Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
„Það er fiskur úti um allt, hringinn í kringum landið. Hver einasti strandveiðimaður sem okkur er kunnugt um hefur sömu sögu að segja; það er allt vaðandi í fiski,“ segir Arthur Bogason.
„Það er fiskur úti um allt, hringinn í kringum landið. Hver einasti strandveiðimaður sem okkur er kunnugt um hefur sömu sögu að segja; það er allt vaðandi í fiski,“ segir Arthur Bogason.
Mynd / Haukur Hólmsteinsson
Á faglegum nótum 13. júlí 2023

Veiðum líklega lokið í næstu viku

Höfundur: Þorvaldur B. Arnarson

Þau 10.000 tonn af þorskkvóta sem matvælaráðherra úthlutaði strandveiðimönnum fyrir strandveiðitímabil ársins eru svo gott sem uppurin, nú strax í byrjun júlímánaðar.

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, furðar sig á því hversu þröngt strandveiðistakkurinn var sniðinn þetta árið í ljósi þess hversu mjög þorskstofninn hafi styrkst frá síðasta ári.

Lítil aukning þrátt fyrir styrkingu stofnsins

„Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar voru á þá leið að íslenski þorskstofninn hefði styrkst um að minnsta kosti 7% frá fyrra ári, en engu að síður varð það niðurstaðan að ráðleggja 1% aukningu á þorskafla þetta fiskveiðiárið,” segir Arthur.

Niðurstaðan hafi því verið vonbrigði, sér í lagi í ljósi þess sem hann segir strandveiðimenn hafa reynt á eigin skinni það sem af er tímabils. „Það er fiskur úti um allt, hringinn í kringum landið. Hver einasti strandveiðimaður sem okkur er kunnugt um hefur sömu sögu að segja; það er allt vaðandi í fiski.

Það er eilítið merkilegt að Hafrannsóknastofnun taki sínar mælingar snemma vors og úthlutun sé ákvörðuð út frá þeirra ráðleggingum, en svo þegar menn halda til veiða þá er ekki þverfótað fyrir fiski. Það er allt teppalagt, landið hringinn um kring,“ segir hann.

Mokveiði landið um kring

Strandveiðitímabilið hefst að jafnaði 2. maí ár hvert. Árið 2022 lauk strandveiðitímabilinu 23. júlí en nú er staðan sú að rétt um 90% úthlutaðs strandveiðikvóta er þegar veiddur.

„Strandveiðitímabilið mun því klárast eftir næstu helgi, enda potturinn svo gott sem tómur. Það er súrt í brotið fyrir karlana að hverfa frá veiðum nú strax í júlíbyrjun enda er veiðitímabilið rétt að rjúfa tveggja mánaða markið,“ segir Arthur. Í reglugerð komi fram að heimilt sé að veiða tólf veiðidaga á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst en nú sé kvótinn búinn og menn séu því einfaldlega nauðbeygðir til að hætta.

„Ég leyfi mér að setja spurningarmerki við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar annars vegar og upplifun þeirra 700 sjómanna sem stunda strandveiðar við Íslandsstrendur. Hvernig má það vera að ráðherra skammti strandveiðimönnum 10.000 tonn á meðan það mokveiðist enn undan hverri einustu fjöru?“ bætir Arthur við.

Heimild til aukningar strandveiðikvóta skýr og til staðar

Aðspurður um það hvort ráðherra geti aukið við strandveiðipottinn úr því sem komið er segir Arthur að sú sé vissulega raunin. „Við vonum svo sannarlega að ráðherra auki við, já.

Við erum einfaldlega sannfærðir um það að það sé af miklu meira en nægu að taka, en það virðist ekki alveg fara saman hljóð og mynd í ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar annars vegar og upplifun strandveiðimanna hins vegar hvað þetta varðar. Ef þú spyrð mig þá er hreinlega ómögulegt að 700 sjómenn hringinn í kringum Ísland, sem allir hafa nákvæmlega sömu sögu að segja, hafi svona kolrangt fyrir sér hvað ástand fiskistofna varðar. Ráðherra hefur hins vegar fulla heimild til að auka við strandveiðipottinn í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin og það myndi gleðja okkur gríðarlega. Við sjáum til hvað verður í þeim efnum,“ segir hann.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hljóðaði upp á að heildarmagn þorsks yrði 211.309 tonn fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, sem er 1% aukning frá árinu í fyrra þegar ráðlagður þorskkvóti var 208.846 tonn. Eins og fyrr segir er 10.000 tonnum af því magni úthlutað til strandveiðimanna og mætti sú tala að mati Arthurs vera mun hærri.

„Það hlýtur að fara að mega endurskoða þetta, því það er bara ósköp einfaldlega rangt gefið. Hér er ekki einu sinni verið að taka tillit til þess sem við vitum að viðgengst og er viðvarandi vandamál, sem er brottkast. Það er ekkert tillit til þess tekið að staðreyndin er sú að það er ákveðið hlutfall afla stóru skipanna sem iðulega hverfur aftur í hafið, á meðan strandveiðimenn hirða hvern einasta sporð. Þar að auki þrengir að strandveiðikörlum með auknum reglusetningum frá ári til árs, og ef fram heldur sem horfir verður það komið í reglugerð innan skamms hvorum megin menn mega pissa yfir borðstokkinn eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs hverju sinni,“ segir Arthur Bogason um núverandi ástand íslenska strandveiðigeirans.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...