Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Á faglegum nótum 6. nóvember 2019
Mjólkurframleiðsla heimsins er stöðugt að aukast
Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Ársfundur International Dairy Federation (IDF), sem eru samtök aðila í mjólkuriðnaði í helstu framleiðslulöndum heimsins, var haldinn í síðasta mánuði og að þessu sinni var fundurinn haldinn í Tyrklandi en fundinn sátu um 1.000 þátttakendur víða að úr heiminum. IDF, sem voru stofnuð árið 1903, eru samtök sem ná yfir allan feril mjólkurfram-leiðslu og -vinnslu í heiminum og á vegum samtakanna starfa 17 vinnuhópar sem vinna að því að samræma reglur og gæðastaðla fyrir greinina.
Þá eru samtökin m.a. með marga faglega vinnuhópa sem gegna mest því hlutverki að beina kröftum vísindafólks víða að úr heiminum í sömu átt, en að samtökunum standa 1.200 fagaðilar úr greininni, allt frá kúabændum og upp í forstjóra afurðafyrirtækja. Á hinum árlega fundi samtakanna koma ávallt fram áhugaverðar upplýsingar um málefni greinarinnar og verður hér gripið niður í örfá atriði.
Einn milljarður íbúa heimsins
Enn þann dag í dag vinnur stór hluti íbúa heimsins við mjólkurframleiðslu en talið er að um einn milljarður íbúanna hafi lífsviðurværi sitt af annaðhvort mjólkurframleiðslu, mjólkurvinnslu eða -sölu. Greinin hefur þó átt undir ákveðið högg að sækja á heimsvísu síðastliðið ár. Þar spila inn í bæði veðurfarsleg áhrif sem hafa haft áhrif á framleiðsluna í einstökum heimshlutum en einnig aukin umræða um það umhverfisálag sem fylgir nautgriparækt. Umræða um dýraafurðalaust fæði tekur etv. meira af umræðutíma fólks sem búa í ríkari löndum heimsins nú til dags, en á heimsvísu er þessi umræða ekki hávær enn sem komið er amk. Umræða um umhverfisáhrif framleiðslunnar hefur þó náð rótum í öllum heimsálfum og það hefur leitt til stóraukinnar áherslu IDF á sjálfbærni.
Sótsporslaus framleiðsla er framtíðin
Aukin áhersla á sjálfbæra mjólkurframleiðslu er því eitt af leiðarljósum samtakanna nú, en flest stærri afurðafélaga í heiminum hafa þegar markað skýra stefnu í átt að sjálfbærri mjólkurframleiðslu, þ.e. framleiðslu sem hefur ekkert sótspor! Í dag er þó staðan þannig að ekki er til næg þekking á öllum hliðum framleiðslunnar svo unnt sé að gera hana sótsporlausa að öllu enda þarf slíkt þá að ná til framleiðslunnar á kúabúinu, flutn-ingum á mjólkinni, allri vinnslu, pökkun, kælingu og sölu. Þrátt fyrir mörg fyrirsjáanleg vandamál, hafa stóru fyrirtækin á markaðnum ákveðið að fara þessa leið og varða þannig leiðina fyrir smærri fyrirtæki á markaðnum sem ekki hafa burði til að fjárfesta í þróun og rannsóknum til að draga úr sótspori framleiðslu sinnar. Það er einnig eftirtektarvert í þessu samhengi að sjá að mörg af stóru fyrirtækjunum í mjólkuriðnaði heimsins virðast vera tilbúin til að deila þekkingu sinni á aukinni sjálfbærni með öðrum fyrirtækjum á markaðnum. Það er næsta einstakt að samkeppnisaðilar deili með sér þekkingu með þessum hætti en sýnir etv. vel hve traustum tökum afurðageirinn er að taka á þessu máli.
Þegar horft er yfir framleiðsluna á síðasta ári er þó afar misjafnt eftir löndum hver voru að bæta við sig og hver ekki. Þannig voru t.d. mörg lönd ekki að auka framleiðsluna svo nokkru nemi og sum jafnvel að upplifa samdrátt. Á sama tíma voru önnur lönd að sækja töluvert mikið fram eins og sjá má af meðfylgjandi mynd þar sem svartlituð lönd sækja mest á en löndin sem eru lituð appelsínugul drógu saman sína framleiðslu á árinu.
2,2% aukning á heimsvísu
Þrátt fyrir stöðuna og herta umræðu um neyslu dýraafurða jókst eftirspurnin eftir mjólkurvörum á heimsvísu í fyrra og heimsframleiðsla mjólkur jókst um 2,2% sem er nokkurnvegin sama hlutfall og verið hefur undanfarna tvo áratugi. Sem fyrr er fram-leiðslan mest í Asíu og Evrópu, eða 63% af heimsframleiðslunni, eins og sjá má við skoðun á meðfylgjandi skífuriti.
981 milljarðar kg árið 2028
Því er nú spáð, af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), að mjólkurframleiðsla heimsins næsta áratug muni aukast heldur minna eða um 1,7% og að árið 2028 verði heimsframleiðsla mjólkurinnar komin í 981 milljarða kg en í dag er ársframleiðslan 843 milljarðar kg. Til þess að setja þessa aukningu á næsta áratug í samhengi þá er aukningin hátt í þúsundföld íslensk mjólkurframleiðsla! Þetta mikla mjólkurmagn mun þó alls ekki fara í einhver smjörfjöll enda er markaðurinn í bæði Asíu og Afríku mikið vaxandi og neyslan á mjólkurvörum í þessum heimsálfum er langt undir því sem við þekkjum í Evrópu.
Indland og Pakistan með þriðjung
Þó svo neyslustigið í bæði Afríku og Asíu næði ekki nema upp í helming þess sem er í Evrópu í dag þarf að stórauka heimsframleiðslu mjólkur. Raunar til þess eins að viðhalda árlegri aukningu upp á 1,7% næstu 10 árin, þýðir það að árið 2028 hafi heimsframleiðslan aukist um 16% frá því sem nú er. En hvar verður þessi mjólk framleidd? Auðvitað geta flest lönd bætt einhverju við núverandi framleiðslu en sérfræðingar OECD virðast þó fyrst og fremst horfa til möguleikanna í bæði Indlandi og Pakistan. Þessi tvö stóru lönd eru afar vannýtt þegar litið er til mjólkurframleiðslu og telja sérfræðingarnir að framleiðslan í þessum löndum geti vaxið einna hraðast. Þannig telja þeir að í ársbyrjun 2028 þá muni þessi tvö lönd ein og sér standa undir 32% af heimsframleiðslu mjólkurinnar og að þorri þessarar mjólkur verði einfaldlega nýtt heima fyrir þ.e. fari ekki til útflutnings.
Falsfréttir vandamál
Orðið falsfréttir er líklega öllum kunnugt og þó svo að oftast séu slíkar „fréttir“ tengdar við stjórnmál, þá er mikið af sambærilegum „fréttum“ um mjólkurframleiðslu sem er deilt á netinu. Ýkjusögur, hreinn uppspuni eða stílfærsla er nokkuð sem IDF hefur í auknum mæli reynt að sporna við en afar erfitt er þó að ráða við það þegar fólk ætlar sér að vera óheiðarlegt. Þannig eru til margar falsfréttir um mjólk og mjólkurvörur og snúast margar þeirra um næringargildi mjólkurvara þar sem því er haldið fram að mjólk sé óþörf og þar fram eftir götunum. Málið er litið alvarlegum augum og svo alvarlegum að IDF hefur undanfarið ár unnið með fæðuöryggisnefnd Sameinuðu þjóðanna í þeim tilgangi að taka á málinu enda má það ekki gerast að íbúar heimsins vannærist vegna vanþekkingar eða falsfrétta.
Neytendur móta stefnuna
Á ráðstefnunni kom einnig fram að stóraukin notkun fólks á samfélagsmiðlum hefur breytt neysluhegðun þess og svo virðist sem áhrifavaldar geti haft mun meiri áhrif á fólk en áður var og hjarðhegðun neytenda sé afar sýnileg. Hinn almenni neytandi móti þannig mun hraðar nú en áður þróun varanna, en fram komu áhyggjur af því að það kunni að gerast á kostnað vísinda og næringargildis varanna þar sem hingað til hafi flestar mjólkurvörur verið þróaðar með næringargildi og hollustu að leiðarljósi. Breytt umhverfi þýði að mjólkuriðnaðurinn þurfi að vera fljótur að bregðast við nýjum áherslum og þróa vörur sem henta hverju sinni en þurfi á sama tíma að standa fastur á hollustu og næringargildi varanna.
Mjólk hefur yfirburði á iðnaðardrykki
Undanfarin ár hefur hlutfall iðnaðardrykkja hækkað ört en það eru drykkir sem eru búnir til úr plöntuafurðum og er ætlað að líkja eftir hefðbundinni mjólk. Um gjörólíka vöru er að ræða enda annars vegar náttúrulegt hráefni á ferðinni og hins vegar iðnaðarvöru sem byggir á blöndu hráefna. IDF hefur skipað sérstakan vinnuhóp til þess að fara nákvæmlega ofan í saumana á þessum málum og í vinnuhópnum situr vísindafólk víða að úr heiminum. Hópurinn er enn að störfum en fyrstu niðurstöður eftir skoðun á fræðilegum bakgrunni þessara ólíku drykkja liggja fyrir og sýna niðurstöðurnar að þeir iðnaðar-drykkir sem eru á markaðinum í dag geti ekki gefið neytendum sambærileg næringarefni og vítamín og fást með því að drekka mjólk.
Aukin neysla á þessum drykkjum gæti því leitt til næringarfræðilegra vandamála sem þurfi að leysa og varðar málið klárlega mörg afurðafélög í mjólkuriðnaði, enda eru mörg þeirra ekki bara stórir framleiðendur á drykkjarmjólk heldur framleiða þau einnig þessa plöntuafurðadrykki! Skýringin á því að afurðafélög í mjólkurvinnslu séu að framleiða drykki sem byggja ekki á notkun á mjólk felast aðallega í því að þessi fyrirtæki eru með afar öflugar vinnslulínur og auðvitað sölu og markaðskerfi sem getur hæglega bætt við örfáum vörum. Þá hefur þessi vara hingað til amk. verið seld afar háu verði sem er auðvitað eftirsóknarvert fyrir framleiðendur. Nefnd IDF hefur ekki lokið störfum en þess má vænta að á næsta ársfundi IDF, sem haldin verður í Suður-Afríku á næsta ári, þá verði birt skýrsla um málefnið.