Vatnabuffalóar – hinar heilögu kýr
Vatnabuffalóinn er íbúum Suðaustur-Asíu allt í senn fæða, burðar- og dráttardýr. Í menningu Indverja er kýrin heilög og Ítalir framleiða mozzarella-ost úr buffalóamjólk.
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, áætlar að í heiminum séu hátt í 180 milljónir taminna vatnabuffalóa og langflesta þeirra, um 95%, er að finna á Asíu.
Á Indlandi er fjöldi talinn vera rétt tæpar 100 milljónir og því ríflega helming allra vatnabuffalóa í heiminum að finna þar. Pakistan er í öðru sæti þegar kemur að fjölda vatnabuffalóa með hátt í 25 milljón dýr. Næsta land þar á eftir er Kína og samkvæmt áætlun FAO er fjöldi vatnabuffalóa þar um 23 milljónir. Í fjórða sæti er Egyptaland með um 2,5 milljón dýra og í Brasilíu, sem er í fimmta sæti, eru þeir um 1,7 milljónir og í Nepal, sem er í sjötta sæti, eru þeir tæplega milljón. Eftir það fellur fjöldi vatnabuffalóa í hverju landi snarlega. Í Mjanmar, sem áður hét Búrma, eru þeir taldir vera rúmlega tvö hundruð þúsund og þótt merkilegt megi þykja er fjöldinn litlu minni á Ítalíu. Þar á eftir koma Tyrkland og Víetnam með rúmlega 30 þúsund vatnabuffalóa hvort land.
Auk er að finna fáeinar milljónir taminna vatnabuffalóa í Afríku og Suður-Ameríku, nokkur hundruð þúsund í Ástralíu og í Evrópu og nokkur þúsund gripi í Norður-Ameríku.
Uppruni og útbreiðsla
Vatnabuffalóar eru tamdir nautgripir sem eru upprunnir í Asíu. Þeir eru af ætt nautgripa og ættkvísl sem kallast, Bubalus. Innan ættkvíslarinnar eru sjaldgæfar tegundir villtra buffalóa eins og B. arnee sem finnst í Nepal og austanverðu Indlandi og B. kerabau og villtir B. bubalis sem eiga búsvæði í Suðaustur-Asíu.
Steingervingar benda til að í eina tíð hafi einnig verið uppi villtir vatnabuffalóar í Evrópu og kallast B. murrensis.
Tamdir vatnabuffalóar eru afkomendur B. bubalis og er þeim skipt í tvær undirtegundir vatnabuffalóa sem halda sig mikið í ám og þá sem eiga búsvæði á mýra- eða fenjasvæðum. Sú fyrri kallast fljótabuffalóar, en sú síðari mýrabuffalóar. Ríflega 70% af öllum vatnabuffalóum í heiminum eru fljótabuffalóar.
Í heiminum er að finna yfir eitt hundrað vel skilgreind buffalóaræktunarkyn og fjölda afbrigða. Þar af finnast að minnsta kosti tíu á Indlandi sem kallast Badhawari, Kalahandi, Nili-Ravi, Jafarabadi, Marathwada, Mehsana, Nagpuri, Pandharpuri, Toda, og Surti. Tvö á Kúbu, Búfalo de Pantano og Búfalo de Rio og tvö í Búlgaríu sem kallast Murrah og búlgarski buffalóinn. Ravi í Pakistan og Xilin í Kína svo dæmi séu tekin.
Fljótabuffalóar eru meira nýttir til mjólkurframleiðslu en mýrarútgáfan. Mýrarbuffalóar þykja aftur á móti betri dráttar- og burðardýr.
Forverar taminna vatnabuffalóa áttu búsvæði um stóran hluta Suðaustur-Asíu, allt frá Pakistan í vestri til Víetnam í austri, og í suðurhéruðum Kína. Þá var einnig að finna á Filippseyjum og í Indónesíu.
Talið er að fyrstu vatnabuffalóarnir hafi verið tamdir í Indusdalnum, sem liggur frá Afganistan gegnum Pakistan til Indlands, fyrir um það bil 5.000 árum og aftur í Kína þúsund árum síðar. Þaðan hafa þeir breiðst út sem húsdýr til annarra svæða í Suður-Asíu. Frá Asíu berast vatnabuffalóar af fljótakyni til Mesópótamíu um 2.500 árum fyrir Krist og á innsigli eins af fyrstu konungum veldisins er mynd sem sýnir buffalóa fórnað. Þaðan berast þeir áfram til Miðausturlanda og áfram til Norður-Afríku og Suður-Evrópu.
Flest bendir til að vatnabuffalóar hafi borist til Sikileyja með Aröbum og frá Sikileyjum til suðurhéraða Ítalíu um árið 1000 eða um svipað leyti og byggð er að festa rætur á Íslandi. Ítalir tóku buffalóunum fagnandi og gripirnir döfnuðu vel og voru buffalóar algeng sjón sem vinnudýr á ökrum Suður-Ítalíu allt fram á miðja síðustu öld.
Tyrkir notaðu buffalóa sem burðar- og dráttardýr þegar Ottomannveldið gerði innrás í Evrópu á fimmtándu öld. Í dag er enn að finna afkomendur þeirra dýra tvist og bast í Austur-Evrópu, til dæmis Búlgaríu, Transylvaníu og í Rúmeníu þar sem vatnabuffalóar eru kallaðir kýr fátæka mannsins.
Nokkrum öldum eftir að Kristófer Kólumbus og James Cook römbuðu, hvor í sínu lagi, til Ameríku og Ástralíu voru vatnabuffalóar fluttir til þeirra heimsálfa.
Fyrstu fljótabuffalóarnir voru fluttir til Ástralíu snemma á nítjándu öld. Gripirnir kunni vel við sig í nýju heimkynnunum og dýr sem sluppu út í náttúruna fjölguðu sér hratt. Árið 1895 hófst eldi á fljótavatnabuffalóum við ósa Amasónfljóts til mjólkur- og kjötframleiðslu. Í dag er þá að finna í flestum löndum Suður-Ameríku og í Argentínu og eflaust víðar hægt að sækja um leyfi, gegn gjaldi, til að fara á vatnabuffalóaveiðar.
Það var ekki fyrr en árið 1974 að fyrstu vatnabuffalóarnir voru fluttir til Norður-Ameríku. Um var að ræða fjögur dýr frá eyjunni Gvam í Vestur-Kyrrahafi sem ætluð voru til rannsókna. Fjórum árum síðar var innflutningurinn aukinn talsvert og afkomendur þeirra dýra eru í dag undirstaða framleiðslu vatnabuffalóakjöts og mjólkur í Bandaríkjunum.
Vísundar í Norður-Ameríku og Evrópu, Bison bison og B. bonasus, eru fjarskyldir ættingjar vatnabuffalóans og iðulega rangnefndir buffalóar.
Ásýnd, hegðun og æxlun
Vatnabuffalóar eru stór, belgmikil jórtur- og klaufdýr með fremur stutta en sterka fætur og langan háls og hala. Snögghærður feldurinn er dökkur, svartur, brúnn eða grár auk þess sem dýr geta verið dökkskjöldótt eða með hvíttum flekkjum. Alhvítir albínóar eru algengir hjá sumum ræktunarkynjum.
Naut fljótabuffalóa eru milli 400 kíló og eitt tonn að þyngd og 1,5 til 1,8 metra á herðakamb eftir kynjum en kýrnar yfirleitt minni og léttari. Mýrarafbrigðið er smávaxnara og 325 til 450 kíló að þyngd. Horn buffalóa eru aftursveigð og horn fljótabuffalóa eru hlutfallslega stærri, 40 til 80 sentímetrar að lengd, miðað við líkamsstærð en horn á mýrarbuffalóum og einnig sveigðari.
Líkt og nöfnin benda til er kjörbúsvæði fljótabuffalóa oft í djúpu vatni en mýrarbuffalóar kjósa grynnra vatn. Mýrarbuffalóar eiga til að búa til leðjupolla með hornunum og velta sér í þeim og hylja húðina með drullu í miklum hita.
Villtir vatnabuffalóar mynda litlar hjarðir með einu nauti og nokkrum kúm.
Búsvæði þeirra er staðbundið og halda dýrin sig yfirleitt innan nokkurra ferkílómetra beitarsvæðis með að minnsta kosti einni vatnsuppsprettu.
Ástæða þess að buffalóar halda sig mikið í vatni í náttúrulegum heimkynnum sínum er til að kæla sig í miklum hita. Þar sem loftslag er kaldara er kælingin þeim ekki eins mikilvæg og þrífast skepnurnar ágætlega á graslendi.
Vatnabuffalóar hafa mikla aðlögunarhæfni að nýjum búsvæðum og þrífast við hitastig frá núll og upp í 30° á Celsíus.
Fæðuval þeirra er fjölbreytt og geta buffalóar lifað á nánast hvaða gróðri sem er. Við mjólkur- og kjötframleiðslu er þeim gefið grænfóður og fóðurbætur líkt og gert er við eldi á nautgripum. Buffalóar þrífast einnig ágætlega á bönunum, kassavarót, ananas, sykurreyr, sítrusávöxtum og döðlum og mun allt slíkt gefa bæði mjólkinni og kjötinu sérstakan keim.
Fljótabuffalóar verða kynþroska á öðru til þriðja ári og fyrr en mýrarkynið. Góður boli getur sætt ríflega hundrað kýr á ári og eru kýrnar frjóar á öllum árstímum. Meðganga kúnna er um það bil ellefu mánuðir og yfirleit ber kýrin einum kálfi að henni lokinni.
Í náttúrunni tilheyra kvígur móðurhjörðinni alla ævi en nautkálfar eru hraktir á brott af ríkjandi bola um það leyti sem þeir ná kynþroska.
Hraustir buffalóar geta lifað í ríflega 40 ár og nýtilegir til vinnu í 30.
Mjólk, kjöt og dráttardýr
Nytjar af vatnabuffalóum eru fjölmargar, þeir eru dugleg dráttardýr, kýrnar eru mjólkaðar og kjötið haft til matar. Vatnabuffalóakýr eru hinar eiginlegu heilögu kýr á Indlandi.
Á Indlandi og Pakistan eru kýr vatnabuffalóa helsta uppspretta mjólkur og mjólkurafurða landanna. Við stærstu borgir eru kýrnar mjólkaðar í mjaltaróbótum eftir nýjustu tækni en víðast hvar til sveita eru handmjaltir algengastar.
Mjaltaskeið buffalóakúa er 170 til 180 dagar og getur kýrin mjólkað fjóra til átján lítra á sólarhring, eftir kynjum, í allt að tuttugu ár.
Mjólk buffalóa hentar vel til ostagerðar. Mozzarella-ostur úr buffalóamjólk er upprunninn á Ítalíu, la mozzarella di bufala, og þykir með afbrigðum bragðgóður. Í dag er ostur úr buffalóamjólk framleiddur víða um heim.
Mozzarella-ostur úr buffalóamjólk hefur verið á boðstólum hér á landi en í takmörkuðu magni. Fyrir nokkrum árum var sótt um leyfi til að flytja inn buffalóaost á viðbótartollkvótum en því var hafnað.
Kjöt vatnabuffalóa er seigara en nautakjöt og því oft hægelda til að mýkja það. Indverjar eru stærstu útflytjendur vatnabuffalóakjöts í heiminum.
Skinn buffalóa er þykkt og mikið notað í leðurskó og úr hornum og beinum eru meðal annars unnir skartgripir og hljóðfæri. Mykjan er notuð sem áburður eða þurrku og brennd sem eldiviður.
Vatnabuffalóar eru sagðar vera einstaklega meðfærilegar skepnur og hreint barnameðfæri. Konur, iðulega ungar stúlkur, sjá yfirleitt um mjaltirnar en karlmenn og helst ungir drengir um dýrin þegar þeim er beitt fyrir plóg eða sem burðar- eða dráttardýr fyrir vagni.
Klaufir vatnabuffalóa eru breiðar og sveigjanlegar og gripirnir fótvissir fyrir plógi í blautum og hálum jarðvegi hrísgrjónaakranna. Dýrin flytja uppskeruna í hús og þeim er beitt þegar grjónin eru möluð. Vegna þessa eru vatnabuffalóar stundum kallaðir lifandi dráttarvélar austursins.
Buffalóaklónar á Filippseyjum
Fyrsti klónaði vatnabuffalóakálfurinn leit dagsins ljós á rannsóknastofu á Filippseyjum 15. september árið 2007. Sampura eins og kálfurinn var kallaður drapst viku eftir fæðingu vegna erfðagalla. Filippseyingarnir létu það ekki slá sig út af laginu og nokkrum mánuðum síðar kom annar klónaður kálfur í heiminn sem fékk nafnið Garima.
Hinn 1. janúar 2008 var sagt frá því á Filippseyjum að vísindamönnum þar hefði með hjálp erfðatækni tekist að auka nyt vatnabuffalóakúa úr fjórum lítrum í átján á dag.
Vatnabuffalóinn er eitt af þjóðartáknum Filippseyja.
Vatnabuffalóar og menning
Vatnabuffalóar tengjast víða í Asíu helgihaldi og þeim fórnað í tengslum við tilbeiðslu og haft er fyrir víst að Lae Tse, höfundur Tao-te-king, sem á íslensku kallast Bókin um veginn, hafi yfirgefið Kína ríðandi á vatnabuffalóa.
Samkvæmt hindúasið ríður dauðaguðinn Yama vatnabuffalóabola þegar hann heimsækir viðskiptavini sína og hindúagyðjurnar Varahi og Vihot Mata hafa vatnabuffalóa sem reiðskjóta. Í goðsögnum hindúa fyrirfinnst vera sem líklega er fyrirmynd Mínótárus sem var maður með nautshaus í grískri goðafræði. Hindúa-útgáfan er undirheimaguð sem kallast Mahishasura og er hálfur maður og hálfur vatnabuffalói.
Í Víetnam, á Filippseyjum og Taílandi eru á hverju ári haldnar hátíðir þar sem vatnabuffalóanautaat kemur við sögu. Í ötunum er annað hvort att saman tveimur nautum upp á líf og dauða eða manni og nauti. Í lok atanna er nautunum fórnað.
Eitt magnaðasta atriðið í kvikmyndinni Apocalypse Now sýnir þegar vatnabuffalóa er fórnað á sama tíma og Martin Sheen drepur Marlon Brando við undirleik The Doors.
Vatnabuffalóakappreiðar eru vinsælt gaman á Indlandi og víðar í Suðaustur-Asíu.
Vatnabuffalóar á Íslandi
Ekki er vitað að enn sem komið er hafi vatnabuffalói stigið fæti á Íslandi en aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni. Hugsanlega getur innflutningur á vatnabuffalóum á fæti orðið íslenskum bændum lyftistöng og þeir skellt sér út í framleiðslu á buffalóaostum og kjöti.