Starfsskilyrði íslensks landbúnaðar
Árið 2022 var sannarlega ár mikilla áskorana í búrekstri vegna mikilla hækkana á öllum helstu aðföngum.
Stjórnvöld studdu landbúnaðinn með 650 milljóna króna álagi á jarðræktarstyrki og landgreiðslur auk 50 milljón króna stuðningi við áburðarráðgjöf. Í júní 2022 skipaði matvælaráðherra spretthóp til að skila tillögum og valkostagreiningu vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi. Niðurstaða þessarar vinnu var 2.460 milljón króna stuðningur til að koma til móts við verðhækkanir á aðföngum. Auk þessa stuðnings komu til hækkanir á afurðaverði til bænda, þó með misjöfnum hætti eftir búgreinum.
Nú þegar liðnir eru næstum 4 mánuðir af þessu rekstrarári er ljóst að staða landbúnaðarins er lítið betri en hún var fyrir ári síðan. Hækkanir á aðföngum hafa gengið lítið til baka en auk þess hefur launakostnaður, aðkeypt þjónusta og fjármagnskostnaður hækkað verulega.
Óviðunandi afkoma í sauðfjár- og nautgriparækt
Miðað við hækkun rekstrarkostnaðar í landbúnaði má gera ráð fyrir því að sauðfjárræktin þurfi um 1.800 milljónir til að reksturinn skili ásættanlegri afkomu á þessu ári. Þá sýna greiningar Bændasamtakanna að nautakjöts- framleiðslan þurfi um 1.700 miljónir til að skila viðunandi afkomu. Rétt er að taka það fram að þessar tvær búgreinar hafa nú um langt skeið staðið frammi fyrir lélegri afkomu sem kemur nú skýrt fram í samdrætti í framleiðslu. Bændur í þessari framleiðslu eru markvisst að draga saman í sínum rekstri. Þörf er á skýru inngripi sem skapar rekstrarforsendur til lengri tíma.
Tollverndin reynist bitlaus
Sú eftirgjöf sem orðið hefur á tollvernd kemur skýrt fram í minni markaðshlutdeild á innlendri framleiðslu á alifugla-, svína- og nautakjöti.Innflutningur innan tollkvóta sem og rýrnun á verðgildi WTO tolla gerir það að verkum að innflutt vara stýrir að mestu verðþróun á markaði. Þannig verður ekki eðlileg verðmyndun milli smásölu og frumframleiðslu sem kemur fram í óásættanlegri afkomu í landbúnaði sem leiðir til samdráttar í framleiðslu. Verði ekkert að gert mun kjötframleiðsla á Íslandi halda áfram að dragast saman. Við blasir stjórnlaust hrun í þessum greinum.
Staðan er grafalvarleg
Á 152. löggjafarþingi Alþingis voru samþykkt lög um breytingu á tollalögum sem fólu í sér að felldir voru niður allir tollar á landbúnaðarvörum sem eru upprunnar í Úkraínu. Áhrif frumvarpsins voru talin óveruleg, enda nam heildartollverð innfluttra vara frá Úkraínu til Íslands samtals 500 milljónum kr. árið 2021 og enginn innflutningur var á landbúnaðarvörum.
Tilgangur laganna með breytingum um tímabundna niðurfellingu tolla af landbúnaðarvörum frá Úkraínu var að sýna táknrænan stuðning í verki við úkraínska bændur. Samt virðist það vera svo að Norðmenn hafi á síðasta ári ekki samþykkt að fella niður tolla af landbúnaðar- vörum frá Úkraínu sem væri í beinni samkeppni við þeirra eigin innanlandsframleiðslu. Af hverju? Jú, því um leið og dyrnar eru opnaðar, verður erfitt að loka þeim aftur enda veit enginn hvað stríðið mun vara lengi.
Á tímabilinu september 2022 og fram í febrúar 2023 voru nokkrar sendingar af kjúklingakjöti frá Úkraínu fluttar til landsins án þess að vera bornar undir eftirlit Matvælastofnunar, eins og ber að gera. Tollyfirvöld létu MAST í té upplýsingar um sendingarnar og kallaði stofnunin eftir gögnum frá viðkomandi innflytjendum. Með öðrum orðum, innflutningsleyfi lá ekki fyrir skv. ákvæðum reglugerðar um innflutning, en innflutningsleyfið byggir m.a. á áhættumati sem tekur til dýrasjúkdómastöðu upprunalands og ber innflytjendum að sækja um slíkt leyfi áður en flutt er inn í fyrsta sinn til landsins. Það var ekki gert.
Úkraínsku fyrirtækin sem kjúklingur er keyptur af og seldur hérlendis eru stórfyrirtæki á heimsvísu og eiga fátt sameiginlegt með íslenskum bændum. Til að bera saman þennan alþjóðlega risa við íslenskan raunveruleika þá framleiðir meðalfjölskyldubú í innleggsviðskiptum hér á landi u.þ.b. 240 tonn af kjúklingi árlega á meðan hinn alþjóðlegi framleiðandi framleiðir 754.000 tonn. Íslenski bóndinn framleiðir því einungis 0,03% á við hið alþjóðlega stórfyrirtæki. Samkvæmt mælaborði landbúnaðarins var heildarframleiðsla kjúklinga á Íslandi 9.086 tonn árið 2022. Það sýnir að hið erlenda stórfyrirtæki sem kjúklingurinn frá Úkraínu er fluttur inn frá, er einungis 4-5 daga að framleiða ársframleiðslu íslenskra kjúklingabænda.
Þau tæplega 200 tonn sem komið hafa til Íslands vega létt í þeirra umsvifum en fyrir lítið hagkerfi eins og okkar munar þetta miklu og neikvæð áhrif á íslenskan alifuglabúskap og raunar allan íslenskan landbúnað eru langt frá því að hafa komið í ljós að fullu. Um 500 manns starfa við alifuglarækt á Íslandi. Fleiri lönd í Evrópu eru í svipaðri stöðu en Samtök evrópskra landbúnaðarframleiðenda lýstu á dögunum yfir áhyggjum af mikilli aukningu á magni úkraínskra landbúnaðarvara sem fluttar eru inn til Evrópusambandsins. Því hafa þau óskað eftir endurskoðun á skilmálum um fríðindaviðskiptaskilyrði við Úkraínu og hugsanlega útilokun sumra vara frá lista yfir tollfrjáls viðskipti.
Ein meginforsenda þess að hægt sé að byggja upp íslenska framleiðslu er að þeir sem hana stunda geti búið við eðlilegt rekstrarumhverfi og horft til framtíðar. Íslenskir kjúklingabændur hafa í gegnum tíðina eingöngu getað treyst á tollvernd alifuglakjöts þar sem greinin nýtur ekki opinbers stuðnings í gegnum búvörusamninga. Síðustu ár hafa tollar á innflutt kjúklingakjöt hins vegar farið lækkandi og fimmfölduðust tollkvótar t.a.m. árið 2018.
Samtökin taka undir það að mikilvægt sé að allar þjóðir leggi hönd á plóg til stuðnings Úkraínu en þó þurfi ríkisstjórnin og alþingismenn að svara því hvort að slík lagasetning sem samþykkt var sl. vor, og öll teikn eru á lofti um að verði framlengd, sé réttlætanleg gagnvart íslenskri landbúnaðarframleiðslu, eru ekki til önnur aðferðarfræði til að styðja úkraínska bændur án þess að skaða verulega rekstrarumhverfi íslenskra bænda?