Stofn, stöngull og myrra
Stönglar vaxa ofanjarðar hjá flestum tegundum en einnig kemur fyrir að þeir vaxi neðanjarðar og kallast þá jarðstönglar. Þegar er talað um stöngla er yfirleitt átt við jurtkenndar plöntur og runna en stofn eða bolur á við tré.
Meginhlutverk stöngulsins og stofnsins er að flytja vatn og næringarefni milli plöntuhluta, halda plöntunni uppréttri og í sumum tilfellum að geyma næringarefni. Auk þess sem stönglar og stofnar sem hafa í sér grænukorn ljóstillífa. Vaxtarlag stöngla og stofna er fjölbreytt og stundum furðulegt.
Þróun
Rannsóknir á steingervingum benda til að fyrstu landplönturnar hafi komið fram fyrir 470 milljónum ára eða þar um bil. Í fyrstu voru plönturnar einfaldar og án stöngla og blaða. Um 40 milljón árum síðar komu svo fyrstu einföldu stönglarnir og blöðin fram á sjónarsviðið og í framhaldinu varð gríðarleg þróun.
Fyrstu merki um þróun greina er þegar útvöxtur frumplantna fer að skipta sér og mynda sprota.
Vöxtur og starfsemi
Fyrsti vísirinn að stöngli eða stofni er við spírun þegar kímblöðin koma í ljós og síðan áframhaldandi vöxtur. Það fer síðan eftir erfðum tegundarinnar hvort úr verði stöngull eða stofn og hver lögunin verður.
Stönglar og stofnar sjá um að flytja vatn og næringarefni milli plöntuhluta og í þeim eru sáld- og viðaræðar. Eftir sáldæðunum berast sykrur frá blöðum til vaxtar og viðhalds en aðallega vatn frá rótum eftir viðaræðunum. Útgufun vatns úr laufblöðum veldur því að vatnið berst frá rótum og um plönturnar með hárpípukrafti.
Vaxtarsprota stöngla er oft að finna í enda þeirra og brumum en hjá til dæmis grösum er hann neðst á stönglinum. Frum- eða lengdarvöxtur stöngla er mestur rétt neðan við vaxtarsprotann. Stönglar geta verið að mestu holir að innan en stofnar eða trjábolir hafa við en í báðum tilfellum liggja sáld- og viðaræðarnar utarlega við börkinn.
Síðvöxtur greina, stofna eða bola trjáplantna á sér stað í vaxtarlaginu sem liggur undir berkinum. Með því að skoða árhringi trjáplantna er hægt að lesa aldur þeirra. Ljósari og þykkari hringirnir sýna hraðari sumarvöxtinn en þeir dökku hægari haustvöxt. Jurtkenndir stönglar einærra plantna og margra fjölæringa sölna að hausti og nýir vaxa upp á næsta vori.
Ólíkar stöngulgerðir
Stönglar eru margs konar og ólíkir að gerð og flokkast í jarðstöngla, ofanjarðarrenglur og loftstöngla sem eru þeir stönglar sem flestir þekkja. Eftirfarandi skipting byggir að hluta á Íslenskri flóru Ágústs H. Bjarnasonar.
Jarðstönglar senda frá sér laufblöð sem vaxa ofanjarðar og mynda næringarefni. Jarðstönglar geta verið neðanjarðarrenglur sem eru langir og grannir sprotar líkt og húsapuntur sendir frá sér. Stöngulhnýði vaxa hins vegar að mestu neðanjarðar og eru kartöflur dæmi um slíkt.
Ofanjarðarrenglur eru jarðlægir sprotar sem skjóta rótum og mynda blöð, dæmi um það eru jarðarberjaplöntur og gullmura.
Stönglar ofanjarðar geta verið jurt- eða trjákenndir. Uppréttir, uppsveigðir, jarðlægir og skriðulir og sívalir, ferstrendir og rákóttir, gróf- eða fínhærðir og hárlausir eða vörtóttir. Þeir skiptast í stöngulliði sem eru hlutar stöngla milli blaða og sumir hafa stöngulliðamót. Stönglar grastegunda kallast strá og eru hol að innan og sum hafa óhol liðamót sem kallast hné.
Strá hálfgrasa, eins og til dæmis fífu, eru sívalir en oft þrístrend hjá störum sem vaxa upp af jarðstöngli.
Alls konar stönglar
Ekki er þó þar með allt sagt því stönglar eru fjölbreyttari en marga grunar. Fálmarar klifurplantna eins og vínviðar eru ummyndaðir stönglar og það sama er að segja um „blöð“ blaðkaktusa og þyrna rósa. Einnig eru til runnar með flata stöngla sem líta út eins og laufblöð, til dæmis geislablað eða músaþorn, Ruscus aculeatus, sem er talsvert notað sem „grænt“ í blómaskreytingar.
Trjábolir
Stofn barr- og lauftrjáa er gerður úr nokkrum lögum. Yst er börkurinn, síðan innri börkur og svo vaxtarlagið. Sjálfur viðurinn kallast rysja, kjarnviður og mergur. Þéttleiki viðar fer eftir vaxtarhraða trjáa og er harðviður fenginn úr hægvaxta trjám.
Í fræðsluriti Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Tré – trjátegundir og efniseiginleikar viðarins, segir að frumubygging viðar samanstandi af löngum frumum, langfrumur, sem liggja í lengdarstefnu trésins og gefi trénu styrk. Líkja má trjáviði við búnt af sogrörum þar sem stuttfrumur ganga þvert á rörin en langfrumur flytja og geyma næringu.
Milli frumanna eru op með filmu eða membru sem getur opnað og lokað fyrir vökvastreymi milli frumanna. Langfrumurnar eru mestur hluti viðarins, um 90% rúmmálsins. Þvert á langfrumurnar ganga merggeislafrumur eða merggeislar og hugsanlega trjákvoðugöng.
Allt efni innan við ysta lagið eða börkinn kallast viður. Frumur sem myndast á vorin eru þunnveggja með mikið frumuholrými en frumur sem myndast á haustin eru með þykka frumuveggi og hafa minna frumuholrými. Þær eru sterkari og dökkar á lit. Munurinn á vorvið og haustvið myndar sýnilega árhringi. Einn árhringur er ljós vorviður og dökkur haustviður.
Tré vaxa út á við og stofninn verður gildari. Þegar tré hafa ekki lengur þörf fyrir vökvaflutning gegnum innsta hluta stofnsins deyja innstu frumurnar og kjarnviður myndast.
Stofn einkímblöðunga
Þykktar- eða síðvöxtur einkím- blöðunga er minni en tvíkímblöðunga og oft eins og til dæmis í tilfelli pálma jafngildur frá rót og upp í blaðhvirfinguna.
Vaxtarsproti pálma er í toppi þeirra og nær hann oftast endanlegri þykkt áður en hann vex upp á við og þar sem mörg pálmatré mynda einungis einn stofn drepast þau sé tekið ofan af þeim.
Lengdartrefjar í stofnum pálma gera stofninn ótrúlega sveigjanlegan og með ólíkindum hvað pálmatré geta staðið af sér sterka hitabeltisstorma, enda segir í Sálmum Gamla testamentisins 92:13, „Réttlátir dafna sem pálmi“. Stöngull bambusa er að öllu jöfnu holur og því léttur og þolir mikla sveigju. Bambusar flokkast sem grös og eru stönglar þeirra ólíkir að lit eftir tegundum, grænn, gulur, rauður, blár, svartur og röndóttur.
Bambus vex mjög hratt og dæmi er um rúmlega 90 sentímetra vöxt á sólarhring og sagt er að það megi horfa á fljótsprottnustu tegundirnar vaxa. Tegundin Dendrocalamus giganteus verður allra bambusa hæstur og getur náð 30 metra hæð og stöngullinn verið 35 sentímetrar í þvermál við bestu skilyrði.
Þykkblöðungar
Kaktusar eru þykkblöðungar sem mynda myndarlegan stofn sem safnar í sig vatni sem forða.
Önnur planta sem myndar glæsilegan stofn er baobab, eða apabrauðstréð eins og það er stundum kallað. Í heimi grasafræðinnar er baobab ekki flokkað sem tré heldur sem þykkblöðungur.
Reyndar með allra stærstu þykkblöðungum sem vissulega líkjast trjám í útliti. Stærð og útlit baobab er ólíkt eftir tegundum.
Hæð þeirra er frá 5 og upp í 40 metrar og breidd stofnsins getur náð allt að 47 metrum að ummáli. Baobab-þykkblöðungar vaxa yfirleitt stakir og setja sterkan svip á umhverfið þar sem þeir gnæfa yfir eins og steinrunnir risar.
Trjáburknar
Ólíkt öðrum burknum mynda trjáburknar stofn sem getur náð 15 til 20 metra hæð en eru yfirleitt lægri, eða milli fjórir og fimm metrar eftir tegundum. Eins og hjá pálmum er vaxtarbroddur trjáburkna í enda þeirra og mynda blöðin topphvirfingu.
Plöntur sem klifra
Vafnings- eða klifurjurtir eru plöntur sem vefja sig upp eða nota aðrar leiðir til að lyfta sér frá jarðvegsyfirborðinu og upp í sólarljósið. Stönglar klifurplantna eru grannir, hraðvaxta og sveigjanlegri í vexti en tréna með tímanum og geta orðið tugir metrar að lengd. Aðferðin er plöntunum hagfelld þar sem þær þurfa ekki að mynda eins sterka stöngla og plöntur sem standa undir sér sjálfar.
Í náttúrulegum heimkynnum sínum klifra plönturnar upp eftir öðrum trjám eða klettum. Vafningsjurtir eins og humlar og umfeðmingsgras vefja sig utan um önnur tré eða minni jurtir.
Klifurjurtir, eins og bergflétta, hafa heftirætur á stofninum sem festa sig við trjábörk eða grjót. Aðrar tegundir eins og rósir mynda króka eða sveigða þyrna til að krækja sig í með og enn aðrar eins og til dæmis vínviður senda frá sér fálmara sem þær vefja við greinar eða annað sem fyrir verður og hífa sig upp með þeim við klifrið. Í sumum tilfellum sveiflast fálmararnir þar til þeir ná snertingu við grein eða eitthvað annað sem þeir geta fest sig við.
Stönglar í kafi
Margar vatnaplöntur, eins og til dæmis vatnaliljur, mynda stöngulhnýði sem senda frá sér blaðstöngla upp á yfirborðið þannig að blöðin virðast fljóta á vatninu. Í blaðstönglum og blöðum vatnagróðurs er að finna loftrými sem eykur flot þeirra.
Mikið af lofti safnast í stöngulhnýðin og stundum má sjá loftbólur rísa frá botni tjarna með mikið af vatnaliljum, lofti sem losnar frá hnýðunum.
Nytjar
Stönglar og stofnar eru nýttir í margs konar tilgangi. Sem matvæli má nefna stöngulhnýði eins og kartöflur og taró. Hlynsýróp er unnið úr bol hlyntrjáa, aspar og bambussprotar eru stönglar og úr stönglum sykurreyrs er unninn sykur. Kanill er börkur og eitt undirstöðuhráefnið í tyggigúmmí er unnið úr trjáberki Senegalia senegal. Kínín sem er lyf gegn malaríu og bragðefnið í tónikvatni er unnið úr berki kínabarkar, Cinchona officinalis og eiturefnið kúrare úr berki nokkurra suður-amerískra klifurjurta.
Viður trjáa er notaður sem byggingarefni og í alls konar stærri og minni muni eins og pappír, báta og skip, hljóðfæri og ótal aðra hluti. Bambusstönglar eru hafðir til bygginga, sem vatnsleiðslur og margt annað og grasstrá eru höfð í húsþök.
Orðið tannín er dregið af latneska heitinu yfir eikarbörk, tannāre, sem var og er líklega enn notaður til að lita leður. Korkur og náttúrulegt gúmmí er unnið úr berki og bast og margs konar þræðir úr stönglum líns, hamps og fleiri jurta. Úr berki pálmatrjáa eru unnir þræðir sem notaðir eru í mottur og ofnir eru í kaðla. Egyptar voru fyrstir, svo vitað sé, til að búa til pappír úr stönglum papírusplantna.
Raf er steinrunnin trjákvoða barrtrjáa sem þótti og þykir enn mikið gersemi og úr því búnir til skartgripir og skrautmunir. Friðrik I Prússakonungur gaf Pétri mikla snemma á 18. öld heilan sal skreyttan með rafi. Í seinni heimsstyrjöldinni var salurinn tekinn niður, fluttur til Prússlands og eyðilagðist líklega í lok stríðsins. Árið 2003 var endurgerð salarins opnuð almenningi eftir áratuga endurgerð.
Í fyrstu Jurassic Park myndinni á flugan sem risaeðlu DNA fannst í að hafa varðveist í rafi eins og margir eflaust muna.
Reykelsi og myrra
Olíukvoða sem safnað er úr stofni trjáa af ættkvíslinni Besweelia er notuð í reykelsi og ilmvötn. Samkvæmt kristinni trú færðu vitringarnir þrír úr austri Jesúbarninu við fæðingu þess gull, reykelsi og myrru. Reykelsið sem um ræðir var líklegast búið til úr slíkri kvoðu. Myrra er einnig trjákvoða sem vellur úr smávöxnum og þyrnóttum trjám og runnum sem tilheyra ættkvíslinni Commiphora. Myrra hefur lengi verið notuð til lækninga og sem ilmefni. Egyptar höfðu myrru handhæga við smurningu látinna til varðveislu, líklega til að dempa nályktina.
Í Jóhannesarguðspjalli 19: 39-41 kemur myrra við sögu. „Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum. Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum eins og Gyðingar búa lík til greftrunar.
En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasagarður og í garðinum ný gröf sem enginn hafði enn verið lagður í.”