; Innnes ehf. matvöruheildsala og innflutnings- og dreifingarfyrirtækið Bananar ehf.

Lambhagi er með lokað vatnsnýtingarkerfi í Lundi. Þar er gríðarlegt magn af vatni í lokaðri hringrás. Í það er bætt 4% af næringarefnum eftir hreinsun og því svo veitt aftur á plönturnar. Þannig mallar það hring eftir hring.
Uppbygging í Mosfellsdal

Í Lundi í Mosfellsdal framleiðir Lambhagi daglega á milli 1–1,5 tonn af salati, auk rucola og pak choi blaðkáls. Uppbygging þar hófst árið 2019 og er Sara Hafbergsdóttir rekstrarstjóri í Lundi ásamt því að vera í Landbúnaðarháskóla Íslands að læra áburðarfræði.

„Við erum þar með mjög fallega og skemmtilega smálaufaræktun,“ útskýrir Hafberg. „Ræktunartæknin þar byggir á hugmyndum sem ég fór að skissa upp fyrir um tuttugu árum. Við fengum danskt fyrirtæki til að vinna með okkur og framleiðum vélarnar okkar á eigin gólfi þarna í Mosfellsbæ. Þær hafa náð þeirri athygli að fleiri vilja koma og skoða og m.a. fólk erlendis frá. Ég er opinn fyrir því og vil þá bara að fólk betrumbæti mínar hugmyndir, ég er ekki áhugasamur um einkaleyfismál.“

Hauður segir þetta vera snilldarkerfi. Aðeins vinni fólk í helmingi gróðurhússins, hinn helmingurinn sé alsjálfvirkur.

Ekki ljóst með Lund

Á tímabili voru vangaveltur um að flytja alla starfsemi fyrirtækisins í Lund í Mosfellsdal. Meðal annars átti moldarverksmiðja Lambhaga að rísa þar og fyrir liggur leyfi vegna byggingar fleiri gróðurhúsa í Lundi, 22.000 fm að stærð, auk átta íbúðarhúsa sem ætluð eru fyrir fjölskylduna og starfsfólk. „Eftir síðustu fundi með Mosfellsbæ þá virðist sveitarfélagið þannig sinnað að vilja ekki standa með uppbyggingu Lambhaga í Lundi. Ég get því miður ekki séð að þar ríki góðvilji í okkar garð,“ segir Hafberg. Þau séu búin að fjárfesta þar upp frá fyrir um 2,2 ma.kr.
„En við ætlum sem sagt að verða sjálfbær með mold. Nú er ætlunin að byggja utan um þetta og stækka hér í Úlfarsárdal og þar verður þessi moldarframleiðsla. Hún átti að vera í 2,000 fm húsi í Lundi, á landi rétt neðan við gróðrarstöðina okkar þar, í samvinnu við laukaræktun Dalsgarðs, en Mosfellsbær vill ekki láta mig hafa land undir hana og virðist ekki hafa neinn áhuga á atvinnuskapandi rekstri inn í sveitarfélagið. Það er ekki skilningur á því hvar aurarnir verða til! Þeir verða dálítið til hjá okkur sem erum í landbúnaðinum. Við erum ekki að naga fjöllin og drepa gróður, við fáum okkur fræ og sáum og erum að búa til góða fæðu sem er holl. Ósprautuð og full af vítamínum,“ segir Hafberg með þunga.

Hauður H. Hafsteinsdóttir, markaðs- og mannauðsstjóri Lambhaga, Hafberg Þórisson forstjóri og dóttir hans Sara, sem jafnframt er rekstrarstjóri Lundar. Hún stundar nám í áburðarfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Sókn besta vörnin

„Sókn er alltaf besta vörnin,“ segir Hauður. Þau eigi meira land við Lambhagaveg og Reykjavíkurborg hafi þegar veitt leyfi fyrir frekari byggingum. Reykjavíkurborg virðist hafa áhuga á að garðyrkjustarfsemi haldist í borginni. Þau séu með 1.300 fm hús á teikniborðinu sem byggja eigi í vor á svæðinu og óvíst að þau byggi nokkuð frekar upp í Mosfellsdalnum að svo komnu máli.

Hafberg segist kannski bara munu selja vélarnar úr gróðurhúsunum og nýta húsin sem til staðar eru sem hjólhýsageymslur. „Ég get selt það allt á einu bretti úr landi, ég er með tilboð og kaupendur, það er þess vegna hægt að fara að pilla vélarnar niður í næsta mánuði. Ég er 75 ára gamall og get bara vel haldið áfram með það sem er hér við Lambhagaveg, ef því er að skipta,“ segir hann. Í þeim töluðu orðum taka þau sér stund til að skoða nýja uppskeru af rucola, handfjatla laufin, lykta af þeim og smakka. Þau eru aftur að koma rucola á markaðinn eftir nokkurt hlé og einnig stendur til að koma íssalatinu í nýjar umbúðir undir nafninu Krispí.

Á tánum í umbúðaþróun

Hafberg hannaði ekki einungis eigin tækjabúnað heldur vann hann með dönsku fyrirtæki að þróun pappapotta sem notaðir eru utan um salatið.

„Við notum tuttugu og tvær milljónir potta á ári. Plastpottar eyðast kannski á tíu til tuttugu þúsund árum en pappapotturinn á að eyðast á viku þegar við notum jarðgerðarvélina okkar,“ segir hann. Umbúðamál fyrir grænmeti hafa verið Hafberg hugleikin allt frá árinu 1990. Hann segir auðvitað búið að prófa ýmislegt og er sannfærður um að þróað verði plast úr trjákvoðu.

„Nú er kominn á markaðinn pappi sem inniheldur 4% plast og jarðgerðarstöðvar ná að eyða því. Nokkrir aðilar eru farnir að framleiða umbúðir úr þessu og við erum að skoða að taka þetta inn hjá okkur,“ segir hann.

Snýst um að vakna snemma

Þau Hauður og Hafberg telja framtíð garðyrkjunnar fulla af tækifærum. „Ef menn læra bara að vakna snemma á morgnana þá er hægt að gera ýmislegt!“ segir Hafberg ábúðarfullur. Hjónin eru vakandi yfir rekstrinum alla daga og nætur því þrátt fyrir mikla tæknivæðingu þarf að hafa auga með að ekkert fari úrskeiðis.

Þau eru nú farin til Argentínu á tangónámskeið, en dansinn er þeirra líf
og yndi. Þess utan sinna þau Lambhaga og ganga þar í öll verk eins og þarf, halda yfirbyggingu í skefjum og huga þess betur að jarðveginum og græðlingunum.

Þau vilja einnig leggja sinn skerf til samfélagsins og halda því sama verði á framleiðsluvörum fyrirtækisins í ár.

Þegar heim er komið frá Argentínu verður tekin ákvörðun um framhaldið í Mosfellsdalnum. Hvað sem gerist í þeim efnum er ljóst að Lambhagi er með kúrsinn á fulla ferð áfram.

Lambhagi í tölum

  • Lambhagi er einn stærsti framleiðandi á salati og kryddjurtum á Íslandi, stofnað árið 1979.
  • Hjá Lambhaga ehf. vinna 32 starfsmenn.
  • Heildarframleiðsla Lambhagagrænmetis á ári er um 450 tonn.
  • Ársvelta fyrirtækisins um 1,5 ma.kr.
  • Lambhagi tók upp Íslenskt staðfest í byrjun ársins. Í reglum um Ísland staðfest er tiltekið að það megi nota til að merkja grænmeti og plöntur ræktuð á Íslandi út frá fræjum, lauk og útsæði. Það eigi við um allt hrátt grænmeti, líkt og salat, tómata, gúrkur og paprikur.
  • Þrátt fyrir að vel gangi með ræktun í nýjum gróðurhúsum í Lundi í Mosfellsdal lítur mögulega út fyrir að Lambhagi fái ekki að byggja þar upp moldarframleiðslu. Hún verður því að líkindum starfrækt í Úlfarsárdalnum og áhersla lögð á uppbyggingu Lambhaga þar.
  • Lambhagavegur 23 á 11.944 fermetra gróðurhús í Úlfarsárdal í Reykjavík auk íbúðarhúsnæðis. Laufskálar eiga lóð og fasteign í Lundi í Mosfellsdal, sem er 6.821 fermetri auk 14.300 fermetra byggingarheimildar. Í atvinnuhúsnæði félaganna fer fram grænmetisrækt Lambhaga ehf. Bæði félögin eru að fullu í eigu Klappar-eignarhaldsfélags ehf. Verðmæti allra fasteigna Lambhaga var í fyrra metið á rúma 1,3 milljarða króna.
  • Lambhagi var til sölu um tíma og stefndi allt í að Fjárfestingafélagið Eik myndi kaupa fyrirtækið fyrir rúma fjóra milljarða króna. Það gekk þó til baka haustið 2022. Var orsök þess, að sögn forsvarsmanna Lambhaga, að „sá aðili sem hugðist kaupa reksturinn stóð ekki við sitt en fasteignafélagið var með sitt á hreinu“. Búið er að leggja söluáform á hilluna að svo stöddu en eigendur segja að falast hafi verið eftir fyrirtækinu síðan.

Skylt efni: Lambhagi

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt