Eins en samt ólík
Nú þegar sólin hækkar á lofti fer hugurinn að hvarfla að vorverkum, jarðvinnslu og sáningu. En hverju á að sá, er ekki allt gott sem vel er grænt?
Það er því miður ekki svo einfalt, bæði eru tegundir fóðurjurta margar og svo eru mörg yrki af hverri tegund.
Við þurfum því að velta fyrir okkur hvaða tegundir það eru sem eru líklegar til að mæta þörfum okkar en þó er ekki síður mikilvægt að vera sér meðvitaður um mismunandi yrki hverrar tegundar og ólíka eiginleika þeirra.
En hvaða eiginleikar eru það sem skipta okkur mestu máli þegar kemur að vali á sáðvöru til fóðuröflunar? Við viljum mikla uppskeru af miklum gæðum og ef við sáum fjölærum tegundum viljum við auðvitað góða lifun og endingu líka. Því miður er ólíklegt að ein og sama tegundin, eða yrkið, nái að uppfylla allar þessar óskir okkar, jafnvel þó að við sleppum alveg að horfa til annarra mikilvægra áhrifaþátta varðandi árangur ræktunarinnar, svo sem jarðvinnslu og umhverfisþátta.
En hvað er það sem ræður eiginleikum tegunda og yrkja? Plöntur eru aðlagaðar að ólíkum aðstæðum sem hefur bein áhrif á útlit þeirra, eiginleika og hæfni til að bregðast við umhverfi sínu. Plöntur sem aðlagaðar eru norðlægum slóðum eru alla jafna lágvaxnari og hafa meira rótarkerfi en þær sem aðlagaðar eru suðlægari slóðum. Fyrir nytjaplöntur þýðir þetta að suðlægari tegundir, og/eða yrki, eru uppskerumeiri en norðlægari ættingjar þeirra. Lifun og ending suðlægra tegunda, og/eða yrkja, er aftur á móti verri en þeirra sem vanar eru kulda og trekk. Auk þess eru aðrir eiginleikar svo sem sláttur og beitarþol, fóðurgæði og aðrir þættir sem eru mikilvægir fyrir nytjaplöntur sem eru breytilegir milli tegunda, og/eða yrkja.
Grundvallarmunur er á norðlægum og suðlægum tegundum og yrkjum þegar kemur að lifun og/ eða hversu fljótt plantan fer af stað að vori, eða eftir sáningu. Þessum þáttum er stjórnað af flóknum kerfum í plöntunni og þess vegna bregðast þær mismunandi við umhverfi sínu, svo sem hitastigi og ljóslotu, sem hefur bein áhrif á lifun þeirra og flýti.
Vegna þessa rjúka sumar plöntur af stað ef það kemur hlýr kafli í febrúar eða mars meðan aðrar láta ekki plata sig svo auðveldlega um að vorið sé komið. Eins er það þegar kemur að vetrun plantna að hausti, sumar taka mark á samspili hitastigs og ljóss og undirbúa vetrardvala meðan aðrar taka ekki mark á skilaboðum umhverfisins og halda að partíið sé endalaust. Veðrið er síbreytilegt frá degi til dags og frá ári til árs, það þekkjum við, en gangur sólarinnar, ljóslotan er sú sama frá ári til árs. Það hvenær daginn tekur að lengja þar til nóttin hörfar alveg þar til hún tekur næstum að fullu við að nýju, þetta er einkennandi fyrir norðlægar slóðir og þetta þekkja plöntur sem aðlagaðar eru að þeim, hvað sem hitastigi líður.
Með markvissum kynbótum er hægt að bæta aðlögun nytjaplantna að norðlægum aðstæðum þannig að þær lifi og gefi meiri og betri uppskeru, hvort sem þær eru einærar eða fjölærar. Kynbætur taka tíma og kosta peninga og að frátöldum kynbótum á byggi, vegna eljusemi og innsæis Jónatans Hermannssonar, hafa mjög takmarkaðar kynbætur verið stundaðar hér á landi á nytjaplöntum, þó ekki megi gleyma vallarfoxgrasyrkjunum Korpu, Öddu og Snorra.
Mjög mikilvægt er að hér séu stundaðar tilraunir á yrkjum til að prófa með markvissum hætti hvernig þær reynast við aðstæður hér á landi þar sem þær eru ekki kynbættar sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður eða þann breytileika sem hér er að finna í vaxtarskilyrðum.
Slíkar grunnrannsóknir, ásamt áburðartilraunum, mega ekki gleymast þar sem þær eru undirstaðan undir skýjaborgirnar, sem svo skemmtilegt er að hugsa um, en standa ekki ef undirstöðurnar vantar.
En hvað á að velja, hverju á að sá? Áður en við veljum tegund, og/ eða yrki, þá verður að liggja fyrir hvert markmiðið okkar er með ræktuninni, hvernig á að nýta hana og til hve langs tíma við horfum, en það eru lykilatriði til að hægt sé að velja það sem best hentar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hafa verið aðeins sveiflur í fjölda hektara (ha) sem sáð er í á hverju ári undanfarin ár en nokkuð stöðug aukning hefur þó verið í kornsáningum. Á myndinni sést líka hvernig vorið í fyrra hafði neikvæð áhrif á sáningar.
Niðurstöður tilrauna og reynsla af einstökum yrkjum eru mjög mikilvægar til að hægt sé að leggja mat á hæfni hvers yrkis til að lifa og vaxa hér á landi.
Vissulega eru aðstæður ólíkar eftir landsvæðum og jafnvel innan sveita en vitneskja um árangur einstakra yrkja eru grunnupplýsingar svo hægt sé að leggja mat á hvað hentar hverjum og einum. Árangur ræktunar fer svo eftir því hvernig staðið er að henni og vönduð jarðvinnsla er þar efst á blaði. Við eigum að vanda okkur og reyna að stjórna því sem við getum. Með því að nota ólíkar tegundir og yrki getum við bæði meðvitað nýtt ólíka eiginleika þeirra t.d. varðandi uppskeru og lifun, en þannig getum við líka reynt að tryggja að við veðjum ekki öllu okkar á sama hestinn. Bestur árangur næst með notkun á blöndun tegunda og yrkja og við eigum að vanda valið og taka meðvitaða ákvörðun um það sem við sáum en frækostnaður er sáralítill af heildarkostnaðinum við endurræktun.
Vert er að nefna að í næstu þremur tölublöðum Bændablaðsins mun nánar verða fjallað um notkun á einstökum tegundum og yrkjum undanfarinna ára.