Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Jólaglögg yljar inn að hjartarótum og því tilvalið í frostinu nú fyrir jólin.
Jólaglögg yljar inn að hjartarótum og því tilvalið í frostinu nú fyrir jólin.
Matarkrókurinn 20. desember 2022

Jólaglögg & lussekatter

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Um miðjan desember árið 1955 komust fyrst á síður blaðanna fregnir af drykknum jólaglögg. Var tilefnið Lúsíuhátíð Norræna félagsins þar sem boðið var upp á nýstárlegan drykk að sænskum sið, á íslenskunni kallaður jólaglögg.

Taka skal fram að 13. desember, Lúsíudagur eða hátíð ljóssins, er hátíðardagur í Svíþjóð, í anda aðventu og jóla. Það var þó ekki fyrr en um miðjan áttunda áratuginn sem þónokkrir framúrstefnumennirnir auglýstu þennan dáindisdrykk.

Heitu rauðvíni hellt yfir rúsínur

Til að mynda í Morgunblaðinu árið 1977, rétt fyrir jólin. Kom fram að Hótel Loftleiðir byði upp á nýjung í jólaösinni, í Blómasalnum svonefnda, en þar mætti gæða sér á jólaglögg. Esjuberg, veitingastofa á fyrstu hæð Hótel Esju, bauð einnig upp á slíkt hið sama en í tilkynningu frá þeim kom fram að; 

„... Jólaglögg og piparkökur er það nýjasta sem Esjuberg býður gestum sínum upp á í svartasta skammdeginu Jólaglöggið er heitt rauðvín sem hellt er yfir rúsínur og kanilstangir.“

Með árunum festi jólaglöggið sig í sessi og hefur haldið velli sem jóladrykkur hérlendis í vel yfir þrjátíu ár. Samsetning drykkjarins er reyndar örlítið flóknari en sú sem var lýst hér að ofan, en þó ekki mikið. Megininnihaldsefni eru jú rauðvín, kanilstangir og rúsínur, en til viðbótar eru vanalega negulnaglar, engifer, kardimommur, strásykur, möndlur, appelsínubörkur og smávegis af vanillusykri.

Sumir vilja bæta koníaki eða brennivíni út í á meðan aðrir kjósa óáfengt rauðvín eða til dæmis sólberjasaft. Grunnuppskriftin er þó alltaf hin sama á meðan hver lagar hana að sínum smekk.

Jólaglögg 9.áratugarins (áfengt)

1 flaska dökkt og gott rauðvín
2-3 kanilstangir
6 stk. negulnaglar
100 g rúsínur
50 g gróft saxaðar möndlur
6 cl ókryddað brennivín eða 4 cl koníak
.... svolítill sykur!

Hita skal rauðvínið ásamt öllu nema möndlum og rúsínum án þess að láta það þó sjóða. Ef vel á að takast til, þá í eina klst. Velgja skal glöggið stuttu áður en að það er borið inn, bætið í möndlum og rúsínum og smakkið til með koníaki/brennivíni/sykri.

Sænskt jólabrauð eða lussekatter

Margir borða piparkökur með jólaglögginu en einnig eru vinsælar svokallaðar lúsíubollur. Hér að ofanverðu skrifaðar lúsíubrauð eða á frummálinu lussekatter (einnig lussebullar).

Kemur nafnið frá Svíþjóð, en brauðmetið lussekatter eða kettir Lúsíu fengu þá nafngjöf vegna þess að það þótti minna á kött sem hringar sig letilega á góðum stað.

Þetta eru bollur eins og þær gerast bestar, sérstaklega fylltar, og um að gera að bæta þeim við hlaðborð okkar Íslendinga um jólaleytið.

Lussekatter með fyllingu

Taka skal fram að gerð deigsins fer fram í tveimur hlutum.

Fyrri hluti deiggerðar

5 dl mjólk (3%)
50 g ger
1 g saffran
Hveiti 520 g eða (8,5 dl)

Seinni hluti deiggerðar

150 g smjör (við stofuhita)
170 g flórsykur (2 dl)
2 g salt (uþb. 1/2 tsk.)
Hveiti 320 g (5,5 dl)

Fylling

250 g möndlumassi
25 g flórsykur (2 msk.)
3 g vanillusykur (1 tsk.)
120 g smjör (við stofuhita)

Penslun og skraut

1-2 egg
rúsínur
smjör ca 2 msk. (brætt)
perlusykur ca 2 dl – eða það sem hverjum og einum finnst best

Verklýsing
Fyrri hluti deiggerðar

Hitið mjólkina í u.þ.b. 37 °C. Bætið saffrani og geri saman við þar til blandan er orðin fín. 

Næst er mjólkin sett saman við hveitið, hnoðað vel í um 5 mínútur. Látið svo deigið undir viskustykki í 15–20 mín.

Seinni hluti deiggerðar

Blandið því sem eftir er af hráefnunum saman við deigið og hnoðið jafnt með meðalkrafti eða þar til deigið er slétt og glansandi.

Ef enginn er aðstoðarmaðurinn í eldhúsinu, skal hnoðað nokkurn veginn þar til örmögnun fer að eiga sér stað – þá fyrst er deigið tilbúið.

Setjið það svo aftur undir viskastykki í um 20-30 mínútur.

Fyllingin

Blandið möndlumassanum saman við flórsykur og vanillusykur. Blandið smjörinu saman við, smám saman í einu þar til fyllingin er þétt í sér. Ef hún verður of þykk má setja hana stutta stund í örbylgjuofn á lágum hita svo smjörið og sykurinn bráðni aðeins.

Gæta þarf þó þess að það verði ekki of heitt. Næst skal fletja deigið út, u.þ.b. 45x70 cm á breidd og í kringum 0,5 cm þykkt, á létt hveitistráðu borði.

Dreifa skal svo fyllingunni jafnt yfir deigið og brjótið í tvennt.

Skiptið deiginu því næst í 1,5 cm breiðar (ekki of þunnar). Rúllið einum helmingnum upp, snúið og rúllið frá hinni hliðinni þannig að myndi „öfugt S“. Svo fer snúningurinn á bökunarpappír en varast skal að hafa þá þétt saman!

Skreytið með rúsínum að vild. Látið að lokum hefast almennilega undir viskastykki í 1–2 klst.

Bakstur, burstun og skraut

Hitið ofninn í 200 gráður. Sláið egg saman og penslið brauðið vel.

Bakið í miðjum ofni í 13-15 mínútur þar til bakkelsið er orðið fallega gullbrúnt að lit. Penslið aftur um leið og tekið er úr ofninum – þá kemur extra góður glans ...

Látið kólna, penslið enn einu sinni – í þetta skipti með bræddu smjöri og stráið svo perlusykri yfir.

Skylt efni: Jól

Einfalt og gott um jólin
Matarkrókurinn 20. desember 2024

Einfalt og gott um jólin

Allir vilja hafa hlutina eftir sínu höfði um jólin og hefðirnar í flestum fjölsk...

Graflax hjólarans
Matarkrókurinn 11. desember 2024

Graflax hjólarans

Alveg eins og það var einu sinni leiðinlegt að fá sokka í jólapakkann en svo gam...

Hefðir og hangikjöt
Matarkrókurinn 27. nóvember 2024

Hefðir og hangikjöt

Ég vil aðeins hita upp fyrir jólin, sem eru rétt handan við hornið, og hvetja ti...

Grunnsósur fyrir sósuþjóð
Matarkrókurinn 30. október 2024

Grunnsósur fyrir sósuþjóð

Mér er nokk sama hvort tölfræðin er opinberlega skráð, allir kokkar landsins vit...

Vandamál eplabónda í Kópavogi
Matarkrókurinn 16. október 2024

Vandamál eplabónda í Kópavogi

Ég segi ekki að Bændasamtökin séu á bakinu á mér með að skrá mig í félagið en tæ...

Kjötsúpa
Matarkrókurinn 2. október 2024

Kjötsúpa

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins en samt ekki. Allir og allar fjölsk...

Subbu-Jobbi
Matarkrókurinn 18. september 2024

Subbu-Jobbi

Nú þegar skólarnir eru að byrja veitir ekki af því að æfa sig í frægustu samloku...

Piparosta-grísapasta
Matarkrókurinn 21. ágúst 2024

Piparosta-grísapasta

Eftir gular viðvaranir og alla þessa rigningu hættir sér ekki nokkur út að grill...