Skotlandsferð ungra bænda – síðari hluti
Í sumar héldu nýútskrifaðir búfræðingar frá Hvanneyri í útskriftarferð og var ferðinni heitið til Skotlands. Ferðin, sem var vikulöng, náði til þriggja borga, skoska hálendisins og hinnar margrómuðu og heimsþekktu landbúnaðarsýningar Royal Highland Show sem fjallað var um í þarsíðasta tölublaði Bændablaðsins.
Þá var auk þess tekið hús á 5 bændum þar sem fræðst var um þarlendan landbúnað. Hér á eftir fer síðari hluti umfjöllunar um þessar bændaheimsóknir en fyrri hlutinn birtist í síðasta tölublaði Bændablaðsins.
Fjárhundaþjálfarar
Ekki langt frá Aberdeen búa hjónin Michelle og Gary Bruce á búi sínu, Meikle Tillyeve. Þau eru sauðfjárbændur, með 650 ær, og eru þrautreyndir fjárhundaþjálfarar. Þau keyptu þetta bú fyrir nokkrum árum og vinna bæði fulla vinnu utan við búið líka, til að ná endum saman, en engir aðrir koma að vinnu á þessu búi. Gary sagði það nauðsynlegt enda hvorugt frá búinu og því þurftu þau að fjármagna kaupin með eigin fé og lánum með 8% föstum vöxtum. Þau væru með nokkuð þunga greiðslubyrði og því væru aukatekjur utan bús nauðsynlegar. Annars, ef bú af þessari stærð væri skuldlaust, væri ekki nauðsynlegt fyrir þau bæði að vinna utan bús, en í Skotlandi er oft miðað við að 4–500 ær geti staðið undir fullu starfi einstaklings afkomulega séð.
Sýna, keppa og þjálfa
Þau hjónin sýndu gestunum hundana sína en þau er bæði með ræktun á fjárhundum, þjálfa þá, halda námskeið í þjálfun fjárhunda og taka hunda í þjálfun líka. Gary sagði það alls ekki sjálfgefið að Border Collie hundur geti verið góður fjárhundur og stundum henti einstaklingarnir alls ekki til slíkrar vinnu. Hann sé þó fljótur að greina það og sagði m.a. að hann væri nýbúinn að taka tvo hunda í þjálfun frá öðrum sauðfjárbónda og að annar hundurinn væri ómögulegur fjárhundur. Hann yrði vafalítið góður sem gæludýr en ekki sem vinnuhundur á fjárbúi!
Gary og Michelle sýndu svo hvernig hundar eru notaðir á keppnum, en Gary keppir reglulega með hunda sína, þar sem þeir vinna með stjórnanda sínum að því að reka ær eftir ákveðinni þrautabraut sem og að skipta fjárhópnum upp eftir kúnstarinnar reglum. Það er mjög áhugavert að fylgjast með svona fagfólki þegar hundur og stjórnandi vinna sem ein heild.
Láta bera inni
Þó svo að ærnar geti verið úti allt árið, þá taka þau þær inn í sérstaka burðaraðstöðu þegar sá tími kemur. Þetta er fyrst og fremst vegna hættu á afföllum lamba vegna rándýra en á svæðinu eru bæði refir og svo friðað óðal greifingja en greifingjarnir, sem oft eru nokkrir saman á hverju óðali, fúlsa nú ekki við nýfæddum lömbum ef slíkt er í boði. Vegna þessa láta Michelle og Gary ærnar bera inni. Þau byrja á því að setja nýbærurnar í einstaklingsspil og eftir sólarhring fara þær í hópstíu með 20 öðrum nýbærum. Þegar þau meta það svo að lömbin séu nógu spræk og ærnar nógu sterkar til að verja lömbin, er viðkomandi hópur settur út.
Eins og hér að framan greinir eru þau með 650 ær en þær eru af mjög blönduðu kyni en þó í grunninn sauðfjárkynið Lleyn, sem á uppruna sinn að rekja til hins áberandi Llŷn skaga í Norðvestur-Wales. Þetta var annað sauðfjárbúið sem var heimsótt þar sem ekki var um neina hreinræktun að ræða heldur virðast bændur blanda saman margs konar kynjum í þeim tilgangi að hámarka afrakstur búa sinna. Að sögn Michelle þá leggja þau mesta áherslu á að kynbæta fyrir léttum burði og góðri frjósemi þegar þau horfa til ásetnings en sé ánum fyrst og fremst ætlað að framleiða lömb til slátrunar er það vaxtarhraði og þungi sem þau horfa til sem helstu eiginleika.
Skiptibeit á fimm daga fresti
Þau eru með ærnar og lömbin á sínum túnum allt árið, en þau eiga alls 50 hektara lands og leigja auk þess 60 hektara. Þetta land er nógu stórt fyrir alla hagagöngu auk fóðuröflunar búsins, enda geta þau beitt fénu stærstan hluta ársins og þurfa ekki fóður nema fyrir örfáa mánuði. Þau stunda skiptibeit á landi sínu en þau miða við að hvert hólf sé í notkun í 5 daga í senn og svo hvílt og hópurinn færður á næstu spildu. Þá er hið beitta stykki ruddaslegið og eftir aðstæðum þá er borinn á tilbúinn áburður. Svo er beitarstykkið hvílt í 2-3 vikur, eða lengri tíma ef endurvöxturinn er hægur, þar til ærnar koma inn á það aftur.
Þess má geta að rafmagnsgirðingin, sem notuð var til að skipta túnum Gary og Michelle niður í beitarhólf, var bara með þrjá strengi og höfðu íslensku gestirnir á orði að slíkur frágangur myndi ganga harla illa við að halda íslenskum kindum og lömbum þeirra í skefjum. Gary sagði að það væri búið að rækta slíkt strokueðli úr skoskum kindum fyrir áratugum síðan og þetta væri nákvæmlega ekkert vandamál!
Standandi eða liggjandi bjórdós
Aðspurður um mælingar á því hvenær spildurnar eru tilbúnar til beitar sagði Gary að það væri nú einföld aðferð sem hann notaði. Þegar grashæðin er til jafns við venjulega hálfslítra bjórdós er spildan tilbúin til beitar og þegar beitarhæðin er til jafns við liggjandi bjórdós þarf að færa ærnar á næstu spildu! Einfalt er það!
2–2,5 milljónir fyrir hektarann
Þau hjónin keyptu landið fyrir ekki löngu síðan og aðspurð um verð á heppilegu landi fyrir rekstur sauðfjárbús í Skotlandi sögðu þau að gott land eins og þeirra kosti þetta á bilinu 2-2,5 milljónir íslenskra króna á hektarann, 12-14.500 pund. Þau töluðu þó um að vaxtakjör á lánum væru ekki sérlega góð og því keyptu þau þó ekki nema 50 hektara og leigja 60 hektara. Algengt er að land sé leigt út í Skotlandi og sögðu þau að verðið færi eftir gæðum landsins og því hvað fylgdi landinu eins og t.d. aðgengi að vatni og/eða girðingum. En verðið sé þetta á bilinu 33.000–84.000 krónur á hektarann á ári, eða 195–495 pund á hektarann.
Ánum og lömbunum er beitt mjög þétt á hvert stykki og stærð hvers beitarstykkis er reiknað út svo það dugi í 5 daga, þ.e. stykkjunum er skipt upp með léttri rafmagnsgirðingu. Þau færa svo féð í næsta stykki eftir þessa fimm daga og svo koll af kolli. Þessi tíða færsla á fé er einmitt ein af ástæðum þess að þau hjónin eru með hunda með sér í vinnu, enda auðvelt fyrir einn mann að smala hundruðum kinda með því einu að vera með góðan fjárhund með sér.
Slök frjósemi
Eins og áður segir þá eru þau með blandað sauðfjárkyn og það ætti alla jafna að vera með góða frjósemi, eða í kringum 2,0 þ.e. 2 lömb að jafnaði eftir hvern burð. Í fyrra fór þetta hlutfall aftur á móti niður í 1,80 og í ár í 1,56. Lækkar sem sagt hratt og þau hafa af þessu eðlilega miklar áhyggjur.
Aðspurð sagði Michelle at þau haldi að um stein- eða snefilefnaskort sé að ræða og að verið sé að mæla blóðsýni ánna þessa dagana. Þau munu svo, í kjölfar mælinganna, bæta ánum upp mögulegan skort með því að blanda aukabætiefnum út í heilfóðrið sem þau gefa ánum.
The Marshalls
Næstsíðasta bændaheimsókn hópsins var til búsins Boghead Farm. Þetta er fjölskyldubú og á móti hópnum tók yngsta dóttirin á bænum, Shona Marshall. Afi hennar keypti búið á sínum tíma og þegar synir hans tveir komu inn í reksturinn fóru þeir, auk hefðbundins búreksturs, að sinna járnsmíðavinnu. Sú vinna vatt upp á sig og þegar þeir bræður tóku við rekstrinum ákváðu þeir að eiga landið saman en skipta upp rekstrinum þannig að Kenny, sem er faðir Shonu, tók yfir búreksturinn en Charles, hinn bróðirinn, tók yfir smiðjuna. Nú er búið svo komið í eigu Kenny, konu hans Moiru og þriggja dætra þeirra. Charles og hans fjölskylda eru aftur á móti með smiðjuna sem í dag er orðið mjög stórt fyrirtæki í smíði á alls konar vögnum og landbúnaðartækjum undir merkjum Marshalls.
450 mjólkurkýr ekki nóg!
Þegar Kenny og Moira tóku við búinu stækkuðu þau það ört og voru komin í 450 mjólkurkýr á tímabili. Erfið staða kúabúskapar í Skotlandi og lágt verð gerði það þó að verkum að þau fóru að leita að tækifærum til að afla frekari tekna. Búið er í einungis um hálftíma akstursfjarlægð frá borginni Aberdeen og þau ákváðu að byrja með sölu beint frá býli og reyna að ná til íbúanna í Aberdeen.
Til að byrja með var vöruframboðið mjög einfalt, egg og grænmeti, og var vörunum bara einfaldlega stillt upp við veginn og þar gátu viðskiptavinir afgreitt sig sjálfir og skilið eftir pening. Þetta vatt svo hægt og rólega upp á sig og fyrr en varði voru þau farin að selja alls konar landbúnaðarvörur. Þegar mjólkurverð til skoskra kúabúa féll hraustlega upp úr síðustu aldamótum ákváðu þau að hætta í mjólkurframleiðslu og veðja á ferðaþjónustuna og hættu með mjólkurkýrnar árið 2005. Þau seldu mjólkurkýrnar, en til að nýta landið fjárfestu þau í holdakúm í staðinn. Í dag eru þau með myndarlegt blandað bú sem samanstendur af 500 holdakúm, 1.000 ám, 3.000 varphænum og nokkrum svínum auk þess að reka gríðarlega stóra verslun með eigin kjötvinnslu og veitingastað. Vegna mikilla umsvifa starfa hjá þeim í dag tugir starfsmanna.
Allar vörur úr nærumhverfinu
Eins og áður segir er megin markhópur sölustarfseminnar íbúar stórborgarinnar Aberdeen og til þess að halda í ákveðin grunngildi þá var strax ákveðið að leggja höfuðáherslu á vörur úr nærumhverfi Marshall búsins. Þannig eigi neytendur að geta treyst því að vörurnar sem þarna eru seldar séu ekki með hátt sótspor vegna flutninga o.þ.h. og að með kaupum þá sé verið að styðja við framleiðslu í heimahéraði. Þau framleiða sem sagt ekki allar vörur sjálf heldur selja í umboðssölu fyrir ýmsa smáframleiðendur í nágrenninu. Shona sagði að þau miði við að þessar vörur séu framleiddar innan u.þ.b. 10 km radíuss frá búinu og er óhætt að fullyrða að vöruúrvalið var ótrúlega fjölbreytt miðað við þessa kröfu.
Eigin kjötvinnsla
Shona, sem er búfræðingur að mennt og með meistarapróf í landbúnaðarviðskiptafræði, sér um kjötvinnslu búsins en systurnar þrjár eru að taka við rekstrinum af foreldrum sínum og hafa skipt með sér verkum. Ein sér um matsölustaðinn, önnur um verslunina og Shona s.s. um kjötvinnsluna auk þess að sinna búskapnum. Shona, sem hafði í upphafi ekki reynslu í vinnslu á kjöti, ákvað að læra fagið og í Skotlandi er boðið upp á kjötvinnslunámskeið fyrir bændur sem hún fór á.
Svo fékk hún reynslumikla kjötiðnaðarmenn með sér í lið og svo var ekki annað að gera en að henda sér í djúpu laugina! Hún sagði að kjötvinnslan gengi í raun vonum framar en það taki þó tíma að vinna sér sess í hugum og hjörtum neytenda. Hún slátri ekki neinu sjálf heldur taki heim skrokkana og þar eru þeir unnir eftir kúnstarinnar reglum. Þau leggja eðlilega mikla áherslu á nautakjöt frá eigin búskap og láta allt hanga vel áður en það er unnið svo tryggt sé að allt kjöt sé einstaklega mjúkt undir tönn.
Þau senda gripi í slátrun í hverri viku, m.a. 3 nautgripum, og kostar slátrunin í heimtöku 160 pund, eða 27 þúsund krónur á hvern nautgrip. Fyrir heimtekin lömb borga þau 35 pund, eða 6.000 krónur. Kjötvinnslan framleiðir svo margs konar rétti sem eru svo seldir í kjötborði verslunarinnar. Það kom mjög á óvart að sjá hvað vöruúrvalið á kjötréttum var fjölbreytt í kjötborði Marshall búsins.
Með bílalúgu
Eins og áður segir er rekinn stór veitingastaður í tengslum við ferðaþjónustuna og er alltaf mikið að gera þarna. Svo mikið að þau eru nú búin að koma upp bílalúgu og geta þannig þjónustað fólk sem er á hraðferð. Þar er bæði hægt að kaupa mat frá veitingastaðnum en einnig fá afhentar vörur beint úr versluninni. Líklega ekki mörg bú í
heiminum sem eru með bílalúgu!
Aberdeen Angus
Það vakti athygli gestanna að holdakýrnar 500 eru ekki Aberdeen Angus, þrátt fyrir nálægð við einmitt Aberdeen. Shona sagði að skýringin væri nú einfaldlega sú að áður fyrr hefðu þau horft til mikillar vaxtargetu og því ekki verið í hreinræktun á gripum heldur með blandaða hjörð.
Nú, vegna áherslu búsins á einmitt tenginguna við nærumhverfið og viðskiptavinina frá Aberdeen, ætli þau að þoka bústofninum í átt að Aberdeen Angus. En þau telja að það muni efla enn frekar kjötvinnsluna og sölu á kjöti búsins.
Heimagerður lífrænt vottaður ís!
Síðasta bændaheimsóknin í þessari ferð var svo á kúabúið Glasgoforest, sem er lífrænt vottað kúabú sem selur bæði drykkjarmjólk og heimagerðan ís beint frá býli. Búið er með 140 Holstein kýr og er í eigu bræðranna William og Angus Willis og fjölskyldna þeirra. William tók á móti hópnum og fór yfir reksturinn sem er í dag ansi umsvifamikill enda ísgerðin og mjólkursalan vinsæl meðal íbúa Aberdeen en búið er, líkt og Marshalls, skammt frá borginni.
Nánast 100% heimaaflað fóðurgras
Eins og áður segir er búið með lífræna vottun og er markmið bræðranna að framleiða sem mest af mjólkinni með heimaöfluðu fóðri sem samanstendur af grasbeit, votheyi og heilskornu byggi og ertum. Þannig fá kýrnar nánast ekkert kjarnfóður á þessu búi og einungis kýr sem mjólka meira en 25 kg á dag fá 0,4 kg af kjarnfóðri fyrir hver kíló mjólkur sem þær mjólka umfram það. Vegna þessarar fóðrunar eru kýrnar nytlágar, miðað við að um Holstein kúakynið er að ræða, og er meðalnyt búsins ekki nema rétt um 6,5 tonn á kúna.
Mjólkar einu sinni á dag
Á þessu svæði er hægt að beita kúnum í átta mánuði á ári og stillir William burð kúnna af miðað við að þær séu sem mest geldar á meðan hinni fjögurra mánaða innifóðrun stendur. Á þeim tíma er jafnframt dregið úr mjöltum og kýrnar einungis mjólkaðar einu sinni á dag. Þetta skýrir enn frekar hina lágu nyt kúnna enda þekkt að kýr sem einungis eru mjólkaðar einu sinni á dag mjólka mun minna en þær sem eru mjólkaðar tvisvar á dag, svo ekki sé nú talað um oftar en það.
Stýrir beitinni með snjallsímaforriti
Til búsins heyra um 120 hektarar af landi og er stór hluti þess nýttur til beitar fyrir kýr og geldneyti.
William sagði að kýrnar fái nýtt beitarstykki á hverjum einasta degi og að hann notaði grasþéttnimæli til þess að ákvarða beitina.
Niðurstöður daglegra grasþéttnimælinga slái hann svo inn í snjallsímaforrit (App) sem metur sjálfkrafa fyrir hann beitargæðin og reiknar forritið út hvað beitin á að geta gefið mikið fóður af sér. Forritið reiknar svo út, miðað við gefnar forsendur Williams, hve stórt beitarstykki næsta dags eigi að vera. Hann færir svo til rafmagnsgirðingu í samræmi við leiðbeiningar forritsins!
Eingöngu með kyngreint sæði
Aðspurður um sæðingar á búinu sagði William að hann þyrfti að fá um 40 kvígukálfa árlega, til að viðhalda stofninum, og til að framleiða þær sæddi hann 80 kýr með kyngreindu sæði. Um 50 þeirra festi fang við fyrstu sæðingu og þar sem kyngreint sæði er ekki 100% hreint þá gefur þessi fjöldi sæddra kúa nógu margar kvígur.
Kýrnar sem ekki halda í fyrstu sæðingu fái ekki annan möguleika og séu við næsta beiðsli sæddar með holdasæði eins og hinar sem ekki voru valdar í úrvalshópinn. Hann notar einnig einungis kyngreint holdasæði og þá auðvitað á höttunum eftir nautkálfum. Sagði hann að blendings nautkálfar af Holstein og góðu holdakyni væru seldir á fimmfalt hærra verði en hreinræktaðir nautkálfar af Holstein kyni. Það væri því mikill akkur í því að sæða kýrnar með kyngreindu holdasæði.
4% veltunnar opinber stuðningur
Kúabúið framleiðir árlega um 800 tonn af mjólk og þar af fara um 600 tonn í afurðastöð en 200 tonn eru seld yfir í ferðaþjónustuhluta rekstursins. Að sögn William er velta búsins um 750 þúsund pund, eða um 128 milljónir króna, en af þessari upphæð er opinber stuðningur ekki nema 30 þúsund pund, eða um 4% af heildarveltu búsins. Sagði hann styrki og almenna fyrirgreiðslu hafa farið lækkandi undanfarin ár og muni lækka enn frekar á komandi árum. Í raun geri skoskir bændur ráð fyrir því að skoski landbúnaðurinn verði að fullu styrkjalaus innan örfárra ára.
30 starfsmenn
Eins og áður segir er þetta bú með hliðarrekstur sem felst í því að selja drykkjarmjólk beint frá býli úr sérstökum sjálfsölum sem gerilsneyða mjólkina sjálfkrafa. Þá er í raun aðal hliðarreksturinn sérstök ísgerð sem þeir bræður hafa nú starfrækt í 6 ár.
William sagði að við allan reksturinn störfuðu í dag 30 manns en þar af væru einungis tveir sem kæmu nálægt kúabúskapnum. Allir hinir væru tengdir sölu- og framleiðslunni á ísnum enda hann orðinn mjög vinsæll. Þá rækju þeir bræður einnig nokkra ísbíla sem þeir staðsetja m.a. á mannamótum þar sem ísinn er afgreiddur beint til fólks. Allur hópurinn fékk svo að skoða ísgerðina og auðvitað að smakka og getur greinarhöfundur vottað það að ísinn var ljómandi góður og skal engan undra að hann sé orðinn vinsæll meðal íbúa Aberdeen og nágrennis.
Selur lítrann á 238 krónur
Þó svo að ísgerð búsins sé þessum hliðarrekstri mikilvægust þá er hin beina sala á mjólk einnig mjög vinsæl meðal viðskiptavina búsins og komu margir við meðan á heimsókn hópsins stóð og keyptu sér mjólk í eigin flöskur og brúsa. Hin beina mjólkur- og íssala veltir í dag meiru en kúabúið veltir og nemur árleg velta þessarar hliðarbúgreinar milljón pundum, eða um 170 milljónum íslenskra króna. William sagði að þetta væri í raun afar góður rekstur og að arðsemin væri góð enda eru þeir bræður ekkert að selja mjólkina sína í samkeppni við hefðbundna mjólk í verslunum.
Fólk sem kaupi mjólk beint af býli eigi að borga mun meira í samanburði við verðlag í verslunum, enda felast verðmæti í því að vita nákvæmlega um uppruna vörunnar sem eigi að borga aukalega fyrir. Þess vegna er lítrinn seldur á 1,4 pund, eða 238 krónur, þegar hann er keyptur beint af búinu, en til samanburðar er algengt verð á einum lítra af lífrænt vottaðri mjólk 160–175 krónur í lágvöruverðsverslunum Skotlands.
Heimsóknin á þetta kúabú var eins og áður segir síðasta bændaheimsóknin í ferðinni sem voru hver annarri betri. Þessari viðburðarríku ferð lauk svo á Royal Highland Show, en þeirri sýningu var gerð góð skil í 14. tbl. Bændablaðsins nú í sumar.