Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Listaverk, „Vetur, sumar, vor og haust“, saumað úr litlum bútum sem líkjast fjöðrum.
Listaverk, „Vetur, sumar, vor og haust“, saumað úr litlum bútum sem líkjast fjöðrum.
Líf&Starf 20. mars 2017

Ferð til Grikklands á vegum FurEurope

Höfundur: Guðrún Hildur Gunnarsdóttir
Ég fletti niður Facebook-síðuna mína einn vordag í Danmörku þegar ég rak augun í auglýsingu: „Sumarskóli á vegum FurEurope“. Ég svalaði forvitni minni og smellti á auglýsinguna. Sumarskóli í Grikklandi þar sem átti að fara fram kennsla og fróðleikur í meðhöndlun grávöru. Það fann ég að ætti við mig þar sem áhugi minn á ýmiss konar skinnum er óendanlegur. Eftir stutta umhugsun sótti ég um upp á von og óvon. 
 
Guðrún Hildur Gunnarsdóttir.
Ég skilaði inn möppu með myndum af hlutum sem ég hef í stofunni heima dundað við að setja saman úr hinum ýmsu hráefnum. Þar kennir ýmissa grasa, lamba-, kálfa- og minkaskinn ásamt járnsmíðum. Viti menn, mánuði síðar fékk ég skemmtilegan tölvupóst þar sem mér var tilkynnt að ég hefði komist að á sumarnámskeiði sem haldið yrði í Kastoria og Siatista í Grikklandi. Ég var hvött til að borga staðfestingargjald og bóka mér flugmiða sem fyrst. 
 
Að sjálfsögðu greiddi ég staðfestingargjaldið samdægurs. Þetta tækifæri skyldi sko ekki renna mér úr greipum! Þar sem það var svo greitt var næst hægt að byrja að fresta því að bóka flug þangað til að samviska mín leyfði það ekki lengur. Ég komst að því að það er auðveldara að koma úlfalda í gegnum nálarauga en að taka beint flug til smábæja í Grikklandi.
 
Það varð svo úr að ódýrast væri að fljúga frá Frankfurt í Þýskalandi. Ekkert mál! Ég var hvort sem er stödd í Danmörku á þessum tíma og ég tæki bara lestina til Frankfurt og flygi síðan. Létt mál. Eða það hélt ég. Smá púsluspil og nokkrar lestaskiptingar og ég hafði það af að komast til Frankfurt tímanlega til að ná fluginu. 
 
Frábærar móttökur
 
Við komuna til Thessaloniki tók Adam Gono, einn af skipuleggjendum námskeiðsins, vel á móti mér. Fórum í rútu frá Thessaloniki til Kastoria þar sem frábærlega var tekið á móti okkur. Nemendur og kennarar fóru svo út að borða og áttu saman skemmtilegt kvöld. Í Kastoria ríkir gífurleg hefð fyrir skinnum. Þar hefur verið unnið með skinn í rúm þúsund ár og sést það vel á bænum þar sem búðir eru víða með ýmsum varningi úr öllum tegundum skinna.
 
Fyrsti dagur námskeiðsins fór í að kynnast kennurum sem og nemendum. Haldin voru nokkur erindi sem tóku svo að segja allan ferilinn. Allt frá því að tala um aðbúnað dýra á búunum til óhefðbundinna saumaaðferða. Nemendur námskeiðsins voru um 30 og frá mjög mörgum ólíkum löndum og var ég eini nemandinn frá Íslandi. Hópurinn var skemmtilega fjölbreyttur. Í hópnum voru margir hönnuðir eða í hönnunarnámi. Sumir voru bændur eða unnu á minkabúi líkt og ég. Aðrir unnu á saumaverkstæðum og áttu jafnvel sitt eigið verkstæði eða vörumerki. 
 
Í heimsókn á grískt minkabú
 
Við heimsóttum grískt minkabú og var það heilmikil upplifun fyrir marga í hópnum. Það er ákaflega lærdómsríkt fyrir þá sem vinna daglega með skinn að fá innsýn í þann heim sem bændurnir vinna í. Að sama skapi er alltaf lærdómsríkt fyrir okkur sem meiri reynslu höfum af framleiðslu skinna að kynnast öðrum vinnubrögðum. Við litum inn í skinnaverkun og að lokum fórum við á verkstæði þar sem tekin eru fyrstu skrefin í að breyta skinnum í flíkur.
 
Fyrir mig var ein mesta upplifunin að sjá allan ferilinn frá því skinnin eru sútuð. Ég hafði ekki gert mér fulla grein fyrir hve mikil vinna er á bak við eitt fullunnið skinn! Svo ekki sé nú talað um séu þau einnig lituð. Ferillinn er langur og geri ég mér nú mun betur grein fyrir hve mikil vinna felst í hverri flík sem unnin er úr slíkum verðmætum sem skinnin eru. 
 
Frá því að teygja skinn á borð til að nýta það sem best, sauma stykkin saman og strekkja aftur á borð til að sníða eftir þeim. Þegar búið er að sníða er aftur tekið til við að sauma og er saumað í vélum sem eru sérstaklega hannaðar til að sauma feld. Flíkin er síðan fóðruð og þegar nánast búið er að ganga frá henni er fólk í því að athuga hvort ekki sé rétt frá öllu gengið. Þannig yfirsést ekki neitt í öllum saumaferlinum og tryggt er að kúnninn fái það sem hann borgar fyrir. 
 
Góð nýting á skinnum
 
Grikkirnir eru sérstaklega þekktir fyrir að nýta hvern einasta part af skinninu. Engu er hent. Þeir sauma saman hvert einasta snifsi sem útaf gengur úr venjulegri saumavinnu. Úr þessu má svo gera hvað sem er. Sníða frekar úr eða nota eins og það kemur fyrir, t.d. sem teppi eða þvíumlíkt. Slíkir bútar geta svo verið margbreytilegir á litinn. Allt frá því að vera saumaðir úr keimlíkum bútum út í að teknir séu marglitir afgangar og settir saman svo úr verður sannkallað listaverk. Og meira að segja höfuðið af minknum er notað í slíkan bútasaum! Svo sannarlega er engu hent!
 
Úr ýmsum afgöngum, t.d. hausnum af refnum, má gera litla dúska og nota á lyklakippur, hárteygjur eða lítil veski. 
 
Fjölbreytt skinn
 
Við skoðuðum nokkur mismunandi verkstæði. Sum unnu með margar tegundir af skinnum og önnur sérhæfðu sig í einhverju sérstöku. Við sáum minka-, refa-, kanínu-, chinchilla-, swakara- og safalaskinn. Allar þessar tegundir skinna er ákaflega ólíkar. 
 
Minka-, kanínu- og refaskinn eru flestum kunn en chinchilla eru lítil gráleit nagdýr sem hafa ákaflega mjúkan feld og er nánast ómögulegt að lýsa hve mjúkur feldurinn er viðkomu. 
 
Swakara stendur fyrir South Western African Karakul, sem eru lambaskinn sem hafa stutt hár með sérstökum sveipum sem skapa mjög fallega áferð á skinnin, einnig mjög mjúk.
 
Safali er síðan einn dýrasti feldur í heiminum og er það úr villtum, brúnum dýrum, svipuðum af stærð og minkurinn en hárin eru lengri og feldurinn mjúkur og léttur viðkomu. Það kom mér verulega á óvart að sjá feld á villtum dýrum, hversu fágaður, fíngerður, léttur og fallegur hann var. 
 
Gestafyrirlesarar komu víða að
 
Á námskeiðið komu gestafyrirlesarar frá m.a. Kopenhagen Fur í Danmörku og SagaFurs í Finnlandi. Frá SagaFurs kom stúlka sem sýndi okkur safn skinna sem búið var að vinna með. Það var líklega þá þegar skinnin lágu á borðinu fyrir framan mig, mismunandi að stærð, lögun og gerð, að ég virkilega áttaði mig á öllum möguleikunum sem hægt er að gera. Þegar þarna var komið sögu var ég gjörsamlega seld og hugsaði með sjálfri mér að þetta yrði ég að fá að gera, ég verð að fá að vinna meira með skinn.
 
Frá því að súta skinn á stofugólfinu heima hjá mér og sjá vinnsluna frá upphafi til endaloka. Frá því að hafa sjálf nostrað við hvolpa frá fæðingu. Yfir í að hafa saumað úr skinnum sem ég sjálf bisaði við að vinna. Þá geri ég mér enn frekar grein fyrir verðmætunum sem felast í hverju skinni, hversu óendanlegir möguleikarnir eru og ég vil fá að kynnast þessum heimi betur.
 
/Guðrún Hildur Gunnarsdóttir

6 myndir:

Skylt efni: FurEurope | skinn | minkaskinn

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....