Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Höfnin í Stykkishólmi.
Höfnin í Stykkishólmi.
Á faglegum nótum 1. desember 2017

Margt smátt gerir eitt stórt

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Smábátar gegna mikilvægu hlutverki í íslenskum sjávar­útvegi. Þeir skila á land stórum hluta aflaverðmætis í helstu nytjategundum og sjá fiskvinnslu víða um land fyrir hráefni. Margt smátt gerir eitt stórt en hið smáa á þó undir högg að sækja vegna samþjöppunar veiðiheimilda.

Innan sjávarútvegsins eru tvö aðskilin fiskveiðikerfi, aflamarkið og krókaaflamarkið, stundum nefnd stóra og litla kerfið. Aflamarkið var sett á laggirnar þegar kvótakerfið svonefnda var innleitt fyrir skip og báta árið 1984. Kvótakerfið festist í sessi í núverandi mynd upp úr 1990 og þá var frjáls sala og leiga á kvóta heimiluð.

Smábátaútgerðin var lengi vel utan kvótakerfisins. Árið 1991 rann fjöldi smábáta sem voru 6 brúttótonn og stærri inn í kerfið. Hluti minni báta, þeir sem stunduðu netaveiðar en voru undir 6 brúttótonnum, völdu að fara inn í aflamarkið það ár. Fengu allir þessi bátar nafnið „smábátar með aflamark“ innan kerfisins.

Stjórn á veiðum annarra smábáta, svonefndra krókabáta, var með ýmsu móti og tók miklum breytingum. Í meginatriðum ríkti það fyrirkomulag að handfærabátar máttu veiða í ákveðinn fjölda daga en línubátar höfðu hámarksheimild í þorski en veiðar á öðrum helstu tegundum, svo sem ýsu og steinbít, voru frjálsar.

Þorskaflahámarkinu var síðan breytt í krókaaflamark árið 2001 og dagabátar voru skikkaðir inn í krókaaflamarkið árið 2004. Þar með hafði endanlega verið búið til nýtt kvótakerfi fyrir smábáta undir 6 brúttótonnum.

Eingöngu krókar og þak á kvóta

Í krókaaflamarkinu eru strangar takmarkanir varðandi veiðarfæri eins og nafn þess bendir til. Aðeins má veiða kvótabundinn botnfisk á handfæri eða línu en netaveiðar eru bannaðar. Kvótinn er í meginatriðum bundinn við fjórar fisktegundir, þorsk, ýsu, steinbít og ufsa. Þá er krókaflamarkið lokað þannig að ekki má selja eða leigja úr því upp í stóra kerfið. Var þetta gert til að stærri útgerðir ættu ekki kost á því að kaupa upp aflaheimildir litlu bátanna. Það hafði einmitt gerst þegar smábátar yfir 6 brúttótonn fóru í aflamarkið 1991. Þá voru 1.040 smábátar með aflamark skráðir í stóra kerfinu en smábátar með aflamark voru aðeins 61 nú í haust í upphafi nýs fiskveiðiárs!

Viðskipti með kvóta innan litla kerfisins er frjáls en þó er þak sett á stærð útgerða smábáta. Hver útgerð má ekki eiga meira en 5% af heildarkvóta í krókaaflamarki.

Veiðar utan kvóta

Fyrir utan veiðar á kvótabundnum tegundum taka smábátar þátt í fjölbreyttum veiðum sem eru háðar sérleyfum og þar eru reyndar ýmis veiðarfæri notuð. Fyrir það fyrsta má nefna grásleppuveiðar sem smábátar hafa stundað með sóma í áratugi og skapað mikil verðmæti ár hvert.

Árið 2009 var komið á nýju kerfi fyrir handfærabáta, svokölluðum strandveiðum. Að hluta til taka krókaaflamarksbátar þátt í því kerfi fyrir utan fjölda kvótalausra báta.

Þá veiða smábátar makríl á handfæri. Í fyrstu voru þær veiðar frjálsar en nú hefur úthlutun verið bundin við aflareynslu að langstærstum hluta.

Loks má nefna ýmsar aðrar veiðar smábáta sem stundaðar eru í litlum mæli, svo sem veiðar á beitukóngi, sæbjúgum, ígulkerum, krabba og síld.

Margt sem drýgir kvótann

Aflaheimildir smábáta byggjast aðallega á kvótum sem þeir fá úthlutað í upphafi fiskveiðiárs. Auk þess geta þeir drýgt kvótann með ýmsum hætti. Fyrst skal nefna strandveiðar, sem áður er getið. Ýmsir smábátar fá einnig úthlutað byggðakvóta og loks njóta margir þeirra línuívilnunar. Hún felst í því að allt að 20% af afla dagróðrarbáta á línuveiðum, sem láta beita fyrir sig í landi að öllu leyti eða hluta til, eru ekki dregin frá kvóta við löndun.

Þótt stóra og litla kerfið séu aðskilin er þó sú undantekning á þeirri reglu að smábátar geta leigt til sín heimildir úr stóra kerfinu. Í gegnum árin hafa smábátar leigt töluvert af heimildum í ýsu úr stóra kerfinu. 

Um 17% af botnfiskafla og tæp 48% af steinbítsafla

Lítum nú nánar á mikilvægi smábáta. Á síðasta fiskveiðiári, frá 1. september 2016 til 31. ágúst 2017, veiddu íslensk skip alls rúmlega 1,1 milljón tonna og þar af veiddu smábátar rúm 88 þúsund tonn, eða tæp 8% af heildinni.

Ef aðeins er horft á kvótabundnar botnfisktegundir þá er mikilvægi smábáta hlutfallslega meira. Alls bárust á land tæp 432 þúsund tonn af botnfiski á fiskveiðiárinu. Þar af veiddu smábátar um 74 þúsund tonn og 17% af heildinni. Stærsti hluti þess afla veiddist í krókaaflamarki, tæp 57 þúsund tonn, strandveiðar skiluðu um 9.800 tonnum en smábátar með aflamark, (smábátarir sem eftir eru í stóra kerfinu) veiddu aðeins um 6.900 tonn.

Þar fyrir utan veiddu smábátar um 4.500 tonn af grásleppu sem gáfu 8.650 tunnur af grásleppuhrognum. Makrílveiðin á handfæri í sumar nam 4.800 tonnum.

Alls veiddu smábátar um 55 þúsund tonn af þorski sem jafngildir 23,5% af þorskveiði í íslenskri lögsögu. Þeir veiddu um 9.860 tonn af ýsu sem er 27,5% af heild. Smábátar eru sérstaklega afkastamiklir við veiðar á steinbít. Þeir veiddu 3.566 tonn af þeirri fisktegund á síðasta fiskveiðiári sem er 47,5% af steinbítsveiði allra skipa.

Tíu stærstu með 38%

Eins og í stóra kerfinu hefur orðið sú þróun í krókaaflamarki að aflaheimildir hafa færst á færri hendur. Nú er svo komið að 50 stærstu smábátaútgerðirnar eiga samanlagt um 83% af kvóta í krókaaflamarki. Þá eiga 10 stærstu útgerðirnar um 38% af kvótanum. Samhliða þessu hefur bátum sem fá úthlutað krókaaflamarki fækkað úr 354 bátum í upphafi fiskveiðiársins 2013/2014 niður í 258 báta haustið 2017.

Þessi þróun hófst strax og krókaaflamark með framseljanlegum aflaheimildum var tekið upp árið 2001. Samþjöppun jókst enn frekar þegar heimilað var að stækka smábáta. Í upphafi var hámarksstærð krókabáta 6 brúttótonn, ári eftir að krókaaflamark kom á voru mörkin færð upp í 15 brúttótonn og loks í 30 brúttótonn árið 2013.

Stærri bátar kalla á meiri aflaheimildir til að þeir hafa verkefni allt árið. Nú er svo komið að stærstu smábátarnir veiða jafnmikið og litlir vertíðarbátar gerðu í gamla daga. Þess má geta að fiskveiðiárið 2002 til 2003 var aflahæsti smábáturinn með 850 tonna afla sem þótti algert met á sínum tíma. Á nýliðnu fiskveiðiári var aflahæsti báturinn, Sandfell SU, með rúm 1.900 tonn samkvæmt tölum frá fiskveiðivefnum aflafrettir.is.

Einyrkinn á undir högg að sækja

Hér áður fyrr var tillukarlinn einyrki sem reri einn á báti sínum eða við annan mann og var kóngur í ríki sínu. Nú er þetta breytt að miklu leyti og einyrkinn í smábátaútgerð á undir högg að sækja. Smábátasjómenn eru launþegar í vaxandi mæli og í áhöfn stærstu bátanna eru allt að fjórir menn í hverjum róðri og skiptiáhöfn að hluta til eða öllu leyti enda stíft róið.

Samhliða því sem kvótinn hefur færst á færri hendur hefur útgerðarmaðurinn gjarnan farið í land til að sinna auknum umsvifum. Þeir smábátaeigendur, sem hafa keypt mikinn kvóta og fengið sér stærri báta, reka margir hverjir einnig fiskvinnslu og hafa tugi manna í vinnu.

Ennfremur hafa fáeinar kvótasterkar útgerðir í stóra kerfinu haslað sér völl í litla kerfinu. Þær hafa keypt útgerðarfélög smábáta og gera nú út nokkra af kvótahæstu krókaaflamarksbátunum.

Skylt efni: veiðar | smábátar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...