Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Örlítil skoðun á íslenska nautgriparæktarkerfinu
Á faglegum nótum 30. nóvember 2015

Örlítil skoðun á íslenska nautgriparæktarkerfinu

Höfundur: Bill VerBoort
Um miðjan október heimsótti Bill VerBoort, framkvæmdastjóri AgriTech í Kaliforníu, Ísland. 
 
AgriTech er staðsett í San Joaquin-dalnum, rétt sunnan Fresno, þar sem mjólkurframleiðsla og landbúnaður er gríðarlega mikill. AgriTech er í eigu Holstein Association í BNA og er rekið á samvinnufélagsgrunni að segja má, þ.e. fyrirtækinu er ekki ætlað að skila eigendum sínum hagnaði heldur þjónusta þá. Fyrirtækið er næststærsta skýrsluhaldsfyrirtæki Bandaríkjanna og í hverjum mánuði eru gerðar upp skýrslur fyrir um 900 þús. kýr. Meðalbúið telur 1.600 kýr og það stærsta er með 44 þús. kýr.
 
Bill heimsótti RML á Selfossi og fékk að skoða nautgriparæktarkerfið Huppu ásamt því að heimsækja tilraunabúið á Stóra-Ármóti. Hann setti á blað nokkur orð um hvernig honum hefði komið íslenskur kúabúskapur og skýrsluhaldið fyrir sjónir. Pistill hans, í þýðingu Guðmundar Jóhannessonar, fer hér á eftir en auðvitað verðum við að hafa í huga að heimsóknin var mjög stutt og því ekki hægt að fara djúpt í hlutina.
 
Íslenska nautgriparæktarkerfið 
 
„Fyrir skömmu fékk ég tækifæri til þess að skoða veflæga íslenska nautgriparæktarkerfið sem Guðmundur Jóhannesson hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sýndi mér. Við eyddum um tveimur klukkustundum í að skoða forritið og heimsóttum svo tilraunabúið á Stóra-Ármóti þar sem við gátum rætt kerfið og nautgriparæktarstarfið enn frekar.
 
Bill VerBoort.
Ég vil taka það fram strax í upphafi að það er gríðarlegur munur á mjólkurframleiðslu á Íslandi og í Bandaríkjunum. Íslendingar eru um 330 þús. talsins sem þýðir nokkurn veginn að fyrir hvern Íslending eru til eitt þúsund Bandaríkjamenn. Það er einnig nokkuð ljóst í mínum huga að við búum við mjög ólík stjórnkerfi sem leiðir til þess að við gerum hlutina á mjög ólíkan hátt. Með þessu er ég ekki að leggja neitt mat á hlutina – annað er ekki betra en hitt.  
 
Ísland kom mér fyrir sjónir sem frekar einangrunarsinnað land og það virðist hluti af einhvers konar arfleifð. Bandaríkin eru aftur á móti mjög opið land gagnvart t.d. innflutningi o.s.frv.  Það er ákaflega mikið einstaklingsstolt í Bandaríkjunum og ríkin 50 eru að segja má hinn pólitíski drifkraftur.
 
Þegar þetta er yfirfært á mjólkurframleiðsluna sá ég glöggt að verndunarstefna takmarkar mjög möguleika Íslands varðandi kynbætur með innfluttu erfðaefni. Meðalnyt á kú á Íslandi er um 5.800 kg en í Bandaríkjunum liggur hún nærri 10 þús. kg á kú. Liggur þessi munur í erfðaefninu (gripunum) eða því hvernig við gerum hlutina, bústjórn o.fl.? Ég hugsa að það sé sitt lítið af hvoru.
 
Þið eruð með réttu stolt af íslensku kúnni. Í fyrstu hugsaði ég, af hverju ekki flytja inn nýtt kúakyn eða erfðaefni? Holstein-kýr myndu áreiðanlega mjólka miklu meira, Jersey-kýr myndu skila miklu meiri verðefnum og rauðu skandinavísku kynin myndu gera hvort tveggja, þ.e. mjólka meira með hærri verðefnum.  Eins og ég skildi það er innflutningur bannaður vegna sjúkdómavarna en svo varð mér ljóst að þið hafið flutt inn erfðaefni úr Galloway-, Angus- og Limousine-gripum til að bæta kjötframleiðslueiginleika með blendingsrækt.
 
Hins vegar sýnist mér að einhver stærsta áskorunin sem þið standið frammi fyrir sé ræktun og framleiðsla hágæðafóðurs við ykkar veðurfars- og loftslagsaðstæður. Mér var t.d. gerð grein fyrir því að „alfalfa“ er ekki valkostur á Íslandi þar sem það þolir ekki veturinn. Þá virtist mér sem að möguleikar Íslands til ræktunar á maís væru vægast sagt takmarkaðir. Maís þarf mikinn hita og raka, vex vel við 30–40°C.
Auðvitað er hægt að framleiða mjólk með öðru fóðri en möguleikar íslenskra bænda á þessu sviði eru greinilega takmarkaðir, framboð á fóðri samanborið við önnur vestræn er vægast sagt ákaflega lítið. Því velti ég fyrir mér ef þið getið ekki framleitt eða flutt inn hágæðafóður fyrir mjólkurkýr, gæti þá ekki borgað sig að flytja inn betra erfðaefni? Auðvitað er sjúkdómahætta til staðar og íslenski kúastofninn hefur áreiðanlega ekki sömu mótstöðu gagnvart sjúkdómum eins og kýr í öðrum löndum. Ég vil samt trúa því að það séu möguleikar og tækifæri í innflutningi erfðaefnis þar sem sæði og fósturvísar væru öruggasta leiðin. Að auki er erfðahópur íslenska kúakynsins lítill og hætta á skyldleikarækt umtalsverð.  
 
Aftur á móti, ef þið viljið ná betri árangri og auka framleiðslu mjólkur gerandi ráð fyrir að lögmálið um framboð og eftirspurn taki gildi, mun mjólkurverð lækka. Þá má spyrja hvort þið eruð betur sett með meiri vinnu og jafnvel minni hagnað? Þetta er sú áhætta sem við tökum í Bandaríkjunum þar sem hinn frjálsi markaður og einkaframtakið ræður ríkjum. Trúið mér, ég hef reynt þetta, það er ekki gaman að vinna langan vinnudag og tapa peningum daglega vegna þess að markaðurinn hefur snúist gegn þér.
 
Ef við snúum okkur að skýrsluhaldinu þá skilst mér að kostnaðurinn við það sé greiddur úr sameiginlegum sjóðum eða framlögum frá ríkinu. Í Bandaríkjunum er þátttaka í skýrslu­haldi algjörlega valkvæð, eins og hjá ykkur, en hver og einn kúabóndi greiðir fyrir þessa þjónustu úr eigin vasa. Mér fannst aðdáunarvert hversu mikil þátttakan í skýrsluhaldinu er hjá ykkur enda er algjörlega nauðsynlegt að hafa tiltæk gögn um einstakar kýr ef ætlunin er að ná betri árangri og reka búið almennilega.
 
Mér sýndist skýrsluhaldskerfið hjá ykkur gott. Í fyrsta lagi er það veflægt. Frábær ákvörðun að því tilskildu að netsamband sé aðgengilegt og gott. Með veflægu kerfi þurfið þið engar áhyggjur að hafa af upp­færslum og þjónustu við mismunandi útgáfur forrita í notkun, breytingar á kerfinu eiga sér stað á sama tíma hjá öllum.
 
Í Bandaríkjunum ræður hið frjálsa einkaframtak í þessu sem öðru. Það eru eins mörg forrit í notkun og markaðurinn þolir. Í skýrsluhaldsmiðstöðinni hjá okkur (þær eru fjórar í BNA) þurfum við að vinna með a.m.k. sex mismunandi forrit. Það er auðvitað ekki nærri eins auðvelt og skilvirkt að samræma okkar gagnagrunn við sex mismunandi forrit eins og það væri ef við værum einungis með eitt. Okkar viðhorfi gagnvart þessu var kannski best lýst í einu af tímaritum kúabænda fyrir stuttu: „Þegar enginn tapar reyna allir að vera fyrstir.“  Þarna takast á mismunandi viðhorf. Annað er ekki endilega betra en hitt, bara öðruvísi.  
 
Varðandi kerfið sjálft var mjög áhugavert að sjá samtengingu gagna frá mjólkuriðnaðinum við skýrsluhaldsgögnin. Þetta er nokkuð sem við gerum líka í Bandaríkjunum og nú eru blikur á lofti með að einkafyrirtæki ætli að bjóða upp á það sama. Spurning hversu þeim verður ágengt.  
 
Aðgangur og innsláttur gagna þeirra sem nota kerfið hvar sem er skilar miklum ávinningi fyrir bændur. Þar á ég við að t.d. frjótæknir skráir sæðingu sem samstundis er komin inn í kerfið getur verið bændum til mikils gagns. Allt uppfærist samstundis, gögn og listar eru nánast á rauntíma. Fleira mætti tína til. Varðandi gæðastýringu á skýrsluhaldinu er ég ekki viss, við fórum ekki nákvæmlega yfir þann þátt, en öll gæðastýring er af hinu góða sé hún vel og rétt unnin. Höfum í huga að gæði gagnanna ráða miklu um notagildið, RUSL INN -> RUSL ÚT! 
 
Ég hafði ekki nægan tíma til þess að skoða kerfið mjög ítarlega en af því sem ég sá sýndist mér það vinna hratt og vel þótt vel megi vera að slakar nettengingar geti dregið úr virkni og hraða. Ég velti líka fyrir mér möguleikum eins og runuskráningu gagna; er hægt að nota handtölvur eða snjallsíma, er hægt að sækja skrár, breyta og senda inn aftur eða er hægt að senda gögn inn með rafrænum hætti? Þetta eru atriði sem ég hafði ekki tíma til að skoða og ef til vill eiga sum þeirra ekki við.
 
Mér skildist að mestu að gögnunum sé safnað af bændum sjálfum, þ.e. bændur vigta, taka sýni og skrá sjálfir. Í Bandaríkjunum er meirihluta gagnanna safnað af okkur, þ.e. við sendum okkar starfsfólk heim á búin til þess að mæla og taka sýni. Kosturinn við það er samræmdari vinnubrögð við mælingar og sýnatöku og bændur þurfa ekki sjálfir að eiga mælitækin (mjólkurmælana).
 
Eitt af því sem við Guðmundur ræddum var hvernig hægt væri að leiðrétta mælingar að innvigtaðri mjólk, þ.e. að skýrslufærð mjólk væri sem réttust. Í Bandaríkjunum fylgjumst við grannt með og stillum mjólkurmælana reglulega auk þess sem við leiðréttum mælingar að innvigtun með reglubundnum hætti. Oftast þýðir það minni nyt á hverja kú en það er mikilvægt fyrir bóndann að vita hvað kýrnar mjólka í reynd en ekki fá út einhverja tölu sem bætir líðan hans og eykur stolt yfir að vera ofarlega á listum yfir afurðahá bú. Við höfum líka unnið töluvert í leiðréttingum á verðefnum, nokkuð sem mér skilst að þið séuð að íhuga.
 
Að lokum, ég dvaldi í viku á Íslandi og varði einum degi með Guðmundi. Þessi vika var frábær og ég þakka fyrir mig. Ég bý í Kaliforníu og eftir að hafa upplifað fjögurra ára þurrk núna verð ég að segja að það er langt síðan ég hef séð jafnmikið vatn eins og ég sá á Íslandi í þessari stuttu heimsókn.“
 
Kærar þakkir fyrir gestrisnina.
Bill VerBoort

Skylt efni: nautgriparækt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...