Vörur úr heimabyggð í verslunum Samkaupa
Samkaup hefur í samstarfi við íslenska smáframleiðendur hrundið af stað verkefninu „Heimabyggð“. Í því felst að íslenskum smáframleiðendum býðst nú að selja vörur sínar í sérstöku rými í völdum verslunum Samkaupa, undir nafninu „Heimabyggð“.
Tilgangur verkefnisins er að gera vörum íslenskra smáframleiðenda hærra undir höfði og gera þær sýnilegri í verslunum Samkaupa.
„Við viljum styðja við íslenska smáframleiðendur og með Heimabyggð erum við að veita þeim sérstakt pláss í verslunum okkar. Það er mikilvægt, sérstaklega á tímum sem þessum, að styðja við íslenska framleiðslu og við hjá Samkaupum erum með skýra stefnu þegar kemur að stuðningi við nýsköpun og umhverfisvernd,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla og er stefnt að því að koma „Heimabyggð“ upp í verslunum Samkaupa víðs vegar um landið. Nú þegar hefur „Heimabyggð“ verið sett upp í verslunum Nettó í Mjódd og á Glerártorgi.