Fallegasta húsið – uppbygging og umsátur
Við Sogið stendur afar fallegt hús á fallegum stað. Hönnun hússins og smíði, staðarval og aðlögun að umhverfinu er hugsað og framkvæmt með þeim hætti að kalla má með sönnu að húsið og lóðin sem því tilheyrir sé þjóðargersemi. Áhugamenn um íslenska menningu, byggingarsögu og náttúruvernd vita að hér er verið að tala um bæinn Laxabakka, sumarhús og höfundarverk Ósvaldar Knudsen kvikmyndagerðarmanns og málarameistara.
Þegar svona mikil verðmæti eru í húfi mætti halda að allt meðvitað fólk myndi leggjast á eitt að varðveita þessa einstöku perlu. En eins og lesendur Bændablaðsins hafa verið upplýstir um (sbr. viðtal við Hannes Lárusson 11. apríl sl.) hefur Landvernd og Héraðsnefnd Árnesinga, sem eru eigendur aðliggjandi jarðar, stofnað til ágreinings við núverandi og fyrri eigendur Laxabakka og þannig markvisst komið í veg fyrir allar uppbyggilegar aðgerðir á svæðinu í hátt á annan áratug.
Hannes Lárusson.
Í viðtali við Auði Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, sem birtist í Bændablaðinu 29. maí sl. vantar all mikið upp á að staðreyndum sé haldið til haga og, að því er virðist, á nokkrum stöðum vísvitandi gripið til ósanninda.
Staðreyndir
Íslenski bærinn ehf. að Austur-Meðalholtum í Flóahreppi, sem er hugsjónastofnun, hefur að meginmarkmiði sýningar- og fræðslustarf um íslenskan torfbæjararf og vistvæna byggingarlist auk ræktunar heðfbundinnar verkmenningar, er þinglýstur eigandi að Laxabakka. Laxabakki er með landnúmer L170095, skráð í veðbók sem eignarlóð 10.000m2 eða 1 hektari að stærð. Íslenski bærinn greiðir Grímnes- og Grafningshreppi fasteignagjöld af þessari eign, grundvölluð á fasteignamati á húsum og tilheyrandi lóð. Það er því beinlínis rangt hjá Auði Magnúsdóttur að halda því fram að Landvernd og Héraðsnefnd Árnesinga séu þinglýstir eigendur að Laxabakka.
Íslenski bærinn kaupir Laxabakka, hús ásamt tilheyrandi lóð af Lögheimtunni, sbr. kaupsamning dags. 8. júní 2018. Íslenski bærinn hefur aldrei gert neina sértæka samninga um húsin að Laxabakka sem eign aðskilda tilheyrandi eignarlóð og því algerlega úr lausu lofti gripið að halda fram að eignarhald á Laxabakkahúsunum sé aðskilið landinu sem ávallt hefur tilheyrt þeim.
Fulltrúar Íslenska bæjarins hafa aldrei lagt fram, hvorki skriflega eða munnlega, hugmyndir um lagningu nýs vegar að Laxabakka né uppbyggingu bílastæða. Að lóð Laxabakka liggur stuttur vegslóði jafngamall húsunum sem endar í litlu bílastæði sem er vel innan upphaflegra lóðamarka og verður hann notaður við uppgerð hússins. Engar hugmyndir hafa verið uppi um að breikka þennan gamla vegslóða, enda yrði hann aldrei notaður nema sem þjónustuleið fyrir eigendur og umsjónarmenn Laxabakka.
Það hafa ekki verið lagðar fram neinar fomlegar hugmyndir um byggingu þjónustuskála á lóð Laxabakka. Leyfi til byggingar, á annars nauðsynlegu þjónustuhúsi með snyrtingu og þess háttar, myndi þegar til kemur væntanlega heyra undir skipulags- og byggingarfulltrúa en hvorki Landvernd né Héraðsnefnd Árnesinga.
Tvær umsóknir á vegum Íslenska bæjarins varðandi Laxabakka hafa verið lagðar fram hjá skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita. Önnur um skipulagsmál: „Óskað er eftir heimild til að deiliskipuleggja lóð Laxabakka. Í deiliskipulaginu verða sett ákvæði sem heimila endurbyggingu bátaskýlis og sumarhússins með viðbótum til að mæta nútímakröfum um frístundahús. Jafnframt ákvæði um aðkomu og lagnaleiðir að lóð."
Hin lýtur að skráningu lóðarinnar: „Laxabakki - sumarhús Ósvalds Knudsens - byggður 1943. Óskað er eftir staðfestingu á afmörkum lóðarinnar. Einnig að lóðin fái heitið Laxabakki.“ Báðum umsóknum var vísað frá og fengu ekki fullnægjandi afgreiðslu, ekki síst vegna þess að margnefndir nágrannar Laxabakka neita að skrifa undir lóðarblað og staðfesta þar með nær 80 ára lóðalínur.
Þessi staða, meintur ágreiningur um eignarhald, hefur svo leitt til þess að núverandi eigendur Laxabakka fá ekki nauðsynlegan aðgang að rafmagni og vatni, sem gerir allar raunhæfar aðgerðir á svæðinu mjög erfiðar. Þess má geta að Árni Eiríksson oddviti er fulltrúi Héraðsnefndarinnar í hinni svokölluðu Alviðrunefnd (sem á að hafa umsjón með jörðunum Alviðru og Öndverðarnes 2 fyrir hönd Héraðsnefndarinnar og Landverndar) á jafnframt sæti í skipulagsnefndinni sem fjallaði um bæði erindin.
Það er alrangt að forsvarsmenn Íslenska bæjarins hafi ekki átt frumkvæði að eðlilegum samskiptum við fulltrúa Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga. Þvert á móti hefur ítrekað verið reynt að koma á fundum með þessum mótdrægu nágrönnum Laxabakka en án árangurs.
Örfáum dögum eftir að Íslenski bærinn undirritaði kaupsamning um Laxabakka, eða þann 14. júní 2018, er Snorra Baldurssyni, fulltrúa Landverndar í Aviðrunefnd og formanni nefndarinnar, skrifað all ítarlegt bréf þar sem greint er frá þessum viðskiptum og hugmyndir reifaðar um björgunaraðgerðir og uppbyggingu Laxabakka og tillögur lagðar fram um samstarf um uppbyggingu á svæðinu. Bréfinu lýkur með þessum hætti: „Með varðveislu Laxabakka þarna á sínum rétta stað verður því að sníða starfsemina að því, að hún snúist allt í senn, um náttúruvernd og um náttúruna, um menningarsögu, byggingararfleifð og íslenska bæinn. Hús Ósvalds Knudsens verði auk þess ævinlega helgað menningararfi, náttúruvernd og skapandi hugsun.
Okkar mat er að þessar áherslur hljóti að geta að verulegu leyti fallið saman við áherslur Landverndar í sínu starfi, enda blasir við að þegar kemur að náttúrufræðum og gestakomum þeim tengdum er samstarfsflöturinn augljós. Allar framkvæmdir og uppbygging á svæðinu myndu taka ítrasta tillit til verndargildis staðarins og náttúru hans, byggingarlistar og fagurfræði. Við höfum því velt því fyrir okkur að bjóða Landvernd til samstarfs um málið. Að óreyndu teljum við enn að við séum samherjar þegar kemur að menningarvernd og náttúruvernd og skapandi framþróun og sæmþættingu þessara þátta. Nú veltum við því fyrir okkur hvort þú værir tilbúinn að hitta okkur á fundi, auk mín þá Pétur Ámannsson og Þorberg Þórsson, um málið þar sem við myndum reifa frekar þessar samstarfstillögur, vænlegt framhald og framkvæmdir?“
Þessu uppleggi var algerlaga hafnað af Alviðrunefnd og fundur um málið afþakkaður.
Sigríður Anna Ellerup lögræðingur hefur skrifað forsvarsmönnum Landverndar og Hérðsnefnd Árnesinga mörg bréf þar sem eðli málsins og staðreyndir eru reifaðar og ítrekað lagt til að aðilar máls hittist. Í bréfi 15. apríl frá Sigríði segir: „Enn og aftur óskar undirrituð, f.h. Íslenska bæjarins, eftir sáttafundi þar sem aðilar reyna að nálgast lausn á málinu af virðingu fyrir viðfangsefninu.“ Þessar umleitanir hafa enn sem komið er ekki leitt til sáttafundar um þetta furðulega og þráhyggjukennda mál.
Perlan við Sogið
Það verður að teljast óvanalegt og að öllum líkindum ölöglegt athæfi að nágrannar ásælist nærliggjandi eignarlóð og haldi ítrekað fram opinberlega að þeir beinlínis eigi umrædda lóð, þvert á öll opinber skjöl auk nær 80 ára hefðarréttar lögmætra eigenda á lóðinni. Til að bæta gráu ofan á svart eru það fulltrúar almannasamtaka sem ganga fram með þessum ófyrirleitna hætti. Þetta athæfi er líka þeim mun skrítnara þar sem umræddir aðilar fengu í hendur samkvæmt gjafagerningi, þar sem hvergi er minnst á lóð Laxabakka, mörg hundruð hektara lands á svæðinu tilheyrandi jörðunum Öndverðarnes 2 og Alvirðu.
Bæði húsakostur og lönd Alviðru hafa sætt mikilli vanhirðu eigenda um árabil. Í þessu ljósi er því óskiljanlegt hvers vegna þessi samtök sækja nú svona fast að bæta á sig enn einum hektaranum ásamt húsaleifum að sýsla með.
Einnig er eftirtektarvert að á þessu svæði eru tvö önnur sumarhús á jafn stórum lóðum og tilheyra Laxabakka og var stofnað til með sama hætti og á sömu árum. Á lóð annars þessara bústaða var byggt nýtt hús með umtalsverðum framkvæmdum árið 2004 og lagt að rafmagn og vatn eins og eðlilegt má teljast, og að þessum bústað liggur mörg hundruð metra breiður akvegur sem ruddur hefur verið í gegnum skóglendi í landi Öndverðarness 2. Ekki er vitað til að amast hafi verið við þessum framkvæmdum, hvorki af umræddum eigendum né skipulags- og byggingarnefnd svæðisins eða Grímsnes- og Grafningshreppi.
Þrátt fyrir þessa mótdrægu nágranna þá skipar þetta fallega og einstaka hús almennt þvert á móti veglegan sess í hugum fólks á svæðinu og reyndar flestra landsmanna sem þekkja til hússins og svæðisins. Það er ekki síst vegna þessa jákvæða anda sem Íslenski bærinn og velunnarar hans hafa einsett sér að láta ekki undan niðurrifsöflunum í þessu máli og hvika ekki fá því markmiði að koma Laxabakka og þessari litlu lóð sem honum tilheyrir til bjargar og blása í staðinn nýju lífi. Þegar hefur verið hafist handa við þessar aðgerðir þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður, umsátur og ásælni. Fylgjast má með framvindu þessa starfs ýmist á FB síðu verkefnis: Laxabakki. Bauen Wohnen Denken og á Instagram #laxabakki.
Friðunarferli hvað varðar Laxabakka og tilheyrandi lóð er þegar hafið að frumkvæði Minjastofnunar Íslands sem gæti mögulega vegið þungt í þeirri áralöngu viðleitni að rjúfa umsátrið um Laxabakka; og Héraðsnefnd Árnesinga og Landvernd gerist nú ærlegir nágrannar og skrifi tafarlaust undir fyrirliggjandi lóðarblað og gefi þannig grænt ljós á eðlilega uppbyggingu. Perlan við Sogið má ekki glatast.