Eik (Quercus robur)
Nafnorðið eik er nú aðallega notað á tré einnar ættkvíslar trjáa. Hér um slóðir er það raunar fyrst og fremst haft um eina sérstaka tegund af téðri ættkvísl. Formlegra heiti er sumareik en svo er hún líka kölluð stilkeik vegna þess að akörnin eða fræin á henni standa á stilkum.
Til forna hafði orðið eik víðari merkingu og gat átt við um tré óháð tegund. Sú merking lifir að nokkru leyti enn í íslensku máli. Í Hallormsstaðaskógi eru gömul og myndarleg birkitré kölluð eikur. Þá höfum við líka hinn alþekkta málshátt, sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Það þýðir einfaldlega að eplin detti yfirleitt bara lóðrétt niður úr eplatrjánum. Fleiri eikarmálshætti mætti nefna, svo sem ekki fellur eik við fyrsta högg. Eikarskip voru í fornum ritum gjarnan kölluð eikur enda hefur eikarviður verið notaður í skipasmíðar frá fornu fari. Loks er rétt að nefna að eik kemur gjarnan fyrir í heitum og kenningum í fornum kveðskap, svo sem líneik og gulls eik.
Nokkrar eikartegundir hafa verið reyndar á Íslandi. Einna besta raun hefur sú gefið sem heitir á latínu Quercus robur og við köllum oftast sumareik eða bara eik, eins og fyrr segir. Ættkvíslarheitið Quercus þýðir einfaldlega eik en robur vísar til stífni eða styrkleika. Það er rökrétt öllum sem eikarviðinn þekkja af eigin raun.
Hann er þéttur og sterkur enda um ómunatíð verið eftirsóttur í ýmsa smíði. Nýlega er lokið endursmíði á burðarvirki þaksins á Notre Dame kirkjunni í París sem skemmdist í eldi 2019. Í það fóru um 800 eikartré og þótti einboðið að nota sama efnivið og sömu smíðaaðferðir sem notast var við fyrir um 800 árum. Við þekkjum líka eikarhúsgögn, eikarbáta, eikarbryggjur og ýmsa nytjahluti úr eik, allt saman endingargott og sterkt.
Nefna má að hin norður-evrópska eikartegundin, vetrareik, sem er mjög fátíð í ræktun hérlendis, ber latneska heitið Quercus petrea. Heitið petrea merkir steinn (í kvenkynsmynd) og vísar einnig til hörku viðarins. Sumareik og vetrareik eru reyndar náskyldar og nauðalíkar. Þær þekkjast ekki í sundur á laufblöðunum, einungis á því hvort akörnin vaxa á stilkum eða fast við sprotann. Því er hugsanlegt að fleiri vetrareikur vaxi á Íslandi en fólk heldur.
Óvíst er hversu háar eikur geta orðið á Íslandi. Tegundin telst reyndar hvergi til hávaxnari trjáa þótt hún geti vissulega náð um fjörutíu metra hæð. Mikilfengleik sinn sýnir hún ekki síður í sverum stofni og tröllvöxnum greinum sem hún fær með aldrinum. Tímann hefur eikin fyrir sér því hún getur orðið ævagömul. Vitað er um eikur í Litáen og Búlgaríu sem taldar eru yfir 1.500 ára gamlar og tólf hundruð ára gamla eik í Danmörku. Ummál ríflega þúsund ára eikar í Svíþjóð er fjórtán metrar. Þetta gefur einhverja hugmynd um vaxtarlag eikarinnar sem gjarnan einkennist ekki hvað síst af umfangsmikilli krónu. Þá er ekki óalgengt að fornar eikur séu holar að innan. Elsti viðurinn hefur þá rotnað innan úr stofninum. Slíkt gerir trén dulúðleg. Gamlar eikur eru gjarnan sveipaðar ævintýraljóma og ekki óalgengt að þær hafi sérstakan sess í hugum heimafólks á hverjum stað.
Eikin vex hægt og hérlendis er henni hætt við haustkali sem enn hægir á vextinum. Í góðu skjóli og við góð skilyrði ætti eikin þó að geta dafnað víða á landinu. Skjólið er henni sérstaklega mikilvægt í æsku en jafnframt þarf hún fulla birtu. Fá eldri eikartré eru til í görðum á Íslandi en á undanförnum árum hefur margt áhugasamt fólk reynt sig við ræktun ýmissa eikarkvæma. Reynslan er sú að eikin er lífseig þótt vöxtur sé hægur og stundum verði haustkal. Ungar eikur má því víða finna í görðum og skógarreitum. Á komandi árum verða þær því æ algengari sjón hjá okkur. Segja má að fyrsti eikarskógurinn eða -lundurinn á Íslandi sé reitur sem gróðursett var í árið 2017 í tilefni af fimmtíu ára afmæli skógrannsókna á Mógilsá. Þar voru sett niður fimmtíu eikartré sem dafna vel í góðu skógarskjóli í brekku sem snýr móti suðri.
Á öldum áður uxu víðáttumiklir eikarskógar víða um Mið- og Austur- Evrópu, Bretlandseyjar, sunnanverða Skandinavíu og víðar. Mikil ásókn í dýrmætan viðinn, ekki síst til skipasmíða, varð til þess að þessir skógar eru nú að miklu leyti horfnir. Allt að 200 ár getur tekið að rækta eik í þá stærð sem gefur bestan við. Hvort trén í Esjuhlíðum eiga eftir að gefa slíka afurð verða kynslóðir komandi alda að leiða í ljós. En víst er að litlu eikurnar þar eru nú þegar farnar að gleðja augu gesta í skóginum.