Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Minkur
Minkur
Á faglegum nótum 10. febrúar 2017

Minkur og refur − hvorki gras né garðakál borðar heilbrigð sál

Höfundur: Vilmundur Hansen

Evrópa er stærsti framleiðandi minka- og refaskinna í heiminum. Um 63% minkafelda og 70% refafelda sem framleiddir eru í heiminum koma af dýrum sem alin eru í Evrópu.

Af loðdýraskinnum eru minka­skinn eftirsóttust og er núverandi heimsframleiðsla þeirra um 56 milljón skinn á ári en fór mest í 82 milljón skinn 2015. Danir framleiða allra þjóða mest af minkaskinnum í heiminum, tæp 18 milljón skinn á ári. Önnur stórframleiðslulönd eru Noregur, Svíþjóð, Holland, Pólland, Rússland, Kína, Bandaríkin og Ísland. 

Loðdýrarækt hefur verið skrykkjótt á Íslandi. Afkoman verið góð þegar heimsmarkaðsverð á skinnum hefur verið hátt en verri þegar verð er lágt. Skráðir framleiðendur á Íslandi voru 32 árið 2015, þar af voru tveir framleiðendur skráðir á tveimur búum. Heildarframleiðsla á minkaskinnum hér á landi er milli 180 og 200 þúsund skinn.

Auk minka og refa eru kanínur, hundar og kettir víða í heiminum aldir til loðskinnaframleiðslu. Önnur dýr en minkur og refur sem flutt hafa verið til Íslands til loðdýraeldis eru nútríur, Myocastor coypus, sem er vatna- eða fenjabjór, þvottabirnir, Procyon lotor, og ildur, Mustela putorius, sem er smávaxið dýr af marðarætt.

Loðdýrarækt er bönnuð í nokkrum ríkjum heims vegna dýraverndunarsjónarmiða, þar á meðal í Austurríki, Króatíu og Bretlandi. Í Sviss gilda svo strangar reglur um ræktunina að hún hefur lagst af í landinu.

Minkur

Uppruni minka er í Norður-Ameríku. Minkar eru rándýr af marðarætt sem kallast á latínu Mustela vision og eru undirtegundir minka taldar vera fimmtán og nánast allar eru útdauðar. Aðeins ein önnur tegund minka er núlifandi, Mustela lutreola, evrópsk tegund sem er í útrýmingarhættu. Þau fáu dýr sem eftir eru af evrópskum minkum finnast í Austur-Evrópu og á takmörkuðum svæðum á Spáni og í Frakklandi.

Fullvaxnir minkar eru milli 30 og 40 sentímetrar að lengd og þar af er loðið skottið hátt í 20 sentímetrar. Dýrið er mjóslegið á að líta og með lítið höfuð. Villtir minkar eru vanalega með dökkbrúnan eða svartan feld og hvítan blett undir hökunni og stundum á hálsi og milli fram- og afturfótanna. Karldýrið eru um 1,2 kíló að þyngd en læðurnar helmingi léttari. Göngulag minka er sérkennilegt vegna þess hve langt er á milli stuttra fram- og afturfótanna.

Þessar upplýsingar allar eiga við um villtan mink, sem er mun minni en búraminkurinn er í dag. Algeng þyngd á fullvöxnum högnum á minkabúum í dag er um 3.500 grömm og læður um 1.700 grömm.

Feldurinn á villtum mink og búra­mink er líka mjög ólíkur að gæðum.

Feldur minka er úr tvenns konar hárum, þeli og vindhárum. Þéttleiki þelsins er allt að 80% meiri á vetrum en yfir sumartímann en vindhárin haldast óbreytt. Þelið er vatnshelt og virkar vel sem einangrun gegn kulda og þola minkar frost að allt að mínus 70 gráður á Celsíus. Að vori fellir minkurinn vetrarhárin og upp kemur sumarfeldur. Vetrarfeldurinn fer svo aftur að vaxa að haustinu og er fullþroskaður um miðjan nóvember.

Minkar verða kynþroska á fyrsta ári og tímgast ungir. Fengitíminn er snemma á vorin og meðgöngutíminn sex til ellefu vikur en að meðaltali sjö. Nánast eingöngu er hægt að para mink frá síðustu dögum febrúar til 25. mars. Læðurnar makast með sjö til tíu daga millibili og þroskast öll fóstrin samtímis þrátt fyrir að sæðisgjafarnir geti verið margir.

Got fer oftast fram snemma í maí og fjöldi hvolpa fjórir til tíu. Í minkalæðum verður egglos við mökun dýranna. Á minkabúum eru læðurnar tvíparaðar með átta eða níu daga millibili en þannig eru framkölluð tvö egglos þar sem það seinna eyðir því fyrra að mestu. Eggin synda um í leginu í ákveðinn tíma eftir frjóvgun áður en þau festast en áhrifaþættir á slíkt eru ljós og fóðuraðgengi dýranna eftir pörun.

Hvolparnir fæðast blindir, hár- og tannlausir og nærast á mjólk fyrstu fimm vikurnar. Sjón og tennur fá þeir um mánuði eftir fæðingu. Læðurnar sjá einar um uppeldi afkvæmanna.

Minkar helga sér óðal og merkja það með þvagi og saur og búa sér til greni sem hafa marga útganga. Stundum er einn útgangurinn beint út í vatn, enda minkar góðir til sunds og geta verið í kafi og farið langar leiðir eftir botni vatna. Steggurinn er mest á ferðinni á nóttunni en læður allan sólarhringinn og mest eftir got.

Fæðuval minka er fjölbreytt og bæði úr sjó og af landi. Í sjó veiða þeir ýmsar tegundir fiska eins og marhnút, sprettfisk, hrognkelsi, hornsíli, ufsaseiði, sandsíli, karfa, loðnu, síld, skötusel, tindaskötu, keilu og krabbadýr. Á landi veiða þeir fugla, mýs og hunangsflugur auk þess sem þeir ræna eggjum úr hreiðrum.

Minkur á Íslandi

Skömmu fyrir aldamótin 1900 var ljóst að minkaeldi í Norður-Ameríku skilaði hagnaði og í framhaldi af því fóru bændur og fjárfestar í öðrum löndum að huga að sams konar eldi. Fyrstu minkabúin í Evrópu með mink frá Norður-Ameríku voru sett á laggirnar í Noregi árið 1927 og í Svíþjóð ári seinna. Næstu ár og áratugi þar á eftir voru minkar fluttir til flestra annarra landa í Norður-Evrópu.

Fyrstu árin slapp fjöldi minka úr eldi og lifa í dag víða villtir í Evrópu norðanverðri.

Fyrstu minkarnir voru fluttir til Íslands haustið 1931 og komu þeir frá Noregi. Dýrunum var komið fyrir að Fossi í Grímsnesi þar sem þau fjölguðu sér hratt. Nokkrum mánuðum síðar voru minkarnir orðnir 75 og þeir fluttir á nýtt minkabú á Selfossi. Ári síðar voru minkabúin tvö en fjölgaði ört eftir það.

Fyrstu minkarnir sem vitað er að hafi sloppið úr eldi á Íslandi sluppu haustið 1932 frá Fossi í Grímsnesi. Næstu árin slapp talsvert af mink frá nokkrum búum.

Fyrsta minkagrenið í náttúrunni hér á landi fannst við Elliðaárnar í Reykjavík árið 1937. Annað greni fannst við Leirvogsá í Mosfellssveit vorið eftir og fjölgaði fundum þeirra hratt eftir það, samfara því að minkurinn náði fótfestu um allt land.

Villiminkur var kominn austur undir Skeiðarársand árið 1958 en sandarnir og Skeiðará virðast hafa verið honum náttúruleg hindrun því lengi vel var Öræfasveit eina sveit landsins sem var laus við mink.

Minkurinn var þó ekki lengi að skjótast yfir Skeiðará og sandana og yfir í Öræfasveit eftir að áin var brúuð árið 1974.

Ekki er vitað hvað minkar geta orðið gamlir hér á landi en elsti minkur sem aldursgreindur hefur verið á Íslandi var sjö ára steggur og elsta læðan var sex ára.

Minkaeldi á Íslandi

Þrátt fyrir nokkur vandræði varðandi fóður og frjósemi á fyrstu árum loðdýraræktar hér á landi lofaði í upphafi góðu enda verð hátt. Fljótlega syrti samt í álinn. Skömmu eftir að loðdýraeldi hófst hér skall á heimskreppa og í kjölfarið verðfall á skinnum. Í kjölfar kreppunnar kom seinni heimsstyrjöldin og eftirspurn eftir skinnum engin. Vegna þess var öllum minkum í eldi slátrað fyrir 1940 og bannað með lögum að reisa ný minkabú árið 1951.

Banni við loðdýrarækt var ekki aflétt fyrr en 1969 og í kjölfar þess fluttur inn minkur frá Noregi sem komið var fyrir á fimm búum á Suðvestur- og Norðurlandi. Að nokkrum árum liðnum kom í ljós að dýrin voru langflest sýkt af alvarlegum vírussjúkdómi sem hafði letjandi áhrif á frjósemi og vöxt þeirra. Rekstur þessara fimm búa var því erfiður og flest þeirra hættu rekstri.

Vírussýkingin, sem nefnist Plasmacytoses, er enn viðvarandi í villtum mink á landinu og smitast auðveldlega í búrdýr komist villtur minkur í samneyti við þau.

Á Íslandi hafa verið ræktuð nokkur litaafbrigði minka og veiðst hafa villtir minkar með hvítan, dökkbrúnan og svartan feld.

Skipt var um minkastofn í landinu 1981 og flutt inn dýr frá Danmörku. Minkabúum á landinu fjölgaði hratt á níunda áratug síðustu aldar og þá meira af kappi en forsjá. Verðfall á skinnum um miðjan áratuginn varð til þess að langflest þessara búa lögðu upp laupana um 1990.

Íslenski búrminkastofninn í dag er sá sami og notaður er í flestum öðrum löndum við minkaeldi. Fjöldi litarafbrigða búrminka hér á landi er svipaður og í nágrannalöndunum en í heildina eru yfir 20 litarafbrigði til á íslenskum minkabúum, en öll þessi litarafbrigði eiga sömu forfeður enda teljast þau öll til sömu ættkvíslarinnar. Á minkabúum er oftast stunduð hreinræktun litarafbrigða en einnig er litum blandað saman í ræktunarstarfinu til að færa ákveðna eiginleika milli lita, draga úr skyldleikaræktun eða þegar verið er að fjölga í einhverri tegundinni. Um helmingur minka á minkabúum á Íslandi er svokallaður „standard minkur“ en hann er brúnn að lit. Hinn helmingurinn skiptist á margar litategundir en af þeim fjölda er hvítur fjölmennastur eins og staðan er í dag. Þessi hlutföll innan búanna breytast í takt við aðstæður og kröfur á markaði séð yfir lengri tíma.

Séu gæði íslensku minkaskinnaframleiðslunnar borinn saman við aðrar þjóðir út frá því skinnaverði sem bændur hafa verið að fá að meðaltali á markaði þá hefur íslenska framleiðslan verið í öðru sæti fjórum sinnum síðustu sex árin en danskir minkabændur hafa vermt fyrsta sætið.  Síðustu 10 til 15 ár hefur því mjög jákvæð þróun um gæði íslensku skinnanna átt sér stað sem fyrst og fremst má þakka meiri fagmennsku bænda, auknum innflutningi kynbótadýra og betri fóðurframleiðslu.

Refur, melrakki, tófa eða lægja

Refir eru lítil og meðalstór rándýr af hundaætt. Refir skiptast í 27 tegundir og þá er að finna í flestum heimsálfum og rauðrefir, Vulpes vulpes, algengastir.

Heimskautarefur er sá refur sem hefur lifað villtur hér á landi frá því á ísöld og kallast á latínu Vulpes lagopus. Refir eru einu spendýrin sem fyrir voru á landinu við landnám.

Búsvæði heimskautarefsins er nyrst allra refategunda. Talið er að heimskautarefurinn hafi fært sig norðar með hopandi jöklum við lok ísaldar og að hluti þeirra dýra orðið eftir hér á landi, einnig er líklegt að hann hafi borist til landsins með rekís frá Grænlandi.

Refir fylgja stundum hvítabjörnum á hafís langt út á haf. Í Hansaleiðangrinum 1869 til 1870 fannst refur á rekís miðja vegu milli Íslands og Grænlands.

Fullvaxið karldýr er um 90 sentímetrar að lengd og er skottið um einn þriðji lengdarinnar. Þyngd karldýra eru um sex kíló að hausti en milli þrjú og fjögur kíló á vorin. Læður eru um 20% léttari en karldýrin.

Fengitíminn lágfótu er í mars og fyrri hluta apríl og meðgöngutíminn er sjö og hálf vika. Að meðaltali eru fimm til sex yrðlingar í goti og eru yrðlingarnir blindir við fæðingu en augun opnast tæpar þrjár vikur eftir got. Yrðlingarnir  verða kynþroska á fyrsta ári og er einkvæni algengt meðal refa. Læðurnar sjá að mestur um fæðuöflun en steggirnir verja óðulin að mestu einir.

Refir eru á ferðinni tólf til fjórtán tíma á sólarhring og mest á í kringum ljósaskiptin. Þeir sækja sér iðulega fæðu í fjörur á útfallinu. Fæðuvalið fer mikið eftir framboði á hverjum tíma og getur verið hrognkelsi, kræklingur, fuglar, egg, spendýrahræ, rjúpur, þangflugnapúpur, ber, hagamýs og fleira sem að kjafti kemur.

Refir á Íslandi

Ekkert dýr á Íslandi hefur haft eins mörg heiti og refur. Má það hugsanlega rekja til þeirrar trúar að ekki megi nefna nafn hins illa upphátt til þess að kalla hann ekki yfir sig. Auk algengra heita eins og refur og tófa má nefna dratt(h)ali, gortanni, lágfóta, melrakki, skaufhali, skolli og vemma. Refir sem leggjast á fé kallast bítur, dýrbítur og bitvargur. Snoðdýr er tófa sem aldrei fær feld með vindhárum. Refalæða sem lögst er í greni til að gjóta er kölluð grenlægja. Karldýrin eru oft nefnd steggur eða högni en kvendýrin læða, bleyða eða tófa. Afkvæmi refa kallast yrðlingar.

Tvö litaafbrigði villtra refa finnast hér á landi. Annað skiptir litum eftir árstíðum og er mógrátt á sumrin en hvítt á veturna. Hitt afbrigðið er brúnleitt allt árið.

Allt frá komu fyrstu mannanna til landsins hefur verið litið á refi sem ógagnsemisdýr og refaveiðar stundaðar frá landnámi. Samkvæmt lögum Grágásar eru refir réttdræpir hvar sem í þá næst og í Jónsbók segir: „Melrakki er á hvers manns jörðu óheilagur.“

Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir bráðina.

Meðal aðferða sem beitt hefur verð við refaveiðar er að hrekja þá úr greninu með reyk, grjótgildrur og dýrabogar. Kringum aldamótin 1700 kemur byssan til sögunar og hefur hún verið algengasta veiðitækið síðan. Um miðja 18. öld var farið að eitra fyrir refi með strykníni, sem var gjarnan sett í kjöt ásamt muldu gleri til að særa meltingarveginn og að eitrið bærist hratt út í blóðið. Eitrið olli miklum skaða meðal annarra dýrategunda og nánast útdauða hafarnarstofnsins.

Refaeldi í Íslandi

Eldi á bláref, en það kallast heimskautarefur í eldi, hófst í Kanada um 1890. Í fyrstu var refunum sleppt á afskeftum eyjum og þeir aldir þar. Norðmenn höfðu sama hátt á þegar þeir hóf eldi á bláref skömmu síðar.
Íslendingar reyndu fyrir sé með eyjaeldi á ref 1912 þegar yrðlingum var sleppt í Elliðaey í Borgarfirði.

Árið 1927 var stofnað í Borgarfirði hlutafélag sem hafði að markmiði að ala blárefi. Keyptir voru nokkrir yrðlinga af grenjum og þeir aldir innan girðingar að Svignaskarði í Borgarfirði þar til þeim náðu þeirri stærð að feldurinn væri söluhæfur.

Fyrstu silfurrefirnir, tvo dýr, læða og steggur voru fluttir til landsins 1929 og komið fyrir á nýbýlinu Bjarmalandi við Laugarlæk í Reykjavík. Silfurrefir eru talsvert stærri en íslenski heimskautarefurinn og hárin ljósari.

Sagt er að fyrstu silfurrefirnir hafi verið fóðraðir á fiski, hrossa-, kinda-, og hvalkjöti ásamt fuglum öllu öðru sem til féll.

1933 voru sex blárefir sem voru ættaðir frá Kanada fluttir til landsins frá Noregi, fjórar tófur og tveir steggir.

Í sögu refaræktar í Noregi finnast finnast heimildir um kaupum á villtum heimsskautaref frá Íslandi, Grænlandi og Svalbarði. Íslensku refirnir þóttu oft góð dýr og sérstaklega brúnu dýrin sem voru með bláan tón í þelinu en þau dýr eru grunnurinn að hinum eiginlega Bláref. Orðrómur var í Noregi um að íslenskir veiðimenn teldu dýrin yfirleit yngri við sölu en raunin var þegar þau voru metin við komuna til Noregs. Engu að síður var ánægja með þessi viðskipti á sýnum tíma.

Bæði silfur- og blárefirnir fjölguðu sér hratt og búum fjölgað ört og gott verð fékkst fyrir skinnin allt þar til heimskreppan og í framhaldi af henni heimstyrjöldin síðari skall á. Í stríðinu hrundi markaðurinn og flest búin hættu starfsemi þrátt fyrir að nokkrir refabændur hafi þraukað talsvert lengi en refaeldi lagðist tímabundið af á landinu 1964.

Verð á skinnum byrjaði aftur að hækka á áttunda áratug síðustu aldar og 1978 hófst refaeldi að nýju í landinu. Fluttur var inn blárefur frá Skotlandi og dýrunum var komið fyrir á nokkrum búum á Norðurlandi til að byrja með og fljótlega víðar um landið. Búum fjölgaði síðan hratt um allt land með tilheyrandi erfiðleikum í fóðurframleiðslu sem fyrst og fremst stafaði af þekkingarleysi.  Við þetta bættist mikið verðhrun refaskinna á mörkuðum og ekki leið á löngu áður en flest refabúin fóru í þrot. Refarækt átti eftir þetta mjög erfitt uppdráttar og lognaðist endanlega út af árið 2009 þegar síðasta búið hætti rekstri en það var Hrólfsstaðir á Jökuldal.

Í dag er ekkert refabú starfandi á landinu.

Skoffín og skuggabaldur

Í íslenskri þjóðtrú eru skoffín afkvæmi refs og kattar, þar sem kötturinn er móðirin. Skuggabaldur er hinsvegar afkvæmi sömu dýra en þar sem móðirin er refalæða.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að lítil hætta stafi af skoffínum þar sem þau séu yfirleitt drepin áður en þau komast á legg þar sem móðirin er oftar en ekki heimilisköttur. Skuggabaldur er hins vegar öllu viðsjárverðara kvikindi sem gerast dýrbítar séu þeir ekki drepnir.

Í lokinn er vert að minnast á frægan ref í leikhúsbókmenntunum. Þar er að sjálfsögðu átt við Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi sem sagði svo réttilega „hvorki gras né garðakál borðar heilbrigð sál.“ 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...