Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Arðsemi fylgir réttu kvígueldi
Mynd / Baldur Helgi Benjamínsson
Á faglegum nótum 29. júní 2021

Arðsemi fylgir réttu kvígueldi

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nú þegar margir kúabændur hafa sett kvígurnar sínar út er mikilvægt að minna á að standa þarf vel að fóðrun þeirra eigi að ná sem mestu út úr bæði vaxtar- og þroskamöguleikum kvígnanna yfir sumartímann. Þekkt er að ef kvígurnar bera 22-24 mánaða gamlar þá munu þær skila búinu mestri hagkvæmni að teknu tilliti til æviafurða og uppeldiskostnaðar en til að ná þeim árangri, þ.e. réttum burðaraldri, þarf að standa rétt að kvígueldinu svo arðsemin verði sem mest.

Fyrstu vikurnar

Það hefur margoft komið fram bæði hér í Bændablaðinu og víðar að með réttu eldi á kvígum má stórbæta árangur kúabúanna og raunar að fyrstu vikurnar í lífi þeirra móti í raun að stærstum hluta hvernig kýr þær verða þegar að þeim tímapunkti kemur. Þetta kann að virka hálf óraunverulegt á marga, en tilfellið er að ef líkami kvígunnar fær þau skilaboð strax í upphafi að gnótt sé af næringarefnum, steinefnum og vítamínum, í réttum hlutföllum í umhverfinu þá setur hann strax mikinn kraft í vöxt og þroska. Aftur á móti ef með einhverjum hætti er dregið úr eða kvígurnar fái ekki fóðurefnin í réttum hlutföllum fær líkaminn í raun skilaboð um annað og aðlagar sig að þeim aðstæðum. Þess vegna þarf strax frá fyrsta degi að sinna kvígunum þannig að verið sé að ala þær til að verða afburða kýr.

Vigtun nauðsynleg

Svo unnt sé að fylgjast almennilega með því að þær vaxi hratt og vel er nauðsynlegt að vigta kvígurnar reglulega. Mælt er með því að þetta sé gert við fæðingu, þegar vanið er af mjólk, í kringum 3ja mánaða aldurinn, fyrir og eftir sumarbeit, við fyrstu sæðingu og svo við burð. Sé vigt ekki til er best að nota þar til gert lífþungamálband. Séu þessar mælingar til staðar má reikna út þungaaukninguna á degi hverjum en setja ætti markmið um ákveðinn meðal lágmarksvöxt. Hver hann er, fer eftir því eftir hverju er verið að sækjast en eigi að miða við að ná góðum vexti í kvígurnar fram að fyrstu sæðingu þurfa þær að vaxa vel og a.m.k. í kringum 600 grömm á dag að jafnaði fyrstu 13 mánuði ævinnar. Ég nota oft flugelda til útskýringar á vexti á kvígum en til þess að ná að njóta þeirra sem best þarf að koma þeim vel upp frá jörðu og eigi það að gerast þarf að vera kraftur í skotinu sjálfu. Þetta er eins með kvígurnar og til að ná þeim vel á flug þurfa þær strax frá fyrsta degi að taka vel við sér í vexti. Erlendis er miðað við að kvígur skuli tvöfalda fæðingarþunga sinn fyrstu 56 daga ævinnar, þ.e. fyrstu átta vikurnar, og ef kvígan hefur ekki náð þessum árangri í vexti er harla ólíklegt að hún nái nokkurn tímann að verða afburða kýr.

Kjarn- og gróffóður auk vatns

Flestir kúabændur hér á landi standa vel að mjólkurgjöfinni og gefa kvígunum gott atlæti en mjólkin ein og sér er ekki nóg. Kvígurnar þurfa einnig að fá aðgengi að góðu gróf- og kjarnfóðri sem er sérstaklega hannað og samansett til þess að kvígurnar geti þroskast hratt og vel. Hér þarf sérstaklega að huga að efnainnihaldi kjarnfóðursins og gerð þess svo það örvi vambarþroskann sem best. Bændum er ráðlagt að hafa samband við fóðurráðgjafa til þess að fá frekari upplýsingar um þær kröfur sem gera þarf til kjarnfóðurs fyrir gripi á þessum aldri. Þá er rétt að minna á að afar mikilvægt er að kvígurnar hafi alltaf aðgengi að fersku vatni.

Að hætta á mjólk

Þegar kemur að því að hætta mjólkurgjöf miða allt of margir bændur, um allan heim, við ákveðinn aldur. Þetta er ákveðinn misskilningur en í dag byggja allar ráðleggingar um þetta efni á því að miða við át en ekki aldur. Sé kvígan farin að éta vel af bæði kjarn- og gróffóðrinu er hún í raun að gefa merki um að vambarstarfsemi hennar sé komin vel af stað og að mjólkurgjöfin sé orðin óþörf. Hvenær þessu stigi er náð er einstaklingsbundið og víða ná kvígur þessu allt niður í sex vikna aldur en líklega oftast í kringum sjöundu til áttundu viku. Erlendis er miðað við, fyrir kvígur af Holstein kyni, að þær éti að lágmarki 1,3 kg af kjarnfóðri þrjá daga í röð og að þá megi hætta með þær á mjólkurgjöf. Fyrir íslenskar kvígur er miðað við 1,0 kg át á kjarnfóðri þrjá daga í röð.

Kynþroski

Í rannsókn sem gerð var hér á landi fyrir nokkrum árum kom í ljós að kvígur voru að meðaltali 28 mánaða gamlar þegar þær báru sem bendir til þess að gríðarleg tækifæri til aukinnar arðsemi megi ná á Íslandi með því að bæta eldi á kvígum.
Eigi kvígan að bera 22ja mánaða þarf að sæða hana þegar hún er 13 mánaða en þó ekki fyrr en hún nær tilætluðum þunga. Kvígurnar verða í raun kynþroska mun yngri en eru þá of smáar til að geta náð tilætluðum þunga við burð. Hérlendis er miðað við að kvígurnar hafi náð um 55% af þyngd fullorðinna kúa þegar þær eru sæddar. Ef miðað er við að fullorðnar kýr hér á landi séu um 470 kíló, sem er reyndar allbreytilegt, ætti kvígan því að vera um 260 kíló á fæti þegar hún er sædd. Hér þarf vissulega hver og einn að nota eigin tölur en hlutfallið heldur, þ.e. 55% af þunga fullorðinna kúa er viðmið sem bæði er notað hér á landi og erlendis fyrir önnur kúakyn.

Sumarbeit

Til þess að ná þessu þarf fóðrið að vera kraftmikið og ólíklegt er að það náist t.d. með úthagabeit eins og oft tíðkaðist hér áður fyrr og gerir jafnvel enn í einstaka tilfellum. Reyndar er alþekkt erlendis að beit á ófengnum kvígum krefst gríðarlegar nákvæmi og góðrar bústjórnar eigi ekki að koma afturkippur í vöxtinn og allar líkur eru á því að svo sé einnig hér á landi. Því þarf að setja kvígurnar á orkuríka beit snemmsumars, bæta við þær viðbótarfóðri þegar líður á og taka þær snemma af beitinni þegar orkugildi grasanna fellur.
Kvígur búa reyndar yfir þeim hæfileika að geta bætt sér upp vöxtinn upp að ákveðnu marki, hafi t.d. eitthvað brugðist í bústjórninni og komið afturkippur í vöxtinn. Þetta geta þær gert eftir að búið er að hýsa og tíminn sem gefst í þetta ferli er þó stuttur. Í Noregi hafa mælingar sýnt að kvígur geta bætt sér upp smá afturkipp í vexti fyrstu tvo mánuðina eftir hýsingu, en eftir það verður vöxturinn jafn á ný. Það er því mikilvægt að hafa þetta hugfast að hægt er að draga úr skaðanum, sem mögulega hefur orðið, sé kórrétt staðið að eldinu við hýsingu en tíminn til þess er þó knappur.

Fósturþroskinn

Eftir að kvígan hefur fest fang má í raun slaka aðeins á eldinu, enda er þá gengið út frá því að hún hafi náð tilætluðum þunga við fyrstu sæðingu. Nú tekur við tímabil hjá kvígunni sem bæði fer í áframhaldandi vöxt hennar en einnig fósturþroska og þegar hún ber þarf þungi hennar að hafa náð 85% af endanlegum þunga fullorðinna kúa, þ.e. um 400 kg þunga sé miðað við að meðalþungi kúnna sé 470 kg. Á þessu tímabili er þyngingarkrafan því rúmlega 500 grömm á dag sem ætti að vera nokkuð auðvelt að ná með þokkalegri fóðrun eða beit. Nú á að leggja áherslu á að ná upp átgetu á gróffóðri og því má í raun draga úr orkuinnihaldi þess en bæta það upp með magninu.

Síðustu 60 dagarnir

Fullyrða má að flestir ef ekki allir kúabændur sinni nú orðið geld­kúnum sérstaklega, með þar til gerðu fóðri, steinefnum og vítamínum. Það er aftur á móti allt of algengt að þetta sé ekki gert fyrir kvígurnar síðustu 60 dagana fyrir burð. Þá er fósturþroskinn mikill og tekur á kvíguna enda er hún sjálf enn að vaxa. Þær þurfa því sérstaklega gott eftirlit og rétt fóður svo þær nái að byggja sig rétt og vel undir burðinn og upphaf mjaltaskeiðsins. Þegar þær bera ætti holdastig þeirra að vera 3,5 svo þær hafi af nægu að taka þegar mjólkurframleiðslan hefst en samhliða henni eru þær enn að vaxa og þyngjast þessi síðustu 15% af ætluðum lífþunga fullorðinna kúa.

Ítarefni:
„Fóðrun nautgripa á mismunandi skeiðum“ eftir Berglindi Ósk Óðinsdóttur í bókinni Nautgriparækt, sem hægt er að nálgast á vef LK: www.naut.is
„Fyrstu 8 vikurnar ráða miklu um örlög kýrinnar“ eftir greinarhöfund, sjá 13. tbl. Bændablaðsins 2019.
„Þungar kvígur endast lengur“ eftir greinarhöfund, sjá 14. tbl. Bændablaðsins 2020.

Snorri Sigurðsson -  snsig@arlafoods.com

Skylt efni: kvígueldi

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...