Menntun, þróunarsamvinna og landvernd
Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur starfað á Íslandi frá árinu 2007. Skólinn heldur sex mánaða námskeið á hverju ári fyrir sérfræðinga sem koma frá ýmsum þróunarlöndum. Námið felst aðallega í að nema landgræðslufræði, mat á ástandi lands og hvernig stuðla á að sjálfbærri landnýtingu.
Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður skólans, segir að stofnun hans eigi rætur sínar að rekja til þess öfluga starfs sem unnið hefur verið hér á landi síðustu rúmlega 100 árin við að hefta uppblástur og græða upp illa farið land. „Nemendurnir koma frá fátækum löndum í Afríku sunnan Sahara og Mið-Asíu sem glíma við alvarleg vandamál tengd ósjálfbærri landnýtingu, landeyðingu og fátækt. Markmið skólans er að byggja upp færni innan stofnana í samstarfslöndum Landgræðsluskólans og þess vegna bjóðum við starfsfólki frá sömu stofnunum og löndum ár eftir ár að nema við skólann. Þessar stofnanir starfa allar með einhverjum hætti að landnýtingar- og landverndarmálum.“
Um Landgræðsluskólann
„Landgræðsluskólinn byrjaði sem þriggja ára þróunarverkefni á vegum utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins árið 2007 og byggir að hluta til á módeli Jarðhita- og Sjávarútvegsháskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem einnig eru staðsettir hér á landi. Í lok tilraunatímans voru gæði starfsins metin og í kjölfarið á jákvæðu mati var skrifað undir samning þann 17. febrúar 2010 um rekstur Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.“
Aðilar að samningnum eru Háskóli Sameinuðu þjóðanna, utanríkisráðuneytið, Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðsla ríkisins en Landbúnaðarháskóli Íslands sér um daglegan rekstur skólans en auk hans kemur Landgræðsla ríkisins að rekstri hans. Skólinn er fjármagnaður af íslenska ríkinu sem hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og er til húsa í starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík.
Hafdís Hanna segir að þar hafi nemar skólans aðsetur mestan hluta þess tíma sem þeir dvelja á Íslandi og þar fer námskeiðahaldið að mestu fram. Auk þess dvelja nemarnir hluta námsins í höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Fyrirlesarar við skólann eru milli 30 og 40 og flestir íslenskir sérfræðingar á sínu sviði auk þess sem erlendir gestafyrirlesarar kenna við skólann ár hvert.
Markmið, markhópur og inntökuskilyrði
„Markmið skólans er að byggja upp færni sérfræðinga, sem koma frá fátækum þróunarlöndum, í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu. Það er gert með því að mynda tengsl við stofnanir, eins og háskóla, rannsóknastofnanir og ráðuneyti í viðkomandi löndum sem vinna að landgræðslu- og landverndarmálum í samstarfslöndum skólans í Afríku og Mið-Asíu.
Val á nemendum fer þannig fram að yfirmenn viðkomandi stofnana benda á starfsfólk innan sinna raða sem uppfylla inntökuskilyrði skólans. Í kjölfarið heimsækir forstöðumaður eða annar starfsmaður skólans viðkomandi stofnanir, tekur viðtöl við viðkomandi starfsmenn og metur hæfi þeirra. Auk þess kynnir hann sér aðstæður og þær áskoranir sem viðkomandi land á við að etja í landnýtingar- og landverndarmálum,“ segir Hafdís Hanna.
Inntökuskilyrði Landgræðsluskólans eru meðal annars þau að væntanlegir nemendur þurfa að hafa lokið grunnnámi í háskóla í fræðum sem tengjast viðfangsefnum Landgræðsluskólans, hafa að minnsta kosti eins árs starfsreynslu sem tengist náminu og enskukunnáttu.
Hafdís Hanna segir að eftir veru sína hér á landi, haldi nemarnir aftur til síns heima og miðli af þekkingu sinni til samstarfsfélaga sinna og heimamanna. „Með þessum hætti er reynt að tryggja að færnin sem þeir öðlast nýtist þeirra stofnunum og samfélögum.“
Uppbygging námsins
„Meginstarfsemi skólans felst í sex mánaða námskeiði sem haldið er árlega frá mars til september hér á landi. Alls hafa 63 sérfræðingar frá 10 löndum útskrifast frá skólanum frá stofnun hans. Nemar við skólann í ár eru 13 og koma frá Gana, Eþíópíu, Malaví, Namibíu, Úganda, Mongólíu og Kirgistan. Auk þess hafa á síðustu árum komið nemar frá Níger, Úsbekistan, Egyptalandi og Túnis.
Náminu er skipt í hluta sem saman mynda heildstæða námskrá. Lögð er áhersla á að blanda saman hefðbundnum fyrirlestrum, æfingum innan- og utandyra sem og skoðunarferðum til þess að þátttakendur öðlist sem mesta reynslu og þekkingu.
„Fyrstu þrjá mánuði námsins er nemunum kennt um orsakir landhnignunar og farið vel í landgræðslu- og vistheimtarfræði. Einnig er fjallað um landlæsi, mat á ástandi lands og tengsl landhnigunar og landgræðslu við loftslagsbreytingar. Fjallað er um landréttindamál og tengsl þeirra við kynjasjónarmið, hvernig haga skuli gerð landnýtingaráætlana og hvernig fylgjast á með framgangi verkefna og meta árangur þeirra.
Á sumrin fara nemarnir í tvær lengri skoðunarferðir þar sem tilgangurinn er að kynna fyrir þeim þær áskoranir sem Íslendingar hafa þurft að takast á við og þau landgræðsluverkefni sem unnin eru hér á landi. Þau heimsækja einnig bændur í verkefninu Bændur græða landið, héraðsfulltrúa Landgræðslunnar og vísindamenn. Auk þess sem starfsfólk þjóðgarða og friðlanda er heimsótt.
Í seinni hluta dvalar sinnar vinna nemarnir að verkefnum undir handleiðslu leiðbeinenda. Leitast er við að verkefnin séu tengd þeim vandamálum sem viðkomandi nemi glímir við í sínu heimalandi. Einnig er mikilvægt að verkefnið sé á áhugasviði nemans og tengist viðfangsefnum þeirrar stofnunar sem hann vinnur fyrir. Vinnan við verkefnin tekur um tólf vikur og lýkur með skýrslugerð og fyrirlestri um efnið á opinni málstofu,“ segir Hafdís Hanna.
Framtíðarsýn
Að sögn Hafdísar Hönnu er stefnt að því að skólinn muni stækka og eflast á komandi árum. „Fjöldi þátttakenda í sex mánaða námi skólans hefur aukist frá því skólinn tók til starfa og ef framlög til skólans munu aukast mun þeim halda áfram að fjölga á næstu árum. Stefnt er að því á næstu árum að halda eins til tveggja vikna námskeið í Afríku sunnan Sahara og Mið-Asíu í samstarfi við samstarfsstofnanir skólans og fyrrum nema hans. Enn fremur stefnir Landgræðsluskólinn á að styrkja fyrrum þátttakendur í sex mánaða náminu til meistara- eða doktorsnáms við íslenskan háskóla,“ segir Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna að lokum.