Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Á faglegum nótum 14. nóvember 2018
Mjólkurframleiðsla og -vinnsla fyrir komandi kynslóð
Höfundur: Snorri Sigurðsson
Dagana 15. til 18. október var haldin árleg ráðstefna á vegum IDF (International Dairy Federation), en það eru alþjóðasamtök um mjólkurframleiðslu og -vinnslu. Þessi samtök eru leiðandi í heiminum innan þessa hluta matvælaframleiðslu og að þessu sinni var ráðstefnan haldin í Daejeon í Suður-Kóreu.
Ráðstefnan bar heitið „Dairy for next generation“ sem þýða má sem „Mjólkurframleiðsla og -vinnsla fyrir komandi kynslóð“ og hana sóttu rúmlega tvö þúsund manns frá 57 löndum víðs vegar að úr heiminum og að sjálfsögðu einnig frá Íslandi.
Um IDF
IDF samtökin eru frjáls félagasamtök sem bæði afurðastöðvar, samtök bænda og fyrirtæki geta átt aðild að með mismunandi hætti og að baki þessum alþjóðlegu samtökum er um 75% af allri framleiddri mjólk í heiminum.
Samtökin standa fyrir árlegri aðalráðstefnu en eru þess á milli með margar minni ráðstefnur um sérstök málefni sem varða starf-semi IDF. Þá starfa innan IDF ótal ráð og nefndir sem móta stefnu samtakanna, vinna að alþjóðlegum reglum og viðmiðum fyrir þessa matvælaframleiðslu og nær sú vinna alla leið frá kúabúinu og út í verslun til neytenda og allt þar á milli. IDF mótar til dæmis hinn alþjóðlega ISO staðal fyrir greinina og gefur árlega út ótal skýrslur og greinargerðir um bæði mjólkurframleiðslu og -vinnslu.
Ban Ki-moon, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hélt aðalávarp ráðstefnunnar og ræddi m.a. um mikilvægi mjólkurframleiðslu heimsins sem leið íbúa í þróunarlöndum út úr fátækt.
Mjólkurframleiðsla leið gegn fátækt
Ban Ki-moon, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hélt aðalávarp ráðstefnunnar og ræddi m.a. um mikilvægi mjólkurframleiðslu heimsins sem leið íbúa í þróunarlöndum út úr fátækt. Sagði hann að í öllum löndum þar sem fólk hefur brotist úr fátækt hafi mjólkurframleiðslan skipt sköpum. Skýrist það af því að flest fólk í dreifbýli, sem vinnur oftast við einhverja matvælaframleiðslu, fái oftar en ekki bara greitt fyrir vinnu sína einu sinni á ári þ.e. þegar uppskera af ökrum þeirra er seld eða gripum slátrað. Mjólkurframleiðslan sé hins vegar öðruvísi og gefur tekjur jafnt og þétt allt árið. Það gjörbreyti aðstöðu fólks og möguleikum og um leið tryggi mjólkurneysla á þessum svæðum fólki mikilvæga næringu.
9 milljarðar árið 2050
Ban Ki-moon hélt áfram og sagði að í ljósi þess að mannfjöldaspár geri ráð fyrir að á jörðinni muni verða um 9 milljarðar íbúa árið 2050 þá muni mjólkurframleiðsla og -vinnsla verða enn mikilvægari en nú ef takast eigi að tryggja næringu fyrir allt þetta fólk. Þá sagði hann að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafi mjólk og mjólkurvöruneysla svo sannarlega sýnt mikilvægi sitt enda ein mikilvægasta næringin sem gefin er t.d. í flóttamannabúðum og þar sem fólk býr við ótryggt ástand vegna stríðs eða þurrka. Þá sagðist hann afar þakklátur fyrir þann stuðning sem afurðafyrirtæki í mjólkurvinnslu í heiminum hafi sýnt svokölluðum sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en það var einmitt Ban Ki-moon sem náði því í gegn árið 2015 að fá öll lönd heimsins, sem standa að Sameinuðu þjóðunum, til að sameinast um markmið sem ætlað er að bæta lífskjör í heiminum til lengri tíma litið. Þessi markmið eru 17 talsins og mörg þeirra snerta mjólkuriðnaðinn og kúabúskap almennt.
Mjólkurframleiðsla stuðlar að jafnrétti
Ban Ki-moon ræddi einnig mikilvægi mjólkurframleiðslu í heiminum til þess að stuðla að jafnrétti kynjanna. Sagði hann að fáar ef nokkrar aðrar atvinnugreinar í heiminum hefðu jafnhátt hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum og ábyrgðarstöðum og væri það bæði meðal þróunarlandanna og hinna sem væru lengra komin. Þá væri afar algengt að konur stæðu fyrir mjólkurframleiðslunni á kúabúum heimsins en talið er að þriðji hver kúabóndi í heiminum sé kona. Þetta kvað Ban Ki-moon afar jákvæða þróun en jafnrétti kynjanna er einmitt eitt af fyrrgreindum 17 sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og fimmta markmið þeirra fjallar um að tryggja jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna.
Skólabókardæmi frá Rúanda
Í kjölfar erindis Ban Ki-moon var svo haldin málstofa um áhrif mjólkurframleiðslunnar á líf fólks og var þar m.a. tekið dæmi um tilraunaverkefni sem hefur verið í gangi í Rúanda í Afríku. Þar var hreinlega gerð tilraun með það hvernig best er að koma fólki upp úr fátækt, en eftir þjóðarmorðið í Rúanda árið 1994 var farið af stað með verkefni sem kallaðist Girinka sem stendur fyrir „ein kýr á hverja fátæka fjölskyldu“.
Verkefnið gekk út á það að í stað þess að gefa fólki neyðaraðstoð í formi matvæla þá var keypt kálffull kýr fyrir fjölskyldurnar. Með gjöfinni á kúnni fylgdi svo einn skilmáli þ.e. að þegar fyrsti kvígukálfurinn myndi fæðast undan kúnni, þá ætti að gefa hann til næstu fjölskyldu sem var á fyrirfram gefnum lista.
Þetta verkefni hafði mikil og góð áhrif og þegar aðstæður fjölskyldna sem fengu kú að gjöf voru bornar saman við aðstæður þeirra fjöl-skyldna sem fengu annars konar aðstoð kom í ljós að fjölskyldur hinna nýju kúabænda höfðu það mun betra en aðrar fjölskyldur. Einnig kom í ljós að börn sem ólust upp á þessum nýbýlum með kýr uxu hraðar og auk þess stuðlaði kúabúskapurinn að bættri nýtingu landsins með t.d. aukinni uppskeru korns.
Margar málstofur
Á ráðstefnunni voru haldnar samtímis margar ólíkar málstofur um hin fjölbreyttu málefni sem snerta þá umfangsmiklu starfsemi sem snýr að mjólkurframleiðslu og -vinnslu s.s. um bústjórn, heilbrigði dýra, stefnumál iðnaðarins, markaðsmál, umhverfismál og margt fleira mætti nefna enda vettvangurinn ótrúlega fjölbreyttur og spannar vítt svið. Þá gafst þátttakendum einnig tækifæri til þess að lesa sér til um ótal rannsóknir og margs konar verkefni á veggspjaldasýningu ráðstefnunnar sem og að skoða alls konar tæki og tól sem notuð eru við gæðaeftirlit og stoðþjónustu í þessari atvinnugrein á sérstöku sýningarsvæði.
Hitaþolnar kýr
Það er ógerlegt að gera almennilega grein fyrir öllum erindum þessarar IDF ráðstefnu og verður því einungis lýst fáum þeirra hér. Eitt þeirra var haldið í málstofu sem sneri að bústjórn og fjallaði um áhugaverða vinnu ástralskra kynbótasérfræðinga við að rækta hitaþolnari kýr. Með breyttu veðurfari og hlýnun jarðar hafa áhrif umhverfishita haft aukin áhrif á mjólkurframleiðsluna í heiminum.
Kýr eru í eðli sínu kuldasæknar og þegar hitastigið er komið yfir 20 gráður byrja þær afurðahæstu að líða í hitanum og því hærri sem hitinn er, því meira getur dregið úr mjólkurframleiðslu kúnna. Í dag er þessu vandamáli mætt með því að setja upp krafmiklar viftur og vökvunarkerfi inn í fjósin þar sem hitastigið fer oft yfir 20 gráður og með því er umhverfi kúnna haldið kaldara en þetta er auðvitað kostnaðarsöm aðgerð.
Í Ástralíu fer sumarhitinn oft mjög hátt en vísindafólk þar hefur komist að því að sumar kýr virðast ekki draga úr mjólkurframleiðslu sinni þrátt fyrir hitann og nú er unnið að því að einangra það gen sem talið er að tengist þessum eiginleika og má vænta þess að í framtíðinni geti bændur erlendis valið að sæða kýr sínar með nauti sem ber þennan mikilvæga eiginleika.
Minnkandi sala á sýrðum mjólkurvörum í Evrópu
Á ráðstefnunni var sérstök málstofa um sýrðar mjólkurvörur en á meðan slíkar vörur eru í mikilli sókn víða í heiminum hefur heldur dregið úr sölu þeirra í Evrópu. Vísindafólk telur að skýringuna sé að finna í mun stífari kröfum til upplýsingagjafar um matvæli í Evrópu en í flestum öðrum löndum. Þannig var t.d. nefnt að í Asíu megi upplýsa á umbúðum um kosti mismunandi sýrðra mjólkurvara til bætingar á meltingu og um forvarnir gegn margs konar sjúkdómum í meltingarvegi en slíkt megi ekki gera í sama mæli í Evrópu.
Svokallaðar fæðubætandi mjólkurvörur eru í mikilli sókn í Asíu og tekur sú heimsálfa nú við um 50% allrar heimsframleiðslunnar en þar er þó mjólkurvöruneysla langtum minni en t.d. í Evrópu.
Í sömu málstofu var einnig fjallað um áhrif ýmiss konar matvæla sem unnin eru úr plöntum og eru markaðssett sem staðgönguvara fyrir mjólk og jafnvel mjólkurvörur. Í ljós hefur komið að afar misjafnt er á milli landa hvernig löggjafinn flokkar slík matvæli og stundum hafa t.d. plöntudrykkir með hátt kalsíum hlutfall verið settir í flokk með drykkjarmjólk. Á sama tíma setja yfirvöld í öðrum löndum þessa drykki í aðra flokka enda mjólk oftar en ekki í sérflokki, ekki bara vegna kalsíums heldur margra annarra næringarefna.
Var á ráðstefnunni kallað eftir því að alþjóðasamfélagið kæmi sér saman um sameiginlegar flokkunarreglur á matvælum og var Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna nefnd þar sem réttur vettvangur fyrir slíkar reglur.
Heiðursviðurkenningar
Á ráðstefnunni voru fjórir sérfræðingar heiðraðir sérstaklega fyrir mikilvæg störf þeirra í þágu mjólkurframleiðslu og -vinnslu. Þessar viðurkenningar fóru til Jean François Boudier, Jaap Evers, Jean-Marc Delort og Olav Østerås, sem er mörgum kunnur hér á landi. Olav er norskur dýralæknir og mikill Íslandsvinur en fékk sérstaka heiðursviðurkenningu IDF fyrir kraftmikið starf sitt í þágu dýravelferðar og bætts heilbrigðis nautgripa. Hann hefur m.a. unnið ötullega að heilbrigðisskráningu nautgripa í Noregi og komið að stefnumótun þar að lútandi í bæði heimalandi sínu og á hinum Norðurlöndunum en hann hefur verið afar virkur innan norrænu NMSM samtakanna.