Flöskudraugur og galdraofsóknir
Í seinni tíð hafa þjóðsögur og þjóðtrú tapað nokkru af upprunalegu gildi. Má eflaust finna margar ástæður til þess, svo sem betra húsnæði, þéttbýlismyndun og aukna efnishyggju.
Árneshreppur, ein af fallegustu sveitum landsins, er nyrsti hreppur í Strandasýslu og nær frá Spena í suðri og norður undir Geirólfsnúp. Ströndin er vogskorin og undirlendi lítið. Frá fyrstu tíð hefur landbúnaður verið nokkur og íbúar stundað sjóróðra.
Sumur eru stutt og hafís liggur oft við land langt fram á sumar. Á löngum vetrum, fyrir tíma raflýsingar og sjónvarps, þegar kuldinn og myrkrið umluktu landið, fór hugmyndaflugið af stað og fólk á Ströndum sem og annars staðar á landinu bjó sér til alls konar sögur og til að skýra heimsmynd sína.
Trékyllisvík var vettvangur trúarofsókna á 17. öld, og þar voru þrír menn brenndir fyrir galdra árið 1654 í klettagjá sem kallast Kistan.
Af þjóðsagnaverum í Árneshreppi má nefna tröllkarlinn Kálf í Kálfatindum og skessuna Kleppu. Kleppa pissaði á grundirnar við Finnbogastaði og bætti því við að þar skyldi aldrei vaxa gras. Hóllinn Kleppa er kenndur við fyrrnefnda skessu, en hún á að liggja undir honum eftir að Finnbogi rammi sparkaði kletti úr Finnbogastaðafjalli og hún varð undir. Þar má einnig finna trú á álagabletti sem ekki má slá, svo sem Grænuflöt í Naustvík.
Nokkurn veginn fyrir miðjum hreppnum í landi Ávíkur er svokallaður Skyrkollusteinn. Steinninn er meðal annars sérstakur fyrir það að vera gerður úr bergi sem ekki finnst á Íslandi og er talið að hann hafi borist í Víkina með hafís frá Grænlandi. Í honum á að búa huldufólk og oft hafa sést ljós frá steinunum. Þau álög hvíla á honum að ekki má benda á hann því þá sker viðkomandi sig í fingurinn.
Sagan segir að Guðmundur góði hafa vígt Urðirnar á ferð sinni um Strandir og að þar hafi aldrei orðið slys á mönnum. Fleira mætti til nefna eins og drauginn Ingólfsfjarðarmóra sem stundum er nefndur Ófeigsfjarðar- eða Seljanesmóri. Móri þessi er svo magnaður að hann hefur meira að segja komið fram á ljósmynd.
Árið 1652 kom upp einkennilegur faraldur sem lagðist á kvenfólk í sveitinni og þá helst þegar það sótti kirkju. Segir sagan að konurnar hafi fallið í yfirlið með hljóðum og froðufalli og stundum varð að bera konurnar út úr kirkjunni vegna hávaða og óhemjuláta. Í framhaldi af þessu voru svo þrír menn brenndir á báli í Kistunni. Í Naustvík heyra menn stundum glamrið frá Flöskudraugnum, en hann ráfar þar um með strigapoka á bakinu fullan af tómum brennivínsflöskum.
Strandamenn hafa stundum sagðir vera íhaldssamir og lítt gefnir fyrir nýjungar. Því hefur einnig verið haldið fram að kaþólskur siður og galdratrú hafi lifað þar góðu lífi, löngu eftir að þvíumlíkt lagðist af í öðrum héruðum landsins.
Fjölmiðlar hafa einnig haft minni áhrif á Ströndum en víða annars staðar vegna slæmra móttökuskilyrða.
Þjóðtrúin er komin frá uppsprettum sem liggja langt aftur í aldri og í tímans rás hefur hún runnið saman við aðrar hugmyndir, líkt og ótal lækir sem renna saman í fljót á leið til sjávar.