Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
„Staðreyndin er sú að 40% mjólkurframleiðenda fylla ekki greiðslumarkið þrátt fyrir 100% framleiðsluskyldu.“
„Staðreyndin er sú að 40% mjólkurframleiðenda fylla ekki greiðslumarkið þrátt fyrir 100% framleiðsluskyldu.“
Mynd / ál
Á faglegum nótum 10. febrúar 2025

Frávísunartillaga á veruleikann?

Höfundur: Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, bóndi

Nú í aðdraganda deildarfunda BÍ og Búnaðarþings langar mig að setja niður á blað nokkrar vangaveltur sprottnar út frá umræðu í kjölfar útgáfu skýrslu Landbúnaðarháskólans um samanburð á kúakynjum.

Skýrslan sýnir fram á talsverða hagræðingarmöguleika fyrir mjólkurframleiðendur og framlegðaraukningu með því að flytja inn erfðaefni úr norrænum kúakynjum. Skýrslan er gott innlegg í umræðu um framtíðina, en einnig viðurkenning á að einhver þarf að bera uppi kostnaðinn af því að hafa hér aðeins eitt framleiðslukyn til mjólkurframleiðslu. Hún er líka viðurkenning á að samkeppnishæfnin er skökk og við berum skarðan hlut frá borði þegar kemur að samkeppni við innfluttar mjólkurvörur og nautgripakjöt.

Af hverju umræðu?

Umræðan er ekki ný af nálinni, en það sem er ólíkt í umræðunni nú, sé miðað við fyrir um aldarfjórðungi, er það að í dag er hún tilkomin vegna afkomuvanda greinarinnar sem og flókinna framtíðarhorfa í síbreytilegum og hröðum heimi nútímans. Mikil fólksfjölgun, stóraukning í komu ferðamanna og veldisvöxtur í innflutningi á mjólkurvörum og nautgripakjöti eru dæmi um þessar flóknu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Hér nefni ég nokkur dæmi um þessar áskoranir. Endurnýjun á fjósum hefur verið allt of hæg og viðhaldsskuldin er mikil, en búum fækkar, nýliðun er lítil og meðalaldur bænda hækkar. Við löppum allt of mikið upp á gamlar byggingar í stað þess að byggja nýjar frá grunni. Staðreyndin er sú að 40% mjólkurframleiðenda fylla ekki greiðslumarkið þrátt fyrir 100% framleiðsluskyldu. Þá er kálfadauði einnig stórt vandamál. Tekst að tryggja nægilegt framboð af mjólk til að anna innanlandsmarkaði á næstu árum? Nýr verðlagsgrundvöllur kúabús sýnir að framleiðslukostnaður er nær óbærilega hár hér á landi.

Ómálefnaleg afgreiðsla mála

Á síðustu deildarfundum, búgreinaþingum nautgripabænda BÍ og Búnaðarþingi BÍ hafa verið sendar inn til umræðu og afgreiðslu tillögur er snúa að því að hagsmunasamtök okkar bænda vinni að því að gera þeim mjólkurframleiðendum, sem það kjósa, mögulegt að nýta innflutt erfðaefni í sinni framleiðslu. Hafa þessar tillögur fengið ómálefnalega afgreiðslu, umræðan lítil sem engin, mjög lituð af tilfinningum og óhóflegum frávísunartillögum verið beitt. Tillögurnar hafa því ekki fengið þá faglegu umræðu sem var tilgangur innsendingar þeirra á þann vettvang.

Ósk mín er því sú að á komandi deildarfundi BÍ 27.–28.febrúar næstkomandi fái yfirveguð umræða um innflutning á erfðaefni í mjólkurkýr að eiga sér stað og verði áðurnefnd skýrsla Landbúnaðarháskólans þar höfð að leiðarljósi.

Afkomuvandi greinarinnar, hvernig verður hann leystur?

Í máli Kristjáns Eymundssonar, verkefnisstjóra hjá RML, í grein Bændablaðsins 23. janúar síðastliðinn, var afkomuleysi greinarinnar enn þá viðvarandi á síðasta ári, líkt og árin á undan. Í dag greiða nautgripabændur um 11 kr. með hverjum framleiddum mjólkurlítra og 99 kr. með hverju framleiddu kílói af kjöti. Einnig kemur fram að samkvæmt þessum rekstrargögnum, sem eru rauntölur af íslenskum kúabúum, greiða bændur sér mun lægri laun en nýr verðlagsgrundvöllur gerir ráð fyrir og eru þeir því miklir eftirbátar í launum miðað við sambærilegar stéttir í landinu.

Kjarabætur til þriðja aðila?

Ekki gengur til lengdar að bændur greiði með sér og gangi þannig á eignir, eigið fé og heilsu, líkamlega og andlega. Er svigrúm til hækkana á markaði í gegnum verðlagsgrundvöll og heldur tollverndin? Við getum áfram reynt að sækja kjarabætur til þriðja aðila eins og ályktað hefur verið reglulega um á síðustu deildarfundum og búgreinaþingum nautgripadeildar BÍ. Með þriðja aðila á ég við að sækja kjaraleiðréttingu til ríkisins, nú eða jafnvel bankanna. Í skýrslu LbhÍ frá 2024, Stuðningskerfi íslensks landbúnaðar: Markmið og leiðir, eftir Torfa Jóhannesson, Jóhönnu Gísladóttur og Þórodd Sveinsson, má sjá að stjórnvöld líta til samanburðar milli landa innan OECD þar sem fram kemur að mjólkurframleiðsla hérlendis sem og annar landbúnaður er í flokki þeirra ríkja sem styrkja sinn landbúnað hvað mest.

Fjármagnskostnaður er íþyngjandi og það er sjálfsagt mál að reyna áfram að fá Seðlabankann til að lækka vexti og vonandi skapast skilyrði fyrir skaplegri vöxtum til langframa hér á landi.

Það að einhver hluti mjólkurframleiðenda sjái sér hag í því að auka framlegð sína með fleiri en einu kúakyni í sínu fjósi ætti að vera nokkuð augljóst og ekkert ólíkt öðrum hagræðingaraðgerðum sem bændur telja að henti sér, t.d. sjálfvirkir mjaltaþjónar eða tölvustýrður gjafabúnaður.

Ótvírætt verndargildi íslenska stofnsins

Verndargildi íslenska kúastofnsins er ótvírætt og ekki bara á ábyrgð bænda. Bændur eru matvælaframleiðendur sem gert hafa samninga við ríkið um að framleiða heilnæmt íslenskt kjöt og mjólk.

Verndareiginleika þarf að skilgreina og tryggja til þess fjármagn. Í ofangreindri skýrslu LbhÍ kemur fram að með afkastameira kúakyni mætti lækka framleiðslukostnað mjólkur um rúmlega 3 milljarða. Á hverju einasta ári um alla framtíð. Verðmiði á stofnverndina verður ekki settur hér, en það er ljóst að í dag er hún greidd af framleiðendum og neytendum.

Stofnvernd íslenska kúakynsins er virkilega spennandi verkefni og sé ég ekkert því til fyrirstöðu að það geti tekist vel. Vel hefur verið staðið að kynbótastarfi hérlendis og er umræðan um nýtt erfðaefni á engan hátt gagnrýni á það starf sem hefur verið unnið eða á þann árangur sem hefur náðst.

Erfðaframfarir

Ný tækni s.s. erfðamengjaúrval og kyngreint sæði hafa oft verið nefnd sem ástæða þess að ekki sé tímabært að ræða innflutning. Hafa þarf í huga, að þó að til innflutnings kæmi er íslenska mjólkurkýrin ekki að fara neitt. Erfðamengjaúrval mun nýtast áfram sem og kyngreint sæði í hvaða kúakyn sem mun verða hér áfram. Á hinn bóginn verður að taka með í dæmið að erfðaframfarir erlendis eru ekki minni. Þvert á móti eru tækninýjungar að skila miklum framförum í flestum öðrum nautgripakynjum. Því er ólíklegt að við getum náð upp því forskoti sem önnur kyn hafa.

Að hafa val

Á komandi deildarfundi BÍ mun ég leggja fram þá tillögu að hagsmunasamtök okkar bænda hefji nauðsynlega vinnu, s.s. að óska eftir lagabreytingum, ræða verndaráætlun o.fl. til að af innflutningi á erfðaefni úr norrænum nautgripum megi verða.

Eftir vel heppnaðan innflutning á Angus-erfðaefni síðasta áratuginn í holdanautgripi eru allir innviðir og þekking nú þegar til staðar. Búið er að fjárfesta í þekkingu, aðstöðu og áhættugreiningum og gott og öruggt samstarf er nú þegar við ræktunarstöð í Noregi en Norðmenn eru með þeim fremstu í heiminum á þessu sviði.

NRF-kýr

Ég er persónulega hrifnust af því að við lítum til Noregs og þá NRF- kúastofnsins. Ástæðan er einföld. Ég tel að þær kýr falli vel að íslenska fjölskyldubúinu. Afurðamikið kyn bæði á mjólk og kjöt, nautkálfar með mikla vaxtargetu sem henta vel til kjötframleiðslu. Kýrnar með allra hraustustu kynjum enda var snemma farið að kynbæta þær fyrir t.d. fóta- og klaufavandamálum, burðarerfiðleikum og júgurhreysti. Þá má nefna að Noregur vermir botnsætið í sýklalyfjagjöf í heiminum og fellur það vel að okkar stefnu. NRF-kýr eru líkar þeim íslensku að útliti, stærri en þó svipaðar og stórar íslenskar kýr. Þær hafa afburðagóða fóðurnýtingu sem fellur vel að markmiðum í loftslagsmálum. Möguleikar okkar bænda til að auka hlut innlends gróffóðurs og minnka hlutfall innflutts kjarnfóðurs eru miklir samkvæmt samanburðarskýrslunni sem vitnað er í hér að ofan.

Bændur eru fagmenn

Mér er fúlasta alvara með þá skoðun að þeir bændur sem það kjósa fái eitthvert val um hvaða framleiðslugripi þeir hafa í sínu fjósi. Bændur eru fagmenn sem er treystandi til að taka meðvitaðar og upplýstar ákvarðanir um allar þær áskoranir sem fylgja því að fá gripi í sínar hendur, meta aðrar þarfir og breytt vinnulag. Að halda því fram að fagmenn í sínu fagi séu ekki færir um að vega og meta sjálfir vinnuþáttinn, áskoranirnar, kosti og galla, er ólíðandi forræðishyggja. Það er vandmeðfarið að hefta frelsi einstaklingsins til að leita sér leiða til að bæta kjör sín og samkeppnishæfni og að hafa um leið jákvæð umhverfisáhrif. Það er löngu kominn tími til að kúabændur horfi framan í veruleikann, hann verður ekki afgreiddur með frávísunartillögu.

Skylt efni: erlent kúakyn

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...