Úrvalstilraunir með búfé og tilraunadýr – 4. hluti
Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Hér birtist lokaþáttur þessara greina um úrvalstilraunir með búfé og tilraunadýr, sem að sækir hugmyndagrunn sinn í erindi sem Hill frá Skotlandi flutti á heimsráðstefnu í Leipzig 2010.
W.G. Hill tók við prófessorstöðu í Edinborg þegar A. Roberson lét af störfum.
Í fyrstu greininni voru endursögð nokkur aðalatriði úr erindi Hill og því lokið í byrjun annarrar greinar. Örstutt vikið að þekktustu úrvalstilraunum á Norðurlöndum sem leiddu til þróunar í mælingatækni eða breytinga í heildarhugsun. Síðari hluti þeirrar greinar fjallar síðan um búfjárrannsóknir hér á landi sem ég þekki til og sækja hugmyndagrunn til úrvalstilrauna þó að hérlendis hafi aldrei verið gerðar neinar vel skipulagðar úrvalstilraunir hjá búfé. Í þriðju greininni voru aðeins nefndar músatilraunir. Þriðji hlutinn fjallar aðeins að mestum hluta um niðurstöður í örfáum þekktum úrvalstilraunum víða um heim með mjólkurkýr. Að lokum verður fjallað hér um nokkrar þekktar tilraunir með sauðfé vítt um heim.
Holadanaut
Áður en það verður gert er samt rétt að nefna eina þekkta úrvalstilraun með holdanaut. Urmull úrvalstilrauna hefur verið gerður með holdanaut fyrir ólíklegustu eiginleika dreift um allan heim en í þessari búfjártegund byrja samt slíkar tilraunir ekki fyrr en eftir miðja síðustu öld og því engar verulegar langtímatilraunir þar fyrir hendi.
Tvíkelfingar hafa aldrei verið til vinsælda fallnir hjá mjólkurkúm. Við ræktun á holdanautum er þessu af eðlilegum ástæðum ekki eins farið. Í holdanautum hafa því verið gerðar fleiri en ein úrvalstilraun fyrir aukinni tíðni tvíkelfinga og staðfest þar að slíkt úrval skilar árangri. Í minnsta kosti tveim tilraunum, annarri í Ástralíu og hinni í Bandaríkjunum, kom eins og vænta mátti skýrt í ljós að mögulegt var að ná árangri í þessum efnum. Bandaríska tilraunin var við kjötrannsóknarmiðstöð landsins. Á áttunda áratugnum birtust greinar eftir Ivar Johansson þann sænska sem áður er nefndur um tíðni tvíkelfinga í ólíkum mjólkurkúakynjum, bráðsnjöll grein þó að kallinn hafi þá sennilega verið kominn á tíunda áratuginn í aldri. Þá kviknuðu hugmyndir um að leita eftir sæði úr nautum af mjólkurkúakynjun vítt og breitt um heiminn sem fram komu við síauknar afkvæmarannsóknir um allan heim. Leitað var nauta sem sýndu sig að gefa óvanalega hátt hlutfall dætra sem báru tvíkelfingum. Þetta var gert og kom fram við blöndunina talsverð aukning kúa sem báru tvíkelfingum. Hvað mestu áhrifin munu hafa fengist frá NRF nautum frá Noregi sem þar voru notuð. Látum þetta nægja um holdanautin um leið og minnt er á að vegna hliðstæðna í framleiðsluferlinum má oft yfirfæra þekkingu þaðan til sauðfjár ekki síst fyrir þann þátt sem mönnum gengur erfiðlegast að meta og skilja sem er samband einstaklings- og móðuráhrifa fyrir ýmsa eiginleika og þá hvað mest allt sem tengist þunga gripanna.
Hálapparnir hans Purser
Eina Evrópuþjóðin sem gert hefur talsvert af úrvalstilraunum eru Skotar. Ekkert vafamál er að tilraunir þaðan eru þær sem við getum öðru fremur leyft okkur að horfa til með að draga ályktanir af.
Til gamans langar mig að segja örstutt aðeins frá einni elstu slíkri tilraun en það var tilraun sem hófst snemma á sjötta áratugnum og stóð í rúma tvo áratugi og hét sá sem kom henni í gang og vann lengst að Purser þó að aðrir yrðu til að annast endanlega úrvinnslu tilraunaniðurstaðna. Þarna var valið fyrir aukinni legglengd hjá sauðfé ekki alveg óþekkt Íslendingum bara yfirleitt með öfugum formerkjum. Svarthöfðafé var notað í tilrauninni. Örlítið tengdist tilraun þessi doktorsverkefni Sigurgeirs Þorgeirssonar sem var að hefja vinnu við það um það leyti sem umræddri tilraun lauk. Ekkert í niðurstöðunum þarf að koma okkur hér á landi á óvart. Þessi mæling hefur feikilega hátt arfgengi þ.e. mælingin er mjög öruggt mat á erfðahluta eiginleikans og þó að breytileiki eiginleikans sé hlutfallslega lítill næst umtalsverð svörun í vali fyrir eiginleikanum. Samhliða gerist það að féð stækkar umtalsvert og verður sjálfsagt stórbeinóttara og grófara í vexti. Um leið jókst frjósemi háfættu ánna en höfundar lokaskýrslu velta fyrir sér hvort það sé stórum meira en sé eðlilegar breytingar samhliða aukinni stærð ánna en smávegis aukning var á bæði fjölda lamba og lifun háfættu lambanna var aðeins betri. Hins vegar varð jafnhliða sú breyting að ending stóru ánna slaknaði. Hér virðist sem fram komi eins og virðist víða mega sjá í búfjárgögnum að saman fer ör vöxtur og styttri líftími hjá lifandi verum og hins vegar hægfara breytingar og lengra líf. Þó að þessi tilraun sé skemmtileg og margt sem hefur samhljóm með okkar reynslu er rétt að gera sér grein fyrir að umfang hennar er alltakmarkað hvað fjölda gripa varðar og tilviljunarskekkja í niðurstöðum að sama marki talsverð þar sem eins og í flestum úrvalstilraunum með stærri búfjártegundir eru engar endurtekningar. Þar við bætist að í tilraunum sem þannig eru takmarkaðar að umfangi getur einstaka sinnum orðið umtalsverð skekkja vegna upprunaáhrifa.
Þungi og stærð
Snúum okkur þá að nokkrum þekktum tilraunum fyrir einstaka eiginleika og ræðum fyrst um þunga sauðfjár. Á sjötta og sjöunda áratugnum hófst aragrúi úrvalstilrauna með sauðfé bæði í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi þar sem fengist var við val fyrir nánast hinum ótrúlegustu eiginleikum. Þetta eru í raun tilraunir sem falla undir 13. Liðinn í uppatalningu Hills, skammtímatilraunir sem sýna áttu bændum fljótt hve gríðarlegan ávinning væri að sækja í skipulegt úrval og ræktunarstarf. Páfar sauðfjárkynbóta voru á þeim tíma á Suðurhvelinu, Rae á Nýja-Sjálandi og ekki síður Helen Newton Turner í Ástarlíu. Ein fyrsta slíkra tilrauna með þunga var áströlsk tilraun í Merinófé þar sem valið var fyrir auknum þunga lamba þegar þau voru tekin undan ánum og maður að nafni Pattie vann að og fjallaði um. Niðurstöður voru samkvæmt bókinni og greinileg svörun fékkst. Þessi tilraun er ekki síst þekkt sökum þess að Turner notar hana í kennslubók í búfjárkynbótum sem hún skrifaði með samstarfsmanni sínum Young um 1970 og talin er ein besta bók heimsins á sínu sviði og hefur þá sérstöðu að nær öll dæmi sem tekin eru í bókinni eru sótt í sauðfjárrannsóknir. Í þessari tilraun fylgdi jafnhliða stækkun á fénu og aukinn þungi á fullorðnu fé. Þess vegna voru talsverðar efasemdir í þessum löndum lengi hvers virði aukinn þungi væri vegna þess að framleiðsla í þessum löndum er víða mæld út frá framleiðslu á hvern hektara lands. Viðmiðun sem lengstum hefur verið íslenskum sauðfjárbændum talsvert fjarlæg.
Urmull af þannig tilraunum birtust á næstu árum og þarna suðurfrá er valið yfirleitt á miklu eldri gripum en við þekkjum og á þeim tíma fór val sérstaklega í ullarframleiðslukynjum oft ekki fram hjá ánum og sumstaðar hrútunum líka ekki fram fyrr en hjá veturgömlu ánum. Að hafa lemda gemlinga þekktist þá ekki á þessum slóðum. Þessar tilraunir sýndu yfirleitt hærra arfgengi og aukna svörun við úrvali með hækkandi aldri gripanna sem er í fullu samræmi við allar síðari tíma rannsóknir.
Vestur í Bandaríkjunum gerður Bradford og samstarfsmenn úrvalstilraun fyrir auknum þunga lamba þar sem þeir skiptu úrvalshópunum á mjög ólíkar umhverfisaðstæður. Mun meiri svörun fékkst eins og tæplega kemur að óvart hjá lömbunum sem ólust upp á gósenlandi en þeim sem bjuggu við harðari kost. Í áströlskum tilraunum þar sem umhverfisaðstæður virðast stundum með ólíkindum hve breytileg svörun getur fengist sérstaklega samt fyrir ýmsa ullareiginleika. Sem betur fer held ég að umhverfisbreytileiki sé það takmarkaður við okkar aðstæður að við þurfum ekki að vera að kljást við vandamál samspils umhverfis- og erfðaáhrifa og það er algert lykilatriði til að sameiginlegt ræktunarstarf skili öllum verulegum árangri. Fyrsti eiginleiki sem við mundum sjá slík áhrif fyrir er áreiðanlega þungi lambanna. Þegar ég skoðaði þetta íslenskum gögnum fyrir nokkrum áratugum, og þá var þessi munur hlutfallslega jafnmeiri en er í dag, fann ég nánast engar vísbendingar um að slíkt samspil sé fyrir hendi. Ég hef séð vísbendingar um og sömuleiðis fann Sveinn Hallgrímsson á sínum tíma að þeirra er ef til fremur að vænta á milli kynja lambanna, en vegna þess að náttúrulegt kynhlutfall mun yfirleitt hafa lítinn sem engan erfðabreytileika kemur þetta vart til að hafa nokkur mælanleg áhrif í ræktunarstarfinu.
Rétt er að benda á að mest af uppgjöri á þessum úrvalstilraunum er gert áður en menn fara að greina sundur þungaáhrifin í bein áhrif og móðuráhrif og þannig getur eitthvað af ályktunum útfrá tilraununum þarfnast nánari skoðunar. Þessa hluti hafa menn í raun að mínu mati ekki enn nema takmarkaðan skilning á. Auk þess er alveg augljóst að þetta er skipting sem breytist allhratt með aldri lambanna og því er mögulegt að margir slíkir útreikningar á grunni dreifðra gagna séu dæmdir til að verða hálfkák eitt.
Eins og fram hefur komið þá leiddu þessar eldri úrvalstilraunir alla jafnan til þess að fullorðna féð stækkaði jafnhliða og það er nákvæmlega ekki það sem við óskum eftir. Þetta leiddi til að menn reyndu að fara að skilgreina þungann betur og þannig sveigja úrvalið fyrir auknum þunga að því að gera vaxtarkúrfuna brattari en halda fullorðinsþunga óbreyttum. Þá var um staðlaðra viðmið að ræða ein og vaxtarhraða oftast sem mælingu að skilgreindum aldri lambanna, hafa þunga skilgreindan sem fast hlutfall af fullorðinsþunga sem oftast vefst talsvert fyrir mönnum eða miðað við sama og skilgreint fitustig lambanna. Þessar tilraunir hafa sýnt að þarna eru vissir möguleikar fyrir hendi en samt miklu minni en fyrir það að leyfa stærð gripanna að aukast.
Þetta eru hlutir sem þarfnast veruleg nákvæmrar skoðunar hjá okkur í ljósi breyttra viðhorfa. Þarna getum sið þakkað þeim Halldóri Pálssyni og Sveini Hallgrímssyni fyrir skýra stefnu og þó að ég hafi líklega sýnt full mikið kæruleysi í þessu máli þá held ég sem betur fer að enginn stór skaði hafi orðið vegna þess að úrval fyrir þessum eiginleika hefur ekki verið það stíft hérlendis síðustu tvo áratugina. Gæfa okkar til viðbótar er að áðurnefndir tveir ráðunautar lögðu línuna um það að mæla þunga hjá íslensku sauðfé sem fallþunga en ekki þunga lifandi lambanna eins og gert er jafnvel enn í dag víða erlendis. Þetta verður seint lofað sem skyldi.
Ræðum þá ómsjármælingar
Næst skal ég snúa mér að tilraunum með úrval á grunni ómsjármælinga. Tæknileg þróun til mælinga á vefjasamsetningu hjá lifandi búfé á sér langa sögu. Fyrst náðu menn tökum á fitumælingum hjá svínum og strax á sjöunda og áttunda áratugnum fóru svínabændur í mörgum löndum að ná undraverðum framförum með beitingu þeirra tíma tækni. Það er ekki fyrr en alllangt er liðið á níunda áratuginn að nothæf tækni til ómmælinga þróast hjá sauðfé, skömmu áður voru menn þó á suðurhvelinu búnir að þróa nothæfa tækni til fitumælinga. Jafnskjótt og þessum áfanga var náð þá voru settar í gang úrvalstilraunir víða um heim til að kynna bændum notkunarmöguleika dýrðarinnar. Á suðurhverlinu voru fjölmargar slíkar tilraunir, Norðmenn allra mann gerðu slíka tilraun með sauðfé, að vísu fremur litla að umfangi en tilraun sem oft og víða er vitnað til. Hér skal samt aðallega vitnað til úrvalstilraunar þeirrar sem félagi okkar og vinur Simm í Skotlandi gerði með samstarfsfólki sínu. Þar var skipulögð mjög merkileg úrvalstilraun í Suffolk fé í Skotlandi þar sem í valda hópnum var valið fyrir aukinni kjötsöfnun út frá einkunn þar sem sameinaðar voru niðurstöður ómsjármælinga á þykkt vöðva og fituþykkt á spjaldhrygg. Síðan var óvalinn samanburðarhópur og voru línurnar báðar í upphafi byggðar á sama grunni þannig að skyldleiki var sá sami (og lítill) á milli hópanna í byrjun og innan hvors hóps. Í þessari tilraun náðist strax gríðarlega mikill úrvalsárangur sem sýndi hvers konar töfratæki hér var komið. Með eggjaflutningum milli áa var gripum úrvalslínunnar fjölgað mjög hratt til þess að nota í margvíslegar tilraunir til að skoða áhrif ýmissa þátta á vöðva og fitusöfnun. Þar hefur komið fram að ákaflega miklar breytingar þarf t.d til að fram komi samspil erfða og umhverfis fyrir þessa eiginleika.
Fljótlega fóru Skotarnir að gera úrvalstilraunir í fleiri kynjum og færðu sig ofar í landinu og gerðu slíkar tilraunir m.a. hjá Svarthöfðafénu í fjöllum Skotlands. Þetta gerðu þeir öðru fremur vegna mögulegra áhrifa minnkandi fitu á möguleika ánna við þessar aðstæður. Allar fyrstu niðurstöður frá þessum tilraunum og það sem ég hef séð frá þeim er að engar neikvæðar niðurstöður sem snúa að móðureiginleikum ánna hafi komið fram og jafnvel frekar og fituminni ærnar hafi sýnt yfirburði.
Mögulegt er að lagstærsta úrvalstilraun sem gerð hefur verið með ómsjármælingar sé íslensk sauðfjárrækt síðustu tvo áratugi. Gallinn á henni er að vísu sá að úrvalslínan er aðeins ein, aðeins bætt kjötgæði, enginn samanburðarhópur og ekkert val í hina áttina. Hin eitursnjalla ritgerð Jóns Hjalta sem hann vann við LBHÍ og ég sagði frá hér í einhverju haustblaðanna sýnir hins vegar ótrúlegan ræktunarárangur, sem áreiðanlega eru engin dæmi um annars staðar í heiminum í sauðfjárrækt.
Frjósemi sauðfjár
Þá er að fara nokkrum orðum um úrvalstilraunir vegna frjósemi sauðfjár og verður þar að fara á sjómílnaskóm yfir spennandi efni. Fyrst skal farið örfáum orðum um eins elstu úrvalstilraun með búfé í heiminum. Þetta er tilraun sú sem Wallace hófst handa um með Romney fé við tilraunastöðina í Ruakúra á Nýja-Sjálandi. Þetta var tilraun sem stóð í fleiri áratugi og enn mun finnast fé úr. Wallace þessi var einn hinna fjölmörgu búfjárræktarmanna, nemendur Hammonds úr hinum þekkta Cambrige skóla, nær allir líffræðingar á fjölbreytilegum sviðum. sem þóttu hvað fremstir búfjárræktarmanna í heiminum um miðja öldina og þar stóð Halldór Pálsson nánast í stafni. Þeir vissu líka sýnu viti í búfjárkynbótum þó að lífeðlisfræðin væri þeirra aðalgrein. Ég man að Halldór taldi Wallace ekki í hópi snjöllustu vísindamanna en hann sagði hins vegar að hagnýtur hugsunarháttur bóndans hafi verið honum það meðfæddur og inngróinn að hann reyndist frábær tilraunastjóri við þessa eina af alstærstu búfjárrannsóknarstöð í heiminum. En snúum okkur frá fólki að fé. Á mynd er sýnd áratuga breytingar í tilrauninni og hefur náðst feikilega mikill árangur í að auka frjósemina og þegar vísindamenn brutu breytingarnar niður í þætti kom eins og vænta má að fjöldi fæddra lamba var ráðandi þáttur (frjósemin mæld sem fjöldi lamba til nytja hjá hverri á). Hjá ánum sem valið var fyrir minni lamafjölda var svörunin miklu minni vegna þess hve valið hófst frá grunni þar sem frjósemi var ákaflega léleg. Að vísu tókst að fá talsvert af geldum ám hjá þessari línu og fram komu deyðandi erfðavísar en þarna gekk bölvanlega eins og flestir bændur hafa reynslu af að fjölga eða viðhalda stofni út frá geldum ám. Þess má geta að mörgum áratugum síðar þegar Nýsjálendingar fóru að fást við að velja fyrir mótstöðu gegn ormasmiti fundust hjá frjósemislínunni þarna ákaflega stórvirkir erfðavísar fyrir þann eiginleika.
Booroola-féð
Ástralíumenn settu einnig um miðja síðustu öld í gang fjölda úrvalstilrauna fyrir frjósemi og fengu eins og nágrannar þeirra mikla svörun fyrir auknum lambafjölda og þessar tilraunir gerbreyttu viðhorfum um allan heim gagnvart því að auka frjósemi með úrvali en þá hafði um tíma hafði víða verið takmörkuð trú að slíkt væri mögulegt. Einni tilraunastöðinni í Ástralíu en tilraunirnar voru margar skipulagðar af Helen Turner sem áður er nefnd var gefin um tugur lamba sem flest voru fjór- eða fimmlembingar en þarna var að sjálfsögðu unnið með Merinó fé. Í ljós kom að ótrúlega einfalt virtist að viðhalda mikilli og miklu meiri frjósemi en menn þá þekktu á þessum slóðum í þessu fé og blendingum af því. Þetta fé var kallað Booroola. Þegar ofurfrjósöm fjárkyn eins og Romanov og Finnaska féð fóru að dreifast um heiminn á sjöunda áratugnum fór Booroola féð einnig að dreifast á sama hátt, fyrst til blöndunar við Merinó fé en síðan til blöndunar við ýmis möguleg og ómöguleg fjárkyn og alls staðar kom þessi ofurfrjósemi fram.
Gagnvart öðrum framleiðslueiginleikum en lambafjölda þótti þetta fé ómerkilegt og nánast druslufé. Hins vegar tókst tók það menn mikið á þriðja áratug að skilja þær erfðir sem þarna lágu að baki. Loks kviknaði ljós hjá köppunum Bindon og Piper árið 1980. Skýringin var einfaldari en nokkurn hafði grunað, áhrifin mátti að öllu leyti skýra með geni í einu erfðavísasæti. Við Stefán Aðalsteinsson fréttum þetta mjög fljótt og fórum í framhaldinu að skoða frjósömu ærnar í Suðursveit og fundum þá um leið Þokugenið sem erfði mikinn lambafjölda á sama hátt. Einn grundvallarmunur er þó á erfðum Þoku- og Booroolagensins. Arfhreinar ær með Þokugenið eru ófrjóar en Booroola ærnar frjóar og sýna þær alla jafnan óhóflega frjósemi.
Ég tel mig í dag hafa fulla vissu fyrir því að Þokugenið er stökkbreyting sem örugglega verður í þessum einstaklingi alveg hliðstætt Lóu genginu sem við Emma staðfestum um 2000. Fyrir Booroola var uppruninn ekki jafn skýr. Turner hafði uppá einhverjum þjóðsögum um að uppruna þess mætti rekja allt aftur til landnáms Ástralíu fyrir 1800 og hefði borist frá Indlandi. Þegar erfðatæknin kemur til sögunnar fóru forvitnir Nýsjálendingar að leita að geninu. Viti menn þeir fundu það í arfhreinu formi hjá dvergfé á Indlandi og þar með var staðfest að þjóðsagan sem Turner hafi uppá var sannsöguleg.
Owen og Hanrahan
Á milli 1970–1980 þegar hugmyndin um að ná árangri í frjósemi með að velja ofurfrjósamt fé héðan og þaðan og ég hef áður nefnt stóð með mestum blóma safnaði þekktur breskur búfjárvísindamaður sem Owen hét hrærigraut af slíku fé af á öðrum tug sauðfjárkynja á Bretlandseyjum saman og kallaði nýtt fjárkyn og nefndi Cambridge fé. Og viti menn þarna skaut upp kollinum stakerfðavísi fyrir mikilli frjósemi en aldrei hefur mér tekist að hafa uppá hvert uppruni hans er rakinn.
Í lokin um frjósemi nefni ég úrvalstilraunir hjá frændum okkar Írum og sá ágæti maður Hanrahan sem áður hefur verið nefndur hér í greinaflokkinum stýrði. Hann sýndi framá að enn mætti auka árangur í úrvalinu með að velja á grunni fjölda eggja sem ærnar losa við hvert beiðsli mælt með holspeglun í stað fjölda fæddra lamba. Hann fékk í þessari úrvalstilraun sinni fram ærlínur sem sýndu nánast ótrúlegt egglos. Þessi góði maður heimsótti okkur og aðstoði við rannsóknir m.a á Þokugeninu og á minningarfundi Halldórs Pálssonar árið 1987 hélt hann frábært erindi um frjósemi sauðfjár þar sem hann gaf okkur ræktunarleiðbeiningar gagnvart frjósemi sem mér því miður bar ekki gæfa til að fylgja að fullu en við þurfum í dag að skoða enn betur og nýta.
Í lokin skal nefnt að á síðasta tímabili úrvalstilraunanna fóru tilraunum tengdum ýmsum búfjársjúkdómum mikið að vaxa fiskur um hrygg. Umfangsmestar á Suðurhvelinu urðu tilraunir í sambandi við mótstöðu gagnvart ormasmiti sem áður hefur verið minnst á. Einnig er rétt að nefna að áður en erfðatæknin gerði mögulegt að greina príon stökkbreytingar í sambandi við riðuna þá hafði verið gerð mjög merkileg úrvalstilraun í Bretlandi sem mjög skýrt hafði sýnt hve erfðaáhrif voru gríðarlega sterk í sambandi við þennan sjúkdóm.
Til gamans nefni ég einnig að finna má úrvalstilraunir með að fjölga spenum hjá ám úr tveim í fjóra og þær hafa skilað árangri.
Rétt er að benda á að hér er ekki einu orði vikið að ull og ullargæðum en úrvalstilraunir tengdar þeim eru líklega fleiri hjá sauðfé en fyrir nokkra aðra eiginleika.
Hér skal hætt að spinna þennan þráð en á það bent að aðeins hefur verið vikið að brotabroti slíkra tilrauna. Ekki er einu orði vikið að tilraunum með svín eða fugla, holdanautum nánast ekkert og ekki heldur tilraunadýrum. Þar er fjöldinn og forvitnilegar niðurstöður samt margfaldar á við það sem hér hefur verið vikið að.
Hafi greinarflokkur þessi hins vegar orðið til að auka skilning og þekkingu einhverra lesenda þá er ákveðnum tilgangi náð.
Leiðrétting
Það misfórst að setja viðeigandi myndatexta við myndir með þriðja hluta greinaflokks Jóns Viðars Jónmundssonar um úrvalstilraunir með búfé og tilraunadýr. Er beðist velvirðingar á því og myndirnar endurbirtar hér með réttum textum.
Þróun á kynbótamati fyrir próteinmagn en Y ásin er sem frávik frá 100. Línmerkingar; HMP valið fyrir efnamagni mjólkur í fyrri hluta tilraunar. LMP samanburðarhópurinn (dætur meðalnauta í byrjun) NRF er meðaltal skýrslufærðra NRF kúa HPY hópur valinn fyrir próteinmagni í síðari hluta tilraunar LCM hópurinn sem valinn er fyrir lægri tíðni júgurbólgu.
Breytingar á kynbótamati júgurbólgutíðni á Y ási sem frávik frá meðaltali 0. Hópalínurnar með sömu merkingu og á 1. mynd.