Sokkar frá Íslandi
Hélène Magnússon, sem er franskur/íslenskur hönnuður var að gefa út nýja prjónabók, Sokkar frá Íslandi. Í bókinni endurvekur Hélène sokkahefðir á Íslandi og gefur þeim nýtt líf.
Bókin segir ýmislegt um sögu sokkaprjóns á Íslandi og er það bæði heillandi og hrífandi hvernig einfalt sokkapar getur afhjúpað brot úr daglegu lífi Íslendinga. Bókin inniheldur einnig 17 sokkauppskriftir með sterkum íslenskum blæ. Hélène sótti innblástur í gamla íslenska sokka, eldgamlar uppskriftir en einnig í hefðbundna íslenska vettlinga við vinnslu bókarinnar. Sokkarnir koma í mörgum stærðum og eru notaðar alls kyns aðferðir. Sokkar í bókinni voru prjónaðir með Kötlu Sokkabandi úr íslenskri lambsull, sem Hélène hannaði beinlínis fyrir sokkaprjón. „Á fullorðinsaldri greindist ég á einhverfurófi. Það umbreytti lífi mínu en ég er sannfærð í dag að einhverfan hefur verið mér styrkur til að koma á fót framleiðslu á mínu eigin garni og líka til að fara í eigin útgáfu. Ég hef líka miðlað ósvikinni ástríðu minni á ríkum prjónaarfi Íslands í göngu- og prjónaferðum, sem ég hef skipulagt og leiðbeint allt árið um kring á Íslandi i meira en 10 ár,“ segir Hélène, sem er fædd 1969 og býr í Reykjavík.