Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Tesla Model 3 hefur verið endurnýjaður með breyttu útliti, öflugri hljóðeinangrun og mýkri fjöðrun. Hinar miklu vinsældir Tesla eru auðskiljanlegar, enda afbragðsgóðir bílar á samkeppnishæfu verði.
Tesla Model 3 hefur verið endurnýjaður með breyttu útliti, öflugri hljóðeinangrun og mýkri fjöðrun. Hinar miklu vinsældir Tesla eru auðskiljanlegar, enda afbragðsgóðir bílar á samkeppnishæfu verði.
Mynd / ÁL
Vélabásinn 1. febrúar 2024

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu Tesla Model 3 Long Range með fjórhjóladrifi á dögunum. Þessir bílar gengu í gegnum endurnýjun lífdaga í lok síðasta árs með gagngerum breytingum á ytra byrði og útbúnaði.

Stærsta muninn að utan má sjá á framljósunum sem eru orðin mjórri og endurnýjuðum stuðara. Formið á afturljósunum hefur einnig tekið smá breytingum ásamt því sem búið er að fjarlægja merki bílsins af skotthleranum. Í staðinn stendur „TESLA“ stórum stöfum. Myndirnar tala sínu máli en flestir hljóta að vera sammála um að hér er um fríðari bifreið að ræða en áður.

Í þessum tiltekna bíl er innréttingin svört og allt sem er hægt að snerta mjúkt og vandað. Nánast enga takka er að finna, en í stýrinu eru tveir hnappar sem er hægt að skruna upp og niður – annar fyrir hljóð og hinn fyrir hraðastilli. Síðan eru rafrænir takkar í stýrinu fyrir stefnuljós, rúðuþurrku og aðalljós.

Erfitt er að finna mínímalískari innréttingu. Ekki einu sinni stangirnar fyrir stefnuljósin hafa haldið sér.

Sætin sjálf eru mjúk og þægileg og með leðurklæðningu. Bæði framsætin eru stillanleg með rafmagni og breytilegum mjóbaksstuðningi með tökkum við hliðina á sætinu.

Ef ökumannssætið er mjög aftarlega og í lágri stöðu er vont að vera aftursætisfarþegi með fætur. Tærnar komast ekki undir framsætin nema þau séu aðeins hækkuð, en þegar það er komið í lag fara aftursætin vel með fullorðið fólk. Þeir allra hávöxnustu reka höfuðið rétt svo í glerþakið, en nánast allur toppurinn er rúða.

Aftursætin eru býsna góð svo lengi sem framsætin eru ekki í neðstu stöðu.

Skjár á pari við iPad Gæði margmiðlunarskjásins eru á pari við besta iPad-inn, sem er eins gott, því þar gerist allt. Á heimaskjánum er mynd af bílnum og stórt kort með skörpum gervihnattamyndum frá Google. Leiðsögukerfið er létt í notkun og er hægt að láta það skipuleggja hvar og hvenær skuli stinga bílnum í samband á lengri ferðalögum. Bíllinn getur því verið búinn að hita rafhlöðuna og tekið við rafmagni af fullum krafti strax til að lágmarka hleðslutímann.

Rétt er að nefna Tesla-appið sérstaklega, en með því er hægt að stjórna ýmsum eiginleikum bílsins úr fjarlægð. Það er til dæmis auðvelt að setja miðstöðina í botn áður en maður fer úr húsi. Þá er líka hægt að tengjast myndavélunum til að njósna um ferðir nágrannanna. Stórbrotnust er þó hæfni appsins til að láta bílinn framkvæma prumpuhljóð eftir þörfum. Svona eru tækniframfarirnar orðnar miklar á tuttugustu og fyrstu öldinni!

Hámark einfaldleikans

Ef notandinn er búinn að setja upp Tesla-appið í símann fer bíllinn sjálfkrafa úr lás þegar gengið er að bílnum. Þegar dyrnar eru opnaðar og sest er um borð kviknar á skjánum og miðstöðinni. Síðan þarf ökumaðurinn ekki að gera neitt annað en að setja á sig beltið og ýta á bremsuna, en þá er bíllinn kominn í gang og búinn að velja sjálfkrafa viðeigandi gír.

Við upphaf ökuferðarinnar nema skynjarar hvort það sé fyrirstaða fyrir framan, en þá er sjálfkrafa valinn bakkgír og svo öfugt sé hindrun aftan við bílinn. Engin stöng eða takki er til að skipta á milli gíra, heldur er sett í D, R og P í gegnum valmynd sem er alltaf uppi á skjánum.

Akstursaðstoðin í Tesla er ein af þeim bestu sem standa til boða. Ökumaðurinn smellir tvisvar á takka í stýrinu og bíllinn fer inn í miðja akreinina, velur sjálfur hámarkshraðann sem er hverju sinni og heldur hæfilegri fjarlægð frá næsta bíl. Þó er rétt að nefna að í örfáum tilfellum virtist bíllinn ekki hafa hugmynd um hámarkshraðann og var ekki hægt að skrúfa upp í hraðastillinum, heldur var nauðsynlegt að aka handvirkt á þeim kafla. 

Að aftan eru breytingarnar smávægilegar en aðlaðandi.

Snjórinn truflar ekki

Þó að ekið sé á illa merktum þjóðvegi með snjóþekju yfir hvítu línunum þá heldur hann sér á miðri akrein, sem er alls ekki sjálfgefinn eiginleiki í nýjum bílum. Ökumaðurinn getur því notið útsýnisins á ferðalaginu í staðinn fyrir að vera stanslaust með augun límd á veginum.

Sjálfvirkni margra bíla er oft hálftakmörkuð og krefst stanslausrar aðstoðar frá ökumanninum. Í þessum bíl er það hins vegar þannig að hann virðist skynja hugsanir manns og er akstursaðstoðin aldrei yfirþyrmandi. Hér hefur fundist gott jafnvægi milli akstursupplifunar og sjálfvirkni.

Mótorinn er fáránlega kraftmikill og getur hreinlega verið óþægilegt fyrir farþegana að finna iðrin þrýstast að bakinu þegar inngjöfin
er sett í botn. Þó svo að malbikið sé blautt og kalt þá ná dekkin mjög góðu gripi þegar þeyst er af stað.

Það sem skilur þennan bíl mest að frá hinum eldri er að hljóðeinangrunin er orðin meiri og er tvöfalt gler í rúðum. Þá hefur fjöðrunin verið endurbætt og fann blaðamaður aldrei fyrir því að þessi bíll væri hastur, þó hann tæki heldur ekkert sérstaklega eftir því að hann væri áberandi mjúkur. 

Nytsemi skottsins takmarkast nokkuð vegna lítils hlera.

Stefnuljósin hugarleikfimi

Þótt þessi bíll sé að flestu leyti algjört afbragð þá er rétt að nefna örfáa galla. Í fyrsta lagi er lágt undir hann og þarf að gæta varúðar þegar ekið er yfir háar bungur, sérstaklega ef margir farþegar eru í bílnum. Sætin eru jafnframt mjög neðarlega sem gerir aðgengið erfitt fyrir suma. Bíllinn er með býsna stórt skott en nytsemi þess takmarkast umtalsvert þar sem skotthlerinn er frekar lítill. Því getur verið erfitt að troða inn stórum hlutum eða teygja sig í farangur sem er innarlega. Undir húddinu er nytsamleg hirsla. 

Þá er ekki hægt að sleppa því að nefna stefnuljósin, en í anda hins alltumlykjandi mínímalisma er engin hefðbundin stöng. Í staðinn eru komnir tveir takkar í stýrið og er það gífurleg hugarleikfimi að beita þeim, sérstaklega þegar maður er inni í miðju hringtorgi þegar takkarnir eru komnir akkúrat hinum megin og ökumaðurinn þarf að rifja upp hvor er fyrir ofan og hvor fyrir neðan.

Að lokum

Eftir þennan prufuakstur skilur undirritaður vinsældirnar á Tesla fullkomlega, en þessi bíll toppar alla sína nánustu samkeppni í gæðum.

Verðið er ekki eins aðlaðandi eftir að stjórnvöld hækkuðu álögur á rafmagnsbíla, en það sama má segja um alla þá bíla sem þessi keppir við. Þeir sem ætla að fá sér nýjan rafmagnsfólksbíl þurfa að hafa mjög góð rök fyrir því að kaupa eitthvað annað en Tesla Model 3.

Þegar þetta er ritað kostar Tesla Model 3 Long Range Dual Motor með Stealth Grey lakki 9.157.388 krónur með vsk. Ódýrasti fjórhjóladrifni bíllinn er á 8.859.788 krónur með vsk.

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...

Algjör jaxl utan vega
Vélabásinn 8. ágúst 2024

Algjör jaxl utan vega

Bændablaðið fékk til prufu þriðju kynslóð af Can-Am Outlander fjórhjólinu. Það e...

Fyrir fágaða iðnaðarmenn
Vélabásinn 19. júní 2024

Fyrir fágaða iðnaðarmenn

Bændablaðið fékk til prufu minnsta sendibílinn frá Mercedes Benz í Business Pro ...