Vilja 97% heimila og vinnustaða í stað 99.5%
365 miðlar biðja um breytingu á útbreiðslu- og uppbyggingarkröfum vegna 4G/LTE þjónustu
Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði um erindi 365 miðla ehf. þar sem félagið óskar eftir að stofnunin geri breytingu á skilmálum tíðniheimildar félagsins á 800 MHz tíðnisviðinu, svokallaðri A tíðniheimild, sem félagið hlaut í uppboði stofnunarinnar í ársbyrjun 2013.
Í 2. gr. tíðniheimildarinnar er fjallað um kröfur um útbreiðslu og uppbyggingu. Þar eru gerðar þær kröfur á tíðnirétthafa að hann tryggi að 99,5% lögheimila og vinnustaða á hverju tilteknu landssvæði, standi til boða 10 Mb/s gagnaflutningshraði fyrir árslok 2016 og 30 Mb/s gagnaflutningshraði fyrir árslok 2020.
Erindi 365 miðla ehf.
Í erindi 365 miðla er óskað eftir að félaginu verði veitt rýmri tímamörk til þess að uppfylla þau skilyrði sem fyrrnefnd tíðniheimild kveður á um. Fer félagið fram á að Póst- og fjarskiptastofnun geri þær breytingar á tíðniheimildinni.
„Tíðnirétthafi skuldbindur sig til að tryggja að 97% lögheimila og vinnustaða, með heilsárs starfsemi, hvers landsvæðis, sbr. viðauki I, standi til boða 10 Mb/s gagnaflutningshraði fyrir 31. desember 2016, en 99,5% framangreindra lögheimila og vinnustaða standi til boða 10 Mb/s gagnaflutningshraði fyrir 31. desember 2022 og 30 Mb/s gagnaflutningshraði fyrir 31. desember 2026.“
Félagið byggir erindi sitt á 12. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, sem kveður á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til breytinga á skilyrðum í almennum heimildum og skilyrðum fyrir úthlutun réttinda, þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á löggjöf.
Að mati félagsins felur ákvæðið ekki í sér tæmandi upptalningu á þeim atvikum sem geta leitt til þess að stofnuninni sé heimilt að gera breytingar á skilyrðum tíðniheimilda. Stofnuninni sé því heimilt, á grundvelli ákvæðisins, að gera umbeðnar breytingar á tíðniheimild félagsins á grundvelli eftirfarandi röksemda:
Í fyrsta lagi á grundvelli samstarfs Fjarskipta hf. (Vodafone) og Nova ehf. um uppbyggingu dreifikerfis í gegnum félag í sameign þeirra en PFS hefur heimilað samnýtingu á tíðniheimildum félaganna, sbr. ákvörðun PFS nr. 14/2014. Þá hefur Samkeppniseftirlitið veitt undanþágu frá 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. ákvörðun þess nr. 14/2015.
Í öðru lagi á grundvelli fyrirhugaðrar uppbyggingar ríkisstjórnarinnar á ljósleiðaraneti á landsbyggðinni, sbr. skýrslu frá mars 2015, Ísland ljóstengt, þar sem lýst er áformum um að auka gagnaflutningshraða verulega á landsbyggðinni með lagningu ljósleiðaranets um allt land með ríkisfjármagni. Að mati 365 miðla ehf. skarast þessar uppbyggingaráætlanir ríkisins við áætlanir félagsins um uppbyggingu á þráðlausu háhraða farneti á sömu stöðum.
Að mati 365 miðla eru aðstæður á fjarskiptamarkaðinum í dag gjörbreyttar frá því sem var þegar uppboð Póst- og fjarskiptastofnunar fór fram í febrúar og mars árið 2013 og er sérstaða félagsins sem skapaðist í kjölfar útboðsins, ekki lengur til staðar. Sú sérstaða byggðist fyrst og fremst á tíðnisviði félagsins á 800 MHz tíðnisviðinu sem og því að félagið taldi sig geta veitt landsbyggðinni háhraða nettengingar með þráðlausum hætti án þess að mikil samkeppni myndi ríkja á umræddum svæðum.
PFS kallar eftir samráði við hagsmunaaðila
Í samræmi við 3. mgr. 12. gr. fjarskiptalaga og 6. gr. laga, nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun óskar stofnunin eftir athugasemdum hagsmunaaðila við erindi 365 miðla ehf. sem hægt er að nálgast hér fyrir neðan. Athugasemdir sem sendar eru inn skulu vísa beint í erindi 365 miðla.