Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Fréttir í síðustu viku um lokun Kornax-verksmiðjunnar í Sundahöfn eru bæði stórar fréttir og vondar fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar.
Fréttir í síðustu viku um lokun Kornax-verksmiðjunnar í Sundahöfn eru bæði stórar fréttir og vondar fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar.
Mynd / ál
Af vettvangi Bændasamtakana 23. janúar 2025

Mætir fæðuöryggi okkar afgangi?

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Fréttir í síðustu viku um lokun Kornax-verksmiðjunnar í Sundahöfn eru bæði stórar fréttir og vondar fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Þetta öryggi sem stöðugt fleiri eru meðvitaðir um að verður að tryggja eins og hægt er með öllum tiltækum ráðum bæði í bráð og lengd. Við vitum auðvitað um þann veikleika að fæðuframleiðsla á Íslandi verður alltaf háð innflutningi á aðföngum. Við vitum hins vegar líka að það er bæði hægt að minnka innflutningsþörfina og stórauka birgðasöfnun í landinu. Hið fyrrnefnda er langtímaverkefni en öryggisbirgðir samfélagsins má nánast byggja upp á augabragði. Svona rétt eins og þegar heimilin ákveða að fjárfesta í dósamat og vatni ef skórinn skyldi skyndilega kreppa.

Hvað heimilin varðar eru til ákveðnar leiðbeiningar um hvað geti verið hæfilegt að eiga á lagernum fyrir hverja fjölskyldustærð. Hvað heilt samfélag varðar reynir á einhverja blöndu af eigin áhættumati, útreikningum og pólitískri ákvarðanatöku um hversu stórt borð sé eðlilegt að hafa fyrir báru við þær ólíku aðstæður sem geta skapast. Þetta er eflaust flókin vinna sem leiðir væntanlega aldrei til vísindalegrar niðurstöðu sem ekki verður deilt um. En vinnuna þarf samt að inna af hendi. Mér vitanlega hefur það ekki verið gert hér á landi nema þá e.t.v. í einhverju skötulíki.

Þess vegna var afar ánægjulegt að sjá það daginn sem þessar línur eru skrifaðar að matvælaráðherra hefur strax brugðist við Kornax-fréttinni og hvatt til þess að allar leiðir verði skoðaðar til þess að halda hveitiframleiðslu áfram í landinu. Haft er eftir Helga Eyleifi Þorvaldssyni, aðjunkt við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, að nágrönnum okkar á Norðurlöndum þyki hæfilegt að hafa öryggisbirgðir sínar af hveiti nægar fyrir 6–12 mánaða neyslu. Hérlendis höfum við látið 3–4 mánaða birgðir duga. Við lokun Kornax-verksmiðjunnar verði allt hveiti flutt til landsins í sekkjum og þá megi gera ráð fyrir að birgðahald verði ekki meira en til eins mánaðar eða svo. Það er því fagnaðarefni að matvælaráðherra hvetji m.a. til þess að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að Kornax sé ekki heimilt að reisa nýja verksmiðju á Grundartanga verði kærð og mögulega endurskoðuð í kjölfar þess.
Aðrar öryggisbirgðir tengdar okkar eigin matvælaframleiðslu og um leið fæðuöryggi landsmanna þarfnast líka árvekni og umræðu. Hvað finnst okkur hæfilegt að eiga miklar varabirgðir af fóðri sem er t.d. grunnforsenda fyrir alifugla- og svínarækt? Hvað er eðlilegt að safna upp miklum eldsneytisbirgðum þegar óveðursský stríðsátaka í heiminum hrannast upp? Og hvað eru hæfilegar varabirgðir af sáðvöru og áburði?

Svörin við spurningunum hér að ofan eru eflaust nánast eins mismunandi og þau eru mörg. Og vitaskuld eru þau líka mismunandi eftir því hvort við lifum á friðartímum eða ekki. Gerum við það um þessar mundir? Svarið er líklega nei og þá ekki síst ef við lítum þannig á að heimsfaraldrar sjúkdóma og veðurhamfarir sökum loftslagshlýnunar ógni a.m.k. stöðugleikanum sem við höfum búið við í svo langan tíma.

Í síðustu viku bárust einnig fréttir af gin- og klaufaveiki í Þýskalandi. Mér dettur ekki í hug að gera þann vonda veruleika að einhverri sérstakri ógn við Ísland en hún leiðir samt hugann auðvitað að því hvað landfræðileg einangrun okkar og afdráttarlaus hreinleiki landbúnaðarframleiðslunnar eru mikil verðmæti í eignasafni þjóðarbúsins. Varðveisla þeirra er ekki á ábyrgð bænda heldur stjórnvalda. Vonandi munu slík grundvallaratriði komast að í viðræðunum sem fram undan eru á þessu ári um nýja búvörusamninga. Þar fáum við bændur eflaust kærkomið tækifæri til þess að reifa margt fleira en einungis það sem snertir fjárhagslega afkomu búgreinanna.

Ég geri ekki lítið úr þeim bútasaumi og lagfæringum sem gerðar hafa verið fyrir einstakar búgreinar á undanförnum misserum og árum. Þar sýndu þáverandi
stjórnvöld langþráðan skilning á bráðum vanda sem víða blasti við og brugðust við honum með þakkarverðum hætti. Í komandi búvörusamningum reynir hins vegar ekki á reddingar heldur fyrirsjáanleika og stöðugleika hvað varðar eðlilega afkomu og samkeppnishæf laun fyrir vinnu bænda. Öðruvísi keppum við ekki um atgervi ungs fólks þegar það velur sér leiðir til menntunar og starfsvettvang.

Verkefni þeirra sem setjast að samningaborði vegna nýrra búvörusamninga verður að horfa yfir allt svið íslensks landbúnaðar til langs tíma. Það er krefjandi og kannski illmögulegt á sama tíma og fyrir liggur sá vilji stjórnvalda að fara ekki síðar en á árinu 2027 í þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulegar samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu. Það er líka í umræðunni um þessar mundir að heimila innflutning og notkun á nýju kúakyni. Hvort tveggja eru auðvitað byltingarkenndar breytingar fyrir umgjörð hins hefðbundna landbúnaðar okkar.

Þessu til viðbótar er svo nýkviknaður áhugi fjölmargra erlendra aðila til uppkaupa á jarðnæði bænda í öðrum tilgangi en til matvælaframleiðslu. Þar geta einstaka bændur vissulega lent í miklum og óvæntum uppgripum. Afkoma bænda sem yrkja jörðina til matvælaframleiðslu er hins vegar grundvallarþáttur í fæðuöryggi þjóðarinnar. Þess vegna eru komandi búvörusamningar það líka. Varaforði okkar á mikilvægum póstum eins og korni, eldsneyti, áburði, fóðri o.s.frv. skiptir auðvitað máli en það er hin daglega framleiðsla í okkar eigin landi sem ávallt verður hryggjarstykkið í fæðuöryggi þjóðarinnar. Það öryggi má aldrei mæta afgangi.

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...

Vandi bænda í ESB
Lesendarýni 25. mars 2025

Vandi bænda í ESB

Landbúnaður í Evrópusambandinu stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem ógna bæ...

Myglufaraldur í húsum
Lesendarýni 19. mars 2025

Myglufaraldur í húsum

Fréttir berast reglulega um myglu í húsum, jafnvel svo útbreidda, að rífa þurfi ...

Hvað er Gvendardagur?
Lesendarýni 14. mars 2025

Hvað er Gvendardagur?

Á liðnum árum og áratugum hafa slæðst inn í dagatal okkar dagar sem bera hin ýms...

Tækifæri í kolefnisjöfnun
Lesendarýni 13. mars 2025

Tækifæri í kolefnisjöfnun

Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. B...

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar
Lesendarýni 13. mars 2025

Vindmyllur fagfjárfesta eru óhagkvæmar

Á Íslandi eru nú plön um að reisa um 30 vindmyllugarða víðs vegar um landið í na...

Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?
Lesendarýni 12. mars 2025

Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?

Í þessari grein er fjallað um blöndun á eldislaxi við villtan lax sem gerist þeg...

Kýrlaus varla bjargast bær
Lesendarýni 12. mars 2025

Kýrlaus varla bjargast bær

Í síðasta Bændablaði birtu Baldur Helgi Benjamínsson og Jón Viðar Jónmundsson ág...