Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
„Með því að takmarka fjölda hryssa í blóðtökustarfsemi er jafnframt verið að takmarka atvinnufrelsi bænda,“ segir Katrín Pétursdóttir m.a. í grein sinni.
„Með því að takmarka fjölda hryssa í blóðtökustarfsemi er jafnframt verið að takmarka atvinnufrelsi bænda,“ segir Katrín Pétursdóttir m.a. í grein sinni.
Mynd / ghp
Af vettvangi Bændasamtakana 21. maí 2024

Atvinnuréttindi bænda

Höfundur: Katrín Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands.

Íslenska ríkinu hefur verið stefnt fyrir dómi vegna ákvörðunar matvælaráðherra um að fella starfsemina um blóðtöku úr fylfullum hryssum undir reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni.

Katrín Pétursdóttir.

Það er þá fjórða regluverkið sem atvinnugreinin vinnur eftir á þeim 22 árum eftir að reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum var felld úr gildi sem hafði gilt um
atvinnugreinina í um eitt ár. Tilgangur setningar þeirrar reglugerðar var að leysa úr réttaróvissunni og gera það skýrt að starfsemin sé leyfisskyld og háð skilyrðum og að hún falli ekki undir ákvæði reglugerðar um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni, sbr. skýrsla starfshóps um blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni gildir hins vegar ekki um starfsvenjur í landbúnaði sem ekki eru á tilraunastigi. Sú starfsemi sem hér um ræðir hefur verið stunduð í hartnær 50 ár og er rekið til rannsókna frá 5. og 6. áratug 20. aldar og verður að teljast afgerandi niðurstaða að atvinnugreinin falli ekki undir gildissvið reglugerðarinnar vegna þess. Tilgangur reglugerðarinnar er m.a. að stuðla að takmörkun á notkun dýra í vísinda- og menntunarskyni. Með því að takmarka fjölda hryssa í blóðtökustarfsemi er jafnframt verið að takmarka atvinnufrelsi bænda, sem starfa við atvinnugreinina, sem eru grundvallarmannréttindi, tryggð með stjórnarskrá. Til áréttingar nægja reglugerðarákvæði ekki í þessu samhengi.

Skilyrði skerðingar

Til að skerða megi atvinnufrelsið þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt, annars vegar þarf lagaákvæði að kveða á um skerðinguna og hins vegar verða almannahagsmunir að liggja þeirri lagasetningu til grundvallar.

Orðalagið kveður skýrt á um að bæði skilyrðin þurfi að vera uppfyllt og nægir hvorki lagasetningin ein og sér ef almannahagsmuni skortir, né heldur dugar að almannahagsmunir séu til staðar ef heimild til skerðingar skortir í lög. Þegar ágreiningur stendur um það hvort stjórnvöld hafi viðhlítandi lagaheimild til að taka íþyngjandi ákvörðun ræðst það af lögskýringu á viðkomandi lagaákvæði, hvort það hafi að geyma fullnægjandi valdheimild. Þeim mun tilfinnanlegri og meira íþyngjandi sem skerðingin er, þeim mun skýrari þarf sú lagaheimild að vera, sem viðkomandi stjórnvaldsfyrirmæli er mæla fyrir um skerðinguna, byggja á. Kröfur til skýrleika lagaheimildar eru breytilegar allt eftir efni stjórnvaldsákvörðunar.

Af hæstaréttardómum sem fallið hafa er ljóst að strangar kröfur eru gerðar til skýrleika lagaheimilda í tilvikum þeim þar sem um mannréttindi á borð við atvinnufrelsi er að ræða, eins og kom fram í dómi Hæstaréttar nr. 239/1987. Þar segir: „Samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar þarf lagaboð til að leggja bönd á atvinnufrelsi manna. Með orðinu „lagaboð“ er átt við sett lög frá Alþingi. Reglugerðarákvæði nægja ekki ein sér. Lagaákvæði er takmarka mannréttindi verða að vera ótvíræð. Sé svo ekki, ber að túlka þau einstaklingi í hag, því að mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum en ekki stjórnvöldum.“

Menn ráða yfir réttindum sínum

Atvinnuréttindi geta byggst á sérstöku leyfi af hálfu hins opinbera og teljast þannig til eignarréttinda rétthafans og njóta þá verndar samkvæmt eignarrétti. Menn ráða yfir réttindum sínum, skv. opinberu leyfi, og geta því hagnýtt sér slík réttindi og hægt er að leita til dómstóla til verndar réttindum sem leyfið veitir, líkt og málið sem er fyrir dómstólum nú snýst meðal annars um.

Má því ætla, að með því sé gefið í skyn, að um atvinnuréttindi sé að ræða, sem getur notið verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og styður það þá skoðun, að atvinnuréttindi almennt geti talist eign í skilningi þess ákvæðis, sbr. einnig dóm Hæstaréttar nr. 1996, bls. 3002 þar sem fram kemur að samkvæmt grunnreglum sem þá giltu um eignarrétt og atvinnufrelsi, urðu þau réttindi ekki síðar felld niður nema með heimild í settum lögum og þar ekki takmörkuð nema samkvæmt almennri reglu, þar sem jafnræðis væri gætt. Hæstiréttur féllst ekki á að stjórnvöld hafi getað farið með þetta vald nema að fenginni ótvíræðri heimild almenna löggjafans.

Á borði dómstóla

Undirrituð telur að með reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum hafi stjórnvöld gefið út sérstaka heimild til að stunda starfsemina sem um ræðir þar sem sérstaklega er tekið fram í reglugerðinni að gildistími hennar sé til 6. október 2025. Jafnframt var gefið út sérstakt leyfi til blóðtöku úr fylfullum hryssum sem gildir til og með 5. október 2025 í samræmi við 3. gr. reglugerðar um blóðtöku úr fylfullum hryssum, og á grundvelli 20. gr. laga um velferð dýra, sem verður að teljast sem eign í skilningi eignarréttar.

Þeir bændur sem svo reiða sig á tekjur sem aflast vegna atvinnustarfseminnar njóti þeirra atvinnuréttinda sem vernduð eru með stjórnarskrá. Matvælastofnun gaf það út nýlega að starfsleyfið sem um ræðir er í gildi til 5. október 2025, sem er hárrétt afgreiðsla að mati undirritaðrar.

Þá er það komið á borð dómstóla að úrskurða um hvort starfsemi til blóðsöfnunar úr fylfullum hryssum falli undir reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni, þrátt fyrir ákvörðun matvælaráðherra um að fella starfsemina undir reglugerðina sem ekki gildir um starfsvenjur í landbúnaði sem ekki eru á tilraunastigi.

Skylt efni: blóðmerahald

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...