Dreifing á tilbúnum áburði
Ýmsir þættir viðkomandi dreifingu tilbúins áburðar hafa áhrif á hve góð nýting hans verður, m.a.tímasetning dreifingar, aðstæður og ýmis atriði varðandi áburðardreifarann og notkun hans.
Almennt er talið að besti dreifingartími tilbúins áburðar á vorin sé í byrjun gróanda þegar orðið er sæmilega þurrt um. Raki í jarðvegi er mikilvægur til þess að áburðarkornin renni út. Sé hann nægur kemur ekki að sök að dreifingin dragist eitthvað en mikilvægt er að missa ekki af rakanum í þurrum vorum. Einkum er mikilvægt að bera snemma á nýræktir og nýleg tún til að sáðgresið í þeim nýtist sem best.
Þó mælt sé með að bera á tímanlega til að nýta raka jarðvegsins þarf að hafa í huga að sé jarðvegurinn of blautur verður tap á köfnunarefni vegna afnítrunar sem leiðir til minni uppskeru.
Áburð á korn ætti að fella niður við sáningu í sömu rás og fræið. Ávinningur af því í uppskeru samanborið við aðrar aðferðir má búast við að sé 15-25%.
Skipting áburðar að vori er ekki líkleg til að skila aukinni uppskeru
Reglulega koma upp vangaveltur um það hvort hagkvæmt sé að skipta áburðarskammtinum. Almennt er það þannig að skipting hans að vori er ekki líkleg til að skila aukinni uppskeru. Með því má hins vegar hafa áhrif á efnainnihald og gæði uppskerunnar og að vissu marki stjórna sprettu. Þar sem þannig háttar til að mikil úrkoma að vori geti skolað út áburði er skynsamlegt að bera áburðarskammtinn á í fleiri en einni gjöf. Helst er þessi hætta fyrir hendi þar sem jarðvegur er gljúpur, s.s. sendið land, melar eða áreyrar. Þegar tún eru notuð til vorbeitar sauðfjár ætti vaxtartími grasa að nýtast betur sé hluti áburðarins borinn á snemma fremur en að bíða með alla áburðargjöf þar til beitartíma er lokið.
Það getur verið hagstætt að skipta áburðargjöf á grænfóður þannig að hluti áburðarins, þá einkum köfnunarefni, sé borinn á þegar spretta er komin af stað. Þetta á ekki hvað síst við um grænfóður sem ætlað er til haustbeitar.
Þegar áburði er dreift er afar mikilvægt að velja veður sem hæfir. Best er að dreifa áburði í stilltu veðri og gott ef von er á rigningu sé raki ekki nægur fyrir, til að áburðurinn leysist upp. Hafa þarf í huga að ef loft er mjög rakt þegar áburði er dreift getur bæði sest ryk og raki á dreifibúnaðinn sem hefur síðan neikvæð áhrif á dreifigæðin.
Við stillingu á áburðardreifara þarf að hafa í huga þyngd, kornastærð, kornagerð og brotþol áburðarins. Þyngdin og kornagerðin hefur áhrif á flæðið í gegnum áburðardreifarann og hvernig áburðurinn ferðast frá honum.
Áburðarefnin eru misþung í fjölkorna áburði
Þegar keyptur er fjölkorna áburður er mikilvægt að gera sér grein fyrir að áburðarefnin eru misþung og eins er áferðin oft frábrugðin. Þegar korn eru misþung þá ferðast þau einnig mislangt þegar þeim er slöngvað frá dreifaranum. Þess vegna er mikilvægt að minnka vinnslubreidd eins og kostur er þegar unnið er með fjölkornaáburð.
Ef áburður hefur kögglast er það vísbending um að í hann hafi komist raki. Við það minnkar brotþol hans og eins getur hann hafa farið illa í flutningi eða geymslu. Þegar unnið er með slíkan áburð þá er óvíst að hann þoli þann snúningshraða sem dreifitaflan segir til um og þá er einfaldasta ráðið að minnka dreifibreiddina eins og kostur er, stundum þarf að notast við sömu ugga og notaðir eru við dreifingu á fræi.
Við stillingu á áburðardreifara þarf að hafa í huga þyngd, kornastærð, kornagerð og brotþol áburðarins. Þyngdin og kornagerðin hefur áhrif á flæðið í gegnum áburðardreifarann og hvernig áburðurinn ferðast frá honum. Lítið brotþol takmarkar síðan vinnslubreiddir. Með öllum dreifurum fylgja dreifitöflur og eins fylgir mörgum dreifurum einhvers konar rennslisprófunarbúnaður. Raki í lofti hefur áhrif á flæðið eins og áður segir svo mælt er með að gera rennslismælingar á hverjum degi sem unnið er við dreifingu.
Það sem hefur áhrif á áburðarskammt er aksturshraði, vinnslu- breidd og rennsli í gegnum dreifarann. Hægt er að stilla þetta allt í hönd en áburðardreifarar með vigtum og gps tækni geta fylgst með sambandi aksturs og rennslihraða. Til viðbótar geta gps stýrðir dreifarar minnkað eða aukið vinnslubreiddina sjálfvirkt og þannig tryggt rétta skörun á óreglulegum túnum.
Ráðlagt að notast við litla vinnslubreidd
Fyrir þá sem stilla áburðardreifara sjálfir þá er ráðlagt að notast við litla vinnslubreidd og lítinn aksturshraða svo hægt sé að halda þeim hraða sem stillt var eftir, líka þar sem túnið er óslétt. Munið að þetta er ekki kappakstur, þetta er sparakstur í orðsins fyllstu merkingu.
Á dreifarann þarf að velja rétta dreifiugga/dreifiskífur og stilla þá rétt miðað við áburðartegund. Einnig þarf snúningur á aflúttaki að hæfa þeim áburði og dreifibreidd sem nota á. Athugið að snúningur getur verið mismunandi upp við skurði með notkun á jaðarbúnaði. Fylgja þarf leiðbeiningum framleiðenda um þessa hluti ásamt hæð dreifara yfir gróðurþekjunni, halla dreifara fram eða aftur, sumir dreifarar eru þannig að þeim er hallað til hliða við skurðbakkadreifingu.
Ef ekki á að nota jaðardreifingarbúnað þá þarf að stilla dreifibreiddina eins mikið niður og hægt er. Ef nota á jaðardreifibúnað þarf einnig að gera sér grein fyrir að hann er aldrei 100% á ysta enda, svo alltaf þarf að velja hvort bera eigi fullan skammt við skurðbakkann eða túnjaðar og sættast á að einhver áburður fari í skurð eða út fyrir túnið.
Ef dreifa á fullum áburðarskammti alveg út á jaðar túna þá mun hluti áburðarins fara til spillis, hve mikið fer auðvitað eftir hversu stór hluti túnsins er upp við skurðbakka. Ef ekkert á að fara út fyrir túnið er ómögulegt að bera fullan skammt alveg á kantinn þó hægt sé að komast nærri því.Hægt er að nýta sér gps tæknina í símum til þess að fá leiðsögn um rétt bil milli ferða. Nokkur smáforrit eru fáanleg gegn vægu gjaldi og virka ágætlega, þó nákvæmnin sé ekki eins og best verður á kosið. Ef verið er að nota GPS tækni án leiðréttingarbúnaðar er mikilvægt að vita að ekki er hægt að hætta dreifingu og taka upp þráðinn seinna, sá þráður er þá kominn á allt annan stað vegna truflanna í veðurhvolfi.
Eins er hægt að notast við froðubúnað eða reyna að horfa þetta, enn einu sinni gildir það að minni dreifibreidd eykur nákvæmni ef reyna á að miða við akstursför í grasinu úr síðustu ferð.
Góð ending á dreifibúnaði er eitthvað sem vert er að huga að enda töluverð fjárfesting fólgin í góðum tækjum til áburðardreifingar, svo ekki sé nú talað um mikilvægi þess að búnaðurinn sé í lagi og vinni eins og honum er ætlað. Það er því afar mikilvægt að þrífa dreifara og dreifibúnaðinn vel að lokinni áburðardreifingu. Gott er að þvo vélarnar vel og úða þær svo með 50:50 blöndu af hráolíu á móti smurolíu en slík blanda hamlar ryði á vélum. Það er misjafnt á milli bæja hvernig aðstæður eru varðandi húspláss en gott er að geta geymt áburðardreifarann inni á milli þess sem hann er notaður.
Velja þarf góðan geymslustað fyrir áburðinn
Það þarf að velja áburðinum góðan geymslustað. Oft kemur áburðurinn heim á bæinn nokkru áður en til stendur að dreifa honum. Þegar þannig háttar til er nauðsynlegt að velja honum stað þar sem undirlag er þurrt og í skjóli fyrir vindi. Gott er að geyma áburðarsekkina á vörubrettum svo þeir liggi örugglega ekki með bossann ofan í bleytu og að binda saman hankana á sekkjunum til að minnka líkurnar á að þeir berjist til í vindi og trosni eða valdi skemmdum á umbúðum. Ef geyma á áburð milli ára er best að geyma hann inni en velja honum stað með það í huga að hann er eldfimur. Í útigeymslu þurfa sekkir að standa á brettum og þar sem vatn safnast ekki fyrir. Verja þarf þá fyrir veðri til að ekki komi göt á sekkina og sólarljósi sem með tímanum vinnur á umbúðunum.
Ef einhverjar spurningar vakna um áburðardreifingu þá eru ráðunautar RML til aðstoðar.
Eiríkur Loftsson
ráðunautur, Rekstrar- og umhverfissvið
Sigríður Ólafsdóttir
ráðunautur, Rekstrar- og umhverfissvið