Frá Vinum Kópavogs
Gallup á Íslandi gerði könnun meðal Kópavogsbúa dagana 17. desember 2021–26. janúar 2022. Það voru íbúasamtökin „Vinir Kópavogs“ sem létu framkvæma hana og kostuðu að öllu leyti.
Niðurstöðurnar voru sláandi og þvert á það sem bæjarstjórn og bæjarstjóri hafa ítrekað látið í veðri vaka. Þannig lýstu 71,3% Kópavogsbúa sig hlynnta því að fram færi hönnunarsamkeppni vegna skipulags í miðbæ Kópavogs. 23,3% tóku ekki afstöðu og 5,4% bæjarbúa vildu ekki samkeppni, en það var einmitt sú leið sem bæjarstjórn ákvað að fara.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti deiliskipulagið með 6 atkvæðum gegn 5 þann 20. desember 2021. Samkvæmt könnun Gallup eru 5,4% bæjarbúa hlynnt þeirri leið sem bæjarstjórn samþykkti að fara. Hér er um að ræða skipulag á einhverju mikilvægasta og dýrmætasta svæði höfuðborgarsvæðisins.
Ljóst er af könnuninni að Kópavogsbúar vilja sjá aðra valkosti en þá sem Skipulagsstofnun kallar „fordæmalausa þéttingu byggðar á Íslandi“. Kópavogsbúar vilja lifandi og heillandi miðbæ sem gegnir lykilhlutverki í bæjarfélaginu á sviði samgangna, þjónustu, verslunar, atvinnulífs og mannlífs í bænum.
Valdníðsla er orð sem hér á vel við og sem dæmi má nefna að framkvæmdir sem nú á að ráðast í munu óhjákvæmilega hafa í för með sér skerðingu á lögbundnum rétti fatlaðra íbúa í miðbæ Kópavogs til aðgengis að heimilum sínum.
Kópavogsbúar spyrja sig nú: ,,Hvað gengur bæjaryfirvöldum til?“ ,,Hvaða hagsmunir liggja hér að baki?“
Vinir Kópavogs leggja áherslu á að í Kópavogi verði skipulag byggðar unnið í samráði og samtali við bæjarbúa, og að horfið verði frá þeim ljóta vana að hlusta fyrst og fremst á sjónarmið aðila sem hafa (ofsa)gróðasjónarmið í fyrirrúmi. Skipulag á að mynda umgjörð um mannlíf, ekki bara núverandi kynslóða, heldur framtíðarkynslóða Kópavogsbúa.
Vinir Kópavogs eru sannarlega ekki mótfallnir framkvæmdum í miðbæ Kópavogs, það er löngu kominn tími á að hann fái þá reisn sem hann á skilið. Vinir Kópavogs krefjast hins vegar þess að vandað verði til verka við slíkar framkvæmdir.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða í febrúar 2018 að yfirstefna bæjarfélagsins væri: „Hlutverk Kópavogsbæjar er að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu.
Grunnreglur bæjarins eru skýrar og miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Kópavogur leggur áherslu á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi.“
Svo mörg voru þau orð.