Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Tekílaskot með salti og sítrónu
Tekílaskot með salti og sítrónu
Mynd / thespruceeats.com
Á faglegum nótum 12. ágúst 2022

Slammað með tekíla

Höfundur: Vilmundur Hansen

Tekíla er áfengur drykkur sem upprunninn er í Mexíkó og unninn úr gerjuðum og eimuðum safa og sykri plöntu sem kallast Agave taquilana 'Weber's Blue', eða blátt agvave.

Samkvæmt tekílaráði Mexíkó gilda strangar reglur um hvar og hvernig má framleiða tekíla. Æskilegur áfengisstyrkur tekíla er á bilinu 35 til 55% og það drukkið sem snafs eða blandað í hanastél.

Í dag tengja flestir tekíla við mexíkóska menningu og samkvæmt tekílaráði Mexíkó er tekíla gjöf landsins til heimsins.

Einungis er leyfilegt að framleiða drykkinn í fimm héruðum í Mexíkó, Jalisco, Nayarit, Michoacán, Guanajuato og Tamaulipas, sem öll eru í landinu miðju. Fjögur fyrstu héruðin liggja nærri strönd Kyrrahafsins en það síðastnefnda liggur að Mexíkóflóa.

Ilmur, bragð og sætleiki tekíla­drykkja er ólíkt eftir ræktunar­ svæðum og sagt er að það sé meiri blómakeimur af drykknum sé hann unninn úr plöntum sem vaxa í dölum frekar en upp til fjalla.

Mest er framleitt af drykknum í fjöllunum umhverfis borgnia Santiago de Tequila í Jalisco héraði á vesturströnd Mexíkó. Svæðið einkennist af rauðum eldfjallajarðvegi sem henta þurrkaþolinni Ageve plöntunni vel og er áætlað að þar séu uppskornar um 300 milljón plöntur á ári til framleiðslu á tekíla. Árið 2006 var hluti Jalisco héraðs settur á heimsminjaskrá UNESCO vegna sögulegs og menningarlegs gildis Agave ræktunar og framleiðslu tekíla þar og teygir sig aftur til sextándu aldar.

Agave plöntur skornar fyrir vinnslu. Mynd / foodprint.org

Drottning eyðimerkurinnar

Ekki eru allir á sama máli um fjölda tegunda innan ættkvíslarinnar Agave og hleypur fjöldinn frá 160 í 300. Allar tegundirnar eru sígrænir einkímblöðungar og eru upprunaleg heimkynni þeirra á heitum og þurrum svæðum í suðurríkjum Norður­Ameríku, Mið­Ameríku og norðurhluta Suður­Ameríku. Einstaka tegundir finnast á hitabeltissvæðum í Suður­Ameríku. Agave tegundir flokkast sem þykkblöðungar þar sem plönturnar safna í sig vatni til að nota á þurrkatímum og þær stundum kallaðar drottningar eyðimerkurinnar.

Blöðin eru yfirleitt stór og gróftennt og eru tennur þeirra beittar, þau eru sterk, safa­ og trefjarík. Á blöðunum er stuttur og nánast ósýnilegur stilkur og mynda þau saman stóra rósettu. Plönturnar eru með grunnt liggjandi rótarhnýði sem fremur gegna því hlutverki að safna vatni úr dögg og regni en að sækja vatn neðanjarðar.

Langflesta plöntur innan ættkvíslarinnar eru einblómstrandi, monocarpic, sem þýðir að þær blómstra einu sinni og síðan drepst sú rósetta sem blómstraði. Rósettur sumra tegunda geta þrátt fyrir það lifað lengi þar sem það tekur þær mörg ár og jafnvel marga áratugi að blómstra og mynda fræ.

Sumar tegundir mynda margar rósettur og getur plantan lifað áfram þrátt fyrir að ein eða fleiri rósettur blómstri og drepist. Einnig eru til tegundir sem mynda rósettur á blómstönglinum sem festa rætur eftir að hann fellur. Fáeinar undantekningar eru frá þessu og til eru Agave tegundir sem blómstra og mynda fræ oftar en einu sinni.

Við blómgun vex langur blóm­ stöngull, eða quiote, sem þýðir mastur í Mexíkó, upp úr miðri rósettunni. Stöngullinn, sem getur orðið rúmlega níu metra hár, ber mörg stutt rörlaga blóm á löngum blómstilk sem geta verið blá, rauð, gul og hvít.

Tegundirnar eiga flestar það sameiginlegt að vaxa hægt og algengustu tegundir í ræktun eru A. americana, A. tequilana og A. attenuata. A. tequilana 'Weber's Blue', eða blátt Agave, er mest notað til að framleiða tekíla. Plantan er upprunnin í Mexíkó og dafnar best í sendinni jörð í yfir fimmtán hundruð metra hæð. Blöðin eru gráblá og um tveir metrar að lengd. Blómin gul á allt að fimm metra háum blómstöngli og sjá leðurblökur um frjóvgun þeirra.

Goðsaga Asteka

Samkvæmt goðsögnum eiga Astekar fyrst að hafa bruggað vægt áfengi úr safa plöntunnar á árunum milli 1172 og 1291 eftir að þeir settust að í Mið­ Ameríku. Astekar notuðu mjöðinn við trúarathafnir og áttu sína eigin drykkjugyðju sem kallast Mayahuel og þótti henni sopinn góður eins og getið er í söngvum og ljóðum. Til er veggmynd sem sýnir Mayahuel gefa sauðdrukknu kanínubörnum sínum brjóst. Samkvæmt goðafræði Asteka átti gyðjan 400 kanínubörn og rann mjöðurinn í æðum hennar og voru sífullu kanínubörnin sögð vera guðir vímunnar.

Í einni goðsögn um Mayahuel segir að gyðjan hafi verið gift guðinum Petácatl sem var skapari og verndari alls plöntulífs á jörðinni. Þar segir að gyðjan hafi 400 brjóst, eitt fyrir hvert af kanínubörnum hennar. Mayahuel er sögð einstaklega lokkandi og að guðinn Quetzalcoatl, skapari mannsins, nái að heilla hug hennar til framhjáhalds.

Gyðjan Mayahuel er verndari Agave plantna. Mynd / MiCorazonMexica.com

Þegar Petácatl kemst að framhjáhaldinu verður hann svo æfur af reiði að Mayahuel og Quetzalcoatl flúðu frá guðaheimum til jarðarinnar og földu þau sig í plöntumynd. Þegar Tzinzinmilt, langamma Mayahuel, kemst að framhjáhaldinu og flóttanum eyðir hún barnabarninu með eldingu og Quetzalcoatl grefur öskuna og upp af henni óx fyrsta Agave plantan.

Uppruni orðsins tekíka

Talið er að orðið tekíla á spænsku, la tequila, sé komið úr máli Nahuatl­ fólksins sem upphaflega bjó við strendur Mið­Ameríku frá Mexíkó til Níkaragva. Orðið þýðir staður uppskerunnar, staður vinnunnar eða staðurinn þar sem villijurtirnar vaxa og tengist vinnu við uppskeru. Samkvæmt annarri kenningu þýðir orðið beittur steinn. Tekíla er notað sem heiti á öndun, þorpum og dölum víða í Mið­Ameríku.

Tekíla er þjóðardrykkur Mexíkó. Mynd / Unsplash

Saga tekíla

Fyrsti áfengi drykkurinn sem unninn var úr Agave innihélt 5 til 7% alkóhól og kallaðist pulque, eða octli á spænsku. Drykkurinn var hvítur á litinn og með súru gerbragði og er talið að hans hafi verið neytt frá aldaöðli í Mið­Ameríku. Neysla á drykknum jókst umtalsvert eftir að Evrópumenn settust að í Mið­ Ameríku og náði hámarki seint á nítjándu öld.

Sagan segir að tekíla hafi fyrst verið eimað úr pulque á sextándu öld, í nágrenni við borgina Tequila, eftir að brandíbirgðir evrópskra landvinningamanna kláruðust og að þá hafi fyrsti mið­ameríski spíritusinn orðið til. Tekíla varð því til við samruna tveggja menningarheima.

Skömmu eftir aldamótin 1600 hóf spænski landneminn Don Pedro Sánchez de Tagle, markgreifi af Altamira, framleiðslu tekíla í stórum stíl í Jalisco. 1758 fékk Spánverjinn Don José Antonio de Cuervo úthlutað miklu landi á svipuðum slóðum frá Ferdinand VI Spánarkonungi til að rækta Agave og framleiða tekíla. Sonur de Cuervo fékk sérstakt leyfi frá Carlosi IV Spánarkonungi til að framleiða drykkinn þrátt fyrir tímabundið bann á honum í tíð Carlosar III.

Neysla á tekíla jókst mikið í sjálfstæðisstríði Mexíkó undan Spánverjum, 1810 til 1821, og er sagt að það hafi verið hluti af fastakosti hermanna beggja fylkinga. Uppreisnarmenn Mexíkóa litu á drykkinn sem karlmennsku-, þjóðar- og frelsistákn en hermenn Spánverja sturtuðu honum í sig til að sljóvga meðvitund sína og gleyma ömurlegum örlögum sínum fjarri heimalandinu.

Tekíla var fyrst selt í flöskum árið 1873. Mynd / steinecker.com

Upphaflega kallaðist tekíla mezcal de tequila og eingöngu selt í tunnum. Árið 1880 hóf Cuervo vínbrennslan að setja það á flöskur og selja í neytendaumbúðum. Framleiðandi Sauza Tequila, stofnað 1873, var fyrsta fyrirtækið til að flytja tekíla til Bandaríkjanna og árið 1893 ákvað stjórn þess að fella mezcal-hlutann úr heitinu fyrir Bandaríkjamarkað.
Árið 1936 hóf fyrrverandi öldungadeildarþingmaður í Arizonaríki í Bandaríkjum Norður-

Ameríku að framleiða tekíla við lítinn fögnuð Mexíkómanna og árið 1974 tókst Mexíkó að tryggja sér heitið tekíla sem þjóðlegt hugverk.

Eftirspurn eftir tekíla jóskt talsvert í Bandaríkjunum í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar vegna skorts á áfengi frá Evrópu.

Í dag er áætlað að yfir eitt hundrað einingahús í Mexíkó framleiði rúmlega 900 afbrigði af tekíla.

Mörg minni fyrirtækjanna eru í einkaeigu en allir stærri framleiðendur tekíla í dag eru í eigu stórra fjölþjóðlegra fyrirtækja.

Magnið af því tekíla sem selt er á Bandaríkjamarkaði er flutt í tankbílum frá Mexíkó og tappað á flöskur í Kaliforníu, Arkansas, Missouri, og Kentucky og flutt þaðan út víða um heim.

Stáltankar til að gerja tekíla. Mynd / paquitequila.com

Framleiðsla og flokkun tekíla

Tekíla er unnið úr safa og sykri Agave-plantna og helst A. tequilann 'Weber's Blue'. Til að plantan nái æskilegum þroska þarf hún að vaxa í átta til tíu ár og ræktunartíminn því langur. Upphaflega var safa til framleiðslunnar safnað með því að skera burt blómstöngulinn og gerja safann sem úr sárinu rann. Í dag er tekíla aðallega unnið úr stofni plöntunnar. Eftir að blöðin hafa verið skorin burt er stofninn hæghitaður í ofni í rúman sólarhring og safinn pressaður úr honum og látinn gerjast í tré- eða stáltunnu. Því næst er safinn eimaður einu sinn eða oftar til að auka hreinleika framleiðslunnar þrátt fyrir að sumir segi að endurtekin eimun dragi úr bragðgæðum tekílasins.

Gróflega er tekíla skipt í tvo flokka. Í öðrum flokknum er tekíla sem er framleitt úr 51% sykri sem fenginn er úr A. tequilana 'Weber's Blue' og 49% annars konar sykri. Í hinum flokknum, sem jafnframt þykir fínni, er tekíla sem unnið er 100% úr sykri A. tequilann 'Weber's Blue' og verður því jafnframt að vera tappað á flöskur í Mexíkó.

Báðum flokkum er skipt í undirflokka:

Blanco o Plata, silfur, er tært óblandað tekíla sem hefur staðið í tunnum í minna en tvo mánuði.

Joven o Oro, gull, tekíla sem hefur verið blandað með sykri, litar- og bragðefnum.

Reposado er tekíla sem hefur staðið í tunnum í að lágmarki tvo mánuði og komist í samband við eik.

Anejo hefur staðið í eikartunnu í að minnsta kosti eitt ár.

Extra Anejo er tekíla sem hefur staðið í eikartunnu í að minnsta kosti þrjú ár. Fram til ársins 2004 leyfði tekílaráð Mexíkó ekki að drykkurinn væri bragðbættur með utanaðkomandi efnum, hvað þá að „tekíla“ með bragðefnum bæri heitið tekíla. Þessu var breytt 2005 að því undanskildu að ekki má bragðbæta tekíla sem unnið er úr 100% A. tequilana 'Weber's Blue' og kalla það tekíla.

Liturinn á tekíla ræðst að mestu af því í hvers konar tunnum það hefur verið látið eldast. Í sumum tilfellum er aftur á móti bætt í það litarefnum til að ná fram ákveðnum litatón.

Liturinn á tekíla ræðst að mestu af því í hvers konar tunnum það hefur verið látið eldast. Mynd / wine.com

Neysla

Þjóðardrykkur Mexíkó er 40% sterkt tekíla og sagt er að hanastélsdrykkurinn margaríta hafi orðið til á bar í bænum Tijunna í þeim tilgangi að fá kvenkyns Ameríkana til að drekka tekíla.

Þriðji sunnudagurinn í mars ár hvert er tekíladagurinn í Mexíkó og þar í landi er tekíla notað sem krydd með mat og til að skola niður góðri máltíð.

Árið 2013 var bannið við innflutningi á tekíla unnu úr 100% A. tequilana

'Weber's Blue' aflétt í Kína í framhaldi af heimsókn Xi Jinping, forseta Kína, til Mexíkó og jókst sala þess mikið þar í kjölfarið.

Dýrasta flaska af tekíla sem selst hefur til þessa fór fyrir 225 þúsund Bandaríkjadali, eða tæplega 31 milljón íslenskra króna, en auk innihaldsins er flaskan skreytt með tveimur kílóum af gulli og platínu.

Dýrasta flaska af tekíla sem selst hefur til þessa fór fyrir 225 þúsund Bandaríkjadali, eða tæplega 31 milljón íslenskra króna. Mynd / gourmetdemexico.com

Tekíla á Íslandi

Fyrsta greinin þar sem tekíla er nefnt á nafn samkvæmt tímarit.is er smáfrétt í Vísi 28. febrúar 1969 en þar segir að hinn góðkunni leikari John Wayne hafi slasast.

„Hann datt á gólfið á veitingahúsi einu í Durango í Mexíkó og braut í sér tvö rif. Ekki er vitað hvernig á því stóð að hetjunni varð fótaskortur, eða hvort það var að kenna þjóðardrykk Mexíkóana, tekíla“

Sennilega féll leikarinn Jonh Wayne á gólfið á veitingahúsi einu í Durango í Mexíkó vegna stífrar tekíladrykkju og braut í sér tvö rifbein. Mynd / esquire.com

Á Íslandi er algengara að drekka tekíla sem skot og margir eflaust skellt einu eða fleiri slíkum í sig með salti og sítrónu og slammað síðan staupinu á hvolfi á barborðið, grett sig og gefið frá sér óhljóð.

Margarítakokteill samanstendur af 60 millilítrum af tekíla og 30 millilítrum af appelsínu- eða límesafa og klaka og að sjálfsögðu saltrönd á þar tilgerðu margaríta- glasi. Tekíla sólarupprás er blanda af einum og hálfum hluta tekíla, hálfum hluta af grenadín sýrópi og sex hlutum af appelsínusafa en tekíka sólsetur af þremur sentílítrum af ljósu tekíla, einum og hálfum sentílítra af sítrónusafa og einni teskeið af grenadín sýrópi.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...