Tæp 600 milljóna króna úthlutun til ræktunar á riðuþolnum sauðfjárstofni
Tæpum 600 milljónum króna úr ríkissjóði verður varið á næstu 7 árum við að hraða ræktun á riðuþolnum sauðfjárstofni á ræktunarsvæðum sem skilgreind eru sem áhættusvæði.
Það kemur fram í tilkynningu frá Matvælaráðuneytinu sem Bændasamtökin birtu.
Þar segir að farið verði að tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðafræði við útrýmingu riðuveiki, sem felur m.a. í sér að Matvælastofnun yrði heimilt að undanskilja frá niðurskurði fé sem sýnt er fram á að beri verndandi arfgerð.
Haft er eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra að stefnt sé að því að greina árlega 15 – 40.000 fjár með aðgerðunum og með því muni líkur á stórfelldum niðurskurði minnka hratt.