Reistu sér kjötvinnslu og sláturhús
Á síðasta ári reistu bændurnir á Grímsstöðum sér kjötvinnslu heima á bænum í Reykholtsdal í Borgarfirði og hafa á undanförnum mánuðum unnið að byggingu á litlu sláturhúsi, sem þau tóku svo formlega í gagnið fyrir skemmstu.
Þeir markaðssetja sauðfjárafurðir sínar undir vörumerkinu Grímsstaðaket, en í yfirstandandi sláturtíð er ætlunin að slátra 100 gimbrum og 30 fullorðnu fé. Þá eru þeir með leyfi til að slátra geitum til markaðssetningar og raunar eina sláturhúsið heima á bæ. „Háafell hefur verið í sambandi við okkur varðandi það að taka að okkur slátrun á þeirra geitum og við munum skoða þetta fyrir næsta haust, þegar við höfum meiri tíma,“ segir Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir, bóndi á Grímsstöðum.
Fyrstu skrokkarnir sem slátrað er í nafni Grímsstaðakets.
Fyrsta slátrun gekk vonum framar
„Þetta gekk allt mjög vel hjá okkur, alveg hreint vonum framar,“ segir Jóhanna þegar fyrstu slátrun var lokið.
„Í framtíðinni ætlum við okkur að slátra meira heima en úr því að við gátum ekki byrjað fyrr þá verður það ekki meira í ár. En það kemur annað haust eftir þetta.
Ætlunin er að sjá um söluna sjálf, en síðan við byrjuðum með kjötvinnsluna höfum við selt mest í gegnum Facebook og svo er líka farið að aukast að fólk sem hefur keypt af okkur er að segja vinum sínum frá okkur sem hefur þá verið að kaupa af okkur líka. Skemmtilegast er þegar fólk kaupir aftur og aftur. Við rekum einnig Hönnubúð í Reykholti og þar höfum við haft vörurnar okkar í sölu og hefur það gengið mjög vel.
Hvernig salan verður hjá okkur í framtíðinni er erfitt að segja til um, draumurinn er auðvitað að geta selt alla okkar framleiðslu sjálf og vonandi sem víðast. Aðili sem kaupir mikið er auðvita draumakúnninn okkar.“
Viðbyggingin.
Tæplega þriggja ára ferli
Fyrsta skóflustungan að kjötvinnslunni var tekin 31. desember 2018 og segir Jóhanna að grunnur og undirstöður hafi verið tilbúin í júní 2019 og þá komu gámarnir sem húsið er byggt úr. „En það var ekki fyrr en haustið 2020 sem húsið var tilbúið og við komin með leyfi fyrir kjötvinnslunni.
Þegar við vorum að byggja kjötvinnsluna þá var umræðan um örsáturhús komin af stað svo við gældum við að í framtíðinni myndum við bæta því við, en við áttum ekki von á að það myndi gerast strax árið eftir. Í sumar ákváðum við að slá til og bæta við húsið 18 fermetrum svo að slátrunin myndi rúmast betur í húsinu.“
Jóhanna og sonur hennar, Tómas Orri, taka fyrstu skóflustunguna.
Frjálsir og óháðir bændur
Að sögn Jóhönnu er staðan sem þau eru komin í ákjósanleg að því leyti að nú eru þau orðin eigin herrar og óháð afurðastöð að öllu leyti. „Við getum selt okkar vöru þar sem við viljum og svo getum við búist við að fá um 70 prósent meira greitt fyrir kílóið. Síðan er það kostnaðurinn sem sparast, til dæmis er sláturkostnaður í Borgarnesi við heimtöku 5.500 krónur á lamb og 6.000 krónur á fullorðið, ef ég man rétt. Það sparast einnig kostnaður við að koma fénu í sláturhúsið og flytja það aftur til okkar.
Í staðinn erum við með launakostnað til þeirra sem hjálpa okkur við slátrun hér og auðvitað rekstrarkostnaður við húsið.“
Gæðahandbók og heilbrigðisskoðun
Til að fá sláturleyfi á húsið þarf að halda gæðahandbók fyrir starfsemina og áskilin er formleg heilbrigðisskoðun við slátrun, en Matvælastofnun leggur til dýralækni til að sinna henni fyrir bændur. „Gæðahandbókina skrifaði ég þegar við vorum að opna kjötvinnsluna, svo að sú vinna var að mestu leyti búin þegar við ákváðum að fara út í að gera sláturhús. En það þurfti að skrifa nýjan kafla um sláturhúsið og allt sem þar fer fram.
Við þurfum að fylgja gæðahandbókinni í allri okkar vinnu, og þar er auðvitað skriffinnska, eins og til dæmis að skrá hitastig á kælum og frystum, þrif, hvað er verið að vinna og hvert það fer. En með því að fylgja gæðahandbókinni þá getum við líka verið viss um að við erum að fara eftir þeim reglum sem gilda í matvælaframleiðslu og það er það sem allir vilja.
Þegar við slátrum þá kemur til okkar dýralæknir sem fylgist með dýrunum og okkar vinnu. Enn sem komið er þá er það gjaldfrjálst fyrir okkur og vonum við bara að það haldi áfram,“ segir Jóhanna.