Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum
Stríðið í Úkraínu hefur sett hrávörumarkaði heimsins á hliðina, breytt jafnvægi í viðskiptum, framleiðslu og neyslu sem hefur leitt til verðhækkana sem eiga sér engin fordæmi. Í nýlegri skýrslu frá Alþjóðabankanum er því spáð að þessi staða muni jafnvel standa fram yfir 2024.
Hækkanir á orkuverði síðustu mánaða minna um margt á stöðuna sem varð í kjölfar olíukreppunnar 1973. Gert er ráð fyrir því að orkuverð haldi áfram að hækka á þessu ári, en að sú hækkun gangi eitthvað til baka árin 2023 og 2024. Að sama skapi má gera ráð fyrir að landbúnaðarvörur haldi áfram að hækka í verði á þessu ári. Því er spáð að verð á hveiti muni jafnvel hækka um allt að 40% á árinu. Þessi þróun er háð því hvenær átökum í Úkraínu lýkur og ekki síður hvernig fóðurrækt á heimsvísu muni þróast.
Í nýlegri skýrslu frá Alþjóðabankanum (Commodity Markets Outlook – April 2022) er dregin upp svört mynd af stöðunni á hrávörumörkuðum og þeim áhrifum sem hækkanir munu hafa á matvælaverð. Fátækustu þjóðir heimsins munu finna mest fyrir þessari hækkun, enda eru þær oft og tíðum háðar innflutningi á matvælum. Alþjóðastofnanir hafa síðustu mánuði varað við hættu á aukinni hungursneyð í heiminum. Alþjóðabankinn gaf út yfirlýsingu fyrir nokkru síðan, þar sem kom fram að fyrir hvert prósentustig sem matvælaverð hækkar í heiminum fjölgar um 10 milljónir manna í hópi þeirra sem lifa við mikla fátækt.
Hér á landi er verðhækkun á landbúnaðarvörum ekki komin fram nema að litlu leyti. Ef litið er á vísitölu neysluverðs hafa mjólkurvörur hækkað um 8,4% síðustu 12 mánuðina og kjötvörur um 6,9%. Á sama tíma hefur verðbólga verið 7,2%. Vissulega eru þetta miklar hækkanir. Sérstaklega í ljósi þess að enn sér ekki fyrir endann á hækkun á fóðurvörum og áburði.
Unnsteinn Snorri Snorrason