Grágæs
Grágæs er stærst þeirra gæsa sem verpa á Íslandi og getur orðið allt að því 3,5 kg að þyngd. Hún er mjög algeng og útbreidd um allt land að undanskildu miðhálendinu sem hún eftirlætur frænku sinni, heiðagæsinni. Grágæsir eru að mestu farfuglar en þó dvelja þær nokkurn tíma á landinu. Fyrstu fuglar koma snemma, eða um miðjan mars, og dvelur mikill hluti þeirra hér alveg fram í nóvember. Algengt var að nokkur hundruð fuglar héldu til allan veturinn á Suðurlandi. Með hlýnandi loftslagi undanfarin ár og aukinni kornrækt á Suðurlandi hefur sú tala stóraukist og hlaupa staðfuglarnir nú á einhverjum þúsundum. Utan varptíma eru þær félagslyndar og sjást gjarnan í stórum hópum á láglendi þar sem þær sækja helst í gras eða korn í ræktuðu landi. Þær gæsir sem yfirgefa landið á veturna dvelja að mestu á Bretlandseyjum. Það getur verið tilkomumikil sjón á vorin og haustin að sjá stóra gæsahópa í oddaflugi. Langt farflug tekur mikið á fuglana en með því að fljúga í v-laga oddaflug tekst þeim að minnka loftmótstöðuna svo að fuglarnir geta flogið lengra án þess að þreytast.