Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Glettubikarhafi ársins, Verona frá Árbæ, ásamt eiganda sínum, Maríönnu Gunnarsdóttur, og móður hennar, Vigdísi Þórarinsdóttur, sem ræktaði Veronu ásamt Gunnari Andrési Jóhannssyni. Hjá þeim stendur yngsta afkvæmi Veronu, Dimmalimm, undan Sólon frá Þúfum
Glettubikarhafi ársins, Verona frá Árbæ, ásamt eiganda sínum, Maríönnu Gunnarsdóttur, og móður hennar, Vigdísi Þórarinsdóttur, sem ræktaði Veronu ásamt Gunnari Andrési Jóhannssyni. Hjá þeim stendur yngsta afkvæmi Veronu, Dimmalimm, undan Sólon frá Þúfum
Mynd / ghp
Á faglegum nótum 18. desember 2023

Hryssur sem hlutu heiðursverðlaun haustið 2023

Höfundur: Elsa Albertsdóttir

Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslenska hestinn var reiknað eftir alla dóma ársins í lok október 2023 og birt í WorldFeng. Þar kom í ljós að 11 hryssur á Íslandi hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Mikill fjöldi hryssna hefur náð þessum árangri síðastliðin ár m.a. vegna breytinga í útreikningi á kynbótamati en svo virðist sem kerfið sé að komast í visst jafnvægi. Ef að líkum lætur mun þó kynbótamat keppniseiginleika líta fljótlega dagsins ljós og verður áhugavert að sjá hvaða breyting sú innleiðing mun hafa á niðurstöður kynbótamats þeirra eiginleika sem dæmdir eru á kynbótasýningum en áhrif keppnisdóma verður í gengum erfðastuðla.

Viðmið heiðursverðlauna hryssna er að þær hafi að lágmarki 116 stig í aðaleinkunnum kynbótamats og eigi að minnsta kosti 5 dæmd afkvæmi. Röðun hryssna er samkvæmt aðaleinkunn kynbótamats en í ár eru það þrjár hryssur sem hljóta viðurkenningu byggt á kynbótamati aðaleinkunnar án skeiðs. Hér á eftir verður fjallað um þessar hryssur og dómsorð afkvæma, auk Þráins frá Flagbjarnarholti sem náði fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi.

Verona frá Árbæ

Efsta hryssan árið 2023 og þar með Glettubikarhafinn, er Verona frá Árbæ. Hún er undan heiðursverðlaunahrossunum Aroni frá Strandarhöfði og Vigdísi frá Feti. Ræktandi Veronu er Gunnar Andrés Jóhannsson og eigandi Maríanna Gunnarsdóttir.

Verona er með 126 stig í kynbótamati aðaleinkunnar en hún á 12 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,30 í aðaleinkunn og eru 6,4 ár að aldri.

Dómsorð afkvæma: Verona frá Árbæ gefur stór hross. Höfuðið er skarpt með vel opin augu en merarskál. Hálsinn er grannur með klipna kverk. Bakið er burðugt með öfluga lend og samræmið jafnvægisgott og hlutfallarétt. Fætur eru þurrir með mikil sinaskil en geta verið nágengir bæði að framan og aftan. Hófar eru úrvalsgóðir, efnisþykkir með hvelfdan botn en prúðleiki er alla jafna ekki mikill. Töltið er skrefmikið, brokkið takthreint en getur verið ferðlítið. Skeiðið er öruggt og skrefmikið. Stökkið er mjúkt en getur verið sviflítið bæði á hægu og greiðu, fetið er takthreint en vantar stundum framtak. Verona gefur myndarleg alhliðahross með fínlegan frampart og mjög gott samræmi sem fara vel á gangi og eru þjál í reið. Verona hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.

Staka frá Stuðlum

Hryssan í öðru sæti er Staka frá Stuðlum. Hún er undan Akk frá Brautarholti heiðursverðlaunahryssunni Þernu frá Arnarhóli. Ræktendur hennar og eigendur eru Edda Björk Ólafsdóttir og Páll Stefánsson. Staka er með 124 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm upp á 8.28 að meðaltali og er meðalaldur þeirra við sýningu 5,2 ár.

Dómsorð afkvæma: Staka frá Stuðlum gefur stór hross. Afkvæmin eru myndarleg á höfuð, vel opin augu og með beina neflínu. Hálsinn er reistur og hátt settur, með hvelfda yfirlínu en bógar geta verið beinir. Bakið er breitt og vöðvafyllt, og lendin er öflug. Afkvæmin eru sívöl og fótahá með sterklega fótagerð en réttleiki er ekki góður. Hófar er vel lagaðir með hvelfdan botn og þykka hæla. Afkvæmin eru öll nema eitt alhliðahross. Tölt og brokk er skrefmikið og lyftingargott, en brokkið getur skort ferð og öryggi. Skeiðið er jafnan gott og getur verið úrval, skrefmikið og ferðmikið. Stökkið er rúmt og hæga stökkið er gott. Prúðleiki og fet eru afar misjöfn að gæðum. Staka gefur stór og afar myndarleg hross sem eru þjál í vilja og fara mjög vel í reið með góðum fótaburði. Staka hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.

Staka frá Stuðlum.

Oktavía frá Feti

Hryssan í þriðja sæti er Oktavía frá Feti. Hún er undan Burkna frá Feti og Ófelíu frá Gerðum. Ræktandi hennar er Brynjar Vilmundarson en eigendur eru Þormar Andrésson og Ævar Örn Guðjónsson. Oktavía er með 121 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,24 aðaleinkunnar og voru þau sýnd við meðalaldur 5,8 ár.

Dómsorð afkvæma: Oktavía gefur hross í meðalstærð. Höfuðið er skarpt með vel borin eyru. Hálsinn er reistur og grannur. Baklínan er fremur góð og lendin öflug, afkvæmin eru samræmisgóð, sívöl og hlutfallarétt. Fætur eru ekki sterklegir og fremur nágengir. Hófar hafa hvelfdan botn og prúðleiki er um meðallag. Afkvæmin eru flest klárhross með úrvalstölt bæði á hægu og hröðu. Það er takthreint, rúmt og hágengt en misskrefgott. Brokkið takhreint með góðri skreflengd og fótaburði. Aðeins eitt afkvæmanna er vel vakurt. Greiða stökkið er ferðmikið með góðum fótaburði og sama á við um það hæga. Fetið er takthreint. Oktavía gefur fínleg, framfalleg og léttbyggð hross sem að uppistöðu eru klárhross. Þau fara glæsilega í reið með mikinn vilja og þjálni. Oktavía hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.

Oktavía frá Feti.

Skíma frá Kvistum

Hryssan í fjórða sæti er Skíma frá Kvistum. Hún er undan fyrstu verðlaunahestinum Kráki frá Blesastöðum 1A og Skálm frá Berjanesi. Ræktandi hennar og eigendur eru Kvistir ehf. Skíma er með 121 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 9 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,09 aðaleinkunnar og voru þau sýnd við meðalaldur 5,6 ár.

Dómsorð afkvæma: Skíma gefur hross í meðalstærð. Höfuðið er meðalfrítt en hálsinn góður með frekar skásetta bóga. Bakið er burðugt, breitt og vöðvafyllt, samræmið hlutfallarétt og jafnvægisgott. Fætur eru þurrir en stundum grannir en lítið snúnir. Hófar eru fremur efnismiklir með hvelfdan botn og vel lagaðir. Prúðleiki er í meðallagi en nokkuð misjafn. Afkvæmin eru bæði klár- og alhliðageng, ef skeiðið er til staðar er það nokkuð skrefgott en skortir svif. Töltið er takthreint léttstígt og með góðri lyftu, bæði á hægu og greiðu. Brokkið er takthreint og fjaðrandi með góðum fótaburði, greiða stökkið er skrefgott og það hæga takthreint, léttstígt með góðri fótlyftu. Fetið er takthreint en skrefstærð misjöfn. Skíma gefur framfalleg léttstíg hross með góða yfirlínu. Þau fara afar vel í reið með góðum fótaburði, bæði viljug og þjál. Skíma hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.

Skíma frá Kvistum.

Gifting frá Hofi I

Hryssan í fimmta sæti er Gifting frá Hofi 1. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Hágang frá Narfastöðum og Vöku frá Hofi 1. Ræktandi hennar og eigandi er Þorlákur Örn Bergsson. Vaka er með 118 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunnar en hún á 11 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,23 í aðaleinkunn og voru þau sýnd við meðalaldur 5,6 ár.

Dómsorð afkvæma: Gifting frá Hofi gefur hross í rúmu meðallagi. Höfuðið er skarpt með vel opin augu, hálsinn er langur með góða yfirlínu en reising og setning er misgóð. Bakið er burðugt með öfluga lend en hún getur verið gróf. Afkvæmin eru langvaxin og sívalvaxin en stundum brjóstdjúp. Fætur eru þurrir og fremur öflugir en geta verið nágengir bæði að framan og aftan. Hófar hafa hvelfdan botn, prúðleiki er í góðu meðallagi. Afkvæmin eru alhliðageng með rúmt tölt sem er misskrefgott, hæga töltið hefur góðan fótaburð. Brokkið er takthreint. Skeiðið er allajafna gott en vantar stundum svif. Greiða stökkið er ferðmikið en hæga stökkið skortir svif. Gifting frá Hofi gefur viljug og þjál alhliðahross sem fara vel í reið með góðum höfuðburði. Gifting hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fimmta sætið.

Gifting frá Hofi I.

Alfa frá Blesastöðum 1A

Hryssan í sjötta sæti er Alfa frá Blesastöðum 1A. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Orra frá Þúfu og Blúndu frá Kílhrauni. Ræktandi hennar er Magnús Trausti Svavarsson en eigandi er Ingjald Åm. Blúnda er með 117 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 10 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,03 í aðaleinkunn og voru þau sýnd við meðalaldur 5,2 ár.

Dómsorð afkvæma: Alfa gefur afkvæmi undir meðallagi að stærð. Höfuð að jafnaði svipgott en oft heldur gróft. Hálsinn er yfirleitt hátt settur með háum herðum en yfirlína fremur bein. Bakið er oftast vöðvafyllt en stundum fremur svagt, lendin er misjöfn, stundum gróf en öflug. Afkvæmin eru hlutfallarétt og jafnbola. Fætur eru þurrir en sinaskil fremur lítil. Réttleiki misjafn en flest afkvæmin eru nágeng að aftan. Hófar góðir með hvelfdum botni. Prúðleiki slakur. Töltið er takthreint, rúmt og með góðri fótlyftu. Gæði brokksins getur brugðið til beggja átta, en þegar það er gott er það skrefmikið og rúmt. Þegar skeið er til staðar er það ferðmikið og taktgott en það er tveir vekringar í hópnum. Stökkið er hátt og ferðmikið, en hæga stökkið fremur sviflítið. Afkvæmin eru ásækin í vilja og fara vel í reið með miklum fótaburði. Alfa hlýtur heiðursverðlaun og sjötta sætið.

Alfa frá Blesastöðum 1A.

Gróska frá Dallandi

Hryssan í sjöunda sæti er Gróska frá Dallandi. Hún er undan heiðursverðlaunahrossunum Huginn frá Haga 1 og Gnótt frá Dallandi. Ræktendur hennar eru Gunnar og Þórdís en eigandi Hestamiðstöðin Dalur ehf. Gróska er með 116 stig í kynbótamati aðaleinkunnar en hún á 9 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,18 í aðaleinkunn og voru þau sýnd við meðalaldur 6,2 ár.

Dómsorð afkvæma: Gróska gefur stór hross. Höfuð er svipgott og eyrun vel borin. Hálsinn er langur og reistur við háar herðar. Bakið hefur að jafnaði góða yfirlínu og lendin er öflug. Afkvæmin eru hlutfallarétt. Sinar eru öflugar og réttleiki góður. Hófar eru efnismiklir, með þykkum hælum og hvelfdum hófbotni. Prúðleiki yfirleitt mikill. Afkvæmin eru ýmist alhliðageng eða klárhross. Töltið er rúmt með góðri fótlyftu. Brokkið er takthreint og rúmt með góðri fótlyftu. Þegar skeið er til staðar er það rúmt, skrefmikið og öruggt. Stökkið er rúmt, skrefmikið og með góðri fótlyftu. Hæga stökkið er oft fremur sviflítið en með góðri fótlyftu. Fetið er misgott, tvö afkvæmanna hafa úrvalsgott fet. Afkvæmin eru viljug og þjál og fara vel í reið með góðum fótaburði. Gróska hlýtur heiðursverðlaun og sjöunda sætið.

Gróska frá Dallandi.

Vissa frá Holtsmúla 1

Hryssan í áttunda sæti er Vissa frá Holtsmúla 1. Hún er undan heiðursverðlaunahrossunum Orra frá Þúfu og Vöku frá Arnarhóli. Ræktendur og eigendur eru Miðsitja ehf, Ása Hreggviðsdóttir & Birgir Ellert Birgisson. Vissa er með 116 stig í kynbótamati aðaleinkunnar en hún á 16 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,05 í aðaleinkunn og voru þau sýnd við meðalaldur 6,2 ár

Dómsorð afkvæma: Vissa gefur hross í meðallagi að stærð. Höfuð lýtalaust með beinni neflínu. Hálsinn yfirleitt grannur og reistur. Baklína oftast góð, lendin misjöfn, stundum aðeins gróf. Afkvæmin eru hlutfallarétt og fótahá. Fótagerð og réttleiki í meðallagi. Hófar með þykkum hælum en geta verið heldur víðir. Prúðleiki í meðallagi. Töltið er taktgott, skrefmikið með góðri fótlyftu. Brokkið er oftast takthreint og með góðri fótlyftu. Afkvæmin eru öll, nema eitt, vel vökur. Stökkið yfirleitt rúmt og taktgott. Fetið er taktgott en stundum fremur skrefstutt. Afkvæmin eru þjál og með góða framhugsun. Fegurð í reið einkennist af góðum fótaburði. Vissa hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og áttunda sætið.

Vissa frá Holtsmúla 1.

Ólafía frá Lækjamóti

Hryssan í níunda sæti er Ólafía frá Lækjamóti. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Aðli frá Nýjabæ og Rauðhettu frá Lækjamóti. Ræktandi hennar og eigandi er Sonja Líndal Þórisdóttir. Ólafía er með 114 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en 121 stig í kynbótamati aðaleinkunnar án skeiðs. Hún á 9 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 7,94 í aðaleinkunn og voru þau sýnd við meðalaldur 5,4 ár.

Dómsorð afkvæma: Ólafía gefur mjög stór hross. Höfuð er svipgott og eyru fínleg en stundum aðeins djúpir kjálkar. Hálsinn er reistur og langur. Bakið er breitt og vöðvafyllt og lendin öflug. Afkvæmin eru fótahá og sívalvaxin. Fótagerðin er traust og réttleiki yfirleitt góður. Hófar prýðilegir með hvelfdum botni. Prúðleiki yfirleitt yfir meðallagi. Afkvæmi Ólafíu er klárhross. Töltið er takthreint, skrefgott með góðri fótlyftu. Brokkið er skrefmikið og takthreint. Stökkið er rúmt og skrefmikið en hæga stökkið er sviflítið. Fetið er takthreint og skrefmikið. Afkvæmin eru viljug og fara vel í reið. Ólafía hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og níunda sætið.

Ólafía frá Lækjamóti.

Gerpla frá Hólabaki

Hryssan í tíunda sæti er Gerpla frá Hólabaki. Hún er undan heiðursverðlaunahestinum Gusti frá Hóli og Eldingu frá Hólabaki. Ræktandi hennar og eigandi er Björn Magnússon. Gerpla er með 113 stig í kynbótamati aðaleinkunnar og 118 stig í kynbótamati aðaleinkunnar án skeið. Hún á 14 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,11 í aðaleinkunn og voru þau sýnd við meðalaldur 6,6 ár.

Dómsorð afkvæma: Gerpla gefur stór hross. Höfuð er með beinni neflínu og vel opnum augum en eyrun stundum aðeins gróf. Hálsinn er langur og reistur. Eitt afkvæmanna hefur framhallandi baklínu en annars er baklína góð og lendin oftast öflug. Afkvæmin eru langvaxin og sívöl. Fótagerðin í meðallagi en sinaskil eru stundum lítil. Réttleiki heldur slakur en flest afkvæmanna eru nágeng. Hófar yfirleitt efnistraustir. Prúðleiki heldur slakur með einni undantekningu þó. Afkvæmin eru að uppistöðu klárhross þó sum þeirra tæpi á skeiði. Töltið er skrefgott með góðri fótlyftu, það sama má segja um brokkið. Greitt stökk er ferðmikið og teygjugott og bæði hægt og greitt stökk eru með góðri fótlyftu. Fetið er takthreint og skrefgott. Afkvæmin eru viljug og fara vel í reið, með mikilli reisingu og fallegum fótaburði. Gerpla hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og tíunda sætið.

Gerpla frá Hólabaki.

Katla frá Steinnesi

Hryssan í ellefta sæti er Katla frá Steinnesi. Hún er undan Gammi frá Steinnesi og Kylju frá Steinnesi. Ræktandi hennar er Magnús Jósefsson og eigandi er Ágúst Þór Jónsson. Katla er með 113 stig í kynbótamati aðaleinkunnar en 118 stig í kynbótamati aðaleinkunnar án skeiðs. Hún á 16 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm að meðaltali 8,03 og voru þau sýnd við meðalaldur 5,6 ár.

Dómsorð afkvæma: Katla frá Steinnesi gefur frekar stór hross. Höfuð er svipgott og eyru fínleg. Hálsinn er hátt settur við háar herðar og skásettum bógum. Baklína er góð og lendin öflug. Afkvæmin eru fótahá og yfirleitt hlutfallarétt. Fótagerð er traust en réttleiki tæpur, afturfætur nágengir og framfætur snúnir. Hófar eru með hvelfdum botni en efni í meðallagi. Prúðleiki er góður. Afkvæmi Kötlu eru klárhross að upplagi þó eitt þeirra sé sæmilega vakurt. Töltið er taktgott með góðri fótlyftu. Brokkið er lyftingagott en rými í meðallagi. Stökkið er með góðri fótlyftu en stundum sviflítið. Fetið er misgott en oft skrefmikið. Afkvæmin fara vel í reið með góðum fótaburði og framhugsun. Katla hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og ellefta sætið.

Katla frá Steinnesi.

Þráinn frá Flagbjarnarholti

Þráinn frá Flagbjarnarholti hlýtur nú viðurkenningu fyrir fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi. Hann er undan heiðursverðlaunahestinum Álfi frá Selfossi og Svartsdótturinni Þyrlu frá Ragnheiðarstöðum. Ræktendur Þráins er Jaap Groven og eigandi Þráinsskjöldur ehf. Þráinn er með 130 stig í kynbótamati aðaleinkunnar og 16 dæmd afkvæmi. Meðaltal aðaleinkunnar sýndra afkvæma er 8,07 og eru þau afar ung að árum 4,6 ára að meðaltali.

Dómsorð afkvæma: Þráinn frá Flagbjarnarholti gefur fremur stór hross. Höfuðið er skarpt með beina neflínu og vel borin eyru sem eru stundum gróf. Hálsinn er reistur og grannur við háar herðar. Bakið er með nokkuð góða baklínu, vöðvafyllt og lendin löng. Afkvæmin eru samræmisgóð, bolurinn jafn og sívalur og framhæð og fótahæð góð. Fætur eru réttir, þurrir með fremur góð sinaskil og öflugar sinar. Hófar eru efnisgóðir með hvelfdan botn, prúðleiki er í meðallagi. Afkvæmin eru bæði klár- og alhliðahross en vekurðin er ekki mikil enn sem komið. Töltið er skrefmikið með góðum fótaburði. Brokkið, hæga og greiða stökkið er skrefmikið. Fetið er takthreint. Þráinn gefur myndarleg og samræmisgóð hross sem fara vel í reið bæði skrefmikil og með góðum fótaburði. Þau eru ung að árum en bæði viljug og þjál. Þráinn hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...