Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Gullbrá 16-189 frá Vífilsdal býr yfir hinni fágætu ARR genasamsætu.
Gullbrá 16-189 frá Vífilsdal býr yfir hinni fágætu ARR genasamsætu.
Mynd / Hörður Hjartarson
Á faglegum nótum 8. febrúar 2024

Fjársjóður fundinn í Dölunum

Höfundur: Eyþór Einarsson, ráðunautur á búfjárræktar- og þjónustusviði.

Þann 26. janúar sl. var staðfest að fundin er ný uppspretta af ARR genasamsætunni, sem veitir vörn gegn riðuveiki í sauðfé.

Eyþór Einarsson.

Þessi genasamsæta fannst fyrst hér á landi í janúar 2022 á Þernunesi við Reyðarfjörð. Síðan þá hafa verið greind sýni úr fjölmörgum gripum víðs vegar um land en ekki fundist meira ARR nema í afkomendum Þernuneshrútanna. Því er ljóst að tíðni þessarar genasamsætu er afar lág í stofninum enda lengst af talið að hún fyrirfyndist ekki í sauðfé hér. Þessi nýja ættlína vekur þó von um að hún geti leynst í fleiri hjörðum á landinu. Það að nú sé komin fram önnur ættlína með ARR er mikill happafengur fyrir ræktunarstarfið og mun auðvelda verkefnið sem fram undan er, að innleiða verndandi arfgerðir hratt og vel í fjárstofninn í landinu.

Vörður 23-459 og Gullbrá 16-189

Á bænum Vífilsdal í Hörðudal, Dalasýslu fannst ARR genasmsætan óvænt í haust í lambhrút. Það sem gerði niðurstöðuna óvænta var að hrúturinn á ekki að vera undan Þernuneshrútunum og því vöknuðu spurningar um hvort lambið væri rangt feðrað eða ný uppspretta af ARR samsætunni væri fundin. Nú er búið að tvígreina sýni úr móður hrútsins, Gullbrá 16-189, og þar með staðfesta að fram er kominn nýr ættbogi sem býr yfir þessari fágætu genasamsætu.

Gullbrá er kollótt og hreinhvít að lit. Faðir hennar er Baggi 12-441 sem var kaupahrútur frá Ragnari og Sigríði á Heydalsá. Faðir Bagga, Strengur 09-891, og móðurfaðir, Bogi 04-814, eru þekktir sæðingastöðvahrútar sem vitað er að ekki báru ARR. Baggi er ógreindur og á ekki fleiri lifandi afkvæmi en Gullbrá. Hins vegar eru til afkomendur hans. Frekari greiningar á hjörðinni gætu því hugsanlega varpað ljósi á það hvort Gullbrá erfir ARR í gegnum Bagga frá Heydalsá eða hvort móðurætt hennar hafi búið yfir því.

Móðurætt Gullbrár má rekja í beinan móðurlegg sex ættliði aftur í Fjárvís.is, í ána Dunu H 82-076 frá Vífilsdal. Duna var hyrnd en H í nafni hennar staðfestir það. Móðurætt Gullbrár er talsvert innblönduð af sæðingahrútum, bæði hyrndum og kollóttum. Einn kauphrút er að finna í ættartrénu en það er Golsi 02-346 frá Háafelli í Miðdölum. Þeir stöðvabekrar sem næstir henni standa eru Bogi 04-814 frá Heydalsá (MFF), Bjargvættur 97-869 frá Jaðri (MMFF), Eir 96-840 frá Smáhömrum (MFMFF), Hnykkur 91-958 frá Skeiðháholti (MFMMFF og MMMFF) og Askur 97-835 frá Svínafelli (MMFMMF). Lengra aftur má finna þá Sólon 93-977 frá Heydalsá, Kokk 85-870 frá Hesti, Odda 85-922 frá Hjarðarfelli, Stúf 81-994 frá Hesti, Þribba 80-849 frá Steinstúni og Lalla 79-813 frá Hjallanesi 2. Fremur ólíklegt verður að teljast að ARR hafi dreifst með sæðingum, a.m.k. í seinni tíð og því er það spennandi ráðgáta hvaðan samsætan er komin.

Gullbrá er farsæl ær sem verður átta vetra nú í vor, bæði frjósöm og mjólkurlagin. Hún átti þó ekki lamb veturgömul. Hún hefur verið þrisvar sinnum tvílembd og þrisvar sinnum þrílembd en Vörður er fæddur þrílembingur. Hún stendur nú í 6,9 afurðastigum.

Vörður 23-459, sem erft hefur ARR frá Gullbrá móður sinni er sonur Tóns 18-855 frá Melum. Það er skemmtileg tilviljun að fyrsti hrúturinn sem fannst í Þernunesi, Gimsteinn 21-899 var einnig undan hrút frá Melum í Árneshreppi en hvorugur þessa hrúta hefur þó fengið ARR frá föður sínum. Vörður er prýðilega gerður hrútur. Við skoðun í haust vó hann 50 kg, mældist 107 mm á legg og mældist með 33 mm þykkan bakvöðva. Hann stigaðist upp á 86,5 stig og þar af 18,5 fyrir læri. Hann stendur sterkur í kynbótamati fyrir alla eiginleika.

Vífilsdalur og uppruni fjárins

Í Vífilsdal standa fyrir búi þau Hörður Hjartarson og Elín Jónsdóttir. Þar er rekið myndarlegt fjárbú með tæplega 500 vetrarfóðrum kindum. Hörður tók við fénu af föður sínum sem bjó í Fremri-Vífilsdal. Síðar var Fremri-Vífilsdalur sameinaður Neðri-Vífilsdal og heitir jörðin Vífilsdalur í dag. Í Dölunum var að hluta til skorið tvisvar niður vegna mæðuveikinnar. Í seinna skiptið var það árið 1963 vegna þurramæði og var þá skorið í Suðurdölu (Haukdal, Miðdölum og Hörðudal) og sá hluti hólfsins afmarkaður í kjölfarið. Í hið nýja Suðurdalahólf kom fjárskiptafé haustið 1964. Það fé var aðalega sótt í Miðfjarðarhólf. Í Miðdalahreppinn, sem var einn þeirra þriggja hreppa sem stóðu að fjárskiptunum, komu einnig nokkur lömb austan úr Mýrdal en hrútar upprunnir þaðan koma fram á hrútasýningum haustið 1965 í Dölunum. Í Vífilsdal, sem þá tilheyrði Hörðudalshreppi, kom fjárskiptaféð aðallega frá þremur búum í Hrútafirði; Melum, Bálkastöðum og Brandagili. Auk þess gætu hafa komið hrútlömb frá fleiri bæjum en staðfesting á því liggur ekki fyrir. Um það bil 16 árum áður en þessi fjárskipti áttu sér stað var skipt um fé í Miðfjarðarhólfi og það fé var fengið frá Vestfjörðum. Má því ætla að grunnurinn að stofninum í Vífilsdal sé Vestfjarðafé.

Frekari leit að ARR

Næstu skref eru að kortleggja hjörðina í Vífilsdal en tiltölulega fáir gripir eru arfgerðargreindir þar í dag. Niðurstaðan úr þeirri skoðun mun vonandi gefa frekari vísbendingar um það hvert sé vænlegast að horfa varðandi frekari leit að ARR. Hver ný hjörð sem uppgötvast sem ný uppspretta ARR er mikils virði fyrir ræktunarstarfið í landinu og mun geta leitt til þess að innleiðing á ARR genasamsætunni geti gengið hraðar en áætlanir hafa gert ráð fyrir. 

Á næstu dögum verður opnað fyrir pantanir hjá RML á sýnatökubúnaði vegna arfgerðagreininga fyrir árið 2024 og fyrirkomulag kynnt. Vonandi munu Dalamenn, sem og aðrir, verða duglegir við sýnatökur á árinu. Ef skoðað er eftir sýslum hve hátt hlutfall lifandi kinda (ær og hrútar) eru arfgerðargreindar, liggur það á bilinu 4% til 32%.

Þetta hlutfall er í Dalasýslu 5% og því ljóst að þar geta leynst óuppgötvaðir gullmolar. Í því sambandi er rétt að undirstrika að mikilvægast er að allir hrútar séu greindir.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...