Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun
Nýtt kynbótamat var keyrt núna í mars að loknu uppgjöri skýrslna fyrir febrúar. Fagráð í nautgriparækt ákvað í kjölfarið að gera nokkrar breytingar á reyndum nautum í dreifingu. Eldri kappar í þeim hópi hverfa úr notkun enda búnir að vera lengi í dreifingu og inn koma ný og efnileg naut.
Ákveðið var að taka Kláus 14031, Risa 15014, Köngul 15019, Álm 16007 og Hött 16028 úr notkun eftir langa og farsæla þjónustu, alla vega hvað þá eldri í þessum hópi varðar. Kláus 14031, Risi 15014 og Köngull 15019 teljast fullnotuð, Álmur 16007 lækkaði í mati og notkun á Hetti 16028 var fremur dræm. Því var það niðurstaðan að rýma til fyrir nýjum köppum á þessum vettvangi.
Hér á eftir verður gerð aðeins nánari grein fyrir þeim nautum sem koma nú inn sem reynd naut fyrsta sinni en þar er um að ræða fyrstu reyndu nautin fædd árið 2017.
Ný reynd naut í notkun
Að venju er verið að teygja sig eins langt og hægt er út frá fjölda dætra á bak við afkvæmadóminn vitandi það að hann getur tekið breytingum. Þau naut sem valin voru á þeim grunni eru þó það há í mati að þetta þykir réttlætanlegt. Til notkunar koma fjögur naut og er faðerni þeirra eins dreift og kostur er en feðurnir eru jafnmargir nautunum. Þannig dreifist faðerni þeirra fimmtán nauta sem eru í dreifingu á átta naut. Feðurnir eru (fjöldi sona innan sviga): Sandur 07014 (2), Keipur 07054 (1), Blámi 07058 (1), Gói 08037 (1), Bambi 08049 (3), Gustur 09003 (4), Bolti 09021 (2) og Úlli 10089 (1).
Kopar 17014 er frá Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði undan Bláma 07058 og Búvísri 555 Baldadóttur 06010. Dætur Kopars eru góðar mjólkurkýr með góð efnahlutföll í mjólk en fyrir flesta aðra eiginleika liggur hann nærri meðallagi nema hvað skap snertir. Dætur hans skarta mjög góðu skapi og koma vel út í gæðaröðun. Kopar er með 106 í heildareinkunn.
Flýtir 17016.
Flýtir 17016 er frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum undan Gusti 09003 og Rjóðri 524 Starradóttur 1637591-0455. Glöggir lesendur taka eftir því að móðurfaðirinn er heimanaut en við arfgerðargreiningu kom í ljós að Rjóð 524 var á sínum tíma rangfeðruð. Það breytir engu um að Flýtir gefur góðar mjólkurkýr með hátt fituhlutfall í mjólk, prýðilega júgurgerð og mjög gott skap enda raðast þær vel í gæðaröðun. Flýtir er með 107 í heildareinkunn.
Stæll 17022.
Stæll 17022 er frá Hnjúki í Vatnsdal undan Bolta 09021 og Gjólu 356 Vindilsóttur 05028. Dætur Stæls er miklar mjólkurkýr og hlutfall fitu í mjólk er áberandi hátt. Þessar kýr koma vel út í gæðaröðun enda mjaltir úrvalsgóðar. Stælsdættur virðast vera viðkvæmar í júgri en mat hans fyrir frumutölu er lágt og þá eru spenar eilítið gleitt settir. Hafa þarf þetta í huga við notkun hans. Stæll er með 108 í heildareinkunn.
Jötunn 17026.
Jötunn 17026 er frá Hvanneyri í Andakíl undan Úlla 10089 og Skuld 1539 Aðalsdóttur 02039. Dætur Jötuns er miklar mjólkurkýr með gott mat fyrir flesta eiginleika, sérstaklega skap sem er mjög gott enda raðast kýrnar vel í gæðaröðun. Hann gefur hins vegar langa spena og eilítið gleitt setta. Rétt er að benda á að Jötunn er systursonur Úranusar 10081 og er með 110 í heildareinkunn.
Nautsfeður
Að undanförnu hefur Nautastöðin einkum verið að kaupa kálfa undan Hæl 14008, Kláusi 14031 og Risa 15014 ásamt því að synir Knattar 16006, Steinars 15042, Mikka 15043, Tanna 15065 og Bikars 16008 eru byrjaðir að tínast inn.
Á næstu misserum verður sjónum einkum beint að kálfum undan Mikka 15043, Tanna 15065, Bkari 16008, Jarfa 16016, Róðri 16019 og Jónka 16036 en þessi naut eru nautsfeður í dag. Auk þessara nauta verður eitthvað af nautkálfum undan Steinari 15042 og Knetti 16006 keypt inn á stöð.
Óreynd naut
Segja má að nánast allur 2020 árgangurinn sé í dreifingu nú og er þar um að ræða syni Pipars 12007, Sjarma 12090, Jörfa 13011, Hálfmána 13022, Ýmis 13051 og Kláusar 14031. Af þeim 22 nautum sem eru í dreifingu þegar þetta er skrifað stendur SpermVital-sæði til boða úr þrettán þeirra.
Upplýsingar um þessi naut er að finna á nautaskra.net.
Að lokum
Oft hef ég skrifað að kynbótastarf í nautgriparækt er langhlaup þar sem gott og vandað skýrsluhald og mikil og góð þátttaka í sæðingum eru undirstaðan. Þá hefur maður einnig margsinnis bent á mikla notkun heimanauta hérlendis en yfir 30% allra fæddra kálfa eru undan þeim. Þrátt fyrir það hafa þessi mál lítið þokast til betri vegar og því nokkuð ljóst að maður talar fyrir daufum eyrum hvað þetta snertir. Ég mun þó ekki láta deigan síga og áfram hamra á því að möguleikar okkar á eflingu kynbótastarfsins liggja að verulegu leyti í auknum sæðingum á kvígum. Auðvitað spilar aðstaða eða aðstöðuleysi til þess að fylgjast almennilega með beiðslum kvígna stóran þátt en við megum ekki gleyma því að í þessum hópi er að finna okkar erfðafræðilega bestu gripi. Þetta eru mjólkurkýr næstu kynslóðar og þær munu fæða af sér þarnæstu kynslóð mjólkurkúa. Með því að auka notkun sæðinga stuðlum við ekki einungis að auknum erfðaframförum heldur einnig aukinni hagkvæmni sæðingastarfseminnar. Það er mikilvægt, sérstaklega ef höfð er í huga sú staðreynd að fjöldi kúabúa á landinu er nú kominn niður í rétt um 500 talsins.
Mestu erfðaframfarir næstu ára munu þó verða fyrir tilstuðlan erfðamengisúrvals. Fyrstu niðurstöður rannsókna benda til þess að við munum ekki ná nægjanlegri aukningu á öryggi nema hjá arfgerðargreindum gripum. Það þýðir að við þurfum að arfgerðargreina sem flesta gripi, helst allar fæddar og ásettar kvígur. Það er því mjög mikilvægt að allir kúabændur taki virkan þátt með því að taka sýni úr sínum gripum. Til þess þarf að byrja á því að panta eyrnamerki til sýnatöku en á þessari stundu hafa ekki nema 40% kúabænda gert slíkt. Betur má ef duga skal og því um að gera að panta slík merki sem allra fyrst og hefja sýnatöku í kjölfarið.