Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Polestar 2 fékk nýlega andlitslyftingu (e. facelift). Breytingarnar eru smávægilegar þegar kemur að útlitinu en framleiðandinn hefur stækkað rafhlöðuna og gert mótorana skilvirkari.
Polestar 2 fékk nýlega andlitslyftingu (e. facelift). Breytingarnar eru smávægilegar þegar kemur að útlitinu en framleiðandinn hefur stækkað rafhlöðuna og gert mótorana skilvirkari.
Mynd / ál
Vélabásinn 15. febrúar 2024

Upplagður í ófærðina

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hér er tekin til kostanna uppfærð útgáfa af Polestar 2 Long range Dual motor rafmagnsbílnum.

Þetta er meðalstór fólksbíll sem keppir helst við bíla eins og Tesla Model 3 og Hyundai Ioniq5. Smávægilegar breytingar eru á ytra útliti á meðan helsta uppfærslan felst í stærri rafhlöðum og skilvirkari aflrás.

Nýja útgáfan er auðþekkjanlegust þegar horft er á grillið sem er núna heil plata samlit bílnum, á meðan grillið á eldri bílnum var dökkt og með mynstri. Þar sem Polestar 2 var einstaklega fríður bíll til að byrja með hefur ekki verið nein þörf á frekari breytingum. Ýmis útlitseinkenni sverja sig í ætt við bíla frá Volvo, sem er systurfyrirtæki Polestar. Þar er augljósast að nefna framljósin.

Allir bílar sem hafa komið nýlega frá systurfyrirtækjunum Volvo og Polestar hafa hitt naglann algjörlega á höfuðið þegar kemur að útliti. Polestar 2 er
engin undantekning.

Hefðbundin innrétting

Þegar stigið er um borð tekur dökk og fallega hönnuð innrétting á móti manni. Hún minnir á vandaðan skandínavískan húsbúnað og svo gott sem allt sem fingurnir geta snert er ýmist fóðrað, mjúkt eða úr þéttu og þykku plasti. Umhverfið er á margan hátt hefðbundið og er ekkert sem kemur á óvart.

Á milli sætanna er stuttur hnúður til að velja á milli gíra og á bakvið stýrið hefðbundnar stangir fyrir ljós og rúðuþurrkur – eitthvað sem er ekki til staðar í nýja Tesla Model 3. Stýrishjólið er klætt með leðri sem er milt viðkomu og er það með takka fyrir hraðastilli og helstu skipanir fyrir útvarpið. Þar að auki er hiti í stýrinu. Geymsluhólfið milli sætanna er ekki sérlega stórt en á móti kemur víðáttumikið hanskahólf. Þá er einn glasahaldari rétt framan við armpúðann og djúpir hurðavasar beggja vegna.

Snertiskjár ekki alltaf augljós

Í miðri innréttingunni er býsna smekklegur margmiðlunarskjár. Hann er ekki felldur inn í innréttinguna, heldur stendur hann út og er á hæðina, ekki breiddina eins og algengast er. Það tók undirritaðan smá tíma að læra inn á kerfið og eru sumar skipanir ekki alveg augljósar. Á þriðja degi rambaði blaðamaður á flýtilykilinn til að komast á heimaskjáinn. Þrátt fyrir þetta er stýrikerfið ekki alslæmt og nýtist skjárinn vel í það sem hann á að gera.

Þeir sem eru með iPhone geta tengst skerminum með Apple CarPlay á meðan þeir sem eru Android-notendur geta ekki varpað símanum í skjáinn. Sem betur fer eru forrit eins og Spotify og Google Maps innbyggð í kerfið og því ekki mikill missir af Android Auto. Allir símar með Bluetooth geta auðveldlega náð sambandi við kerfið fyrir símtöl og tónlistarspilun.

Innréttingin er dökk og vel útfærð. Geymsluhólf milli sæta er takmarkað en hanskahólfið er rúmgott.

Sæti eins og í Volvo

Eins og Volvo er von og vísa þá eru þægileg sætin í Polestar 2. Í þessum tiltekna bíl voru þau klædd svörtu taui sem bar ekkert annað með sér en að vera vandað. Rétt er að nefna að sætin eru nokkuð djúp og er hægt að ímynda sér að fólk með viðkvæmar mjaðmir og hné geti átt erfitt með að setjast um borð. Framsætin geta farið langt aftur, en það eru mikil vonbrigði að aðdrátturinn í stýrinu er takmarkaður. Því þurfa háir ökumenn sem vilja rétta úr fótunum að teygja sig nokkuð langt í stýrishjólið.

Rýmið í aftursætunum er nokkuð takmarkað og er erfitt að sjá fyrir að fullorðnir einstaklingar geti unað sér vel þar. Ef framsætin eru færð aðeins fram komast fæturnir fyrir, en mjög lágt og þröngt er til lofts. Láti maður sig síga rekast hnén í framsætin. Umhverfið að aftan er hið smekklegasta sem bætir kannski á einhvern hátt upp fyrir þrengslin og hleypir glerþakið inn mikilli birtu.

Skotthlerinn er stór og gefur gott aðgengi að farangursrýminu. Mjög auðvelt er að hólfa skottið niður með því að kippa upp skilrúmi úr trefjaplasti í gólfinu. Þá er hægt að opna hlera milli aftursætanna til að renna skíðum í gegn og leggja sætisbökin niður. Undir húddinu er lítið geymsluhólf sem hentar vel undir hleðslukapla og annað smálegt.

Skotthlerinn er stór og gefur gott aðgengi að farangursrýminu.

Mikil hröðun og gott grip

Þegar ökumaðurinn gengur að læstum bílnum með fjarstýringuna í vasanum opnast hann þegar tekið er í húninn. Við það að setjast um borð og ýta á bremsuna er bifreiðin komin í gang. Engin þörf er að þrýsta á hnapp eða snúa lykli til að ræsa bílinn. Að ökuferð lokinni er hægt að ýta á P og stíga frá borði og bíllinn slekkur á sér. Það þarf hins vegar að ýta á takka á fjarstýringunni eða snerta rauf á hurðarhúninum til að læsa. Það síðarnefnda virkar illa í rigningu eða ef notaðir eru hanskar, sem á reyndar við um flesta bíla með sama búnað.

Ef inngjöfin er stigin í botn nær bíllinn hundrað kílómetra hraða úr kyrrstöðu á 4,5 sekúndum, enda hestöflin 421. Bifreiðin í þessum prufuakstri var á naglalausum vetrardekkjum og hélt alltaf öruggu gripi í snjó og slabbi. Í samanburði við Tesla Model 3 er nokkuð hátt undir Polestar 2 og er því hægt að reikna með að þetta sé ágætur bíll þegar malbikinu sleppir eða í vondri vetrarfærð.

Þá er hann afar hljóðlátur og þægilegur í akstri, sérstaklega þegar ekið er úti á þjóðvegum. Ólíkt mörgum nýjum bílum er lítið af viðvörunarhljóðum og þau fáu sem heyrast eru nokkuð vinaleg. Hægt er að keyra með einu fótstigi og nemur bíllinn staðar þegar inngjöfinni er sleppt. Óþarft er því að nota bremsufetilinn nema eitthvað komi upp á.

Stórir blindir punktar

Þessi bíll heldur öruggri fjarlægð frá bílnum fyrir framan þegar kveikt er á aðlögunarhæfa hraðastillinum. Hins vegar þegar færðin er ekki fullkomin eða eitthvað vantar upp á merkingar á vegum neitar hann að veita aðstoð við að stýra. Þá daga sem þessi bíll var í prófunum voru bara nokkrir stuttir kaflar þar sem hægt var að nýta akstursaðstoðina að fullu leyti. Þarna er Polestar 2 skör neðar en Tesla sem getur boðið upp á mikla sjálfvirkni við erfiðar aðstæður.

Þá er rétt að nefna að nokkuð er um blinda punkta og er upplifunin sú að bíllinn umlyki ökumanninn. B-bogarnir eru það breiðir að erfitt er að sjá til hliðar ef sætið er aftarlega. Þá eru C-bogarnir firnastórir og útsýnið aftur fyrir bílinn takmarkað. Sem betur fer eru myndavélar allan hringinn sem auðvelda að leggja í stæði en breyta litlu í almennum akstri.

Að lokum

Polestar 2 er með fallegri bílum sem hægt er að kaupa og ber allt yfirbragð bifreiðarinnar með sér vandaða framleiðslu. Uppgefin akstursdrægni frá framleiðanda er 592 kílómetrar á fullri hleðslu en í þessum prufuakstri gaf bíllinn 477 kílómetra drægni. Rétt er að nefna að frost var þá daga.

Grunnverð Polestar 2 Long range Dual motor er 9.890.000 með virðisaukaskatti. Bíllinn sem blaðamaður prufaði var með Pilot aukahlutapakka, sem inniheldur meðal annars ökumannsaðstoð og aðlögunarhæfan hraðastilli, og kostar 350.000 krónur aukalega. Samanborið við nánustu samkeppnina er þetta hærra verð og því ekki hægt að mæla með öðru en að fólk kynni sér vel mismunandi kosti áður en keyptur er nýr Polestar 2.

Skylt efni: prufuakstur

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...