Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Land Rover voru algengir bílar á árum áður en eru nú orðnir sjaldgæf sjón. Þrátt fyrir að vera gamaldags og uppfullur af ókostum þá er hver ökuferð upplifun. Þetta er rúmgóður bíll sem kemst nánast allt á seiglunni.
Land Rover voru algengir bílar á árum áður en eru nú orðnir sjaldgæf sjón. Þrátt fyrir að vera gamaldags og uppfullur af ókostum þá er hver ökuferð upplifun. Þetta er rúmgóður bíll sem kemst nánast allt á seiglunni.
Mynd / ÁL
Vélabásinn 5. janúar 2024

Dásamleg bíldrusla

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Að þessu sinni tekur Bændablaðið til kostanna bifreið af gerðinni Land Rover Series III, framleidda árið 1981. Þetta eru margreyndir jeppar sem voru birtingarmynd íslenskra sveita og hálendisferða á áratugum áður.

Þegar Land Roverinn er skoðaður að utan sést að útlitið einkennist nánast alfarið af skörpum hornum og flötum hliðum. Mest er þetta áberandi ef horft er á bílinn frá hlið, en afturendinn er alveg flatur og lóðréttur og myndar níutíu gráðu horn við þakið. Þá gefa kringlótt framljósin bílnum góðlegt útlit. Myndirnar tala sínu máli, en ekki er hægt að segja annað en að þetta sé afar fögur bifreið.

Þegar inn er komið tekur á móti manni innrétting sem er óraveg frá því sem tíðkast hefur í nýjum bílum undanfarna áratugi. Allt er klætt með svörtum vínyl og ekkert gert til að gera útlitið áhugavert. Þetta er þó merkilega praktískt, enda er stór og rúmgóð hilla þvert yfir allt mælaborðið.

Sætisstaðan er ekki upp á marga fiska, en mjúkur svampurinn bjargar því sem bjargað er. Þegar bíllinn var nýr var sjálfsagt hægt að stilla sessuna eitthvað en bakið er alveg fast. Ökumaðurinn þarf því að sitja í hálfgerðri fósturstellingu með risastórt stýrishjólið í fanginu.

Lítil truflun

Ekkert útvarp er í þessum bíl eða önnur afþreying sem leiðir hugann frá akstursánægjunni. Athyglin getur því verið óskert við að fylgjast með umhverfinu, hlusta á vélina eða öll hin fjölmörgu hljóð sem heyrast víðs vegar um bílinn.

Nokkrar stillingar eru á miðstöðinni. Að sumri til er hægt að opna litla hlera rétt fyrir neðan framrúðuna, sem hleypa inn fersku og köldu lofti. Bíllinn þarf þó að vera á ferð til að blásturinn hafi einhver áhrif. Síðan er miðstöð sem nýtir hitann af vélinni til að blása inn heitu lofti. Á henni eru tvær stillingar, annars vegar andvari og hins vegar gola.

Í vatnshríð ræður heiti blásturinn ekki við að þurrka upp móðuna á framrúðunni og er því gott að hafa klút innan handar til að geta séð í gegnum glerið. Í þessu samhengi er rétt að benda á rúðuþurrkurnar sem hafa tvær stillingar: hratt og geysihratt. Því þarf stöðugt að slökkva og kveikja á þeim ef ekki er stórrigning.

Alls konar stangir og takkar

Það er ákveðinn sjarmi yfir tökkunum og stöngunum í svona gömlum Land Rover. Vinstra megin við stýrið eru þrír veltirofar sem stjórna miðstöð og ljósum og einn snúningsrofi fyrir rúðuþurrkurnar. Þá er kveikjulásinn vinstra megin við stýrið, öfugt við flesta bíla. Við hliðina á honum er svo sérstakur rofi sem þarf að draga út til að drepa á bílnum, en það er ekki hægt að gera með lyklinum. Hægra megin við stýrið er svo stöng fyrir stefnuljós og flautu.

Á gólfinu fyrir miðjan bíl eru svo fimm stangir. Sú stærsta er fyrir almennar gírskiptingar, sú gula er til að virkja fjórhjóladrifið og sú rauða til að setja bílinn í lágadrifið eða til að aftengja fjórhjóladrifið. Þá er ein lítil stöng fyrir yfirgírinn, sem er aukahlutur. Aðalgírarnir eru fjórir og sá hæsti frekar lágur og kemur það sér vel að hafa overdrive úti á þjóðvegum. Síðasta stöngin er svo fyrir handbremsuna. Framan við allar þessar stangir er handolíugjöf sem getur gagnast í þeim tilfellum sem bíllinn er notaður við landbúnaðarstörf.

Þessi bifreið er firnastór, enda um lengri gerð af Land Rover að ræða. Það er sætispláss fyrir tólf manns, þó bifreiðin sé ekki skráð fyrir nema níu. Þá stendur einungis farþegunum þremur á fremsta bekk til boða að nýta sér öryggisbelti. Þeir sem sitja á miðjubekknum geta ríghaldið í járnrör sem hefur verið soðið fyrir aftan sætisbök fremsta bekksins. Öftustu sætin eru tveir bekkir þar sem farþegarnir sitja þvert á akstursstefnuna.

Prýðilegt geymslupláss er í bílnum og tekur hann lengi við farangri. Geymslurýmið er hins vegar alls ekki praktískt með öll þessi sæti og lítinn afturhlera. Því getur verið þrautin þyngri að koma fyrir stærri hlutum eins og reiðhjóli.

Innréttingin er óraveg frá nútímabílum. Sætisstaðan er óeðlileg en mjúkur svampurinn vegur upp á móti.

Nær 100 eftir dúk og disk

Að flestu leiti er gott útsýni úr bílnum, enda allir gluggabogarnir örþunnir og sætisstaðan há. Helsti gallinn er að efri ramminn á framrúðunni er akkúrat í sjónlínunni. Því þurfa fullvaxnir ökumenn að sitja hoknir til að sjá langt fram á veginn. Þetta er sérstaklega mikið vandamál þegar stoppað er við umferðarljós og þarf að beygja sig vel fram til að sjá hvenær ljósið verður grænt.

Aksturseiginleikar bílsins mótast að miklu leyti af því að Land Rover á margt skylt með dráttarvél. Upplifunin er því mun nær því að aka International Harvester 434 en Tesla Model 3. Dísilmótorinn er ekki með nema 67 hestöfl og vegur bíllinn tæp tvö tonn. Hann nær því ekki upp í hundrað kílómetra hraða nema eftir dúk og disk, að því gefnu að hann aki niður í móti með vindinn í bakið. Ef það er hins vegar brekka eða mótvindur þá er mikil barátta að halda bílnum á þjóðvegahraða.

Hávaðinn er geipilegur við nær allar akstursaðstæður, nema þegar ekið er í rólegheitunum innanbæjar. Standi til að leggja í langferð er nauðsynlegt að vera með eyrnatappa, því vélin öskrar þegar ekið er á áttatíu kílómetra hraða úti á þjóðvegi, enda engin hljóðeinangrun, og þegar ekið er á malarvegi hringlar í öllu.

Land Rover er afar óheppilegur sem borgarbíll þar sem hann er með víðan beygjuradíus. Þá fylgir því líkamlegt erfiði að koma bílnum fyrir í þröngt stæði þar sem stýrið er nær óyfirstíganlega þungt, sérstaklega þegar bíllinn er kyrrstæður.

Ólíkt því sem oft er fleygt fram um Land Rover, þá fjaðrar þessi tiltekni bíll nokkuð vel. Það skýrist í fyrsta lagi af því að þetta er lengri týpan sem gerir hreyfingar yfir ójöfnur ekki eins kvikar og á þeim stuttu. Í öðru lagi er búið að skipta út upprunalegu fjaðrablöðunum fyrir svokallaðar parabolic fjaðrir, sem gefa meiri mýkt á kostnað burðargetu. Þá eru dekkin belgmikil og auðvelt að minnka loftþrýstinginn til að gera bílinn enn þýðari, hvort heldur sem áætlunin er að aka yfir hraðahindrun eða hálendisveg.

Kemst allt á seiglunni

Þegar malbikinu sleppir koma í ljós hinar sterku hliðar bílsins. Hann er rásfastur þegar búið er að virkja fjórhjóladrifið og eins og áður segir nokkuð mjúkur. Land Roverinn er með hásingar að framan og aftan og veghæðin einstaklega góð, þótt þetta sé óbreyttur jeppi. Drifkúlurnar á hásingunum eru staðsettar aðeins til hliðar og getur ökumaðurinn því miðað við að allra stærstu steinarnir fari undir bílinn þar sem hann er hæstur. Það eru samt hverfandi líkur á því að reka upp undir bílinn á venjulegum fjallaslóðum, enda er hann það hár að fullorðinn maður getur skriðið undir hann. Þá er hann merkilega öflugur í grófum torfærum og virðist hann ná endalausu gripi, þrátt fyrir að vera á frekar fíngerðum dekkjum. Hann fer ekki hratt yfir en kemst nánast allt á seiglunni.

Hönnuðir Land Rover hafa líklega notast mikið við vinkil þegar bíllinn var teiknaður, enda níutíu gráðu horn víða.

Að lokum

Þrátt fyrir alla sína ókosti er Land Rover uppfullur af yndisþokka sem vegur upp á móti öllu því neikvæða. Það er ekki hægt að mæla með þessum jeppa ef hann er eini bíllinn á heimili. Sem aukabíll er hann hins vegar stórskemmtilegur og hver ökuferð upplifun. Þá vekur bíllinn jákvæða athygli hvert sem hann fer, hvort sem það er frá fimm ára piltum eða áttræðum konum.

Lesendur þurfa að gera ráð fyrir talsverðri slagsíðu í þessum bíladómi, enda sá sem þetta skrifar eigandi bílsins og vitaskuld ekki alveg hlutlaus. Þeir sem eru áhugasamir um að sjá fleiri myndir og myndbönd af bílnum geta flett upp @landroveradventuresiceland á Instagram.

Skylt efni: prufuakstur

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...

Algjör jaxl utan vega
Vélabásinn 8. ágúst 2024

Algjör jaxl utan vega

Bændablaðið fékk til prufu þriðju kynslóð af Can-Am Outlander fjórhjólinu. Það e...

Fyrir fágaða iðnaðarmenn
Vélabásinn 19. júní 2024

Fyrir fágaða iðnaðarmenn

Bændablaðið fékk til prufu minnsta sendibílinn frá Mercedes Benz í Business Pro ...