Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mynd 3. Jarðvinnuþjarkinn AgXeed frá fyrirtækinu AgBot. Þessi þjarkur getur bæði plægt, herfað, sáð og valtað og það án a.m.k. mikillar aðstoðar bóndans.
Mynd 3. Jarðvinnuþjarkinn AgXeed frá fyrirtækinu AgBot. Þessi þjarkur getur bæði plægt, herfað, sáð og valtað og það án a.m.k. mikillar aðstoðar bóndans.
Á faglegum nótum 10. janúar 2022

Mannlaus mjólkurframleiðsla

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com

Bændur sem byggja fjós nú til dags, í norðurhluta Evrópu og helstu löndum þar sem velmegun er allgóð, horfa oftar en ekki til töluverðrar sjálfvirknivæðingar. Fyrstu dæmi um sjálfvirkni í fjósum eru líklega mjaltatækin, en þau voru fundin upp fyrir nærri 150 árum síðan þó svo að einkaleyfi fyrir hugmyndinni um sogskipti hafi ekki komið fram fyrr en fyrir rétt rúmum 100 árum en þá voru mjaltir í raun í fyrsta skipti sjálfvirkar.

Bændur þurftu vissulega að setja tækin á kýrnar og taka af þeim aftur, en þar á milli sá tæknin um mjaltirnar. Síðan þá hefur sjálfvirkninni fleygt fram en næsta stökkið fyrir kúabændur í sjálfvirkni í fjósum var líklega þegar sköfukerfi komu fram og gátu hreinsað flórinn nánast hjálparlaust og þegar sjálfvirk stýring kom á viftur til að halda loftslagi í fjósum góðu.

Svona mætti lengi telja upp atriði eins og tilkomu aftakara á mjaltatæki fyrir rúmum 50 árum, komu mjaltaþjónanna fyrir tæplega 30 árum, skítasköfuróbótanna fyrir nærri 20 árum, sjálfvirku fóðursópanna fyrir nærri 15 árum, alsjálfvirku fóðrunarkerfanna fyrir um 10 árum og sjálfvirku skítasafnaranna fyrir nærri 5 árum síðan.

Aukningin í sjálfvirkninni hefur snarminnkað álag á kúabændur og hvert ársverk í fjósi að skila um og yfir 1 milljón lítrum mjólkur þar sem best lætur. En er hægt að halda endalaust áfram í sjálfvirknivæðingu? Ef lesið er yfir helstu tímaritsgreinar um þessi málefni má ætla að svo sé.

Lely Exos er alsjálfvirkur sláttu- og hirðingabúnaður sem keyrir sjálfkrafa inn í fjós og gefur kúnum ferskt grasið.

Hvað er eftir?

Þó margt sé orðið sjálfvirkt í dag þá er ótal margt eftir í raun, t.d. krefst mest af útivinnunni enn þess að mannshöndin stjórni, en dráttarvélar og nútímatæki eru þó vissulega orðin afar sjálfvirk og fullkomin. Þannig nýtast tölvukerfi og stýringarbúnaður til þess að hálfstýra vélum og tölvubúnaður auðveldar bændum alla vinnu við t.d. áburðargjöf og heyskap svo dæmi sé tekið. Útivinnan er þó ekki orðin alsjálfvirk enn, en það er þó ýmislegt sem bendir til þess að næstu stóru skrefin í sjálfvirknivæðingu sé einmitt fóðuröflun fyrir gripina.

Ef horft er innan fjóssins þá eru ýmsir hirðingaþættir enn þess eðlis að þeir krefjast mannshandar svo sem við básaþrif, sjúkdómagreiningar og -meðhöndlun, klaufskurð, sæðingar og fleira mætti nefna. Hér sjást þó líka merki um sjálfvirknivæðingu og sérstaklega þegar kemur að bústjórnarþáttum, þ.e. atriðum í búskapnum sem bændur þurfa að taka afstöðu til og bregðast við eða fyrirbyggja. Í dag eru þannig komin afar fullkomin tölvu- og vöktunarkerfi fyrir fjós, en þessi kerfi fylgjast með bæði atferli gripanna og daglegri framleiðslu og geta svo tengt saman upplýsingar um t.d. át, hreyfingu, mjólkurframleiðslu, efnainnihald mjólkurinnar og fleiri atriði sem tengjast kúnum.

Tölvukerfin geta því notað gögnin til þess að gefa álit á því sem gera þurfi og það sem meira er þá eru nýjustu kerfin þannig að þau nota algrími til þess að „læra“ af reynslunni og verða því betri og betri.

Margir um hituna

Þegar mjaltaþjónatæknin kom fyrst fram fyrir 30 árum síðan var í fyrstu einungis eitt fyrirtæki sem vann að tækninni, síðan komu önnur í kjölfarið og í dag eru til mjaltaþjónar frá a.m.k. 7 mismunandi framleiðendum í heiminum. Nú má sjá svipaða þróun eiga sér stað með sjálfvirknibúnað fyrir fóðuröflun og almennt fyrir „utandyravinnu“.
Fyrir um áratug voru ekki margir að vinna markvisst að þessu, en í dag eru ótal fyrirtæki bæði komin með tæknibúnað sem er alsjálfvirkur eða eru við það að koma með slíkan búnað. Líklega hefur þróunin verið mest í tæknibúnaði fyrir garðyrkju, þar sem alls konar þjarkar eru komnir á markað bæði fyrir gróðurhús og utandyraræktun, en nú má þó sjá aukningu í sjálfvirkum búnaði fyrir jarðrækt búa í búfjárhaldi og verða hér nefnd til sögunnar þrjú dæmi.

Exos, alsjálfvirkur sláttu- og hirðingabúnaður

Hollenska fyrirtækið Lely hefur lengi verið leiðandi þegar kemur að notkun þjarka í mjólkurframleiðslu en hingað til hefur fyrirtækið mest haldið sig við sjálfvirknivæðingu innan fjóssins. Þó hefur Lely sótt út fyrir fjósið m.a. með þjarka sem færir sjálfvirkt rafmagnsgirðingu fyrir kýr á beit svo dæmi sé tekið. Nú hefur fyrirtækið svo kynnt alsjálfvirkan sláttu- og hirðingabúnað sem kallaður er Exos, sjá mynd 1, en þetta er búnaður fyrir kúabú sem stunda svokallaða núllbeit.

Þessi búnaður er reyndar enn sem komið er einungis notaður í tilraunum í Hollandi en er alsjálfvirkur, þ.e. tækið keyrir út á tún þar sem það slær grasið og safnar því beint með sópvindu upp í sig og þegar búið er að slá nóg eða fylla fóðurgeymsluna keyrir tækið heim í fjós og gefur beint út á fóðurganginn! Vissulega ekki tækni sem hægt er að nota á Íslandi yfir háveturinn en engu að síður einkar áhugaverð tækni sem getur mögulega nýtt ferskfóðrunartímabil kúabúa verulega betur með tilheyrandi sparnaði enda ferskt gras með 10-20% meira næringargildi en hefðbundið vothey.

AutoAgri, norskur þjarkur

Þróun þjarka til að vinna utandyra er hröð og fer fram víða, m.a. í Noregi þar sem þjarki frá fyrirtækinu AutoAgri hefur verið í prófun, sjá mynd 2. Þessi þjarki er nokkuð nýstárlegur því flestir þjarkar í dag eru mjög sérhæfðir, þ.e. hannaðir til að leysa ákveðin verkefni. Þessi þjarkur er aftur á móti hannaður sem fjölhæf lausn við alls konar vinnu og verkefni á búum. Hann er með burðargetuna á milli hjóla og getur verið notaður til að flytja hluti en einnig að vinna hefðbundin störf eins og við heyskap.

AgXeed, hollenskur vinnuþjarkur

Önnur fyrirtæki hafa horft til þess hvernig vinna megi flög með þjörkum og með því létta álagið á jarðveginn og gera þá vinnu á búum sem er mjög einsleit sem mest sjálfvirka. Líklega er það fyrirtækið AgBot sem er komið einna lengst á þessu sviði, en það hefur þegar þróað þjarkann AgXeed, sjá mynd 3. Þessi þjarki er með rúmlega 150 ha mótor og getur tekist á við alla helstu flagvinnu í allt að 20 klukkustundir samfleytt. Þá er AgXeed ekki nema 6 tonn, og búinn beltum, svo álagið á jarðveginn verður lítið. Þessi þjarkur getur bæði plægt, herfað, sáð og valtað og það án a.m.k. mikillar aðstoðar bóndans!
Mannlaus mjólkurframleiðsla?

Það mætti auðveldlega taka til fleiri dæmi og tegundir um þjarka sem hannaðir eru fyrir nútíma búskap enda mikið úrval þó hér hafi einungis verið rétt drepið niður fæti. Hvað sem tækninni líður sem í boði er í dag eða er í þróun er dagljóst að mjólkurframleiðslan verður aldrei að fullu gerð sjálfvirk. Það ætti þó að vera öllum ljóst að hvert ársverk í fjósi mun á komandi árum geta sinnt mun meiri framleiðslu en ársverkið skilar í dag með tilkomu síaukinnar tækni og sjálfvirkni.

Víða erlendis miða afkastamiklir kúabændur við að ársverkið í fjósi skili a.m.k. 1 milljón lítrum eins og hér að framan greinir. Mér kæmi ekki á óvart að innan fárra ára yrði þetta viðmið komið í 1,5 milljónir lítra, sérstaklega þegar horft er til þeirrar tækni sem þegar er komin og er fram undan.


Frekara lesefni:
„Fjós framtíðarinnar“
í 24. tbl. Bændablaðsins 2020.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...