Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2022
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2022 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.
Undir árslok 2018 var byrjað að birta uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna og nær það uppgjör til þeirra búa þar sem haldnar eru holdakýr. Enn er þetta yfirlit þó þeim annmörkum háð að niðurstöður ná ekki yfir þær holdakýr sem eru á búum þar semumerað ræða mjólkurframleiðslu. Þetta hefur sína
kosti og galla.
Kosturinn er sá að uppgjörið tekur til sérhæfðra búa með holdakýr en gallinn er á hinn bóginn sá að ekki eru allar holdakýr með í uppgjörinu.
Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2022 nær til 126 búa og þar af er að finna holdakýr af erlendu kyni á 96. Búunum fjölgar um fjögur milli ára en búum þar sem er að finna holdakýr ef erlendu kyni fjölgar um fimm. Kýr á þessum búum voru við uppgjör ársins 3.352 talsins, sem er fjölgun um 191 kú frá árinu áður. Meðalfjöldi kúa á búi var 26,6 samanborið við 25,9 árið áður og reiknast þessar kýr yfir í 25,9 árskýr á bú en þær voru 23,7 árið 2021. Alls var um að ræða 2.910 burði á þessum búum á árinu 2022 sem jafngildir 0,87 burðum/kú. Þetta er fjölgun um 341 burð og samdráttur um 0,06 burði á kú á milli ára.
Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2022
Heildarframleiðsla ársins á þessum 126 búum nam um 885 tonnum sem er aukning um 201 tonn milli ára. Þetta þýðir að þessi bú framleiða nálægt 18% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 7.023 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 3.557. Sambærilegar tölur frá fyrra ári eru 5.607 kg og 2.639 gripir. Meðalfallþungi kúa frá þessum búum var 214,0 kg, en hann reyndist 216,5 kg árið áður og meðalþungi ungneyta var 257,8 kg en þau vógu til jafnaðar 267,6 kg 2021. Til jafnaðar var ungneytunum fargað 727,8 daga gömlum eða 11,3 dögum yngri að meðaltali en á árinu 2021. Þetta jafngildir vexti upp á 335,6 g/dag, sé reiknað út frá fallþunga, en sambærileg tala frá fyrra ári var 347,6 g/dag. Til samanburðar var slátrað 10.166 (9.556) ungneytum á landinu öllu sem vógu 251,5 (255,6) kg að meðaltali við 747,7 (750,6) daga aldur. Tölur innan sviga eru frá 2021. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum heldur þyngri við lægri aldur að jafnaði eins og verið hefur undanfarin ár. Heilt yfir eru ungneyti léttari en árið áður enda alin heldur færri daga.
Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 5,5 (5,6) á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er4,7(4,6).Flokkunerþvímunbetri til jafnaðar á sérhæfðu búunum, rétt eins og árið áður. Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14. Meðalgripurinn á búunum í yfirlitinu er því nálægt því að flokkast í O.
Frjósemi
Á árinu 2022 fæddust 2.910 kálfar á sérhæfðu kjötframleiðslubúunum og reiknast meðalbil milli burða 465 (452) dagar. Bil milli burða er því nálægt 15,5 mánuðum sem er töluvert lengra en svo að meðalkýrin nái einum burði á ári. Framleiðsla nautakjöts með holdakúm verður tæpast arðbær hérlendis nema að þessi þáttur taki breytingum til batnaðar. Við þetta bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 16,7% (16,2%), 5,5% (5,0%) við aðra burði og vanhöld frá 0-6 mánaða 3,4% (3,0%) þannig að fjöldi kálfa til nytja verður töluvert langt innan við kálf á kú á ári. Tölur í svigum hér eru frá fyrra ári.
Sæðingum á þessum búum fækkar aðeins frá fyrra ári og eru þær undantekning en ekki regla. Þannig voru sæddar 512 kýr á árinu 2022 samanborið við 551 kú árið áður. Hlutfall sæddra kúa lækkar því í 15,3% úr 17,4%. Af þessum 512 sæddu kúm voru 292 af erlendu kyni. Til jafnaðar voru kýrnar sæddar 1,3 (1,4) sinnum og að meðaltali liðu 104,3 (121,0) dagar frá burði til 1. sæðingar.
Þær kýr sem eru sæddar þetta löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili en þó hafa mál færst til betri vegar hvað þetta snertir. Tilkoma Angus-sæðis frá Naut- griparæktarmiðstöð Íslands jók notkun sæðinga milli 2020 og 2021 en nú virðist ákveðnum toppi náð. Spurningin er hvort notkun sona Angus-sæðinganautanna og þeirra sjálfra heima á búunum hefur ekki orðið umtalsverð áhrif.
Hlutfall fæddra kálfa undan sæðinganautum nær ekki nema 18,7% en hefur þó hækkað umtalsvert milli ára en á árinu 2021 var hlutfall þeirra 15,3%.
Það er þó ljóst að erfðaefnið úr Angus nær meiri dreifingu en þessar tölur segja til um enda hlýtur greinin að horfa til meiri vaxtarhraða, betri flokkunar auk betri móðureiginleika. Við val nauta fyrir fósturvísaflutningana frá Noregi hefur verið horft sérstaklega til þessara þátta enda hafa þeir hvað mest áhrif á afkomu greinarinnar.
Ef framleiðsla nautakjöts með holdakúm á að verða arðbær hérlendis verður að gera verulegt átak varðandi frjósemi og notkun sæðinga. Bil milli burða er alltof langt en grundvallarforsenda þess að þessi grein geti náð meiri arðsemi hlýtur að vera sú að hver kýr skili sem næst einum lifandi kálfi á hverju ári.
Þá eru ónýttir möguleikar til þess að auka vaxtarhraða og kjötgæði með meiri og markvissari notkun sæðinga og tækifæri til að gera betur en nú er. Þá eiga menn að varast mjög að nota hvert og eitt naut í mjög langan tíma á hverju búi. Tvö til þrjú ár hlýtur að teljast hámarksnotkunartími hvers nauts á hverju og einu búi.
Mestur þungi og vöxtur
Þyngsta ungneytið sem slátrað var á árinu var naut nr. 1204 í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Þessi gripur var holdablendingur, 63% Angus, 33% íslenskur og 4% Limousine, undan Vísi-ET 18400 og vó 502,2 kg er honum var slátrað við 22 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN U+3-. Í töflu 2 má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 470 kg fallþunga á árinu 2022 en þau voru ellefu talsins og
frá sjö búum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að ungneyti eru gripir sem fargað er við 12-30 mánaða aldur.
Allir þessir gripir hafa náð sérlega miklum vexti og þar með þunga og athygli vekur að þarna skila bæði Vísir-ET 18400 og Draumur-ET 18402 ákaflega góðu.