Sofandi tré
Rannsóknum á plöntum hefur fleygt fram undanfarin ár. Ýmislegt bendir til að tré deili upplýsingum sín á milli með hjálp sveppróta í jarðvegi og að þau hafi minni.
Nýjar rannsóknir á birkitrjám benda til að þau hægi á starfsemi sinni á nóttunni og sofni jafnvel.
Í nýlegri rannsókn sem var gerð samtímis í Finnlandi og Austurríki var leysiskanna beint að birkitrjám um sumartíma þegar starfsemi þeirra er í hámarki. Skönnun á trjánum á mismunandi tímum sólarhringsins sýna að starfsemi þeirra er ólík á daginn og á nóttunni. Á myndunum sést greinilega að greinar trjánna síga um allt að tíu sentímetra þegar líður á nóttina og engu líkara en að þau slappi af. Greint er frá þessu í tímariti sem kallast Frontiers in Plant Science.
Reyndar hefur lengi verið vitað að plöntur hægja á starfsemi sinni á nóttunni og fjallaði Charles Darwin um það í einni af sínum bókum. Blóm lokast á nóttunni og á sumum plöntum verpast blöðin. Rannsóknin sem hér er sagt frá er sú fyrsta sem sýnir fram á að það slakni á greinum trjánna.
Mest hanga greinarnar um tveimur klukkustundum fyrir sólarupprás. Helsta skýringin á svefni trjánna er talin vera sú að á nóttunni eigi ljóstillífun sér ekki stað og þá minnki vökvaþrýstingurinn í greinunum og þær slúti undan eigin þunga.
Næstu skref í rannsóknum á svefnvenjum trjáa er að skoða hvort fleiri tegundir en birki fái sér lúr á nóttunni og ef svo er hvernig svefnvenjur þeirra eru. Einnig er áhugavert að skoða hvort tré dreymi, hrjóti eða gangi jafnvel í svefni.